2564 - Berbrjósta

Man vel eftir því að þegar ég fór til Mallorca í fyrsta skipti, sem líklega hefur verið svona laust eftir 1980, var það mikill siður, og hafði verið lengi, hjá þeim ungu konum sem þangað fóru að vera berbrjósta á ströndinni og við sundlaugar. Spænsk yfirvöld ömuðust lítið við slíku. Hitti einhverja stúlku þar sem ég kannaðist svolítið við og hún var þannig klædd (eða óklædd). Man að mér þótti það fremur óþægilegt og man ekkert eftir því hvað við töluðum um eða hver hún var. Man bara að hún var berbrjósta og ég þurfti að vanda mig alveg sérstaklega við að stara ekki á brjóstin á henni.

Þetta segi ég vegna þess að nýlega var frá því skýrt að einhver kona hefði farið berbrjósta í sundlaugina hér á Akranesi og verið rekin uppúr fyrir vikið. „Free the nipple“ herferðin sem hér á Íslandi þótti afar merkileg og mikilvæg fyrir fáum misserum síðan, sýnir „karlrembusvínum“ eins og mér að þó við höldum því oft fram að þróun öll, sem kvenréttindi varðar, gangi fremur hratt fyrir sig, er ekkert víst að svo sé. A.m.k. er kvenfólki vorkunn þó því finnist hægt ganga.

Auðvitað er það til marks um hve fjölmiðlum hættir til að vera ómerkilegir að RUV skuli hafa haldið því fram í alvöru að einhverjir séu að undirbúa fund milli Trump og Pútíns hér í Reykjavík. Ísland er alls ekki miðpunktur heimsins eins og sumir virðast halda. Samt datt enskum blaðamanni þetta í hug og það var samstundir sett á prent í einhverju blaði þar og lapið upp hjá RUV þó allir sem málið varðar þverneiti því. Sú neitun er að vísu óttalegt ómark, því þó valt sé að treysta ómerkilegum blaðsneplum er enn verra að treysta því að stjórnvöld segi satt. Það vitum við af biturri reynslu.

Mér skilst að Twitter innlegg megi ekki vera meira en 140 bókstafa löng. Þannig takmörk henta mér ekki. „Attention span“ fólks hefur að vísu styst en fyrr má nú rota en dauðrota. Sagt er að Donald Trump noti Twitter mikið, einkum seinni part nætur. Meira að segja takmörk þau sem fésbókin setur áður en framhaldsmerkið kemur er alltof stutt fyrir mig. Þessvegna held ég mig við bloggið þó Moggablogg sé. Samt reyni ég a.m.k. stundum að blogga stutt.

Einhver mynd.IMG 2328


Bloggfærslur 16. janúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband