537. - Mikið er fjasað um fésbókina nú á þessum síðustu og verstu

en ég hef núll prósent áhuga á henni meðan ég veit ekki til hvers ég ætti að vera að flækjast þar. Sagt er að hún komi í stað bloggsins en ég skil ekki hvernig. Margir virðast álíta það hipp og kúl og in að skrá sig á fésbókina, stofna grúppur út og suður og leita að gömlum skólafélögum og þess háttar. Þeir af mínum gömlu skólafélögum sem kæra sig um geta hæglega fundið mig hér. 

Ég hef tekið eftir því að Gúgli veit hvar mig er að finna og ef fésbókin er aðallega staður þar sem maður þarf helst að koma á hverjum degi þá er hún ekki fyrir mig. Ég á í vandræðum með að muna eftir póstinum mínum svo ekki sé minnst á annað. Bloggið skoða ég samt alltaf nokkrum sinnum á dag.

„Skrýlslætin á Alþingi í dag varpa bletti á heiður þeirra sem berjast fyrir breytingum. Ofbeldi þjónar engum tilgangi."

Segir Arnþór Helgason. Því fer fjarri að ég sé sammála þessu. Mér finnst ég alls enga ábyrgð bera á látum þessara krakka á þingpöllum. Mér finnst þetta bara bera vitni um óánægju þeirra og ekki koma öðrum mótmælum neitt við.

Vefmiðlar spretta upp eins og gorkúlur á haugi um þessar mundir. AMX er einn kallaður. Ekki hef ég hugmynd um fyrir hvað þessir stafir standa. Frá stofnun hefur þessi vefur verið fremsti fréttaskýringarvefur landsins eftir því sem sagt er í hausnum. Þetta er skrýtinn vefur og ekki gott að átta sig á honum. Hægrisinnaður er hann þó örugglega og mótfallinn EU-aðild. Meðal fyrstu  pistlahöfunda á þessum óviðjafnanlega fréttaskýringarvef má nefna Jónas Haraldsson, Styrmi Gunnarsson, Óla Björn Kárason, Björn Bjarnason og Bjarna Harðarson.

Svanur Gísli Þorkelsson skrifar um hugmyndir á sínu bloggi. Ég hef mjög gaman af skák. Kannski er það vegna þess að þar snýst allt um hugmyndir. Þú færð hugmynd um að ef til vill getir þú náð tilteknum árangri með tilteknum hætti og hefur tækifæri til að prófa hugmyndina strax. Allir leikir snúast að mínu viti að verulegu leyti um hugmyndir. Heimspeki einnig. Hagfræðilegar og vísindalegar hugmyndir verða oft svo flóknar að erfitt er að fylgjast með þeim. Ein versta tilhugsunin varðandi núverandi efnahagsörðugleika er sú að útrásarvíkingarnir hafi ekki haft neina hugmynd um hvað þeir voru að gera!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband