Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

539. - Hugtakið "Móðuharðindi af mannavöldum" hefur oft verið misnotað en á kannski betur við núna en oft áður

Núverandi efnahagsörðugleikum hefur af sumum verið lýst sem hörðustu kreppu sem riðið hefur yfir landið síðan Móðuharðindin voru og hétu. Aðrir hafa andmælt þessu og talið hina mestu firru. Þetta fer þó aðallega eftir því við hvað er miðað. Sjálfum finnst mér alls ekki hægt að líkja ástandinu nú við raunveruleg harðindi og alvöru kreppu. Mestur hluti þess auðs sem glatast hefur held ég að hafi verið ímyndaður auður. En  áreiðanlega koma margir til með að fara illa útúr núverandi kreppu og hin hrikalega misskipting sem aukist hefur að undanförnu er kannski það alvarlegasta við nýliðið tímabil. 

Gjáin milli þeirra sem lifa í allsnægtum og þeirra sem draga fram lífið með erfiðismunum hefur breikkað mikið að undanförnu. Orsök þessa er mjög líklega sú frjálshyggja sem ráðið hefur lögum og lofum í þjóðfélaginu. Við skulum samt ekki gleyma því að þessi sama frjálshyggja hefur fært okkur talsvert af þeirri velmegun sem vaxið hefur mikið hér að undanförnu.

Ég er eiginlega hættur að hneykslast á spillingarsögum. Þegar Fons breyttist í Stím og svo aftur í Fons eða eitthvað annað héldu margir að nú væri sett nýtt met í vitleysu og fíflagangi. En þessu verður eflaust öllu sópað undir teppið eins og vant er og síðan verða hlutirnir eins og áður.

Ég hef fundið fyrir því að undanförnu að stjórnmálamenn vilja helst að allt þetta kreppufjas verði bara hluti af hinu venjulega pólitíska þrefi. Samt held ég að þau mótmæli sem haldið er uppi af venjulegu fólki hafi áhrif  því þau boða breytta pólitíska hegðun fólks. Pólitíkusar vilja yfirleitt vel en ráða bara alls ekki við ástandið. Í því frjálsræði sem ríkt hefur að undanförnu voru það bara þeir frekustu sem höfðu sitt fram.

Útrásarvíkingarnir voru frekari en aðrir og vissu hvar þeir áttu að beita sér. Þessvegna fór sem fór. Ef við sem ráðum og stjórnmálamennirnir í okkar umboði hefðum sett þeim stólinn fyrir dyrnar hefði líklega verið hægt að halda aftur af þeim. Allt er þetta samt liðin tíð og samtímis því sem við reynum að koma lögum yfir þá sem mest brutu af sér þurfum við vissulega að snúa okkur að því að byggja upp nýtt þjóðfélag og það getum við alveg.

Kári bloggvinur minn Harðarson er með skemmtilega pælingu um Evrópubandalagið og ég hvet þá sem sérstakan áhuga hafa á því máli til að skoða hana og umræðurnar sem þar fara fram.


538. - Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson gúglaður

Gúglið er skemmtilegt tæki. Eftirfarandi fann ég þar nýlega um bloggvin minn merkan sem stundum les bloggið mitt og veit að ég hef gaman af að pota í hann.

„Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson komst í fjölmiðla í Danmörku fyrir nokkrum árum þegar hann reyndi að fletta ofan að framgöngu Dana gegn gyðingum. Eins og kunnugt er voru danskir gyðingar ferjaðir yfir sundið til Svíþjóðar haustið 1943 og björguðust flestir með þessum hætti. Vilhjálmi taldi að þessir atburðir hefðu tekið á sig mynd goðsagnar og vildi fá að komast í skjöl útlendingaeftirlitsins til að sanna að í Danmörku hefði verið rekin andgyðingleg stefna. Úr þessu varð talsverð rekistefna

Áður varð Vilhjálmur frægur á Íslandi þegar hann reyndi af miklum ákafa að sýna fram á að silfursjóður sem fannst á Miðhúsum í Egilsstaðahreppi hefði verið falsaður. Hann lét þar ekki staðar numið heldur lét að því liggja að hjónin sem bjuggu á Miðhúsum hefðu sjálf falsað sjóðinn. Fyrir þetta var Vilhjálmur rekinn úr starfi á Þjóðminjasafninu og var síðar dæmdur til að greiða hjónunum miskabætur."

Ég veit ekki hver skrifaði þetta og þaðan af síður hvort eitthvað er til í þessu. Kannski er ég að gera þeim sem skrifaði þetta óleik með því að birta þetta hér og bið ég viðkomandi þá afsökunar á því. Mér finnst þetta þesslegt að hafa einhverntíma birst á málefnin.com en veit ekki meira um það.

Meðal annarra bóka sem ég er með af bókasafninu er bókin hennar Jónu „Sá einhverfi og við hin." Þessi bók er prýðilega skrifuð og Jóna hefur lag á að koma eðlilegum tilfinningum frábærlega vel til skila. Margt af því sem þarna er að finna er bein endursögn af blogginu hennar en talsverðar viðbætur eru þó og flestar vel heppnaðar.

Nýleg saga af blogginu hennar er mér ofarlega í huga. Hún átti að mæta í viðtal um daginn í útvarpshúsið við Efstaleiti útaf bókinni sinni og var haldin þeirri meinloku að leiðin þangað væri sú sama og að Veðurstofuhúsinu. Þar fann hún að sjálfsögðu ekkert útvarpshús. Hún sagði hinsvegar svo skemmtilega frá þessu á blogginu sínu að það var orðið eins og besta spennusaga að vita hvort hún slyppi í tæka tíð frá þessari hræðilegu villu.


537. - Mikið er fjasað um fésbókina nú á þessum síðustu og verstu

en ég hef núll prósent áhuga á henni meðan ég veit ekki til hvers ég ætti að vera að flækjast þar. Sagt er að hún komi í stað bloggsins en ég skil ekki hvernig. Margir virðast álíta það hipp og kúl og in að skrá sig á fésbókina, stofna grúppur út og suður og leita að gömlum skólafélögum og þess háttar. Þeir af mínum gömlu skólafélögum sem kæra sig um geta hæglega fundið mig hér. 

Ég hef tekið eftir því að Gúgli veit hvar mig er að finna og ef fésbókin er aðallega staður þar sem maður þarf helst að koma á hverjum degi þá er hún ekki fyrir mig. Ég á í vandræðum með að muna eftir póstinum mínum svo ekki sé minnst á annað. Bloggið skoða ég samt alltaf nokkrum sinnum á dag.

„Skrýlslætin á Alþingi í dag varpa bletti á heiður þeirra sem berjast fyrir breytingum. Ofbeldi þjónar engum tilgangi."

Segir Arnþór Helgason. Því fer fjarri að ég sé sammála þessu. Mér finnst ég alls enga ábyrgð bera á látum þessara krakka á þingpöllum. Mér finnst þetta bara bera vitni um óánægju þeirra og ekki koma öðrum mótmælum neitt við.

Vefmiðlar spretta upp eins og gorkúlur á haugi um þessar mundir. AMX er einn kallaður. Ekki hef ég hugmynd um fyrir hvað þessir stafir standa. Frá stofnun hefur þessi vefur verið fremsti fréttaskýringarvefur landsins eftir því sem sagt er í hausnum. Þetta er skrýtinn vefur og ekki gott að átta sig á honum. Hægrisinnaður er hann þó örugglega og mótfallinn EU-aðild. Meðal fyrstu  pistlahöfunda á þessum óviðjafnanlega fréttaskýringarvef má nefna Jónas Haraldsson, Styrmi Gunnarsson, Óla Björn Kárason, Björn Bjarnason og Bjarna Harðarson.

Svanur Gísli Þorkelsson skrifar um hugmyndir á sínu bloggi. Ég hef mjög gaman af skák. Kannski er það vegna þess að þar snýst allt um hugmyndir. Þú færð hugmynd um að ef til vill getir þú náð tilteknum árangri með tilteknum hætti og hefur tækifæri til að prófa hugmyndina strax. Allir leikir snúast að mínu viti að verulegu leyti um hugmyndir. Heimspeki einnig. Hagfræðilegar og vísindalegar hugmyndir verða oft svo flóknar að erfitt er að fylgjast með þeim. Ein versta tilhugsunin varðandi núverandi efnahagsörðugleika er sú að útrásarvíkingarnir hafi ekki haft neina hugmynd um hvað þeir voru að gera!!


536. - Framtíð fjölmiðla og fall þeirra hefðbundnu

Framtíð fjölmiðla er á Netinu heyrðist mér Salvör segja í sjónvarpinu í gær. Auðvitað er þetta alveg rétt. Áfram mun þó eitthvað verða prentað af auglýsingum, fréttum og fleiru. Hinu og þessu sjónvarpsefni verður áfram dreift um sjónvarpsstöðvar en þýðing alls þessa mun fara síminnkandi.

Fjármálamógúlum, ritstjórum og öðrum fjölmiðlungum finnst þetta að sjálfsögðu afleit þróun. Blöð og fjölmiðlaveldi munu fara á hausinn bæði hér á Íslandi og annars staðar. Bloggarar fagna og skrifa sem aldrei fyrr og án þess að fá nokkuð fyrir nema nagg og nöldur.

Í gengum Nagportal.net kynntist ég blogginu fyrst fyrir allmörgum árum. Lengi vel þótti minnkun að því að vera kallaður bloggari. Egill Helga vildi til dæmis lengi vel ekki kannast við að hann bloggaði. Ennþá eimir eftir að þessum fordómum. Bloggið hefur samt staðið allt af sér og er nú orðið einn af hornsteinum tjáningarfrelsisins hvort sem varðhundar þess frelsis viðurkenna það eða ekki.

Því í ósköpunum skyldi fólk vera að borga peninga fyrir að láta svo lítið að neyta einhvers af því fjölmiðlafóðri sem sífellt er verið að halda að því. Merkilegt að fólk skuli enn vera fáanlegt til að borga fyrir bækur. Það er hægt að fá nóg af allskonar efni án þess að borga nokkuð sem heitir. Fjölmiðlasamsteypur nútímans eru algjörar risaeðlur og munu deyja út áður en langt um líður.

Fór ekki á Austurvöll á laugardaginn einfaldlega vegna þess að ég var að vinna. Kemst væntanlega á laugardaginn kemur. Það er skaði ef þessar samkomur leggjast af. Ef veður er bærilegt er ágætt að sameina þetta ferð í Kolaportið. Þar er sérstakur heimur sem vel er þess virði að skoða.

Ég er að mestu sammála Önnu Kristjánsdóttur um að gjalda varhug við tillögum um að frysta eða fella niður verðbætur húsnæðislána. Líklegast er að með því verði lífeyrissjóðirnir (og sparifjáreigendur) enn einu sinni rændir eigum sínum. Ég man eftir þeim tíma þegar greiðslur í lífeyrissjóði jafngiltu því að henda peningunum. Þetta breyttist með verðtryggingunni en nú vilja þeir sem skuldugir eru enn og aftur ræna lífeyrissjóðina sem hugsanlega hafa þegar tapað þónokkru.

Ég veit ekki hve mikil verðbólgan verður hér á næstunni en hún hefur áður verið talsverð hér á landi. Ég er ekki viss um að margir hafi farið á hausinn vegna verðbóta á húsnæðislánum.

Það að gengið hefur styrkst undanfarna daga segir mér bara að gjaldeyrishöftin eru ef til vill mátuleg til slíks.

 

535. - Hvernig fer innganga í Evrópusambandið fram? - Mín hugmynd

Á mínu bloggi hefur nokkrum sinnum komið til umræðu möguleg innganga Íslands í EU. Skoðanir um þetta mál eru afar skiptar og fer það ekki eftir flokkum hverjar skoðanir manna í þessu efni eru. Eitt af því sem deilt er um og menn virðast alls ekki geta orðið á eitt sáttir um er sjálft ferlið.

Í mínum augum er ferlið fremur einfalt. Ríkisstjórnin getur ákveðið að sækja um aðild. (Það gæti vel gerst eftir Landsfund Sjálfstæðisflokksins í janúar næstkomandi.) Þá yrðu samningsmarkmið væntanlega skilgreind og samninganefnd skipuð. Eftir samningaviðræður mundi annaðhvort ganga saman með aðilum eða ekki. Gerum ráð fyrir að samkomulag tækist. Þá yrði Alþingi að samþykkja nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá. Ef breytingar á stjórnarskrá yrðu samþykktar þyrfti að rjúfa þing og nýtt þing að samþykkja sömu breytingar.

Þá fyrst tel ég að hægt yrði að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn sjálfan. Úrslitin í þeirri atkvæðagreiðslu yrðu bindandi.

Þannig sé ég mögulegt ferli fyrir mér. Aðrir kunna að hafa ýmislegt við þetta að athuga. Sjálf inngangan og mögulegir skilmálar er ekki til umræðu í þessu tilviki. Bara ferlið sjálft. Sumir hafa talað fyrir því að hafa margar þjóðaratkvæðagreiðslur um málið en það tel ég algjöran óþarfa. Flestir virðast sammála um að stjórnarskrárbreytingar séu nauðsynlegar til að af inngöngu geti orðið.

Tölvusnillingarnir hjá RUV eru samir við sig. Fékk hrikalegt bjartsýniskast áðan og ætlaði að horfa á upptöku af Spaugstofunni á Netinu. Auðvitað var bara hluti af þættinum aðgengilegur. Eftir því sem Lára Hanna segir er von til þess að skárri útgáfa verði sett á Netið á morgun eða einhverntíma. Verst ef ég verð þá búinn að missa áhugann á honum.

Einn af fylgifiskum þeirrar bloggónáttúru sem hrjáð hefur mig síðustu árin er að nú finnst mér ég eiga hægara með að koma orðum að ýmsum óljósum hugsunum og hugmyndum en áður var. Ég er samt svo háður bloggstílnum að annar stíll hentar mér eflaust illa. Höfuðeinkenni bloggstílsins finnst mér vera að það sem maður skrifar fer fljótt frá manni og þýðingarlaust er að ímynda sér að hægt sé að breyta því.

Þegar skrifin eru farin út í eterinn er hægt að snúa sér að einhverju öðru og það er mikil blessun. Blogglestur tekur líka oft ærinn tíma. Svo mikinn að annar lestur er sífellt að verða minni og minni. Þó finnst mér gott að hafa með mér bækur í rúmið og stunda líka bókasöfnin grimmt.

 

534. - Um feminisma, Vigdísi Finnbogadóttur og fleira

Orðið feminismi er illa valið. Jafnrétti væri skárra en það er bara búið að misnota það svo herfilega. Mér skilst að orðið feminismi eigi að ná yfir algert jafnrétti kynjanna á öllum sviðum.

Fáir vita það betur en feministar sjálfir hve litlu það hefur skilað í jafnréttisátt að ná lagalegu jafnrétti. Andfeministar klifa oft á því að feministar sækist eftir forréttindum kvenfólki til handa og nefna þá gjarnan dæmi um að kvenfólki veiti betur í tilteknum málum. Auðvitað er alltaf hægt að finna slík dæmi en dæmin um hið gagnstæða eru bara miklu fleiri og skipta miklu meira máli.

Kvenfólk er jafnan vinstrisinnaðra en karlar er sagt. Þetta kann vel að vera rétt en segir ekki nokkurn skapaðan hlut um kynferði eða stjórnmál. Vinstrisinnar hafa oft gumað af því að þeir séu gáfaðri og meira meðvitaðir um stjórnmálaleg efni og listir allskonar en hægrisinnar. Þetta er næstum örugglega vitleysa og þar að auki ekki vel til þess fallið að auka vinsældir vinstri stefnu.

Stundum er sagt að hugtökin hægri og vinstri í stjórnmálum séu úrelt. Mér finnst þó oft auðvelda leiðina til skilnings að hugsa um stjórnmál sem lóð á vogarskál sem ýmist hallast til vinstri eða hægri. Samanburður á slíku milli landa verður þó oft villandi og undantekningarnar legíó.

Á Íslandi snúast stjórnmálaumræður yfirleitt ekki um grundvallaratriði heldur frekar um tiltekin dæmi sem leggja má útaf á ýmsa vegu.

Þegar snjóflóðið skall á Flateyri varð frú Vigdís Finnbogadóttir flemtri slegin eftir því sem hún sagði í sjónvarpi. Öllum getur misskjöplast eins og maðurinn sagði og þó ég geti ekki gleymt þessu málblómi fyrrverandi forseta frekar en kryddsíldarveislu danadrottningar sýnir það fyrst og fremst minn innri mann en ekki Vigdísar.

Ég get heldur ekki gert að því að eina vísan sem ég man eftir úr fjölmiðla-frumvarps-stríðinu um árið er þessi:

Vanhæfur kom hann að verkinu.
Vigdís plantaði lerkinu.
Bónus hann á
eins og hvert barn má sjá.
Það er mynd af honum í merkinu.

1234.jpgSvo gengur víst mynd af nýjasta jólasveininum sem nefndur er Bankaskellir á milli manna um þessar mundir.

 

533. - Aðgerðir Davíðs gætu leitt til stjórnarkreppu

Davíð hótar öllu illu og hefur flest á hornum sér. Hvernig fer þatta allt? Ég held að Geir megi ekki til þess hugsa að Davíð fari aftur í stjórnmálin. Sé jafnvel hræddari við hann en Þorgerði Katrínu. Já, það eru mörg vandamálin hjá aumingja Geir og ekki víst að Helgi Seljan sé eitt af þeim stærstu.

Ef Davíð heldur sig fast við bankaleyndina er hann að gefa Samfylkingunni mjög góða ástæðu til að láta sverfa til stáls. Kannski er Davíð ósárt um ríkisstjórnina og stefnir fremur á formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Hana vill Geir áreiðanlega ekki missa enda fær hann ekki fleiri tækifæri.

Sjá mátti að í Sjálfstæðisflokknum muni hlutirnir gerast þegar haldinn var sérstakur blaðamannfundur um það eitt að landsfundi yrði flýtt. Eftir að Styrmir hætti á Mogganum er hann orðinn einn helsti stuðningsmaður Davíðs og langar eflaust til að gerast kingmaker á gamals aldri? Hann er að minnsta kosti sammála Davíð um andstöðuna við EU eins og fornu framsóknarmennirnir.

Meira að segja vinstri grænir eru farnir að gæla við EU-aðild og það gæti þýtt forystuskipti þar. Steingrímur er að verða svolítið þreyttur. Hann er ágætur ræðumaður en fyrri störf störf hans á ráðherrastóli benda ekki til að hann eigi mikið erindi þangað aftur.

Ingibjörg Sólrún gæti staðið frammi fyrir því fljótlega að verða annaðhvort að hrökkva eða stökkva. Hún gæti einfaldlega séð að ungtyrkirnir í flokknum eru farnir að ókyrrast. Hún er alls ekki sjálfsagður formaður flokksins lengur. Landsfundir Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar verða eflaust sögulegir en samt getur vel verið að hlutirnir gerist fyrr.

Nú er Bitruvirkjun að komast á dagskrá aftur og Lára Hanna þarf að fara að brýna kutana. Orkuveitan treystir eflaust á að aðstæður hafi breyst svo mikið að undanförnu að dregið hafi allan mátt úr andstæðingum virkjunarinnar. Ekki er víst að svo sé.

Annars er ég að hugsa um að fara í aldreifingu til áramóta. Veit bara ekki alveg hvernig á að fara að því. Kannski verður þetta takmörkuð aldreifing. Jafnvel ekki nema á ákveðnu svæði í Kópavoginum. Sjáum til hvernig fer.

 

532. - Skelfing getur maður verið vitlaus. Ég hélt alltaf að Grímur amtmaður og Grímur Thomsen væru sami maðurinn

Grímur amtmaður var Jónsson og uppi nokkru fyrr en nafni hans Thomsen og jafnvel móðurbróðir hans að ég held. Grímur Thomsen var sonur Þorgríms Tómassonar skólaráðsmanns á Bessastöðum.

Ástæðan fyrir að ég uppgötvaði þessa villu mína var sú að ég heyrði í útvarpinu sagt frá bókinni "Amtmaðurinn á einbúasetrinu". Fljótlega heyrði ég að þó þessi mæti maður héti Grímur gat ómögulega verið um Grím Thomsen að ræða.

Ég flýtti mér því í tölvu og spurði Gúgla sjálfan að þessu og auðvitað var misskilningurinn minn. Ég gæti vel trúað að þessi nefnda bók væri hin merkasta. Að minnsta kosti fyrir sagnfræðisinnað fólk. Sem ég hélt að ég væri. Amtmaðurinn fæddist árið1785 en skáldið 1820.

Í Kastljósinu í kvöld var rætt við mann sem var óánægður með skuld vegna íbúðar. Eftir því sem hann sagði var 6 milljón króna munur á mögulegu uppboðsverði og skuld vegna húsnæðisins honum í óhag. Kannski gæti hann samið við bankann um að greiða þá upphæð til að verða ekki gjaldþrota. Þá þyrfti hann að greiða af þessum sex milljónum og húsaleigu sem samanlagt mætti ekki nema hærri upphæði en kostnaður hans var af eignaríbúðinni. Eina raunhæfa viðmiðunin í svona tilfellum er greiðslubyrði sem hlutfall af launum. Rangt er að líta svo á að eign í húsnæði sé verðmæti í sjálfu sér.

Hverjum einasta degi fylgja bæði vonbrigði og gleðiefni. Kúnstin er að láta það sem gerist ekki hafa of mikil áhrif á sig. Ég er þeirrar skoðunar að sífelld kátína og gleði sé eiginlega ekkert betri en þunglyndi og leiðindi. Best er að blanda þessu saman. Ef ekki væri um neitt að ræða annað en sífelld gleðiefni mundu þau á endanum verða óendanlega leiðinleg. Ógæfa heimsins getur líka sem hægast gert hvern mann vitlausan. Best er auðvitað að blanda þessu saman á þann hátt sem hentar og það gera flestir. Þegar sú blöndun mistekst er voðinn vís.

Þegar þeim hremmingum linnir sem íslenskt þjóðfélag er útsett fyrir um þessar mundir geri ég ráð fyrir að flokkaskipan í íslenskum stjórnmálum hafi riðlast nokkuð. Mér finnst augljóst að nýfrjálshyggjan hafi beðið verulegt skipbrot með fjármálakerfinu og öllu því frjálsræði sem þar ríkti. Líklegt er að sumir flokkar fari verr útúr því skipbroti en aðrir. Stórir flokkar eins og Sjálfstæðisflokkurinn gætu klofnað endanlega og aðrir horfið með öllu. Stjórnmálin munu kannski ekki breytast mikið en siðferði í stjórnmálum held ég að hljóti að batna. Það er með ólíkindum að menn hafi verið látnir komast upp með það sem viðgengist hefur hér undanfarin ár.

 

531. - "They are coming to take me away...."

Í bílnum í gær hlustaði ég á gömlu gufuna þar sem verið var segja öðru hvoru frá innrásinni í Seðlabankann og þulurinn sagði svo að með næsta lagi fylgdu kveðjur í Seðlabankann. Ég átti náttúrlega von á laginu fræga "They are coming to take me away..." en svo var ekki.

Æ, ég ætti annars að hætta þessu bloggi um stjórnmál og efnahagsþvarg. Það er svo leiðinlegt. Meðan ég hef nóg að bíta og brenna væri nær að ræða um önnur málefni. Til dæmis að segja frá einhverju sögulegu. Mitt minni nær aftur í gráa forneskju sumra. Merkilegt.

Ég man vel eftir því þegar það var talin klukkustundarferð í bíl að fara milli Hveragerðis og Reykjavíkur. Fimmtíu kílómetra steinninn var uppvið Kamba. Hvar hann er núna veit ég ekki. Það þótti hraustlega gert að hjóla upp alla Kamba á þeim tíma. Ekki gerði ég það oft en einu sinni man ég eftir að hafa farið alla leið upp að Skíðaskála.

Með vissu millibili mátti finna glerflöskur undan gosdrykkjum við veginn. Ekki var hægt að láta hjá líða að hirða slík verðmæti og þegar komið var útundir Skíðaskála var þessi flutningur farinn að íþyngja okkur. Man þó ekki hve margir við vorum. Allir vorum við þó hjólandi og við Skíðaskálann snerum við aftur í áttina til Hveragerðis.

Á leiðinni niður Kamba slitnaði keðjan á hjólinu mínu og ég gat ekki bremsað neitt. Líklega hef ég aldrei orðið hræddari á hjóli. Sem betur fór voru ekki nema tvær eða þrjár beygjur eftir þegar keðjan slitnaði svo allt fór þetta vel. Hraðinn varð samt óskaplegur. Hraðamælar voru á þessum tíma að byrja að tíðkast á reiðhjólum en ég var ekki með slíkan grip. Hraðinn hefur þó sjálfsagt náð svona sextíu til sjötíu kílómetrum á klukkustund þegar mest var. Það er ógnarhraði á holóttum malarvegi.

 

530. - Ég mótmæli allur því nú er fyrsti desember og veðrið sæmilegt. Nenni samt ekki út

Fyrsti desember er á margan hátt meiri þjóðhátíðardagur en 17. júní. Það var þann dag árið 1918 í miðri spönsku veikinni sem við fengum loksins sjálfstæði frá Dönum. Nú er svo komið að augljóst er að við kunnum lítið með það sjálfstæði að fara. Það þynnist sífellt út og ef það á að þýða einangrun frá öllu samstarfi við aðrar þjóðir þá er eins gott að það fari. 

Af hálfu opinberra aðila er alveg hætt að halda nokkuð uppá þennan dag. Það er helst að stúdentar hafi helgað hann einhverjum baráttumálum sínum en að öðru leyti virðist flestum vera sama um daginn. Dagar og dagsetningar hafa líka lítinn tilgang í sjálfu sér. Helst er hægt að finna í þeim einhverja táknrænu. Þessi dagur er samt vel til mótmæla fallinn ef veðrið helst sæmilegt. Helgar eru þó betri eins og Hörður Torfa hefur hvað eftir annað sýnt fram á.

Hver er tilgangur mótmælanna? Dettur einhverjum í alvöru í hug að stjórnin fari bara fara frá einn, tveir og þrír? „Æ, við erum hætt þessu. Takið þið nú við." Annað hvort gerast hlutirnir með blóðugri byltingu sem ég held að enginn vilji í raun og veru eða þá á þann hátt að nýr meirihluti myndast á Alþingi með blessun stjórnvalda eða ekki. Stjórnvöld geta auðvitað ráðið miklu um hvað gerist á Alþingi aðallega vegna þess að stjórnir flokkanna ráða yfir flokksvélum þeirra og geta skipað þingmönnum að gera allan fjandann. Þingmenn þurfa samt ekkert að hlusta á þessháttar píp því þeir eru í raun engum bundnir nema kjósendum sínum.

Ég er engan veginn að segja að mótmæli þau sem nú eru stunduð séu marklaus. Þau hafa áhrif. Skoðanakannanir hafa einnig áhrif. Stjórnskipun landsins er þó þannig að ekki er mögulegt að koma stjórn frá nema með lögformlegum hætti. Annað er að bjóða hættunni heim. Nágrannalöndin eru hætt að treysta okkur í efnahagslegu tilliti og ef hér yrði stjórnarfarsleg upplausn líka væri fokið í flest skjól.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband