Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

769- Lesið í gamlar vísur

Ein er sú vísa sem kemur mér oftar í hug en flestar aðrar. Hana kunna eflaust flestir en hún er svona:

Þar sem enginn þekkir mann,
þar er gott að vera.
Því að allan andskotann
er þar hægt að gera.

Útfrá þessari vísu má eflaust álykta allan fjandann. Mér dettur samt alltaf í hug að sá sem hana gerði hljóti að vera úr fámenni miklu. Því meira fjölmenni sem maður er í því færri hljóta að þekkja mann. Sá sem slíkt lofsyngur hlýtur að vera vanur fámenni.

Annars er merkilegt að hugsa um þessa vísu. Hún er ágætlega gerð en boðskapurinn heldur klénn. Hún sýnir líka að þann sem hana gerði langar til að gera eitthvað stórkostlegt. Vill þó helst ekki vera þekktur fyrir það. Með öðrum orðum vill hann líklega gera eitthvað óleyfilegt. Jafnvel saknæmt eða dónalegt. Hvað skyldi öðrum detta í hug þegar þeir muna eftir þessari vísu?

Þessi vísa hefur þá náttúru að hún lærist auðveldlega þó hún sé ekki endurtekin. Það þykir mér alltaf vera aðalsmerki góðra vísna.

Sævör grét áðan því úlpan var ónýt.

Þetta er ekki upphaf að vísu heldur klausa sem gott var að kunna í eina tíð þegar stafatöflur riðu húsum. Í henni er allir séríslenskir stafir eða svo var mér sagt.

Margir hafa hátt varðandi Borgarahreyfinguna um þessar mundir. Ýmist til stuðnings Þráni Bertelssyni eða þá að hávaðinn beinist gegn honum. Mér finnst að þeim sem ekki kusu Borgarahreyfinguna í síðustu kosningum komi þetta lítið við.

Það er rifist í öllum flokkum og flokkar hafa beinlínis liðið undir lok vegna rifrildis. Ekki óska ég Borgarahreyfingunni slíks. Frekar vil ég treysta þingmönnum hennar til að finna sómasamlega lausn á þessu deilumáli sem nú er að flækjast fyrir þeim.


768- Gamlar afbakanir

Eldgamalt ýsubein
hrökk onaf sveskjustein
langt út á sjó.

Sungum við krakkarnir stundum og þóttumst voða fyndin.

Reyndar er oft bráðfyndið að snúa út úr einhverju sem allir þekkja.

Hvað er svo glatt
sem góðtemplarafundur?
Er gleðin skín á hverri mellubrá.

Stundum sungum við eitthvað þessu líkt. Eða:

Einn var á mér í allan vetur
og annar þegar hann gat.
Sá þriðji kom og bætti um betur
og gerði það meðan hann sat.

Páll Hreinsson er formaður einhverrar nefndar sem er víst að athuga bankahrunið. Nú hefur hann séð ástæðu til að spá illa fyrir Íslendingum eins og fleiri. Ég tek ekkert meira mark á honum en Láru á Selfossi. Trúlegast þykir mér að ummæli hans séu eitthvað úr lagi færð. Mér fannst hann ekki eiga við að einhver ný sannindi væru á leiðinni heldur að þegar öllu væri saman þjappað væru tíðindin ansi slæm.

Kannski á hann við að fleiri lánabækur séu skemmtilegar aflestrar en lánabók Kaupþings. Mér finnst raunar einkennilegt að ekki sé minnst á lánabækur annarra banka. Gæti trúað að sumar þeirra væru skrautlegar. Svo getur hæglega myndast samspil á milli þeirra sem ástæða væri til að rýna í.

Mig minnir að nefndin sem Páll stýrir sé nefndin sem Geir Haarde vildi alltaf bíða eftir að lyki störfum. Hann gat helst ekki farið á klósettið nema með samþykki nefndarinnar.


767- Um bloggið mitt og fleira

Kannski er dálítill handleggur að lesa allt sem ég blogga. Reyni samt eins og ég get að blogga fremur stutt. Mér er bara oft svo mikið niðri fyrir að ég ræð ekkert við mig. Sjálfur er ég ekki rétti maðurinn til að dæma um hvort bloggin mín eru yfirleitt of löng eða of stutt og ég veit lítið hvað öðrum finnst. Á annað hundrað manns - og snöggtum fleiri stundum - virðast lesa eða skoða bloggið mitt daglega ef marka má aðsóknartölur Moggabloggsins. 

„Í sjónvarpsfréttum á RUV var sagt að kynbótaknapar hafi staðið sig vel á heimsmeistaramóti íslenska hestsins."

„Ha? Kynbótaknapar? Hvað er það?"

„Veit ekki. Skil þetta ekki frekar en þú."

„Kannski stunda þeir kynbætur í hjáverkum."

„Kynbætur á hverjum? Sjálfum sér eða hvað?"

Skelfing eru menn fljótir að afskrifa Borgarahreyfinguna. Á bloggurum er að heyra að allir séu á móti henni. Sjálfur kaus ég lista hreyfingarinnar í síðustu kosningum og er ekki tilbúinn að gefa þingmennina alla upp á bátinn. Þau hafa samt hagað sér dálítið eins og þau áttu einmitt ekki að gera. Fyrir mér er Valgeir Skagfjörð öflugastur varaþingmanna.

DoctorE lætur ljós sitt skína í athugasemdakerfi mínu og er það í góðu lagi. Núna síðast linkaði hann í blogg-grein um Ísland og jarðskjálftaspádómana sem hér hafa verið til umræðu. Tónninn í greininni er fjandsamlegur Íslendingum og er lítið við því að segja. Sumt í greininni er satt og rétt en annað langt frá réttu lagi. Kannski er sú mynd sem þar er dregin upp af Íslendingum rétt frá sjónarmiði DoctorE en hún er það alls ekki frá mínu sjónarmiði. Nenni samt ekki að eltast við tiltekin atriði í greininni.


766- Siðferði á bloggi og dálítið um Icesave

Nú virðist endanlega komið í ljós að þeir Moggabloggsmenn ætla ekki að opna aftur á DoctorE. Mér finnst það skaði því margt af því sem Doctorinn safnaði saman víðs vegar að var fengur í að skoða. Hans eigin skrif höfðuðu ekki alltaf til mín þó oft væri hann beinskeyttur mjög og kæmist vel að orði. Líklega er tilgangslaust að skrifa meira um þetta mál að sinni. Það er samt ekki gleymt þó stjórnendur bloggsins vonist eflaust til þess. 

Salvör Gissurardóttur skrifaði einu sinni mikið um siðferði bloggsins og ég sakna þess hve lítið hún skrifar á Moggabloggið nú orðið. Fyrir löngu sagði hún að vissulega skipti miklu máli hver ætti það svæði sem bloggað væri á. Það kæmi ef til vill seinna í ljós.

Mér finnst Moggabloggið að mörgu leyti hafa opinberað sinn innri mann með lokuninni á DoctorE. Samt er ennþá margt gott um það að segja. Þjónustan þar er afbragðs góð. Þeir fylgjast nokkuð vel með nýjungum þó ég notfæri mér fáar þeirra og leyfa hverjum sem er að blogga. Gefa þannig mörgum tækifæri til að hella úr skálum öfga sinna. Það allra besta er samt að með skrifum þar er auðvelt að ná til nokkuð margra.

Að stjórnendur Moggabloggsins skuli vilja hafa stjórn á því hvað og hvernig er skrifað þar er ekkert skrýtið. Allir mundu vilja það. Þeir vilja að sjálfsögðu að sem minnst fari fyrir ritstjórn þeirra en ég vil halda áfram að fjalla um hana.

Allir þeir sem um sárt eiga að binda vegna ofstjórnar þeirra Moggabloggsmanna mega láta af sér vita í kommentakerfinu mínu. Það er opið öllum en verður það kannski ekki lengi. Ef mikið verður kvartað undan ritstjórninni á ég fastlega von á að farið verði fram á það við mig að ég loki á ákveðna einstaklinga og jafnvel að blogginu mínu verði lokað.

Eftir langar og ítarlegar rökræður við sjálfan mig hef ég komist að raun um að ég er á móti því að samþykkja Icesave samninginn eins og hann er. Eða réttara sagt eins og okkur er sagt að hann sé.

Fréttaflutningur af þessum stóra samningi hefur verið í miklu skötulíki frá byrjun. Þó hefur verið ljóst frá upphafi kreppunnar fyrir meira en níu mánuðum hvernig málið er í aðalatriðum vaxið. Reynt hefur verið að leyna sem mestu í sambandi við allt sem snertir þetta stórmál. Það er óþolandi. Ég vil vita nákvæmlega hver skuldin er og um hvað er samið. Einnig hvernig mál hafa þróast og hver áhrif neyðarlaganna eru á samninginn og hver áhrif hans eru á ESB umsóknina.

Fjárlaganefnd Alþingis er búin að hafa þetta mál til meðferðar alllengi og ekki er útilokað að umfjöllun hennar skýri eitthvað. Það er bara alltof seint. Almenningur hefði átt að fá að vita miklu meira um þetta mál og fyrir löngu síðan.

Stjórnvöldum er mátulegt að þetta verði kolfellt. Þó er sú ríkisstjórn sem nú situr skárri en fyrirrennarar hennar og næstum örugglega betri en þeir möguleikar sem bjóðast kynnu ef hún hrökklast frá.

Sennilega binda flestir vonir við að Alþingi vísi þessu máli frá eða gera á því svo gagngerar breytingar að það ónýtist. Hvað þá tekur við er ómögulegt að vita og ekki æskilegt.

Og fáeinar myndir í lokin.

IMG 3818Golf.

IMG 3820Blóm.

IMG 3821Í sumarfríi.

IMG 3825Allt er vænt sem vel er grænt.


765- Kommúnistinn og auðvaldsbullan

Kommúnistinn: „Ég var að enda við að yrkja vísu."

Auðvaldsbullan: „Lát heyra."

Kommúnistinn: „Bankaleyndin birtist oss,
                          sem banka eigi að verja.
                          Ættartengslin öll í kross
                          auðmenn burtu sverja."

Auðvaldsbullan: „Uss, þetta er nú meira bullið."

Kommúnistinn: „Það getur vel verið. Þú getur samt ekki neitað því að ættartengslin skipta máli."

Auðvaldsbullan: „Undantekningarnar eru miklu fleiri en svokallaðar sannanir og þessvegna er þetta tóm vitleysa."

Kommúnistinn: „En það er nauðsynlegt að vera af réttri ætt, kunna dálítið á excel, hafa viðskiptafræðipróf, sem kannski náðist með skít og skömm, til þess að komast auðveldlega í jakkalakkakórinn."

Auðvaldsbullan: „Segir hver?"

Kommúnistinn: „Segi ég."

Auðvaldsbullan: „Huh."

Kommúnistinn: „Þú getur ekki neitað því að það var einkaframtakið og einkavinavæðingin sem setti Ísland á hausinn."

Auðvaldsbullan: „Já, og hvar voru kratarnir í Samfylkingunni á meðan?"

Kommúnistinn: „Sumir þeirra voru í óða önn að hjálpa íhaldinu í einkavinavæðingunni. Það er alveg rétt. En ekki allir. Sósíalisminn er mun heilbrigðari en einkaframtakið, það sjá allir."

Auðvaldsbullan: „Já, það kom vel fram í Sovétríkjunum sálugu. Sér er nú hvert heilbrigðið."

Kommúnistinn: „Sósíalisminn var vitlaust framkvæmdur þar. Nauðsynlegt er að nýta sér kosti markaðarins eins og t.d. Svíar hafa gert. Auðvaldsríkin eru líka að komast á þá skoðun að margt úr Sósíalismanum sé gott og sjálfsagt. Eins og til dæmis ókeypis læknishjálp og ókeypis menntun."

Auðvaldsbullan: „Það var ekkert eðlileg markaðshyggja sem var rekin hér. Íslendingar fóru á hausinn vegna þess að þeir eru svo vitlausir."

Kommúnistinn: „Já, stjórnmálamennirnir voru ósköp vitlausir. Eða minnsta kosti ekki góðir stjórnmálamenn, því þeir slepptu markaðsskrímslinu lausu."

Auðvaldsbullan: „Það var ekki hinn frjálsi markaður og einkavæðingin sem setti Ísland á hausinn."

Kommúnistinn: „Heldur hvað?"

Auðvaldsbullan: „Heldur græðgin og sérgæskan."

Kommúnistinn: „Hjá almenningi?"

Auðvaldsbullan: „Hjá öllum. Útrásarvíkingunum ekki síður en öðrum."

Kommúnistinn: „Almenningur var semsagt jafnsekur. Af því hann trúði jakkalakkaliðinu, eða hvað?"

Auðvaldsbullan: „Af því að hann eyddi langt um efni fram og tók þátt í vitleysunni."

Kommúnistinn: „Skipulagið og stjórnin á öllu saman skipti semsagt engu máli?"

Auðvaldsbullan: „Heimskreppan kemur jafnt niður á öllum. Skipulagið ræður engum úrslitum þar."

Kommúnistinn: „En aðrar þjóðir fóru ekki á hausinn. Enda var að minnsta kosti aðallinn hjá auðvaldsþjóðunum búinn að stunda viðskipti lengi og kunni að vara sig en Íslendingsbjálfarnir ekki."

Auðvaldsbullan: „Það er ekki einkavæðingin sem úrslitum ræður. Tök þau sem útrásarvíkingarnir náðu á fjölmiðlum skiptu sköpum."

Kommúnistinn: „Voru tök þeirra á fjölmiðlum eitthvað meiri en á öðrum sviðum. Voru ekki stjórnmálamennirnir búnir að afhenda þeim öll völd?"

Auðvaldsbullan: „Nei, þeir hrifsuðu þau til sín."

Kommúnistinn: „Af því að þeir fengu tækifæri til þess. Skipulagið var þannig að þeim veittist það auðvelt."

Auðvaldsbullan: „Enn viltu kenna frjálsum markaði og einkavæðingunni um hvernig fór."

Kommúnistinn: „Auðvitað. Allir sjá að samvinnan og sósíalisminn eru miklu betri en óheftur markaðsbúskapur og einkavinavæðing. Þetta snýst allt um völdin í þjóðfélaginu. Markaðsmennirnir hafa nógu lengi nauðgað lýðræðinu og nú er kominn tími til að almenningur taki völdin."

Auðvaldsbullan: „Já, og geri blóðuga byltingu?"

Kommúnistinn: „Bylting er réttlætanleg ef mikill meirihluti fólks styður hana."

Auðvaldsbullan: „Og hvernig á að ganga úr skugga um það?"

Kommúnistinn: „Með kosningum."

Auðvaldsbullan: „Þær hafa verið haldnar hér og leitt í ljós að byltingarsinnar eru í miklum minnihluta."

Kommúnistinn: „Það er ekkert að marka það. Atkvæði eru keypt í stórum stíl. Gott ef ekki er um stórfellt svindl að ræða líka."

Auðvaldsbullan: „Tóm vitleysa. Svindl þekkist ekki hérna. Markaðsmenn sem þú kallar svo hafa bara haft meiri og betri áhrif  á sálir mannanna. Þetta snýst allt um sálirnar eins og menn hafa gert sér grein fyrir lengi."

Kommúnistinn: „Gallinn fyrir ykkur auðvaldssinna er bara sá að því upplýstari sem almenningur er því sósíalískari verður hann. Ykkur gekk ágætlega að hafa áhrif á sálir mannanna á hinum myrku miðöldum en síðan hefur íhaldsseminni hrakað."

Auðvaldsbullan: „Já, þú getur reynt að telja sjálfum þér trú um að þú sért fulltrúi nýja tímans. Sannleikurinn er þó sá að alltaf berjast vinstri menn gegn öllum framförum."

Kommúnistinn: „Þið hægri menn teljið allt vera framfarir sem styrkir auðvaldið og stórfyrirtækin í heiminum. Allt annað er barátta við vindmyllur."

Auðvaldsbullan: „Það er enginn efi að skipulagið hér á Vesturlöndum hefur skapað þær vísindalegu framfarir sem orðið hafa. Stórfyrirtækin má hafa áhrif á og beygja undir þjóðarvilja."

Kommúnistinn: „Alþjóðlegu stórfyrirtækin eru ekki háð neinum þjóðarvilja. Þau hugsa bara um eigin hag. Almenningur má lepja dauðann úr skel ef hann framleiðir nóg."

Auðvaldsbullan: „Framfarir og aukinn hagvöxtur eru nauðsyn ef sjá á almenningi fyrir sæmilegum lífskjörum."

Kommúnistinn: „Náttúran er á sífelldu undanhaldi fyrir hinum stórfelldu framförum sem einkum felast í því að ofnýta gjafir hennar."

Auðvaldsbullan: „Til að berjast gegn framförum vilja vinstri menn alltaf eigna sér náttúruna. Vel er hægt að tryggja sæmilega sátt milli þeirra andstæðu póla sem óheft framleiðsla og öfganáttúrvernd standa fyrir."

Kommúnistinn: „Við verðum að hugsa um þær kynslóðir sem eiga eftir að byggja þennan heim. Megum ekki bara hugsa um sjálf okkur. Náttúran á að njóta vafans."

Auðvaldsbullan: „Ef ekki verða framfarir þá er bara um afturför að ræða. Hvað sagði ekki þjóðskáldið: Annað hvort miðar mönnum aftur á bak, ellegar nokkuð á leið."

Kommúnistinn: „Auðvaldsskipulagið tryggir ekki það jafnvægi sem þarf að vera á milli náttúruverndar og framleiðslu. Sósíalisminn gerir það miklu betur vegna þess að hagsmunir heildarinnar eru þar hafðir að leiðarljósi."

Auðvaldsbullan: „Kommúnisminn drepur framtak fólks og dregur úr því allan þrótt.

Smáþögn.

Auðvaldsbullan: „Annars má ég ekki vera að þessu lengur, því það er verið að sækja mig. Við þurfum að hittast aftur og tala betur saman."

Kommúnistinn: „Jæja, bless þá."

Kommúnistinn : (tuldrar við sjálfan sig) „Gat nú verið. Sóttur á stóru jeppaskrímsli."


764- Nafnið mitt og ýmislegt fleira

Sjö eru dyr á einu húsi.
Sjö eru konur eins manns.

Svo segir í gamanbrag sem eitt sinn var kveðinn í Hveragerði. Kannski hefur séra Helgi Sveinsson gert þann brag en það er þó ekki víst. Dyrnar sjö voru á læknishúsinu ofan við Gossabrekku og konurnar sjö voru konur þær sem Kristmann Guðmundsson hafði verið giftur þegar hér var komið sögu. Kristmann bjó um þessar mundir í Hveragerði og var giftur Svövu og hafði verið nokkuð lengi. Skildi seinna við hana og giftist Steinunni Briem píanóleikara.

Ekki var ætlun mín að tala um Kristmann Guðmundsson rithöfund þó nóg væri hægt um hann að segja. Þess vegna minntist ég á dyrnar og konurnar sjö að rétt fyrir neðan læknishúsið stóð bærinn Brekka. Þar bjó Sæmundur Guðmundsson sem venjulega var kallaður Sæmi í Brekku en stelpurnar í Kaupfélaginu kölluðu stundum Sæma fimmaur. Það var vegna þess að einhvern tíma taldi hann stelpurnar þar hafa snuðað Helgu Dís dóttur sína um fimm aura þegar hún var send út í Kaupfélag til innkaupa og gerði sér ferð út í Kaupfélag til að skammast yfir því.

Af skiljanlegum ástæðum eru mér nafnar mínir minnisstæðari en aðrir þó fáum þeirra hafi ég kynnst á lífsleiðinni. Einu sinni var ég á labbi vestur í þorpi. Þá heyrði ég allt í einu kallað höstuglega mjög: „Komdu strax hingað, Sæmi." Mér brá náttúrulega heiftarlega en áttaði mig þó á því nógu snemma að ekki var verið að tala við mig. Þarna mun hafa verið kallað til Sæmundar Pálssonar sem ég kynntist svo seinna meir að Stöð 2.

Sæma Rokk kannaðist ég að sjálfsögðu við þó ég þekkti hann ekki persónulega og Sæmund Sigmundsson rútubílstóra í Borgarnesi þekkti ég. Þá eru upptaldir þeir nafnar mínir sem ég hef komist í einhver kynni við að frátöldum sögulegum persónum eins og Sæmundi fróða. Svona er nú nafnið mitt sjaldgæft og hef ég alla tíð verið feginn því. Aðrir hafa eflaust aðra sögu að segja.

Eins og sjá má á kommenti við síðustu færslu mína hefur DoctorE skrifað Árna Matthíassyni og beðið hann að opna bloggið sitt aftur. Biðst einnig afsökunar og lofar bót og betrun. Mér er hulin ráðgáta hvers þeir Moggabloggsmenn geta krafist frekar af honum en það hlýtur að koma í ljós ef bloggið verður ekki opnað.

Og að lokum fáeinar myndir.

IMG 3785Blóm.

IMG 3786Hrútaber og bláber.

IMG 3794Hrútaber á lyngi.

IMG 3809Grjót.


763- Icesave vs. málfrelsi

Gaman að fá svona mörg komment eins og ég hef fengið að undanförnu.  Sum eru minnisstæðari en önnur. Einum man ég eftir sem rökstuddi það í löngu máli að við ættum ekki að vera að tala um lítilvæg mál meðan örlagaþrungin og alvarleg mál eins og Icesave væru til umfjöllunar hjá öðrum bloggurum. 

Útilokun DoctorE frá Moggablogginu er ekki lítilvægt mál. Kannski er Icesave-málið samt merkilegra a.m.k. núna. Lítið væri samt varið í að allir bloggarar skrifuðu um það sama. Sumir eru miklu betur að sér um Icesave en ég.

Nú ætti brahim að verða kátur. Er ég ekki einn ganginn enn farinn að skrifa um DoctorE? Líklega í átjánda sinn. Málfrelsi er orðin alger þráhyggja hjá mér. Er líka talsvert uppsigað við miðla (jafnvel fjölmiðla) en það er önnur saga.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja bendir á að ekki væri síður ástæða til að banna hellirinn.blog.is en DoctorE. Sammála Tinna, en þetta er bara hinn endinn á stjórnmálarófunni og Moggabloggið tekur ekki hart á slíku.

Annars var það ekki ætlun mín að tala um flokkspólitík. Það hef ég gert áður og reglulegir lesendur mínir hafa ekki áhuga á því.

Kristinn Theódórsson skrifar ágæta blogg-grein um DoctorE. Ætla ekki að endurtaka það sem hann segir en bendi bara áhugsömum á að lesa greinina hans. Svanur Gísli Þorkelsson, sem ég met mikils sem bloggara, kommentar svo á þá grein og ekki má missa af því heldur.

Skondið að sjá svo í nýrri færslu hjá Kristni vísað í komment við grein mína þar sem talað er um „trúlausa trendið" eða eitthvað þess háttar.

Bið forláts á því hvað síðasta færsla var óralöng. Hún var samt nokkuð fljótlesin. Núna verður þetta styttra.

Páll Magnússon hefði átt að hunsa bann það sem Rúnar sýslumaður setti á fréttaflutning RUV. Allir vita að bannið verður dæmt ólöglegt og þessvegna er þetta augljós skrípaleikur.


762- Moggabloggarar ræða málin

Heyrði um daginn samtal tveggja Moggabloggara. Annar var greinilega nýgræðingur í faginu en hinn talsvert sjóaður.

Nýgræðingur: „Nú er ég byrjaður að blogga á Moggablogginu."

Sá sjóaði: „Gott hjá þér. Hvað ertu búinn að blogga oft?"

Nýgræðingur: „Þrisvar."

Sá sjóaði: „Já, þetta kemur allt. Svolítið erfitt til að byrja með."

Nýgræðingur: „Já, og ég er strax búinn að fá komment."

Sá sjóaði: „Gott hjá þér. Hvað stóð í kommentinu?"

Nýgræðingur: „Að ég væri fáviti."

Sá sjóaði: „Ha, hvað segirðu?"

Nýgræðingur: „Er ég það nokkuð?"

Sá sjóaði: „Auðvitað ekki. Var það einhver sem þú þekkir sem kommentaði?"

Nýgræðingur: „Já.

Sá sjóaði: „Nú, hver var það?"

Nýgræðingur: „Konan mín."

Sá sjóaði: „Hmm. Einmitt það. Þessi var nokkuð góður."

Smáþögn.

Nýgræðingur: „Mér finnst bara nokkuð gaman að þessu. Viltu ekkert vita um hvað ég bloggaði?"

Sá sjóaði: „Jú, auðvitað. Hvað skrifaðirðu um?"

Nýgræðingur: „Icesave, ESB og þessháttar."

Sá sjóaði: „Já, það hafa nú fleiri gert. Hefurðu nokkuð litið á teljarann sem sýnir hvað margir hafa komið inná bloggið þitt?"

Nýgræðingur: „Já."

Sá sjóaði: „Og."

Nýgræðingur: „Ja, ekkert svosem. Bara tveir."

Sá sjóaði: „Þetta kemur. Ertu búinn að segja fleirum frá þessu en mér?"

Nýgræðingur: „Nei, ekki ennþá."

Sá sjóaði: „Það geta engir komið að lesa bloggið þitt nema vita af því."

Nýgræðingur: „Ég skil."

Sá sjóaði: „Þegar ég var að byrja þá komu nú ekki margir fyrst. En þetta smákom. Bara um að gera að vera iðinn við kolann."

Nýgræðingur: „Ha?"

Sá sjóaði: „Já um að gera að halda áfram að skrifa þó fáir komi. Svo geturðu líka prófað að skrá þig á Blogg-gáttina og segja öllum sem þú þekkir frá þessu. Og svo auðvitað að skrifa skemmtilega og hafa fyrirsagnirnar krassandi."

Nýgræðingur: Já, ég skil.

Sá sjóaði: „Það er oft gaman að þessu. En maður verður að passa að lifa sig ekki of mikið inn í þetta. Það er gríðarlega merkilegt að fá fyrstu kommentin. Þér hefur náttúrulega ekkert brugðið þó konan þín hafi kallað þig fávita."

Nýgræðingur: „Nei, hún gerir það oft. Fyrst hélt ég samt að þetta væri einhver annar, brá mikið og fannst þetta illa gert."

Sá sjóaði: „Ég skal trúa því. En svo hefurðu séð að þetta hlaut að vera hún."

Nýgræðingur: „Já, hún viðurkenndi það strax."

Sá sjóaði: „En það er nú ekkert grín að vera kallaður fífl og fáviti af einhverjum sem maður þekkir ekki neitt."

Nýgræðingur: „Hefur þú lent í því?"

Sá sjóaði: „Já, oftar en einu sinni."

Nýgræðingur: „Vá, og varstu þá að skrifa einhverja steypu?"

Sá sjóaði: „Nei, alls ekki."

Nýgræðingur: „Nú."

Sá sjóaði: „Þeim sem kommentaði fannst það kannski. Ekki mér."

Nýgræðingur: „ Er ekki rosalegt að fá svona komment?"

Sá sjóaði: „Það venst."

Nýgræðingur: „Já og svo eru það svo margir sem lesa bloggið þitt og margir sem kommenta."

Sá sjóaði: „Ég læt það nú vera."

Nýgræðingur: „Mér finnst það samt. Vildi að svona margir læsu mitt blogg. Ég les þitt alltaf. Ætlar þú að lesa mitt?"

Sá Sjóaði: „Kannski. Ef ég man. Undir hvaða nafni bloggarðu annars?

Nýgræðingur: „Mínu eigin bara."

Sá sjóaði: „Fullu nafni?"

Nýgræðingur: „Já, já."

Sá sjóaði: „Einmitt það, já. Reyni að muna eftir því næst þegar ég fer á bloggið. Þú gætir líka prófað að biðja mig að gerast bloggvinur þinn. Þá mundi ég örugglega muna eftir þér."

Nýgræðingur: „Já, það ætla ég að gera."

Sá sjóaði: „Já, drífðu bara í því."

Nýgræðingur: „Mér finnst dálítið erfitt að láta sér detta eitthvað í hug til að skrifa um."

Sá sjóaði: „Þetta venst. Stundum finns manni allt svo ómerkilegt að það sé ekki hægt að skrifa um neitt. Svo dettur manni bara eitthvað í hug til að skrifa um og lætur það flakka. Um að gera að blogga bara á hverjum degi ef maður mögulega getur. Þá koma lesendurnir."

Nýgræðingur: „Já, ég ætla að reyna það."

Sá sjóaði: „Svo er um að gera að svara öllum kommentum og blogga ekki mikið í einu."

Nýgræðingur: „Einmitt."

Sá sjóaði: „Vanda sig líka við skrifin. Það er lítill vandi að setja saman einhverjar bölbænir og fúkyrði."

Nýgræðingur: „Já, já."

Sá sjóaði: „Já, mér líst vel á að þú sért byrjaður að blogga eins og aðrir."

Nýgræðingur: „Já."

Sá sjóaði: „Ofreyndu þig bara ekki á þessu. Eitt er skrítið. Því meira sem maður bloggar þeim mun meira á maður óbloggað."

Nýgræðingur: „Hvað meinarðu?"

Sá sjóaði: „Bara að þó þér finnist þú hafa skrifað næstum allt sem þú veist. Þá er alltaf hellingur eftir að skrifa um."

Nýgræðingur: „Já, einmitt."

Sá sjóaði: „Og því meira sem þú skrifar um eitthvað því meira er eftir að skrifa um það.

Nýgræðingur: „Ha?"

Sá sjóaði: „Já, ég meina að þó þér finnist þú vera alveg þurrausinn þá er nóg eftir til að skrifa um."

Nýgræðingur: „Já, svoleiðis."

Sá sjóaði: „Jæja, nú er ég farinn að verða einum of heimspekilegur. Best að hætta þessu kjaftæði."

Nýgræðingur: „Já, það er nú gaman að.....

Sá sjóaði: „Ókey. Má ekki vera að þessu lengur. Sjáumst seinna.

 

Og nokkrar myndir í lokin.

IMG 3761Hvítkál? - Hvítt grænkál?

IMG 3763Rautt hvítkál? - Hvítkál?

IMG 3772Rautt eitthvað. - Nei, nú er ég orðinn alveg ruglaður.

IMG 3778Hvað er þetta þá?

 

761 - Enn um DoctorE

Það má kalla það málefnafátækt hjá mér að blogga nú enn einu sinni um DoctorE sem ekki fær lengur að blogga á Moggablogginu. Mér bara blöskrar ritskoðunin, einsýnin og skinhelgin og fæ ekki orða bundist. Árni Matthíasson og félagar eru búnir að fá mörg tækifæri til að komast út úr þessu máli með sæmilegum sóma. Það geta þeir ekki lengur. 

"Reynsla mín af Árna er sú að hann á ekki til bakkgír, gefur sig ekki og skiptir ekki um þá skoðun sem hann bítur í sig. Geri hann það núna væri það bara til að láta mig hafa rangt fyrir mér í þessu efni."

Þetta segir Haukur Nikulásson í kommenti á mínu bloggi um þessi mál. Þetta óttast ég að sé satt og rétt. Sem betur fer er Árni samt ekki æðsti maðurinn á Mogganum. Þar er ritstjóri sem Ólafur Stephensen heitir. Hann gæti skipað Árna að haga sér eins og maður og opna bloggið aftur hjá DoctorE. Kannski finnst honum samt betra að sitja undir því að vera sagður andsnúinn málfrelsi en að Morgunblaðið éti ofan í sig áður sögð orð.

Þetta mál hefur ekkert með Guðsótta og góða siði að gera. Við vitum öll að Doksi er andsnúinn hverskonar trú og hjátrú og oft afar orðljótur. Hingað til hefur hann samt komist upp með það og ekki verið fólki til ama þó vissulega séu þeir til sem andsnúnir eru honum. Stjórnendur Moggabloggsins hafa líka látið hann að mestu í friði.

Það sem Árni og Co. hafa einkum hengt hatt sinn á í því máli sem orsakaði lokun á nefndu bloggi eru tvö atriði. Hið fyrra er að Doctorinn hafi farið óviðurkvæmilegum orðum um „konu úti í bæ". Hún hafði spáð miklum jarðskjálfta sem auðvitað kom ekki fram og hrætt með því einhverja. Í viðtölum í dagblöðum og öðrum ritum hafði konan spáð þessum náttúrhamförum og var því engin „kona úti í bæ" eins og Árni Matt vill vera láta.

Hitt atriðið er að Doctorinn hafi ekki ansað bréfi sem þeir Moggabloggsmenn sendu honum. Þetta bréf segist DoctorE aldrei hafa fengið. Gegn neitun hans er fullyrðing Árna um þetta ómerk með öllu.

Lára Ólafsdóttir er ekki af baki dottin. Fjölmiðlarnir styrkja hana líka eftir mætti. Loksins kom smá-jarðskjálfti og blöðin voru fljót að þefa uppi hneykslismöguleika. „Já, þið trúðuð mér ekki, en nú er þetta komið fram og svo fáið þið eldgos eða eitthvað enn verra í hausinn á ykkur, helvítin ykkar" segir hún efnislega í viðtölum.

Þrátt fyrir allt sem á hefur gegnið er ég viss um að Árni og DoctorE geta fundið lausn á þessu máli ef þeir ræða saman.

 

760- DoctorE á leið í heimsfréttirnar

Já, það segir hann sjálfur. Það er naumast að það er upp á honum typpið núna. Sjálfsagt á að tala illa um Árna Matt og fleiri.

Get ekki hætt að hugsa um DoctorE og útilokun hans af Moggablogginu. Í framhaldi af öllu því sem sagt hefur verið um það mál legg ég eftirfarandi til:

DoctorE biður Láru spámiðil í Hveragerði afsökunar á því að hafa kallað hana geðsjúkan glæpamann og fjarlægir jafnvel færsluna um hana ef ÁM vill það endilega.

Allir láta eins og ekkert hafi skeð og DoctorE fær að halda áfram á spúa speki sinni yfir þá sem á hann vilja hlusta.

Allir aðrir (þar á meðal ég) reyna að gleyma því sem þeir hafa sagt um þetta mál. Moggabloggið er aðal. Önnur blogg eru lakari. Þannig hefur það verið og þannig mun það halda áfram að vera.

Sjálfur mun ég halda áfram að blogga og taka því með jafnaðargeði þó kommentum fjölgi úr hófi. Annars er gaman að fylgjast með mönnum rífast á sínu eigin bloggi. Jafnast fátt á við það. Langir svarhalar eru bráðskemmtilegir.

Búið er að drepa venjulegar bréfaskriftir. Það var tölvupósturinn sem gerði það og nú er hann sjálfur að dauða kominn. Kannski er fésbókin að drepa hann. Held samt að hann hafi verið hætt kominn vegna spammsins. Bloggið blívur samt ennþá. Bloggveitur eins og Moggabloggið reyna þó að ganga frá öllum sem andmæla þeim eða hafa aðrar skoðanir en þær viðurkenndu.

Sjálfur hef ég fá venjuleg bréf skrifað síðan dóttir mín var skiptinemi í Wyoming í Bandaríkjunum laust eftir 1990. Þá skrifaði ég henni veglegt sendibréf í hverri viku. Þeim mun fleiri blogg hef égskrifað undanfarin ár en engin fésbókarinnlegg. Fésbókin held ég að komi ekki til með að útrýma blogginu. Það getur samt orðið einhvern tíma. Og twitterinn svo fésbókinni kannski? Hvar endar þetta?

Bráðsniðugt er að kalla facebook andritið. Heyrði það nafn fyrst í dag (í gær). Sýnist samt að „fésbók" ætli að verða ofan á. Enginn vafi er á að orðið „blogg" er búið að öðlast þegnrétt í íslensku máli. E-meilið ekki. Tölvupóstur er sennilega algengast að nota um það fyrirbrigði. Áhugavert er að sjá hvernig nýjungar öðlast íslensk nöfn. Einu sinni var oft talað um þrýstiloftsflugvélar og helikoptera. Nú væri sá álitinn með réttu skrítinn sem ekki vildi nota orðin þota og þyrla.

 

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband