1129 - Vandræðagangur

Svei mér þá, það er farið að sneyðast um umræðuefni hjá mér. Svona er að venja sig á að blogga á hverjum degi. En ég er svo þrjóskur (og vitlaus) að ég held áfram við það sem ég hef einu sinni byrjað á. Ef ég skrifa ekki finnst mér ég vera að svíkja þá um sitt fix sem láta það eftir sér (og mér) að líta hingað inn reglulega. 

Í seinni tíð er ég farinn að nota sviga sem nokkurs konar stílbragð. Það er verulegur sparnaður í slíku. Gallinn er að lesendur leggja kannski allt annan skilning í svigaræfilinn en ég. Svo er annað sem ég hef tekið uppá nýverið og það er að setja mynd við bloggið daglega. Kannski er það ekkert góð hugmynd, en það kemur þá bara í ljós.

Auðvitað tekur allt þetta vesen hjá mér svolítinn tíma. Ég les þá bara minna í staðinn. Svo er ég að rembast við að vinna við hliðina á þessu. Eiginlega nenni ég því ekki. Margir stunda það að gera athugasemdir við fréttir. Það hefur aldrei átt við mig þó auðvitað verði fréttir stundum til þess að koma mér á stað við bloggskrif.

Við blogglestur finnst mér best að fara inn á blogg.gáttina og velja svo það sem ég kíki á eftir nöfnum og fyrirsögnum. Líka kíki ég oft á Google-readerinn minn en hann hefur þá náttúru að ég gleymi honum stundum dögum saman og þá verða innleggin svo mörg að ég les þau afar illa. Stórhausana á Moggablogginu kíki ég líka stundum á. Heilmikill tími fer líka hjá mér í að leika í bréfskákagerinu og það geri ég helst þegar mér dettur ekkert í hug til að skrifa og nenni ekki að lesa.

Nú er Alþingi að byrja. Oft fylgist ég með umræðum þar í Sjónvarpinu. Ekki er allt gáfulegt sem þar er sagt. Blaðamenn og fleiri virðast þó leggja það á sig að hlusta á þetta. Ekki bregst að ef eitthvað merkilegt (eða sérstaklega ómerkilegt) er sagt þarna þá kemur það fljótlega í fjölmiðla.

Sko mig. Það er bara orðið myndarlegasta blogg úr þessu þó ég hafi ekki haft neina hugmynd það í byrjun hvern skollann ég ætti að setja á blað.

IMG 3055Ég hef bara alveg misst af þessu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brattur

Það er oftast best að byrja (þó maður hafi tómann hausinn) og svo (a.m.k. hjá mér) kemur bara einhver vitleysa út úr puttunum (sem hamra á lyklaborðið) (svigi lokast)

Brattur, 4.9.2010 kl. 21:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband