Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

549. - Vangaveltur um hitt og þetta. Aðallega pólitík

Allt stefnir í að landsfundirnir í janúar verði merkilegir. Örugglega verður þar tekist á um tillögur varðandi Evrópusambandsaðild. Hvernig þær verða er erfitt að segja. Stjórnarkjör verður líka mjög áhugavert. Bæði hjá Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum. Ekki er ljóst hvort mótframboð kemur fram gegn núverandi stjórn Sjálfstæðisflokksins. Verði svo ekki og engin breyting þar má búast við allmörgum auðum seðlum. 

Mikið er fjasað um spillingu í íslensku þjóðfélagi. Verst af öllu finnst mér þó að finna að ég hefði hagað mér eins og hver annar útrásarvíkingur ef ég hefði fengið tækifæri til. Óánægja er áreiðanlega meiri í þjóðfélaginu nú en oftast áður og með hækkandi sól eftir áramótin gætu aðgerðir farið úr böndunum.

Hvorki Stöð 2 né ríkissjónvarpið virðast geta komið Netútsendingum skammlaust frá sér. Virðast treysta á að notendur kenni sjálfum sér eða móttökunni um ruglið. Ríkissjónvarpið er þó búið að fá sér nýtt forrit til þess arna og myndgæðin eru bara furðugóð. Með tímanum lærir útsendingarfólkið þar vonandi á forritið. Nenni ekki að skrifa um þetta nema öðru hvoru annars mundi ég varla skrifa um annað.

Bónus-sektin er merkilegt mál. Nú eru þeir feðgar kannski veikari fyrir en áður. Auðmenn eiga ekki að komast upp með hvað sem er bara af því að þeir eru ríkir. Verslanakeðjur eiga ekki að komast upp með að drepa alla samkeppni af sér. Fjölmiðlar eiga að veita aðhald og gagnrýna. Ekki er nóg að gagnrýna bara stjórnvöld heldur þarf líka að huga að ýmsu öðru.

Hvar eru "Feltar" Íslands? Hvar eru þeir sem þykir meira virði hagur almennings en hagur spilltra stjórnmála-, embættis- og athafnamanna - og koma mikilsverðum upplýsingum til trúverðugra blaða- og fréttamanna?

Spyr Friðrik Þór. Hvar finnast trúverðugir blaða- og fréttamenn annars? Dettur mér strax í hug.

 

548. - Það að fjölmiðlalögunum var komið fyrir kattarnef er orsök bankakreppunnar segir HHG

Bloggið er orðið áhugaverður vettvangur fyrir pólitískar pælingar. Var að lesa blogg eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Hann er skýr í hugsun en ég er langt frá því að vera yfirleitt sammála honum. Margir tileinka sér speki hans og finnst mikið til um hana. 

Samkvæmt kenningum hans er bankahrunið núna aðallega útaf því að fjölmiðlalögunum árið 2004 var komið fyrir kattarnef án þess þó að þjóðin fengi um það að kjósa. Ég er sammála Hannesi um að átökin 2004 hafi verið markverð pólitísk átök. Þeir sem halloka fóru þar geta þó ekki endalaust kennt þeim ósigri um allt sem miður hefur farið síðan.

Átökin árið 2004 kristölluðust í fjölmiðlalögunum. Nú virðist það vera innganga í Evrópusambandið sem eigi að skilja sauðina frá höfrunum. Gallinn er bara sá að mál eru sjaldan eins einföld og þau virðast vera.

Upphrópanir útrásarandstæðinga eru að verða svolítið holar. Ef gera á andstöðu við Evrópuaðild að skilyrði þess að vera tækur til mótmæla þá er ég farinn. Mín skoðun er sú að við Íslendingar séum svo fáir og smáir að við getum farið okkur að voða í viðsjálum heimi. Því sé okkur hollast að halla okkur að Evrópu. Þetta hefur ekkert með núverandi kreppu að gera. Hún sýnir þó að varkárni er þörf.

Hróp Evrópuandstæðinga um að með því að vilja ganga í Evrópusambandið sé ég orðinn landráðamaður læt ég mér í léttu rúmi liggja. Að ég sé með því kominn í lið með útrásarvíkingum og andstæðingum náttúruverndar er verra mál. Dilkadráttur af því tagi er samt það sem pólitík dagsins virðist kalla á.

Ég er málfarsfasisti. Þessi klausa er af Eyjunni og bara af því að málfarið þarna er ekki eins og mér finnst að það eigi að vera er ég sjálfkrafa dálítið á móti þessu. Eflaust er þetta samt ágætis tillaga.

Hvernig væri að setja upp útimarkað niður á höfn þar sem skemmtiferðaskipin leggja að og koma með alla túristanna. Þar gæti handverksfólk, sultugerðafólk, listamenn, prjónakonur, hver sem er, sem getur búið til gjaldeyrir. Hvernig væri t.d. að vera með (ostabás vel lyktandi)

Andskotans snjókoma er þetta alla daga. Ekki nóg með að þessi hvíti ófögnuður geri allt erfiðara heldur fer allt í vitleysu þegar þetta breytist í vatn. Skíðafólk fagnar þessu kannski en má ekki vera að því að renna sér núna vegna snjómoksturs! Segi bara svona.

 

547. - Áframhaldandi pælingar um DV-málið og ýmislegt fleira

Fæ oftast ekki mikið af athugasemdum með gagnrýni á mig og mín skrif. Við BenAx ( líklega Benedikt Axelsson) vil ég bara segja að ég veit ekkert hvernig kaupin gerast á DV-eyrinni. Bara að spögulera. 

Sisi sem ég veit ekkert hver er skilur mín skrif á sinn hátt og ég get ekkert að því gert. Hef áður skrifað um sjálfsgagnrýni á fjölmiðlum og held að hún sé jafnvel verri en önnur. Miklu algengari líka. Baldur fullyrðir líka eitthvað sem ég held að hann viti ekki fyrir víst.

Eitthvað er að breytast varðandi mótmæli og þessháttar. Fréttir eru líka orðnar talsvert öðruvísi en var. Ég er ekki frá því að alvarleiki fjármálakreppunnar sé farinn að renna upp fyrir fjölmiðlungum. Stórlega skertum lífskjörum almennings næstu árin er ekki hægt að stinga undir stól.

Þegar íslenska sjónvarpið hóf göngu sína árið 1966 spáðu margir illa fyrir öðrum fjölmiðlum. Það hefur ekki nema að hluta komið fram. Bækur virðast til dæmis halda hlut sínum allvel og gera ef til vill líka gagnvart Netinu. Að fólk borgi peninga fyrir að fá fréttir og að njóta froðuskemmtunar er alveg fráleitt. Auglýsendur eru smám saman að uppgötva Netið og þegar fjármagn þeirra er farið frá hinum miðlunum er lítið eftir.

Ástandið í Zimbabwe er skelfilegt. Öðru hvoru birtast tölur um verðbólguna sem þar ríkir. Þær tölur breytast ört og segja í rauninni lítið. Um daginn var í ríkissjónvarpinu enn og aftur sagt frá ástandinu þar. Þar kom fram að einn maður af hverjum tíu hefði atvinnu. Það finnst mér vera nokkuð sem betra er að átta sig á en verðbólgutölunum.

Einu sinni var það svo að þegar komið var í Tíðaskarð á leiðinni að norðan blasti ljósadýrðin í höfuðborginni við. Nú fara næstum allir í gegnum rörið undir fjörðinn. Við borun ganganna var gert ráð fyrir að sumir þyrðu ekki að fara í þau og færu frekar fyrir Hvalfjörð. Í eldgamla daga lá vegurinn fyrir Hvalfjörð rétt hjá Staupasteini sem hlýtur að vera þarna ennþá. Mig minnir endilega að hann sé ekki langt frá Tiðaskarði.

 

546. - Svona finnst mér stóra DV-málið líta út

Menn eru enn með þetta DV-mál á heilanum. Ég skal lýsa í stuttu máli hvernig ég held að þetta hafi gengið fyrir sig.

Blaðamaðurinn verður fúll yfir því að fréttin sem hann skrifaði um Sigurjón í bankanum birtist ekki í blaðinu. Hann hélt endilega að þetta væri merkileg grein og honum hafði skilist að hún yrði örugglega birt. Ritstjórinn segir að hann geti ekki birt hana og ber ýmsu við. Smám saman magnast gremjan hjá blaðamanninum og þar sem hann treystir ritstjóranum ekki tekur hann segulband með sér og fer enn og aftur að kvarta við hann.

Ritstjórinn veður úr einu í annað og heldur því fram að honum hafi verið hótað öllu illu ef hann birti þessa merkilegu grein. Reynir að friða blaðamanninn og fá hann góðan. Það gengur ekki og blaðamaðurinn hefur allt á hornum sér.

Svo skrifar blaðamaðurinn nýja grein um þetta allt saman og fær hana birta í Nei-blaðinu á vefnum sem veitir ekki af auglýsingunni.

Ritstjórinn snýr við blaðinu þegar hann sér greinina í nei-inu og kannast ekki við neitt. Veit ekki af upptökunni. Þegar Kastljósfólkið heyrir upptökuna sér það upplagt tækifæri til að ná sér niðri á manninum með hattinn sem þau eru hvort eð er orðin hundleið á.

Síðan fer allt á fullt.

Ég held semsagt að þó Reynir segi eflaust ekki satt og rétt frá þá sé engin sérstök hótum sem tengist þessari frétt. En trúverðugleiki hans og blaðsins er endanlega farinn held ég.

Þessar eilífu fréttir í fjölmiðlum um fréttamenn og blaðamenn og hvernig þeir haga sér og hugsa heitir að pönkast á almenningi. Það er fleira sem skiptir máli.

Jón Gerald, Jónína Ben og Sverrir Stormsker hamast við það á Útvarpi Sögu að endurlífga Baugsmálið allt saman. Það heyrðist mér að minnsta kosti í bílnum áðan. Það eru áhugaverðir tímar í vændum.

 

545. - Bjarnastaða beljurnar baula mikið núna. Eru að verða vitlausar það vantar eina kúna

Þetta er vísa sem var mjög vinsæl í mínu ungdæmi. Alveg meiningarlaus þó og óttalegt þrugl.

Þegar ég fór að vinna í byggingavörudeildinni í Borgarnesi árið 1978 voru þónokkur verkfæranöfn sem komu á óvart. Öfugugginn var samt það merkilegasta. Öflug og sterk skrúfa með öfugum skrúfgangi ætluð til þess meðal annars að ná borðaboltum út eftir að borað hafði verið í hausinn á þeim.

Hamrar voru þarna líka í miklu úrvali. Klaufhamrar, kúluhamrar, Gúmmíkjullur, plastkjullur, glerhamrar, sleggjur, slaghamrar og svo framvegis

Sömuleiðis sílar, nafrar, afeinangrunartengur, visegrip tengur, naglbítar, síðubítar, flatkjöftur, dúkknálar og svo mætti lengi telja.

Hóffjaðrir voru aldrei kallaðar annað en hóffjaðrir. Hefði einhver farið að tala um hesta eða nagla í sambandi við þær hefði verið horft á hann í forundran.

Sagt er að óskastund sé á hverjum degi. Sæmundur fróði kom í skála og tilkynnti að nú væri óskastundin. Ein vinnukonan sagði þá strax:

Eina vildi ég eiga mér
óskina svo góða.
Að ég ætti syni sjö
með Sæmundi hinum fróða.

Þetta rættist segir þjóðsagan og allir urðu þeir prestar. En...

Mörgum þótti málug ég.
Mælti kerling skrýtileg.
Þagað gat ég þó með sann
þegar Skálholtskirkja brann.

Og brunnu þeir þar inni allir sjö.

"Þetta er ungt og leikur sér" sagði Imba í sjónvarpsfréttum í kvöld. Eða þannig skildi ég hana. Landslagið í stjórnmálum er að breytast. Mótmæli að aukast og harkan líka. Lögreglan barmar sér yfir hve dýrt sé að standa í svona löguðu en ég vorkenni þeim ekki baun. Bjarni Harðarson hefur lög að mæla þegar hann talar um ástarsamband fjölmiðla, stjórnmálaflokka og auðkýfinga. Hinsvegar held ég að þarna eigi allir flokkar sök ekki bara einhverjir útvaldir. Stjórnvöld eru þó af eðlilegum ástæðum meira milli tannanna á fólki en stjórnarandstaðan.

 

544. - Jón Bjarki Magnússon, Kastljós, Kompás o.s.frv. Já, það gefst vel að hafa nöfn í fyrirsögnum

Líklega er það merki um pólitíska vakningu hve margir blogga í dag. Mikill fjöldi fólks finnur hjá sér hvöt til að setja orð á blað (eða réttara sagt í skrá). Mér finnst alls ekki að ég sé hrópandi í eyðimörkinni. Ég er heppinn að hafa verið settur á þann stall að vera forsíðubloggari á Moggablogginu. (Guðbjörg Hildur segir að þeir séu 200) Mér finnst það þó ekki hefta mig á neinn hátt en þó er kannski svo án þess að ég geri mér grein fyrir því. 

Grein Jóns Bjarka Magnússonar blaðamanns á DV á vefnum this.is/nei er það sem mesta athygli virðist vekja í dag. Það sem þar er sagt frá kemur mér ekki á óvart. Lengi hefur verið vitað um sjálfsritskoðun flestra fjölmiðla og áhrif valdamanna á hvað birtist þar. Sumir hafa kannski haldið að DV væri minna útsett fyrir þetta en aðrir fjölmiðlar en svo er greinilega ekki.

Svarið við þessari tilraun til að stífla almenna umræðu er auðvitað bloggið. Það er erfiðara en áður var að sópa hlutum undir teppið. Við skulum að minnsta kosti vona að svo sé og að Kastljós, Kompás, Egill Helga, Simmi, Jónas og Lára Hanna standi sig þó aðrir bregðist.

Ég er að reyna að stytta bloggin mín þessa dagana svo þetta verður ekki meira að sinni mema fáeinar myndir.

IMG 1584Ég segi það nú. Alveg er út í hött að ætla sér að leggja morgunleikfimina niður.

IMG 1579Hér er kartöflumaðurinn ógurlegi í biðröð við bæjarins bestu.

IMG 1625Hugmyndin með bréfahnífinn er góð en myndin er léleg.

IMG 1656Hofdi house, Esjan o.s.frv.IMG 1670

Þetta náttúrufyrirbrigði er í Kópavoginum.

 

543. - Um Ómar Ragnarsson, Kolbrúnu Baldursdóttur og fleiri

Ég er að lesa um þessar mundir bók eftir Ómar Ragnarsson. Hún heitir: „Fólk og firnindi" og kom út árið 1994. Eflaust hef ég lesið hana áður en það eru kaflar í henni sem höfða miklu meira til mín núna.

Vorið 2007 dvaldi ég í Fljótavík í viku og var það eftirminnileg dvöl. Við flugum þangað og þaðan og á heimleiðinni lá við slysi þegar flugvélin rakst í barð við flugtak. Það er saga sem ekki verður rakin hér. Þónokkrum árum áður hafði ég farið í gönguferð um Hornstrandir allt frá Hrafnsfirði og norður í Hornvík. Þaðan til Hlöðuvíkur og Kjaransvíkur og yfir til Hesteyrar. Eftir þetta er allt sem Ómar skrifar í þessari bók um Vestfjarðakjálkann mun áhugaverðara. 

Er nýbúinn að uppgötva hvílíkur fjársjóður er á netinu á inntv.is. Þar hef ég aðallega verið að horfa á þáttinn „Í nærveru sálar" sem Kolbrún Baldursdóttir stjórnar. Er búinn að horfa á viðtöl við Bjarna Harðarson, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Guðbjörgu Hildi Kolbeins og á líklega eftir að horfa á fleiri. Líka mun ég eflaust líta á aðra þætti.

Mér finnst þetta vera framtíðin í sjónvarpsfjölmiðlun. Að minnsta kosti á það við ef myndgæðin skipta ekki neinu meginmáli. Það er gott að vera laus við að þurfa að beygja sig undir það ofbeldi sem sérstök tímasetning sjónvarpsþátta er. Horfði samt á Silfur Egils í dag á rauntíma og verð bara að segja að mér finnst gagnrýni sú sem víða heyrist orðið á stjórnvöld hér á Íslandi verða sífellt beittari og beittari. Kannski er ég bara að verða pólitískari og pólitískari.


542. - Stefán Friðrik Stefánsson ætti að "þaga" smástund sjálfur

Stefán Friðrik Stefánsson er þindarlaus bloggari og bloggar gríðarlega mikið. Hugsanlega við allar fréttir sem hann les á mbl.is. Ég er ekkert að lasta það þó hann bloggi mikið. Sumir mundu jafnvel telja mig blogga mikið þó ég telji ekki svo vera.

Hann er einn af þeim sem helst ekki vill að mikið sé kommentað á sín skrif. Það er þessvegna sem ég skrifa um hann hér eða tel mér trú um að svo sé. Komment hjá honum birtast bara ef hann samþykkir þau. Einu sinni ætlaði ég að kommenta hjá honum út af málvillu en hann vildi ekki birta það. Má þó eiga að hann leiðrétti samkvæmt aðfinnslunni.

Nýleg fyrirsögn hjá honum er svona: „Tekst mótmælendunum að þaga í 17 mínútur?" Málvillur eru óvenju ljótar í fyrirsögnum. Hann hefði frekar átt að nota sögnina að þegja. Kannski leiðréttir hann þetta einhverntíma og kannski ekki.

Það er þó miklu mikilvægara að skrifa um mótmælin sjálf. Sumir vona að þau séu að fjara út. Aðrir hið gagnstæða. Ég er í síðarnefnda hópnum en viðurkenni alveg að þetta er að verða svolítið vandræðalegt. Varðandi mótmælin í dag (laugardag) var fólki fyrst ráðlagt að lúta höfði, en síðan var það dregið til baka. Ekki nógu sniðugt.


541. - Mótmæli og krimmar

Það er stiff order að blogga á hverjum degi. Þetta hefur maður vanið sig á og á erfitt með að breyta. Alltaf leggst manni þó eitthvað til og það án þess að linka í fréttir.

Á morgun er laugardagur og vel hugsanlegt að ég fari á Austurvöll einu sinni enn. Mér er svosem sama hvort það verður mikill mannsöfnuður þar eða ekki. Spáð er þokkalegu veðri og það má þá alltaf nota tækifærið til að fara eitthvað annað.

Krimmar eru gríðarlega vinsælir hér á Íslandi um þessar mundir enda lestur þeirra ágætis afþreying. Mér virðist gerð þeirra oftast nokkuð einföld. Aðalmálið sé að fá hugmynd að sæmilegu plotti og fylla upp í það með einhverri froðu. Síðan sé nauðsynlegt að gera froðuna sæmilega áhugaverða og drita plott-atriðum hæfilega saman við. Oftast væri hægt að segja söguna á fáeinum blaðsíðum en það er skiljanlega ekki nærri eins peningavænt. Auðvitað veit ég að ég gæti ekkert gert betur sjálfur og að ég er alltaf svo gagnrýninn og neikvæður. Finnst bara erfitt að festa hugann við svona bókmenntir og les þar að auki hrikalega hægt.


540. - Líf í alheimi. Er nokkuð merkilegra?

Líf á öðrum hnöttum er Svani Gísla Þorkelssyni hugleikið eins og mörgum öðrum. Hann skrifaði dálítið um þetta um daginn og fékk heilmikil viðbrögð. Það kom mér nokkuð á óvart að sumir virðast enn trúa á kenningar Eriks von Danikens á þessu öllu saman.

Ég las bækur Eriks á sínum tíma og fannst þær sannfærandi. Með tímanum varð ég þó æ fráhverfari þessum kenningum hans og ég held að það séu margir ef ekki flestir sem hafa alveg hætt að trúa því að Guðirnir hafi verið geimfarar.

Ég sé ekkert sem mælir á móti því að það sem átti að verða gríðarlega stórt og merkilegt tónlistar og ráðstefnuhús verði næstu áratugina helsta minnismerkið um núverandi kreppu. Það verður hálfleiðinlegt að hafa þetta opna sár í miðri höfuðborginni til langframa en við því er fátt að gera.

Ég hef tekið eftir því undanfarið að þeim mun meira sem maður skrifar því meira á maður óskrifað. Þetta er að minnsta kosti svo með bloggskrif og trúlega önnur einnig.

Ljótur ávani að vera að rembast við að blogga þó maður hafi í rauninni ekkert að segja. Ég er hættur. Að minnsta kosti í dag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband