1312 - Lýðræðisbylgjan í Norður-Afríku og Miðausturlöndum

Er að reyna að venja mig af þessu bloggstandi en gengur illa. Finnst að ég þurfi að blogga, sem er auðvitað tóm vitleysa.

Lýðræðisbylgjan sem nú fer um Norður-Afríku og Miðausturlönd er á margan hátt sambærileg við það sem skeði árið 1989 eða svo í Austur-Evrópu þegar þjóðirnar þar brutust undan járnhæl kommúnismans. Hlutirnir gerast hratt og sófaspekingar hafa rangt fyrir sér um flesta hluti. Spá samt um framvinduna eins og brjálaðir menn.

Sjálfur er ég ekki laus við þetta og reikna með margra mánaða pattstöðu í Líbýu. Stríðið þar er í mínum augum einskonar leiksýning fyrir færanlegt fjölmiðlaþorp tuttugustu og fyrstu aldarinnar.

Áróðursstríð er það fremur en nokkuð annað og að venjulegt fólk skuli þurfa að láta lífið fyrir svona lagað er þyngra en tárum taki. Skárra samt en að brjálaður fjöldamorðingi leiki lausum hala og þykist stjórna öllu. Aðdragandi þessa stríðs er á margan hátt líkur aðdraganda Kuwait-stríðsins á tíunda áratug síðustu aldar, nema ekki er um innrás í annað ríki að ræða.

Sé í Fréttatímanum (eina blaðinu sem ég fletti reglulega - enda er það ókeypis og kemur bara út vikulega) að tíu dómsmál gegn DV eru í gangi. Finnst það frekar hraustleikamerki en hitt. Ekki er þó víst að fjöldatölur af þessu tagi segi mikla sögu. DV reynir að berjast gegn útrásarvíkingunum meðan sum önnur blöð styðja þá greinilega eftir mætti.

Fréttabloggi lokið en þó ekki. Sá einhvers staðar um daginn að Steini spil væri dáinn. Man vel eftir hljómsveit Óskars Guðmundssonar sem hann var í þegar ég sótti sveitaböllin með sem mestum áhuga. Þá var það aðalhljómsveitin a.m.k. á Suðurlandi.

Þó ég hugleiði og hugleiði alveg undir drep er ég ekki ennþá búinn að komast að niðurstöðu um hvort ég segi nei eða já í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Ætli ég jánki samt ekki því sem þar er spurt um. Svo gæti alltaf skeð að ég skipti um skoðun.

IMG 5028Háskólinn í Reykjavík.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband