2568 - Trumpfjandinn

Það dugir ekki að skrifa nafnið sitt á blað með tilþrifum og með fjölda fólks standandi í kringum sig og segja: „Sjáið hvernig ég breyti heiminum“. Tromparinn á eftir að komast að því að forseti Bandaríkjanna getur ekki bara gefið ordrur í allar áttir eins og Bör Börsson, því völd hans eru talsvert takmörkuð. T.d. þarf hann samþykki bandaríkjaþings til að reisa múrinn sinn, því hann kostar peninga og þingið heldur fast um pyngjuna. Hann getur að vísu gert ógilda ýmsa milliríkjasamninga, en hann getur ekki ákveðið uppá sitt eindæmi að setja tolla uppá 20 % eða meira á hinar og þessar vörur frá hinum og þessum stöðum.

Kannski getur hann samt bannað fólki að koma til Bandaríkjanna. Helsta vörn Trumps virðist mér vera að hann þykist „ekkert mikið verri en Obama“. Svolítið sannleikskorn er í því. Það eru furðu margir Bandaríkjamenn sem hugsa líkt og Trump. Þ.e.a.s. ef þeir hugsa um stjórnmál yfirleitt. Obama var enginn engill. Mér virðist að margir gleymi því. Í það heila tekið virðist margt vera líkt og á fyrirstríðsárunum. Líklega er millistríðsárunum og hinum glöðu og skemmtilegu „twenties“ lokið. Sú kynslóð sem nú ræður öllu man ekki persónulega eftir hörmungum stríðsáranna. Stríð þau sem nú er verið að undirbúa verða verulega frábrugðin fyrri stríðum.

Margt er mannanna bölið og misjafnt drukkið ölið var einu sinni sagt. Heimsósómaljóð eru ekki lengur gerð þó ósóminn sé mikill. Margir bandaríkjamenn áttu á sínum tíma erfitt með að greina á milli Osama og Obama. Störf þeirra voru samt ekki mjög lík.

Er ekki alveg viss um að þetta hafi nokkurntíma komist að á blogginu mínu. Þó kann það að vera. Aldrei hef ég safnað saman vísum eftir mig. Hefði þó kannski átt að gera það. Einstöku sinnum tekst mér að gera sæmilegar vísur.

Á sunnudagsmorguninn einmitt um það leyti sem öskufallið var að stríða mönnum sem mest í nágrenni Vatnajökuls fór ég í gönguferð útá Kársnes. Þar var veðrið sérlega gott. Um það orti ég tvær vísur:

Í vaxandi mæli ef veðrið er gott
þá vel ég að sitja á bekkjum.
Gráðið á voginum Fossvogs er flott
og fegurðin losnar úr hlekkjum.

Blærinn er svalur og birtan er góð,
brunandi hjólin þau syngja.
Veturinn farinn og vorið í móð,
en veraldaráhyggjur þyngja.

IMG 0976   CopyEinhver mynd.


2567 - Óánægður Sókrates

Hvort er betra að vera ánægt svín eða óánægður Sókrates?

Getur Guð skapað svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum?

Vel má halda því fram að þessar spurningar séu heimspekilegs eðlis. Heimspekin kemur þó fyrst við sögu ef reynt er að svara þessum spurningum af einhverju viti. Ég treysti mér ekki til þess.

Montið í þessum rudda er næstum óþolandi. Já, ég á við Trump. Mér finnst hann bölvaður ruddi og óþolandi sjálfumglaður að auki. Þetta verða Bandaríkjamenn að sætta sig við. Eiginlega er ég ekkert hissa á því þó að sumum líki bara vel við hann. Við því er ekkert að segja. Vonandi þurfum við sem ekki erum Bandaríkjamenn ekki að verða fyrir neinum kárínum af hans hálfu. Þó má búast við að áhrif hans á þróun heimsmála verði einhver.

Flokkun sorps er engin nýlunda. Þetta hefur verið gert mjög víða áratugum saman. Þó eigum við Íslendingar í miklum vandræðum með þetta. Í Reykjavík láta menn eins og þetta sé merk nýjung eftir að hafa hvorki hreyft legg né lið í þessa átt mjög lengi. Svei mér ef Sjálfstæðismenn hefðu ekki verið búnir að gera eitthvað. Geirs Hallgrímssonar er t.d. minnst fyrir það að hafa staðið fyrir malbikun nær allra gatna í höfuðborginni. Sorpflokkun gerist ekki af sjálfu sér. Yfirvöld þurfa að skipta sér af þessu. Það er hægt að gera á margan hátt. Það þarf ekki einu sinni að kosta þau veruleg fjárútlát. Fólk fer eftir buddunni. Ef það er dýrara að vera sóði þá hætta flestir því. Það er sannarlega ömurlegt fyrir yfirvöld að þurfa að elta almenningsálitið í stað þess að reyna að hafa áhrif á það.

Lyftuskömmin hér á Hagaflöt virðist ekki vera fær um að hugsa jafnhægt og ég!! Þegar ég er t.d. staddur á fjórðu hæð á ég það stundum til að ýta á 4 því það kemur alveg fyrir að ég sé pínulítið ruglaður. Lyftan hættir þá snimmhendis við að loka sér, þó hún sé byrjuð á því, og opnar hurðina aftur upp á gátt. Þá ýti ég gjarnan á 1 eftir smávegis umhugsun og þá lokar hún sér og fer þangað.

Nú er ég að mestu búinn að hella úr skálum reiði minnar. Miðlar eins og Moggabloggið og Fésbókin eru stundum álitnir hafa breytt heiminum. Flestum finnst það hafa verið til hins verra. Ekki er ég þó sama sinnis. Mér finnst heimurinn sífellt vera að batna. Líkfundurinn í Selvoginum í dag dregur ekki úr því. Auðvitað finn ég til með foreldrum Birnu, en svo ég reyni að ljúka þessu á heimspekilegum nótum þá verð ég að segja það að við Íslendingar erum og höfum verið ákaflega lausir við alvarlega glæpi hingað til.

IMG 2270Einhver mynd.


2566 - Um Donald Trump og ýmsa fleiri

Últrahægrisinnar um allan heim munu fagna því að Trump skuli vera orðinn forseti Bandaríkjanna. Aðrir ekki. Heima fyrir virðist hann njóta talsverðs fylgis. Hatur heimsins á Bandarísku stjórninni mun bitna á þeim suðupotti mannlegrar snilligáfu sem Bandaríkin vissulega eru. Þ.e.a.s. þjóðinni allri. Einangrunarhyggja sú sem tröllríða mun heiminum á næstu misserum mun auðveldlega geta valdið auknum illindum milli ríkja. Þær framfarir sem orðið hafa síðan í síðari heimsstyrjöldinni kunna að vera í hættu. Kjarnorkuógnin gæti komið aftur.

Falin er í illspá hverri
ósk um hrakför sýnu verri,

orti Stephen G. Stephensen í kvæði sínu um Jón Hrak. Margir óska þess að sú stefnubreyting sem Trump vissulega boðar, verði til þess að hægri menn um allan heim fari sem mesta hrakför. Ekki er víst að svo verði því það stríð sem stórveldin halda úti í Sýrlandi getur hæglega breiðst út og orðið mun hættulegra heimsfriðnum en nú er. Ef svo fer er alls ekki víst að það verði Trump einum að kenna. Þó ég hafi áhuga á heimspólitík er ekki þar með sagt að ég hafi réttara fyrir mér en aðrir.

Ef menn vilja endilega finna sér eitthvað til að rífast um, þá geta menn t.d. fjallað um það hvort Hillary Clinton hefði átt að vera viðstödd embættistöku Trumps eður ei.

Nýjasta Hollywood kjaftasagan er víst sú að Brad Pitt sé búinn að gera Kate Hudson dóttur Goldie Hawn ólétta og jafnvel fluttur inn til hennar. Sel þetta ekki dýrara en ég keypti það. Man að ég tók eftir því í áramótaskaupinu að einhverjir tóku skilnaðinn nærri sér. Hvaða skilnaður það var veit ég ekki.

Hvort heitir geðlæknirinn Óttar eða Óttarr? Lítill vafi er á þessu með ráðherrann. Hann heitir Óttarr. Með aukaföllin held ég að sé lítill ágreiningur. Kannski eru bæði nöfnin jafngild. Eiginlega hallast ég að því. T.d. geta menn ýmist verið Sigurðssynir eða Sigurðarsynir. Þetta minnir mig á ættfræðina. Lengi hef ég haldið að geðlæknirinn Óttar væri bróðir Guðmundar nokkurs sem einnig var geðlæknir en starfaði sem heimilislæknir. Báðir væru þeir synir Guðmundar Sigurðssonar sem kallaður var skólaskáld. Kannski er þetta tóm vitleysa í mér enda hef ég aldrei verið sterkur í ættfræðinni. Það væri þá frekar að Bjarni frændi eða Björgvin bróðir væru það.

Nú er þetta blogg, alveg óforvarendis orðið, að mér sýnist, nægilega langt til að vera sett upp á Moggabloggið. Já, margt má svosem um Moggabloggið segja en ég held að ég sleppi því að þessu sinni.

IMG 2274Einhver mynd.


2565 - Obama og Trump

Var lengi vel að vona að Birna sú Brjánsdóttir sem leitað er að núna væri ekki dóttir Brjáns Guðjónssonar, sem ég kannast nokkuð vel við af netinu þó ég hafi aldrei séð hann. Nú áðan þorði ég í fyrsta sinn að fara inná fésbókarsíðuna hans og sé að sú von mín er ómark. Ég þarf ekki að taka fram að hugur minn er hjá honum og ég vona svo sannarlega að hún finnist lifandi. Þetta er þyngra en tárum taki. Að undanförnu hefur samband okkar á netinu minnkað en samt man ég vel eftir honum. Megi allar góðar vættir styðja þig Brjánn minn.

Obama Bandaríkjaforseti hamast nú við að taka til á skrifborðinu hjá sér áður en Trump og hans menn taka við þann tuttugasta janúar, eða á föstudaginn kemur. Ekki getur hann víst staðið við að loka Guantanamo-fangabúðunum eins og hann lofaði, en ýmislegu öðru má reyna að koma í verk áður en óvinurinn sjálfur tekur við.

Ekki er víst að Trump takist að afturkalla allt sem Obama hefur gert en vissulega mun hann reyna. Margt bendir til að óánægjan með Donald Trump sé meiri en venjulegt er með forseta þar um slóðir. Stórblöðin flest, demókratar næstum allir, meira að segja margir repúblikanar og fleiri eru alfarið á móti honum, en samt styðja ýmsir hann og þó búast megi við að honum verði stórlega á í alþjóðasamskiptum er því ekki að neita að margir Bandaríkjamenn styðja hann þó og óttalegir trúarnöttarar og fordómafullir einstaklingar eru áreiðanlega þar á meðal.

Rétt kjörinn forseti er hann líka þó margir vilji kenna ýmsu öðru en heiðarleika um kosningasigur hans. Andstæðingur hans Hillary Clinton hefur viðurkennt ósigur sinn fyrir honum. Sagt er að Obama forseti hafi verið því fylgjandi að hún gerði það. Þegar kjörmennirnir komu saman í höfuðborgum ríkjanna í desember s.l. kusu líka mun fleiri Trump en hana eins og þeim var uppálagt. Atkvæði vega misjafnlega mikið þar í Guðs eigin landi ekki síður en annarsstaðar m.a. hér á Íslandi.

Átta menn eiga meiri eignir en helmingur mannkyns. Þetta fullyrðir Newsweek og hefur eftir öðrum. Ískyggilegt er að fáir hrökkva við. Allir vita að auðæfum heimsins er ákaflega misskipt milli landa, þjóða, svæða, heimsálfa og einstaklinga. Svo hefur lengi verið. Fyrr eða síðar mun þetta valda miklum vandræðum. Það eru þeir allra ríkustu sem eru manna ólíklegustir til að skilja þetta og er það skaði því þessvegna mun seint verða ráðin bót á þessu nema með miklum látum. Kommúisminn er ekki lausnin. Kapítalisminn ekki heldur. Skandinavisminn sem ég vil kalla svo er líklegri. Með öðrum orðum þá held ég að t.d. að það skipulag sem í gildi er í Svíþjóð og Noregi og fleiri ríkjum, sé mun líklegra til að koma í veg fyrir þriðju heimsstyrjöldina en Bandaríkin, Rússland og Kína. Þá miða ég ekki sérstaklega við Trumpismann eða Merkelismann.

Auðvitað getur Trump valdið miklum skaða á fjórum, svo ég tali nú ekki um átta árum. Hætt er við að andstæður Norðurs og Suðurs muni aukast. Bandaríkin einangrast. Kalda stríðið magnast o.s.frv. á þessum tíma. Pútín muni koðna niður og Kínverskir leiðtogar koma fram á sjónarsviðið. Nú er ég farinn að spá en það vil ég helst ekki. Enda er sem betur fer oftast lítið að marka það.

Til eru þeir Íslendingar sem virðast halda eða vilja gjarnan halda, að boltaleikir hvers konar séu það sem veröldin snúist um. Vitanlega er þægilegt að sýna slíkum leikjum sem mestan áhuga en nauðsynlegt er að skilja að þó íslendingum gangi sæmilega í sumum boltaleikjum í bili og jafnvel í öðrum íþróttagreinum einnig, þá hefur það lítið að gera með hvernig þjóðinni farnast á þeim sviðum sem meira máli skipta um afkomu hennar.

IMG 2278Einhver mynd.


2564 - Berbrjósta

Man vel eftir því að þegar ég fór til Mallorca í fyrsta skipti, sem líklega hefur verið svona laust eftir 1980, var það mikill siður, og hafði verið lengi, hjá þeim ungu konum sem þangað fóru að vera berbrjósta á ströndinni og við sundlaugar. Spænsk yfirvöld ömuðust lítið við slíku. Hitti einhverja stúlku þar sem ég kannaðist svolítið við og hún var þannig klædd (eða óklædd). Man að mér þótti það fremur óþægilegt og man ekkert eftir því hvað við töluðum um eða hver hún var. Man bara að hún var berbrjósta og ég þurfti að vanda mig alveg sérstaklega við að stara ekki á brjóstin á henni.

Þetta segi ég vegna þess að nýlega var frá því skýrt að einhver kona hefði farið berbrjósta í sundlaugina hér á Akranesi og verið rekin uppúr fyrir vikið. „Free the nipple“ herferðin sem hér á Íslandi þótti afar merkileg og mikilvæg fyrir fáum misserum síðan, sýnir „karlrembusvínum“ eins og mér að þó við höldum því oft fram að þróun öll, sem kvenréttindi varðar, gangi fremur hratt fyrir sig, er ekkert víst að svo sé. A.m.k. er kvenfólki vorkunn þó því finnist hægt ganga.

Auðvitað er það til marks um hve fjölmiðlum hættir til að vera ómerkilegir að RUV skuli hafa haldið því fram í alvöru að einhverjir séu að undirbúa fund milli Trump og Pútíns hér í Reykjavík. Ísland er alls ekki miðpunktur heimsins eins og sumir virðast halda. Samt datt enskum blaðamanni þetta í hug og það var samstundir sett á prent í einhverju blaði þar og lapið upp hjá RUV þó allir sem málið varðar þverneiti því. Sú neitun er að vísu óttalegt ómark, því þó valt sé að treysta ómerkilegum blaðsneplum er enn verra að treysta því að stjórnvöld segi satt. Það vitum við af biturri reynslu.

Mér skilst að Twitter innlegg megi ekki vera meira en 140 bókstafa löng. Þannig takmörk henta mér ekki. „Attention span“ fólks hefur að vísu styst en fyrr má nú rota en dauðrota. Sagt er að Donald Trump noti Twitter mikið, einkum seinni part nætur. Meira að segja takmörk þau sem fésbókin setur áður en framhaldsmerkið kemur er alltof stutt fyrir mig. Þessvegna held ég mig við bloggið þó Moggablogg sé. Samt reyni ég a.m.k. stundum að blogga stutt.

Einhver mynd.IMG 2328


2563 - Mannréttindi

Nú er ekki lengur nóg að vera tattóveraður, kolefnisjafnaður og aflitaður heldur þarf víst að vera vegan og í rauðakrossfötum líka. Allt er þetta gert til þess að ná hugsanlega hundrað ára aldri. Eina afsökunin fyrir því að fá að deyja fyrir aldur fram er nútildax sú að vera poppsöngvari eða frægur leikari/leikkona. Auðvitað er það ekki öllum gefið og sumir grípa til þess örþrifaráðs að farga sér tímabundið án þess að hafa öðlast nægilega frægð. Það nefnist geðveiki og er víst allra meina bót.

Ef ég væri í fullu fjöri og fengi borgað fyrir það, mundi ég kannski skrifa meira, því segja má að skrif allskonar séu mínar ær og kýr. Jafnvel væri hægt að segja að ég sé bara alveg sæmilegur bloggari. Auðvitað finnst mér að miklu fleiri ættu að lesa það sem ég læt frá mér fara. Ekki get ég þó neytt neinn til þess.

Samt er mesta furða hve margir lesa þetta. Stundum veit ég varla sjálfur hvað er raunveruleiki og hvað er ímyndun. Auglýsingastarfsemi og promotion hverskonar á þó fremur illa við mig og jafnvel er of seint að stunda slíkt núna því ég gerist það aldraður að hugsalega er lífinu að ljúka hjá mér og að sumu leyti má segja að ég hafi sólundað því. Hálfkæringur og kaldhæðni eru samt eiginleikar sem ég þykist hafa á valdi mínu. Alvarlegur er ég þó alltaf inn á milli.

Mannréttindi eru á undanhaldi í heiminum. Sigur Trumps í forsetakosningunum í Bandaríkjunum er til marks um það. Segja má að hann hafi komist til valda með ófyrirleitni, skítkasti, lygum, kynþáttafordómum og ýmsu öðru miður fallegu. Engu að síður verður að taka tillit til hans og sjónarmiða hans. Segja má að andúð sú á flóttamönnum og hælisleitendum sem vart hefur orðið víða í Evrópu, framkoma Dutertis á Filippseyjum og annarra harðstjóra og ríkisstjórna víðsvegar um heiminn t.d. í Kína og Rússlandi ógni á ýmsan hátt mannréttindum. Já, jafnvel má segja að lýðræðið sé ekki sú allra meina bót sem haldið hefur verið fram.

Viljandi hef ég ekkert minnst á stríðið í Sýrlandi. Þar má segja að stórveldin takist á. Rússar eru að mínu viti að reyna að gera sig gildandi aftur eftir að hafa tapað eftirminnilega í kalda stríðinu. Við verðum að sæta því að vera á áhrifasvæði Bandaríkjanna fremur en Kína og Rússlands. Mannréttindin margumtöluðu eru samt ekkert betur komin hjá Saudi-Arabíu en í Kína eða Rússlandi. Já, eða t.d. í Tyrklandi. Um þetta allt saman ætla ég ekki að fullyrða mikið enda skortir mig þekkingu til þess.

IMG 2380Einhver mynd.


2562 - Ný ríkisstjórn

Á síðasta þingi var Óttarr Proppé einn þeirra þingmanna sem ég bar einna mest traust til. Samt kaus ég ekki Bjarta Framtíð heldur Píratana. Ekki var það einkum vegna Birgittu Jónsdóttur eða Smára McCarty. Heldur hugnaðist mér betur stefnuskrá þeirra og áhersluatriði en annarra.

Nú virðist Óttarr Proppé semsagt vera orðinn heilbrigðisráðherra. Ekki held ég að hann hafi lagt lag sig við þá Engeyjarmenn af því hann vilji bregðast þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Kannski hefur hann samt séð eftir því að hafa gert það og vill gerast heilbrigðisráðherra í því skyni að gera gagn þar. Margir virðast nefnilega álíta það embætti eitt það erfiðasta og vanþakklátasta af ráðherraembættunum. Aðra ráðherra kannast ég lítið við nema Guðlaug utanríkisráðherra sem var skólabróðir sona minna og ég þekkti eitt sinn föður hans. Miðað við framkomu í sjónvarpsútsendingum úr þingsal og vegna þess að hann var eitt sinn vinnufélagi minn hjá Stöð 2 hefði ég samt í sporum Bjarna Benedikssonar ekki gert Jón Gunnarsson að ráðherra. Pál Magnússon þekki ég lítið þó ég muni vel eftir honum frá Stöðvar 2 árum mínum.

Vel getur verið að sú stjórn sem nú tekur við verði sæmilega farsæl þrátt fyrir nauman þingmeirihluta. Ekki er fyrirfram víst að stjórnarandstaðan verði samstíga um mikilvæg mál og þessvegna gæti þessi meirihluti dugað. Útilokað er þó að spá nokkru ákveðnu um framhaldið.                                                            

Var að skoða skrípamynd af ríkisstjórnarmynduninni þar sem Benedikt og Óttarr hamast við að styrkja innviðina í hásæti Bjarna Benedikssonar. Sýndist standa þar á einni spýtunni „Eignir í afdölum.“ Við nánari athugun kom þó í ljós að þarna var um að ræða „Eignir í aflöndum.“ Kannski væri Bjarni best kominn í afdölum eftir alla afleikina í sambandi við afburðaskýrsluna sem hann virðist hafa fengið í september. Allt er það mál heldur klaufalegt og ótraustvekjandi fyrir ríkisstjórnina og Bjarna.

Kannski væri bara best hjá mér að vera ekkert að rembast við vissa lengd á Moggbloggsinnleggjum mínum. Í dag er ég einkum að hugsa um nýju ríkisstjórnina, en ekki er víst að svo verði á morgun.

IMG 2381Einhver mynd.


2561 - Raufarhólshelli lokað

Mér finnst það andskotans frekja. Vel getur verið að ég þekki þá sem eiga hann en mér er alveg sama. Allir vilja græða sem mest á vesalings túristunum. Hef farið nokkrum sinnum í Raufarhólshelli og þó hann liggi undir veginum á kafla hefur hann hingað til fengið að vera í friði. Í hann er mjög athyglisvert að koma. Svipað er að segja um Arnarkerið. Verst var áður fyrr að finna það og komast ofan í það. Nú er þar fjölfarið og kominn stigi niður í það.

Annars er það nafnið „Raufarhólshellir“ sem hefur valdið mér einna mestri umhugsum núna. Hvað er og hvar er Raufarhóll? Er það sama og munaðarhóll (Mons Pubis)? Hvað er þá Raufarhólshellir eiginlega? Samt finnst mér ekki ástæða til að fjölyrða um þetta frekar en annað. Aðrir geta séð um það.

Einhvernvegin finnst mér að þeir sem kusu Bjarta Framtíð í síðustu kosningum hafi ekki verið að kjósa til hægri. Þó kann það að vera. Enginn vafi er með Viðreisn. Nafnið og uppruninn bendir ákveðið til hægri. BB er mjög „slick“ stjórnmálamaður og virðist búa yfir meiri persónutöfrum en SDG gerði. Hann beinlínis stuðaði fólk með einstrengislegum kjaftavaðli sínum. Bjarni kann þó að biðjast afsökunar. Seta hans á aflandsskýslunni er þó í grunninn óafsakanleg. Einkum útaf kosningunum. Hann getur jafnvel grenjað ef þörf er á. Veit ekki hvernig Benedikt reynist sem fjármálaráðherra. Utanríkisráðherraembættið gæti líka skipt máli í alþjóðlegu samhengi, en varla önnur. Stjórnarandstaðan er hugsanlega í meiri vandræðum en stjórnin með sinn nauma meirihluta. Málefnin skipta litlu. Auglýsingalega séð skipta ráðherraefnin og ráðuneytaskiptingin mestu máli.

Allt útlit er fyrir að þessar ríkisstjórnarhugleiðingar verði fljótlega úreltar, svo sennilega er best að setja þetta upp fljótlega

Ekki er örgrannt um að Katrínu Jakobs verði í framtíðinni kennt um að hér taki ein hægri sinnuð Panamastjórn við völdum af annarri. Svona er að vera í forystu stjórnmálaflokks. Ekki mundi ég vilja það. Vel getur þó verið að þessi stjórn verði skárri en SDG-stjórnin sáluga.

IMG 2391Einhver mynd.


2560 - BB

Meðan við íslendingar erum uppteknir af ríkisstjórnarmyndun, eru heimsmáin að taka á sig nýja mynd. Donald Trump er að taka við forsetaembættinu í Bandaríkjunum og Norður-Kórea gerir sínar fyrstu ICBM-tilraunir. ICBM eru enldflaugar sem skjóta má heimsálfa á milli.

Ekki er líklegt að Norður-Kórea geti gert annað en bitið risann í tána, ef svo má segja. Munurinn á hernaðarmætti er gífurlegur. Kannski væri þetta bit í tána samt nægilegt til að koma einhverju af stað. Kannski gæti risinn í Kína rumskað. Satt að segja held ég að forysta Bandaríkjanna meðal vestrænna ríkja gæti verið í hættu ef slíkt gerist. Trump er vel trúandi til að fara fremur ógætilega í utanríkismálum. Samvinna Rússlands og USA gæti sem best komið af stað nýju kaldastríði þar sem óvinurinn væri Kína.

Mér finnst Bjarni Benediksson og hirð hans stefna að því að hér verði allt eða sem flest eins og í Bandaríkjunum. Engum blandast hugur um að Bjarni er sterki maðurinn í fráfarandi ríkisstjón og hann vill helst vera það líka í næstu. Honum finnst að Sjálfstæðisflokkurinn (aka hann sjálfur) eigi að ráða sem mestu í þjóðlífinu. Mér er alveg sama þó hann og hans líkar hafi það gott. Yfirstéttin á ekki að ráða öllu. Það hefur fésbókin og tölvubyltingin í heild sinni kennt okkur. Gallinn við það skipulag sem hér ræður ríkjun (fyrir nú utan alla geðveikina – a la BB) er að alltof margir telja sig með röngu tilheyra yfirstéttinni. Þannig er það bara allsekki. Meðvirknisþrælarnir eru miklu fleiri. Þeir sem vilja breytingar eru úthrópaðir af þeim sem finnst að allt eigi að vera óbreytt áfram og Ísland sé langbesta og mikilvægasta land í heiminum. Niðurrifsfólk heldur þó öðru fram segja þeir sem engu vilja breyta. Þó gagnrýnt sé er ekki þarmeð afneitað öllu jákvæðu.

Eiginlega finnst mér ekki taka því að blogga. Samt eru alltaf einhverjir sem lesa þetta. Veðrið er kannski það eina sem breytist. Flest annað er bara endurtekning. Að minnsta kosti finnst manni það þegar aldurinn færist yfir. Auðvitað væri hægt að fjölyrða endalaust um tilraunirnar til að mynda ríkisstjórn í þessu landi og stjórnmálin yfirleitt, en ég nenni því ekki. Svo er sennilega orðið talsvert langt síðan ég bloggaði síðast og kannski kominn tími til að setja þetta upp á Moggabloggið. Auðvitað er þetta blogg með styttra móti en við því er ekkert að gera.

Líklega eru einhverjir dagar síðan ég ætlaði að setja þetta upp á Moggabloggið en það hefur farist fyrir. En betra er seint en aldrei.

IMG 2425Einhver mynd.


2559 - Nýtt ár og ýmislegt fleira

Ekki er annað að sjá en þeir Putin Rússlandskeisari og Donald Trump væntanlegur forseti Bandríkjanna ætli sér að endurvekja kalda stríðið. Ef nokkuð er að marka það sem Donald Trump segir núna má vel búast við nýju vopnakapphlaupi. Þó er ekki víst að það verði fyrst og fremst á milli rússa og bandaríkjamanna því kínverjar gætu sem hægast blandað sér í þau mál. Æðsti maður þar er okkur Vesturlandabúum ekki eins tamur á tungu og Putin, en enginn vafi er á að efnahagsveldi þeirra er sívaxandi.

Kannski verður kjarnorkuógnin endurvakin þó engir kæri sig í raun um það. Nóg er nú samt. Ef til vill og vonandi er samt alltof fljótt sem Trump er fordæmur að þessu leyti. Vel getur verið að sú nýja hugsun sem hann greinilega kemur með í hinn kapítalíska heim verði eftir allt saman til góðs.

Sósíalismi og kapítalismi verða að koma sér saman ef mannkyninu á að vegna vel. Auðvitað er það einföldun á vandamálum heimsins þegar þau er sett í þetta ljós en betra og þægilegra er að skilja ýmislegt er þekkt hugtök eru notuð.

Að sumu leyti eru þetta fyrstu raunverulegu fésbókarjólin mín. Viðkvæmni, mont, gáfulegar samræður, myndir og allt mögulegt blandast saman. Kannski er þetta allt til góðs. Gamli tíminn kemur aldrei aftur. Allir eru í armsfjarlægð. Einmanaleiki er allt öðruvísi en var.

Held að þetta hafi ég ætlað að setja upp einhverntíma um daginn. Semsagt á árinu 2016. Nú er aftur á móti komið árið 2017 og hér með nota ég tækifærið til að óska þeim fáu sem þetta lesa til hamingju með nýja árið. Kannski er ég búinn að því og kannski ekki. Hefðbundið áramótaávarp held ég að þetta sé samt ekki.

Man að ég hló einu sinni mikið að Bandarískum kvikmyndagerðarmönnum þegar ég sá að þeir höfðu gert Norður-Kóreumenn að aðalóvini USA í staðinn fyrir Rússa. Líklega hefur þetta verið rétt eftir að kalda stríðinu lauk. En Norður-Kóreumenn eru ekkert til að hlægja að. Þeir eru svona 25 milljónir eða fleiri og ógnarstjórnin þar er mikil og jafnvel meiri en í Sovétríkjunum og Kína, eftir því sem sagt er. Sennilega er það alveg rétt hjá Bandaríkjamönnum og þeim í Suður-Kóreu að þeir stefni að því að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Íranir eru búnir að semja um slíkt og segjast bara ætla að nota kjarorku í friðsamlegum tilgangi. Annars mætti vafalaust fjölyrða endalaust um heimsmálin og ég held að ég hafi ekkert minnst á Trump sjálfan hér á undan þó ég hefði kannski átt að gera það. Ekki er örgrannt um að sumir óttist að hann fari að skipta sér of mikið af heimsmálum. Það er jafnvel hægt að telja sér trú um að þau mundu versna við það. Völd hans innanlands eru talsvert takmörkuð. Gera má þó ráð fyrir að hægri stefna, að svo miklu leyti sem hægt er að nota það orð, fari vaxandi í USA og jafnvel víðar.

Jæja, nú tekur hverdagsleikinn við og áramótaheitunum aflokið. Brexit og Trump geta beðið dálítið. Panamaskjölin hafa valdið talsverðum breytingum, sem kannski eru engar breytingar í raun og veru. Sjáum til.

IMG 2420Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband