1131 - Ljóð eða ekki ljóð

Horfandi á Word-skjalið í tölvunni.

Hvítt blað í ritvél tíðkaðist áður.

Hrikaleg ósköp

að horfa á slíkt

áður en stafirnir

á það koma

og mynda orð.

Blaðið einblínir á móti.

Finnst mér a.m.k.

Þá sultu skáldin

heilu hungri

en ég safna ístru

í stað megurðar

og er sjaldan svangur.

Hvernig skyldi næsta blogg mitt verða?

Gaman að vita það.

Er hægt að kalla þetta ljóð

bara vegna þess hvernig það er sett upp?

Fjöldi ljóðlína er legíó

og punktarnir margir.

Óþarfi að spara blöðin og greinaskilin.

Búinn að finna mynd til að setja aftast.

Er þá ekki allt komið?

Nú, er þetta ekki nógu langt?

Má þetta ekki vera stutt blogg,

eða jafnvel stuttblogg.

Rím og stuðlar eru bara til trafala

og tefja fyrir.

Höfuðstafir eru jafnvel verri.

Nú vendi ég minu kvæði í kross.

Sankti María sé með oss.

Kvæðarugl mér kemur frá.

Kannski er spekin himinhá,

en kannski bara miðlungs.

Hvernig skyldi vera best að byrja

bragarleysu þessa að kyrja?

Rímið kemur mig að kvelja

kannski er ekki um neitt að velja.

En það gerir ekkert til

ég má hafa þetta eins og ég vil.

Eða hérumbil.

Nú er komið nafn á þetta

nefnilega var að detta.

Ljóð mun þetta að lokum verða

ef að þessi andagift

sem í upphafi var fengin

ekki svíkur drenginn.

Og svei. Hún ætlar mig að svíkja.

En ég hef ekki hugsað mér að víkja

af vegi þeim

sem liggur heim

til þeirra forardíkja

sem í ljóðlistinni ríkja.

Með hangandi hendi

einhver mér sendi

Magister Bibendi.

Það ljóta kykvendi

vona ég að lendi

lífsháska í

og líf sitt endi

sem allra fyrst.

Einhverntíma

skal ég glíma

eða líma

gegnum síma.

Nú, eða híma

og ekki tíma

að láta ríma.

Ef úti er kalt

og veður svalt

þá umfram allt

þú drekka skalt

malt.

Nú veit ég ekki meir

hvort þetta er leir

eða gullinn eir

sem aldrei deyr.

Og því er best að hætta.

IMG 2975Þessir voru eitthvað að músísera í Bankastrætinu á menningarnótt. Gott ef ég kannast ekki við svipinn á þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta var flott rapp.  Minnti mig á svipað rapp sem Theodora Thorodsen (Gísla Halldósrssonar) flutti frumsamið, forðum daga. Þetta var í ferð okkar Pálnatókavina til Jómsborgar(Wollin) og flutt á gleðikveldi í Grevsvald ca 1991.
Nú þarftu bara að finna rétta rapptaktinn?

Ólafur Sveinsson 6.9.2010 kl. 23:49

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Verst að ég skuli vera svona laglaus eins og ég er. Hef aldrei hugsað um rapp eða rapptexta á þennan hátt.

Jómsvíkinga saga er merkileg bók. Held að ég hafi einhverntíma heyrt á þetta Pálnatókafélag minnst. Finnst hún (Jómsvíkinga saga) vera eins og Íslendingasaga en kannski er hún meira sagnfræðileg og minnir á Sturlungu þess vegna. Er Pálnatókafélagið starfandi? 

Sæmundur Bjarnason, 7.9.2010 kl. 09:20

3 identicon

Við fundum út að Wollin gæti vart verið Jómsborg. Fundum samt líklegri stað  í ferðinni.  Það var nærri Wolgast(Usedom) ,sunnan við Stralsund. Þar var nægt pláss fyrir 300 langskip og þar að auki er þar "kvennborg", eins og sagt er frá í sögunni.  Þar hafa menn grafið upp spennur og hárkamba.  Ekkert fundist sem karlpeningur notaði daglega.  Pálnatókavinafélagið er ekki starfrækt formlega. Það datt eiginlega uppfyrir vegna mikillar ásóknar. en flesta félaganna hitti ég nú á námskeiðum Magnúrsar Jónssonar, hjá Endurmenntun HÍ. Fyrir áramót verður Njála tekin fyrir.

Ólafur Sveinsson 7.9.2010 kl. 16:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband