Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

779 - Hólmfastur Guðmundsson

Sagan mætir okkur við hvert fótmál. Í framhaldi af fréttum um sölu heitavatnsréttinda á Reykjanesi varð mér hugsað til mun eldra máls. 

Skammt frá Vogum á Vatnsleysuströnd átti eitt sinn heima Hólmfastur Guðmundsson. Árið 1699 seldi hann í Keflavík þrettán fiska sem kaupmaðurinn í Hafnarfirði hafði ekki viljað kaupa. Þetta komst upp og var Hólmfastur dæmdur í sekt. Sektina gat hann ekki greitt því hann átti ekki neitt nema eitt ónýtt bátsskrifli og var hann því hýddur (16 vandarhögg) í votta viðurvist. Með því að selja ekki þeim kaupmanni, sem einokunarlögin mæltu fyrir að hann skyldi selja afurðir sínar, braut Hólmfastur lög og var refsað fyrir það. Lög og reglur hafa oft ekkert með réttlæti að gera.

Miklu seinna voru þeir Duusfeðgar kaupmennn í Keflavík og sveið mörgum ríkidæmi þeirra. Eyjólfur í Króki orti:

Að vera ríkur eins og Duus
óskar sér margur snauður,
eiga fögur og háreist hús,
hvar í býr sæld og auður.
Eitt er meinið, sem allir sjá,
ómögulegt að komast hjá;
loksins að liggja dauður.

Bloggheimurinn er skrýtin skepna og margir óttast hann. Sjálfur er ég nýfarinn að skilja hann almennilega. Á vissan hátt er ég kominn í sálufélag bloggara. Sumt af því sem menn láta þar frá sér fara hugnast mér alls ekki. Einkum finnst mér margir brenna sig á því að vera of orðljótir og taka of mikið uppí sig. Afleitt er að gera of mikið úr hlutunum. Slæmt er líka að vera ónæmur fyrir því sem gerist í umhverfinu og afsaka allt.

Mér finnst íslensk stjórnmálaumræða vera að breytast. Mun fleiri taka þátt í henni núorðið og verra er að halda hlutum leyndum. Mjög er það samt reynt. Bloggið hefur áhrif þarna bæði beint og einnig óbeint með því að hafa áhrif á fjölmiðla. Áhrif bloggsins og Netsins í heild hafa aukist mikið að undanförnu og eiga eftir að aukast enn.

Sagt hefur verið frá því að akur með erfðabreyttu byggi hafi verið eyðilagður í Gunnarsholti. Sé mark takandi á fréttum af þessu finnst mér of langt gengið. Fjarri fer því að sannað sé að erfðabreytt matvæli séu skaðleg. Erfðabreyting ýmiss konar hefur lengi verið stundum í landbúnaði. Nútímatækni hefur vissulega fleygt þessum málum fram en þau skemmdarverk sem unnin eru til að vekja athygli á þessum málum eru oft ekki réttlætanleg.


778. Neyðarlögin

Neyðarlögin skáru glæpamennina alla úr snörunni - er sagt. Auðvitað er það alveg rétt. Að breyta forgangsröð við gjaldþrotaskipti og heita því að allar innistæður Íslendinga væru tryggðar var svo vitlaust að undarlegt er að alþingismenn hafi ginið við því. Neyðarlögin eru versta verk þáverandi ríkisstjórnar. Samanborið við það var aðgerðarleysið næstum afsakanlegt.

Einkennilegt að blogga eins og herforingi á hverjum degi og verða aldrei efnislaus. Mismerkilegt er það samt sem ég ber á borð.

Annar lapskáss bar á borð
og beinakex fyrir náðarorð.
Hinn gaf okkur harðan fisk
og hangikjöt á silfurdisk.

Sagði Gestur á Hæli einhverju sinni um presta tvo sem predikað höfðu í sömu kirkju við sömu messu.

Emil Hannes Valgeirsson skrifar um sína blogg-ritstjórnarstefnu um daginn.

Mín ritstjórnarstefna er fyrst og fremst engin. Nokkur atriði bregðast þó sjaldan.

1.. Bloggin mín eru alltaf númeruð og ég veit ekki betur en ég hafi haldið réttri númeraröð frá upphafi. Þetta er mikið afrek segir Hrannar Baldursson.

2.. Ég blogga flesta daga.

3.. Ég linka afar sjaldan í fréttir.

4.. Ég er afskaplega íhaldssamur varðandi útlit bloggsins og þori sjaldan að breyta nokkru á stjórnborðinu.

5.. Birti aldrei myndir á mínu bloggi sem ég hef fundið einhversstaðar á Netinu. Veit ekki af hverju. Mikinn fjölda af góðum myndum og myndböndum hef ég fyrst séð á bloggum annarra.

Að öðru leyti eru bloggskrif mín fremur stefnulaus. Markmiðið er að koma lesendum á óvart. Auðvitað tekst það ekki nema einstöku sinnum. Frumleiki er nefnilega fjandi erfiður.


777 - Hriflu-Jónas

Eitthvað var minnst á Hriflu-Jónas og Stóru-Bombuna á blogginu um daginn. Fræðast má um Stóru Bombuna á Wikipediu. (http://is.wikipedia.org/wiki/St%C3%B3ra_bomba

Ég sá Jónas alloft og óhætt er að segja að hann hafi verið eftirminnilegur maður. Þegar ég vann við Garðyrkjuskólann á Reykjum í Ölfusi átti Jónas sumarbústað þar undir fjallinu sem Fífilbrekka var kallaður. Tún var þar afgirt og þurfti ég að fara þangað með hest sem dró múgavél. Vélin var svo breið að hún komst með naumindum í gegnum hliðið við Fífilbrekku. Jónas fylgdist með mér þegar ég renndi vélinni þar tvívegis í gegn og þótti mér farast vel stýringin á Jarpi og hafði orð á því við mig. Ég var að sjálfsögðu mjög upp með mér af því að svo frægur maður skyldi hrósa mér.

Ég man líka vel þegar þeir lentu í árekstri skammt frá hótelinu í Hveragerði Jónas og Unnsteinn Ólafsson skólastjóri. Jónas var á sínum Volkswagen R-29 og  í köflóttu flókainniskónum. Unnsteinn var að sjálfsögðu á sínum Willys-jeppa sem hallaðist mjög til annarrar hliðarinnar því hann var alltaf einn í honum. Ekki skemmdust bílarnir neitt og ekki man ég hvernig þessu lauk en eftirminnilegt var að sjá þessa menn standa þarna og rífast um það hver hefði átt réttinn.

Hilmar Hafsteinsson er talandi skáld. Í lofgerðarrullu sinni um mig í kommentakerfinu (munið að oflof er háð) segir hann mig vera hægri sinnaðan. Ég sem hélt endilega að ég væri vinstri sinnaður. Margt hef ég kosið um dagana en aldrei Sjálfstæðisflokkinn eða aðra orðlagða hægriflokka.

Ekki meira um kosningahegðun að sinni og hvað skáldskapinn snertir mun ég síðar reyna að svara Hilmari sem vert er.


776- Steingrímur Jóhann ræðst að Kjartani

Steingrímur Jóhann réðist með eftirminnilegum hætti að Kjartani Gunnarssyni á Hólahátíð og fjölmiðlar tíunda það vandlega. Hef ekki séð nefnda grein Kjartans í Morgunblaðinu en Kjartan mun eflaust svara Steingrími. Þarna gætu verið í uppsiglingu áhugaverð skoðanaskipti.

Hvað gerir það að verkum að svona erfitt er að koma tölvupósti rétt frá sér á Selfossi? Getur þetta verið eitthvað í landslaginu? Eru draugar kannski meira á sveimi þarna en annars staðar? Eitthvað er það, svo mikið er víst.

Mér fannst ekki gáfulegt hjá Þráni Bertelssyni að líkja þeim Bjarna frænda og Margréti Tryggvadóttur saman. Bjarni tók það líka óstinnt upp. Bæði eru þó haldin Selfoss-heilkenninu. Bjarni ætlaði að dreifa óhróðri um samflokksmann eins og hann taldi vera venju. Margrét taldi hinsvegar að tölvubréf væru jafn vel varin fyrir hnýsni og hugsanir. Sérstaklega ef tekið væri fram að þau væru trúnaðarmál. Bæði ýttu á vitlausan takka á tölvunni. Líklega annaðhvort vegna landslagsins eða draugagangs.

Þó Bjarni hafi eflaust séð eftir þingmennskunni hefur hann tekið örlögum sínum vel. Ekki er víst að kjósendur Borgarahreyfingarinnar taki því eins vel að þingmenn þeirra séu hafðir að háði og spotti. En ekki þýðir að gráta Björn bónda og ekki er séð ennþá hvert mögulegt verður að fleygja atkvæði sínu í næstu kosningum. Fjórflokkurinn bregst ekki.

Google-readerinn er þarfaþing. Hef aldrei komist uppá lag með að notfæra mér RSS strauma á annan hátt. Um daginn ætlaði ég að setja Doktor Gunna í readerinn minn en hann (readerinn) koksaði á því. Af hverju veit ég ekki. Doktor Gunni er úrvalsbloggari. Blogg-gáttin er líka ágæt.

Undanfarið hef ég verið að skoða gömul blogg. Margt er þar athyglisvert. Einkum þykja mér endurminningarnar þess virði að lesa aftur. Hugleiðingar um málefni dagsins eru ekki nærri eins merkilegar hvernig sem á því stendur.

Ég ætla að safna þessu saman og raða uppá nýtt. Kannski sem ég eitthvað til tenginga. Ekki veit ég hvað ég geri svo við þetta en vitanlega er hugsanlegt að ég birti það aftur á blogginu. Ég mun samt aðvara um endurtekningar ef þess gerist þörf.

 

775- Margt er mannanna bullið og misjafnt drukkið sullið

Falin er í illspá hverri
ósk um hrakför sýnu verri. 

Segir Stephan G. Stephansson í kvæðinu um Jón hrak.

Formaður Sjálfstæðisflokksins heldur því hiklaust fram að Bretar og Hollendingar muni aldrei sætta sig við niðurstöðu Alþingis í Icesave málinu og álíta Íslendinga hafa fellt samninginn. Sjáum til.

Merkilegt með fótboltann. Sumir virðast álíta hann mikilvægari en lífið sjálft. Einu sinni var ég svona. Fannst fótboltinn taka öðru fram. Jafnvel formúlunni. Man eftir að hafa séð í sjónvarpi allnokkra leikmenn Manchester United gera beinlínis aðsúg að dómara leiksins og hrekja hann útaf vellinum. Ekki hefði ég í dómarans sporum hikað við að reka þá alla útaf. Það gerði hann samt ekki. Forðaði sér bara undan þeim og dæmdi gegn United. Í sjálfu sér var það djarft tiltæki hjá honum. Farmallinn sjálfur hefði eflaust komið í veg fyrir að hann dæmdi framar ef hann hefði gert meira.

Strákur sem kallaður er Hermann og er Hreiðarsson hefur spilað knattspyrnu á Englandi í nokkur ár. Hann á sér þá ósk heitasta að taka við af Árna Johnsen sem stjórnandi brekkusöngsins á þjóðhátíð í Eyjum. Þetta kemur fram í viðtali við stráksa á dv.is. Ekki hef ég á móti því að ungir menn setji sér heilbrigð markmið en ég verð að segja að mér finnst Hermann þessi ætti að stefna eitthvað hærra.

Einhvern tíma las ég um mann sem safnar Nígeríubréfum. Gott ef það var ekki Gísli Ásgeirsson. Eftirfarandi bréf fékk ég áðan og þó það sé strangt tiltekið ekki frá Nígeríu, er handbragðið líkt. Ég er að hugsa um að gefa þessar milljónir í Icesave-hítina. Netfang sendanda er: petete_cumin15@msn.com.

Greeting!

I know this letter will definitely come to you as a surprise. I am Mr. Peter Cummings, Accounts Manager of the Bank of Scotland. During the course of my auditing I have discovered floating funds in an account opened in this Bank in year 2004. Since 2005 (near the end or middle) nobody has used this account. After going through some old files of the account records, I discovered the owner of this account died without leaving any [heirs] to his name.

I am soliciting for your assistance to present you as the next of kin to the deceased. Hence he does not have anyone as his next of kin to inherit the 7.5 Million British Pounds.

For us to proceed with this endeavor you must get back to me if you have an interest. Upon showing me you have interest. We will exchange information and from there we will proceed with the necessary functions to complete this transaction.

Looking forward to your reply.

Respectfully submitted.

Mr. Peter Cummings

Og þetta var bara annað af tveimur Nigeríubréfum sem ég fékk í gær laugardag. Hitt var frá Filippseyjum.

 

774- Um Borgarahreyfinguna

Borgarahreyfingin á bágt núna. Formaðurinn Herbert Sveinbjörnsson segist vera hættur og farinn, Valgeir Skagfjörð einnig og fleiri úr stjórninni. Sömuleiðis Heiða B. Heiðars sem birti á bloggi sínu tölvubréf um Þráin Bertelsson sem Margrét Tryggvadóttir skrifaði Katrínu Snæhólm sem vera mun varamaður Þráins. Því er haldið fram að þetta hafi átt að vera trúnaðarbréf en það hafi fyrir mistök verið sent til allra stjórnarmanna Borgarahreyfingarinnar.

Bréfið er svona:

Takk Katrín fyrir að vera til. Eitt sem mig langar að ræða við þig. Ég hef miklar áhyggjur af Þráni og þar sem þú þekkir hann vel og þekkir e.t.v. betur inn á fjölskyldu hans eða forssögu en ég langar mig að bera þetta upp við þig. Kannski er það ímyndun að þú sért betur inn í hans málum en við en - það má alla vega reyna. Við höfðum áhyggjur af því snemma í sumar að hann væri að síga í eitthvert þunglyndi en svo virtist það brá af honum. Ég ræddi við sálfræðimenntaðann mann í dag sem er vel inni í málum hreyfingarinnar og hann grunar að Þránn sé með altzheimer á byrjunarstigi. Hann tók það skýrt fram að þetta væri einungis kenning og auðvitað hefur hann ekki rannsakað Þráinn. Ég hafði ekki leitt hugann að slíku þótt mér fyndist þetta skýra margt. Hvað finnst þér? Kv., MT

Lítil afsökun er að segja að þetta hafi átt að vera trúnaðarmál. Það er það ekki og ef bréfritari hefur ekki annað sér til afsökunar er bréfið nógu alvarlegt og rætið til að viðkomandi segi af sér þingmennsku.

Á þeim stutta tíma sem liðinn er frá síðustu kosningum hafa flestallir þingmenn Borgarahreyfingarinnar hagað sér á vítaverðan hátt. Enn má þó ráða bót á málum en því aðeins að hjaðningavígum linni. Horfast þarf í augu við ófullkomleika mannskepnunnar og byrja uppá nýtt.

Það sem nú hefur orðið Borgarahreyfingunni að falli er hörmulegt. Einkum vegna þess að í framtíðinni munu litlu eins máls framboðin eiga enn meira undir högg að sækja en áður og fjórflokkurinn eflast. Allir sem áhuga hafa á stjórnmálum sjá nú að varla þýðir annað en binda trúss sitt við einhver af hinum fjórum svokölluðu flokkum sem fjórflokkinn mynda.

Í síðustu kosningum leið Frjálslyndi flokkurinn undir lok vegna innbyrðis deilna. Von margra var að nýtt og framsækið afl væri á ferðinni þar sem Borgarahreyfingin var.

Það er segin saga að allir flokkar og flokksbrot sem ekki ganga í heilu lagi í fjórflokkinn lognast útaf og hverfa. Þau verða eflaust örlög Borgarahreyfingarinnar og það jafnvel strax í næstu kosningum.

 

773- Milos Forman og Larry Flynt

Það er þreytandi að vera alltaf alvarlegur. Hæfilegt kæruleysi er nauðsyn. Hvernig þeir, sem ekki hugsa um annað en Icesave og þessháttar óhugnað daginn út og daginn inn, komast hjá þunglyndi skil ég ekki.

Milos Forman studdi Larry Flynt. Athyglisvert. Saga Larry Flynt er á margan hátt saga málfrelsis í Bandaríkjunum. Larry þessi gaf út tímaritið Hustler sem frægt varð að endemun. Af dæmi hans má læra að auðvelt er að tryggja málfrelsi þeirra þægu og góðu. Þegar aftur á móti á að tryggja málfrelsi vafagemlinga og klámkjafta vandast málið. Morgunblaðið tryggir ágætlega málfrelsi þeirra þægu og góðu. Húsmæður í Vesturbænum eru ekki teknar í karphúsið. Eiginlega á ég ekki heima á Moggablogginu. Mig langar nefnilega að vera vafagemlingur og klámkjaftur.

Hér eru tvær vísur sem ég gerði fyrir margt löngu. Var búinn að gleyma þeim en þær komu allt í einu upp í huga minn. Veit ekki af hverju.

Við yrkingarnar er ég bara orðinn nokkuð seigur.
Við orðaþrautir ekki deigur.
Andlegur minn stækkar teigur.

Einhverntíma ætla ég að yrkja kvæði.
Fái ég bara bæði
brennivín og næði.

Er geitungastofninn að ná sér á strik aftur? Ekki er ég frá því. Mér finnst þeir hafa angrað mig meira í sumar en undanfarin ár. Þeir bíta samt aldrei enda er samkomulag okkar á milli um að ég láti þá í friði ef þeir ráðast ekki á mig.

Fyrir daga geitunganna voru býflugurnar stóru og loðnu allsráðandi. Ekki fer miklum sögum um að þær bíti fólk. Á Vegamótum stunduðu strákarnir mínir talsvert stórhættulegar býflugnaveiðar. Man eftir því úr eldhúsinu þar að einhverjum, sem lagði hendi sína í mesta sakleysi á sultukrukku á borðinu, brá ónotalega þegar uppgötvaðist að hún var full af suðandi býflugum.

Varla er hægt að segja að tíðindi dagsins hafi verið andstæðingum Icesave hagstæð. Mannfjöldinn á Austurvelli sagður hafa verið á þriðja þúsund og Davíð Oddsson þar á meðal. Góð samstaða um það sem ofan á verður að lokum er þó flestu öðru mikilvægara.

 

772 - Flasa er ekki til fagnaðar

Af hverju skyldu menn vera að lesa bloggið mitt? Skipti þeim gjarnan í flokka sem það gera. Ættingjar og gamlir skólafélagar eru í fyrsta flokknum. Ýmsir kunningjar og vinir í þeim næsta. Aðrir bloggarar sem ekki vita frekar en ég hvað þeir eiga af sér að gera í þeim þriðja. Og hugsanlega ýmsir aðrir í þeim síðasta. En hverjir? Og hversvegna? Vil gjarnan að sá hópur sé sem stærstur og bloggið mitt svo rosalega merkilegt að menn fái bara ekki staðist snilldina. Á samt erfitt með að telja sjálfum mér trú um þetta. 

Er þá sama hvað ég blogga um? Eru það virkilega fyrirsagnirnar sem mestu máli skipta? Vil ekki trúa því. Fólk vill helst lesa um einhverja óáran. Icesave eða þessháttar. Af hverju fólk er að kvelja sjálft sig með því að lesa endalaust um svona ótíðindi veit ég ekki. Nær væri að lesa eitthvað uppbyggilegt. Hvað er þá uppbyggilegt? Barnauppeldi og þess háttar? Já, sennilega.

„Óttalegt fjas er þetta."

„Nú, eitthvað verð ég að skrifa um."

„Nei, það væri best fyrir þig að sleppa því."

„Einmitt það já. Þá er ég bara hættur og farinn."

Leit á mbl.is í kvöld til að athuga með landsleikinn. Snillingurinn sem skrifaði þar lýsinguna hafði þó mestu ánægjuna af mér með að lýsa því yfir að fyrri hálfleikurinn hefði verið daufur og vonandi væri að áhorfendur fengju meira fyrir aurinn í seinni hálfleiknum.

Veit ekki um hvaða skít hann var að tala. Hugsanlega átti hann við aurana eða jafnvel eyrinn og að síðari hálfleikurinn yrði fjörugri en sá fyrri.

Nú er semsagt búið að skipa í eina fínustu og óþörfustu silkihúfunefnd landsins en það er svokölluð Þingvallanefnd. Ekki mundi ég vilja vera í þeirri nefnd. Eftir nýjustu skipun eru víst í henni: Björgvin G. Sigurðsson, Álfheiður Ingadóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Höskuldur Þórhallsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

 

771 - Vitandi vits

Því skyldi ég alltaf vera að blogga þetta? Skil það ekki. Ekki fæ ég neitt fyrir það. Svo er Mogginn að nota þessi skrif mín til uppfyllingar. Svei því bara. Sennilega hef ég með aðgerðarleysi gefið þeim leyfi til þess. Mér er svosem sama. Samt vanda ég mig stundum heilmikið. Ef ég leita í gagnasafninu verð ég að gefa upp notendanafn og lykilorð ef ég vil vita meira um mín skrif. 

Á ég að borga fyrir að lesa mín eigin skrif? Dettur það ekki í hug. Svo kalkaður er ég ekki. Golfara heyrði ég um sem kalkaði veggina. Líklega höfðu þeir aldrei verið kalkaðir áður því hann hlaut nafn sitt af þessu. Það væri vitið meira að skrifa eitthvað bitastæðara. Til dæmis eitt stykki bók. Ætli ég geri það ekki næst. Kominn í æfingu. Beautiful nonsense. Skrifa bara það sem manni dettur í hug. Engin uppbygging, ekki neitt. Bara flæði. Þetta er ein aðferðin.

Ekki hægt að hætta. Hver hættir því sem ekki er til? Svona skrif eru engin skrif. Hættur við að hætta. Held bara áfram. Af hverju syngur kötturinn? Hvernig eru júrópallettur? Er hringskyrfi kringlótt? Bráðum kemur haust. Icesafe verður samþykkt og Jóhanna tekur í hendina á sjálfri sér. Steingrímur að verða munaðarlaus. Svo má brýna deigt járn að bíti. Drullukökur og djús til sölu við þjóðveginn. Farinn. Bless.

 

770 - Um kreppuna

Að mörgu leyti finnst mér lífið eftir hrun vera betra en það var. Aðvitað eiga sumir um sárt að binda en ég gat aldrei sætti mig við að Hrunadansinn væri hið eðlilega líf. Öllum gömlu gildunum var snúið á haus. Lán sem einu sinni var mikið lán að fá voru nú ekkert lán lengur. Fæstir bjuggust þó við að í þeim væri bölvun fólgin. Nú eru gömlu gildin komin á kreik aftur og þá er eiginlega bara betra að lifa en áður var. Lífið fer smám saman í fastar skorður hjá flestum. Verst hvað allir eru deprímeraðir útaf þessum árans Icesave-samningi. 

Margir virðast halda að græðgisvæðingin hafi hafist hér á landi þegar bankarnir voru seldir. Svo er ekki. Hún er eldri. Allt frá fyrstu Viðeyjarstjórninni hefur sú stefnumörkun ráðið mestu í íslenskum stjórnmálum að hver sé sjálfum sér næstur og persónufrelsið skuli vera öllu ofar. Mannkærleikur, samvinna, fórnfýsi og annað slíkt var álitið hlægilega gamaldags.

Allt skyldi mælt á vog peninga og draga skyldi sem mest úr afskiptum ríkisvaldsins á öllum sviðum. Þetta var í samræmi við skipbrot kommúnismans í Sovétríkjunum og víðar. Í Evrópu og þó einkum á Norðurlöndum var samt hefð fyrir samvinnu og ríkisafskiptum og margir voru tregir til að afnema slíkt með öllu. Erfitt var þó að standa á móti hinum nýju gildum. Þau gömlu höfðu svo sannarlega beðið eftirminnilegt skipbrot í Sovétríkjunum.

Nú er það hins vegar komið í ljós að ekki var rétt að kasta öllu því gamla fyrir borð. Sparsemi og nýtni er aftur að komast í tísku. Heimskreppan lendir kannski verr á okkur Íslendingum en mörgum öðrum vestrænum þjóðum en það er ekkert spursmál að við náum að vinna okkur útúr þessu. Þeir sem allra verst fara útúr kreppunni eru þeir sem minnst höfðu. Þannig hefur það alltaf verið og þannin mun það halda áfram að vera.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband