539. - Hugtakið "Móðuharðindi af mannavöldum" hefur oft verið misnotað en á kannski betur við núna en oft áður

Núverandi efnahagsörðugleikum hefur af sumum verið lýst sem hörðustu kreppu sem riðið hefur yfir landið síðan Móðuharðindin voru og hétu. Aðrir hafa andmælt þessu og talið hina mestu firru. Þetta fer þó aðallega eftir því við hvað er miðað. Sjálfum finnst mér alls ekki hægt að líkja ástandinu nú við raunveruleg harðindi og alvöru kreppu. Mestur hluti þess auðs sem glatast hefur held ég að hafi verið ímyndaður auður. En  áreiðanlega koma margir til með að fara illa útúr núverandi kreppu og hin hrikalega misskipting sem aukist hefur að undanförnu er kannski það alvarlegasta við nýliðið tímabil. 

Gjáin milli þeirra sem lifa í allsnægtum og þeirra sem draga fram lífið með erfiðismunum hefur breikkað mikið að undanförnu. Orsök þessa er mjög líklega sú frjálshyggja sem ráðið hefur lögum og lofum í þjóðfélaginu. Við skulum samt ekki gleyma því að þessi sama frjálshyggja hefur fært okkur talsvert af þeirri velmegun sem vaxið hefur mikið hér að undanförnu.

Ég er eiginlega hættur að hneykslast á spillingarsögum. Þegar Fons breyttist í Stím og svo aftur í Fons eða eitthvað annað héldu margir að nú væri sett nýtt met í vitleysu og fíflagangi. En þessu verður eflaust öllu sópað undir teppið eins og vant er og síðan verða hlutirnir eins og áður.

Ég hef fundið fyrir því að undanförnu að stjórnmálamenn vilja helst að allt þetta kreppufjas verði bara hluti af hinu venjulega pólitíska þrefi. Samt held ég að þau mótmæli sem haldið er uppi af venjulegu fólki hafi áhrif  því þau boða breytta pólitíska hegðun fólks. Pólitíkusar vilja yfirleitt vel en ráða bara alls ekki við ástandið. Í því frjálsræði sem ríkt hefur að undanförnu voru það bara þeir frekustu sem höfðu sitt fram.

Útrásarvíkingarnir voru frekari en aðrir og vissu hvar þeir áttu að beita sér. Þessvegna fór sem fór. Ef við sem ráðum og stjórnmálamennirnir í okkar umboði hefðum sett þeim stólinn fyrir dyrnar hefði líklega verið hægt að halda aftur af þeim. Allt er þetta samt liðin tíð og samtímis því sem við reynum að koma lögum yfir þá sem mest brutu af sér þurfum við vissulega að snúa okkur að því að byggja upp nýtt þjóðfélag og það getum við alveg.

Kári bloggvinur minn Harðarson er með skemmtilega pælingu um Evrópubandalagið og ég hvet þá sem sérstakan áhuga hafa á því máli til að skoða hana og umræðurnar sem þar fara fram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ertu að bera saman gjaldþrot 3 banka við Móðuharðindin þegar 20% þjóðarinnar lést úr hungri og vosbúð?

Hvað næst?  Auknar skuldir þjóðarinnar eru eins og Helförin?

Kalli 11.12.2008 kl. 15:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband