1310 - Um drauma og fleira

Nú er ég nývaknaður eftir að hafa verið andvaka í nótt. Klukkan er að verða níu og ég sé að talan á Moggabloggsteljaranum mínum er að nálgast hundrað sem er frekar mikið.

Greidd voru atkvæði um stjórnlagaráðið á alþingi í gær. Ekki gekk það andskotalaust en hafðist þó. Umboð þess er auðvitað allt annan en það hefði orðið án afskipta hæstaréttar. Vona samt að vel gangi og niðurstaða þess þarf ekkert að verða önnur en hún hefði annars orðið. Finnst samt eins og ég hef áður sagt að betra hefði verið að kjósa aftur. Hér er samt um ásættanlega útkomu að ræða.

Þetta með að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðuna áður en hún er lögð fyrir alþingi er þó í hæpnara lagi eftir það sem á undan er gengið. Fer samt allt eftir því hvernig stemmningin verður í þjóðfélaginu.

Sú gæti að lokum orðið raunin að neyðarlögin svokölluðu verði það sem bjargar okkur í kreppuþrengingunum öllum. Málaferli standa nú yfir um þau og er Ragnar Aðalsteinsson, sú alþýðuhetja, þar að berjast við að fá þau dæmd ógild. Hann starfar í umboði þýsks banka og fleiri að ég held og er auðvitað ekkert síður til sölu en aðrir lögfræðingar.

Á Tenerife í janúar sá ég á mörgum stöðum smáfiska vera að éta táfýlu. Nú virðist þessi siður vera kominn til Íslands líka. Mér finnst hálfilla með fiskana farið að gefa þeim ekki annað að éta. Ekki veit ég hvað kostaði á Kanaríeyjum að að dýfa býfunum í fiskivatn og man ekki eftir að á það hafi verið minnst í kastljósinu í gær.

Kannski eru draumar lykillinn að sálarlífi manna. Mín reynsla er sú að oftast nær dreymi mann eitthvað en gleymi því yfirleitt fljótlega nema draumurinn sé sérstakur eða maður muni hann vel af einhverjum ástæðum. Svo getur farið að maður muni bara hluta draumsins af því maður nær ekki að rifja hann allan upp og festa sér í minni.

Ein aðferð er að skrá niður drauma sína strax og maður vaknar. Slíkt hef ég nokkrum sinnum reynt. Hér er afrit af einni slíkri tilraun:

16/3 2011. Dreymdi enskunámskeið í nótt. Allir í búrum. Aðgangseyrir 100 krónur. Mikið kjöt. Fór með matinn með mér. Annað skipti. Ekki með mat fyrst. Hann eyðilagðist.

Verst er að ég skil þetta ekki og man þar að auki ekkert eftir draumnum. Rámar þó í að búrin hafi verið eins og villidýrabúr eru vön að vera í dýragörðum. Kannski er þetta verkefni fyrir sérfræðinga.

Einu sinni vann ég í pantanadeild KÁ á Selfossi hjá Helga Ágústssyni frá Birtingaholti. Þar skrifaði ég nótur ásamt Rúnu og þær voru svo afgreiddar af Skúla pabba Sigurjóns skólabróður míns frá Bifröst og hans liði.

Á þeim árum þóttist ég vera upprennandi skáld. Skrifaði helling af allskonar bulli og taldi vera ljóð. Safnaði þeim meira að segja saman og fór með til Gunnars Benediktssonar sem þá bjó auðvitað í Hveragerði.

Man að hann taldi þrjú eða fjögur ljóð vera nokkuð góð og bauðst til að reyna að koma einhverjum þeirra á framfæri við Tímarit Máls og Menningar. Ég ætlaðist náttúrulega til að hann félli í stafi yfir snilldinni og fannst ekki mikið til um það. Ekkert varð svo úr neinu og þetta er kannski einhvers staðar til ennþá í drasli hjá mér.

Ein vísa var þarna sem Gunnar skildi ekki og spurði mig hvort hún væri gerð af einhverju sérstöku tilefni. Svo var ekki en mig minnir að vísan hafi verið svona:

Spaðakóngur spýtti í kross.
Spaðadrottning hló.
Laufagosinn lamdi hross
Laufakóngur dó.

Á langri leið kunna spilin, ljóðlínurnar og rímorðin eitthvað að hafa ruglast en einhvernvegin svona var hún.

Eitt af þeim ljóðum sem Gunnari leist sæmilega á minnir mig að hafi verið svona:

Visna vöðvar
veikist máttur.
Herpist hjarta
hljóðnar sláttur.

IMG 5011Skreið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

góðan daginn, mér tókst að geyma þig þar til síðast :) " kaffi bollar komnir rétta leið áður en ég tókst á við þig í morgunsárið . núna er ég tilbúinn í daginn..

Óskar Þorkelsson, 26.3.2011 kl. 07:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband