531. - "They are coming to take me away...."

Í bílnum í gær hlustaði ég á gömlu gufuna þar sem verið var segja öðru hvoru frá innrásinni í Seðlabankann og þulurinn sagði svo að með næsta lagi fylgdu kveðjur í Seðlabankann. Ég átti náttúrlega von á laginu fræga "They are coming to take me away..." en svo var ekki.

Æ, ég ætti annars að hætta þessu bloggi um stjórnmál og efnahagsþvarg. Það er svo leiðinlegt. Meðan ég hef nóg að bíta og brenna væri nær að ræða um önnur málefni. Til dæmis að segja frá einhverju sögulegu. Mitt minni nær aftur í gráa forneskju sumra. Merkilegt.

Ég man vel eftir því þegar það var talin klukkustundarferð í bíl að fara milli Hveragerðis og Reykjavíkur. Fimmtíu kílómetra steinninn var uppvið Kamba. Hvar hann er núna veit ég ekki. Það þótti hraustlega gert að hjóla upp alla Kamba á þeim tíma. Ekki gerði ég það oft en einu sinni man ég eftir að hafa farið alla leið upp að Skíðaskála.

Með vissu millibili mátti finna glerflöskur undan gosdrykkjum við veginn. Ekki var hægt að láta hjá líða að hirða slík verðmæti og þegar komið var útundir Skíðaskála var þessi flutningur farinn að íþyngja okkur. Man þó ekki hve margir við vorum. Allir vorum við þó hjólandi og við Skíðaskálann snerum við aftur í áttina til Hveragerðis.

Á leiðinni niður Kamba slitnaði keðjan á hjólinu mínu og ég gat ekki bremsað neitt. Líklega hef ég aldrei orðið hræddari á hjóli. Sem betur fór voru ekki nema tvær eða þrjár beygjur eftir þegar keðjan slitnaði svo allt fór þetta vel. Hraðinn varð samt óskaplegur. Hraðamælar voru á þessum tíma að byrja að tíðkast á reiðhjólum en ég var ekki með slíkan grip. Hraðinn hefur þó sjálfsagt náð svona sextíu til sjötíu kílómetrum á klukkustund þegar mest var. Það er ógnarhraði á holóttum malarvegi.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, okkar kynslóð man ýmislegt, ekki síst varðandi samgöngur. Það urðu ansi miklar breytingar á viðskiptaumhverfinu um það leyti sem við vorum að Bifröst. Nefni bara að fram að Viðreisn var aldeilis ótrúlega mikið mál að fá hjólbarða undir þá fáu bíla sem til voru í landinu. Barum hjólbarðar frá Tékkóslóvakíu (sem þá var) voru nánast það eina sem fékkst og voru alls ekki góð. Svo fóru að koma rússnesk dekk og þau voru nokkuð skárri. Fyrstu almennilegu dekkin, sem við fengum undir gamla Willys jeppann á heimilinu (CJ2A) voru frá Gislaved og voru reyndar ætluð undir fólksbíla, þ.e. ekki með jeppamynstri. En það var mikil hátíð samt að aka á þeim. Nú, svo mætti ræða vegina í löngu máli! 

Ellismellur 3.12.2008 kl. 13:19

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Ég man eftir gamla veginum niður kambana.. pabbi bræddi eitt sinn úr Trabant á leiðinni upp.. og lét bílinn renna alla leið til baka inn í Hveragerði og náði að parkera honum fyrir framan verkstæði.. frekar töff svona eftir á séð.. Þetta voru mikil ferðalög yfir heiðina í Eden og Mikkelsen á þessum tíma í kringum 1970. 

Hvenær var heiðin malbikuð ? 

Óskar Þorkelsson, 3.12.2008 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband