1637 - JBH og fleira

Scan32Gamla myndin.
Bjarni Sæmundsson og Benedikt Jónsson.

Alveg er það merkilegt hvað margir eru illa að sér um alla skapaða hluti. Jafnvel ég veit ekki nærri því allt. Þó finnst mér það. A.m.k. það sem tekur því að vita.

Af ýmsum ástæðum hef ég lesið næstum allt sem ég hef getað um bréfamálið Jóns Baldvins. Þó hef ég ekki gengið svo langt að kaupa blaðið sem kom þessu öllu af stað nú nýlega, né lesið það sem þar er skrifað. Mest af því sem ég hef lesið hefur verið á netinu og eitthvað í Fréttatímanum. Mér finnst það samt of mikið. Sagt er að margir hafi vitað af þessu en ég var ekki þeirra á meðal. Talsvert álit hef ég haft á pólitískum skoðunum Jóns Baldvins og undrast nokkuð að hann skuli engan frama hafa hlotið innan Samfylkingarinnar. Þó finnst mér hann hafa reynt það. Bréfamálið er hugsanlega skýring þar á.

Þegar ég tala um að JBH hafi engan frama hlotið innan Samfylkingarinnar kemur mér í hug að ekki hefur Ómar Ragnarsson heldur hlotið hann. Eru þeir bara orðnir svona gamlir og ónothæfir að það tekur því ekki að púkka upp á þá? Ekki finnst mér það. Frekar að Bessastaðabóndinn sé orðinn svolítið elliær.

Þóra Tómasdóttir sem er nýlega orðin ritstjóri á Nýju Lífi að ég held ákvað að skrifað yrði um JBH-málið í blaðið. Það álít ég ranga ákvörðun og eingöngu stafa af peningagræðgi. Jón Baldvin hefur marga fjöruna sopið og mörg mistökin gert en samt finnst mér hann ekki eiga skilið að vera á þann hátt á milli tannanna á fólki sem hann hefur verið að undanförnu. Vissulega má kalla það afleit mistök af hans hálfu að hafa verið að skrifa unglingsstúlku á þann hátt sem hann gerði. Ekki fæ ég samt séð að neinn geti verið bættari við að básúna þetta út og ekki finnst mér að ég hafi þurft að vita þetta.

Annars er þetta mál fremur ómerkilegt þó það sé það alls ekki fyrir viðkomandi. Að öðru leyti er það dæmigert kuldakastsmál og varla orðum á það eyðandi enda er ég hérmeð hættur.

Mér finnst vissulega gaman að skoða myndir á fésbókinni og vel er hægt að gleyma sér gjörsamlega við þá iðju. Margir leggja það greinilega á sig að safna saman athyglisverðum myndum. Get samt aldrei varist þeirri hugsun að stór hluti þeirra sé fótósjoppaður eða lagaður til í þartilgerðum forritum. Auðvitað verða myndirnar ekkert verri fyrir það en oft er samt tilefni til að láta þess getið ef svo er. Sjaldan virðist það þó gert. Myndatöku allri hefur fleygt mjög fram og augabliksmyndir eru oft ágætar.

Þegar ég byrjaði að blogga var einn aðalbloggarinn á Moggablogginu Jóna nokkur Gísladóttir. Hún sagði ansi skemmtilega frá og hafði frá mörgu að segja. Einkum sagði hún frá sjálfri sér og sinni fjölskyldu og það á mjög skemmtilegan hátt. Sérstaklega sagði hún vel frá þeim einhverfa. Svo samdi hún bók um hann og fór að skrifa einhversstaðar annarsstaðar og ég hætti að fylgjast með henni. Efirminnilegustu bloggin hennar í mínu minni eru þegar hún hringdi með farsímanum hvað eftir annað í sömu konuna með rassinum. Síminn var semsagt í bílsætinu hjá henni. Líka var það flott frá sagt hjá henni þegar hún átti að mæta í útvarpsviðtal í Efstaleitinu en fór í staðinn að Veðurstofunni og beið þar lengi.

Þeir sem sitja við fésbókina daginn út og daginn inn telja sig vera með fingurinn á púlsi þjóðfélagsins. Það er misskilningur. Þetta fólk er að vísu miklu betur sett en allt það kaffiþambandi lið sem Guðrún frá Lundi skrifaði sem mest um. Allt gengur miklu hraðar fyrir sig núorðið. Hneykslismálin hrannast upp og fólk keppist við að hneykslast og hneykslast en nær aldrei að hneykslast nóg. Strax og einhverjum verður eitthvað á er það komið út um allar koppagrundir og samstundis er smjattið mikið. Fólk nær ekki upp í nefið á sér fyrir hneykslun og finnst það fylgjast ákaflega vel með, en staðreyndin er sú að það eru ímyndarsmiðir allskonar sem mestu áhrifin hafa.

IMG 8065Ætli fuglunum sé ekki kalt?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband