Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

986 - Maggi mix

Jæja, ég held þá bara mínu striki og læt vaða á súðum. Þegar ég vaknaði seint og um síðir sá ég að komnar voru einar tíu athugasemdir við skrif mín í gær. Þetta er óvenjulegt og sló mig eiginlega alveg útaf laginu. Var einmitt að velta fyrir mér hvernig ég gæti byrjað á næsta bloggi. Nú er það vandamál leyst. Sníkjubloggarar allra landa sameinist og mætið hér. 

Sá líka umfjöllunina um Magga Mix í kastljósinu í gærkvöldi. Er hann að stæla mig eða ég hann? Þarna er ég að vísa í hafragrautarskrifin ef einhver skyldi vera of tornæmur til að skilja það. Svo er heldur ekki víst að allir sem hingað koma þekki deili á Magga Mix. Mér skilst að hann sé aðallega á fésbókinni og vinsæll mjög.

Kristinn Theódórsson skrifar um hræsnina í Jóni Val Jenssyni og ég hef engu við það að bæta. Er bara sammála honum. Er líka hugsi útaf því að ég sé ekki að Agnes Bragadóttir hafi svarað aðal-lögfræðingnum sjálfum sem hjólaði í hana um daginn og sagði hana lygakvendi eða eitthvað þessháttar. Kannski hefur svar Agnesar bara farið framhjá mér.

Það er ekki hægt að búa til verðmæti úr loftinu og hinn fríi hádegisverður er ekki til segja frjálshyggjumenn gjarnan. Það var einmitt frjálshyggjan sem fór svona með okkur eins og allir eru uppteknir af. Siðferðisviðmiðin fuku út í buskann, ekki bara hjá útrásarvíkingunum heldur almennt í þjóðfélaginu. Vinstri sinnuð viðhorf eru vinsælli nú um stundir en var á tímum ofsagróðans. Öllu má samt ofgera og reglugerðir og fyrirmæli stjórnvalda um allt mögulegt eru verkfæri andskotans og koma óorði á vinstrið. Valdhroki getur komið þeim í koll sem honum beita. Já, ég er að tala um dóttur hans Inga R. Hún má vara sig.

Það áhugaverðasta og það sem mest nýnæmi er að í erlendum fréttum þessa dagana er það sem er að gerast í Thailandi. Þar er í gangi einskonar búsáhaldabylting þar sem þess er krafist að ríkisstjórnin segi af sér. Ástandið þar er sífellt að verða einkennilegra og einkennilegra.


985 - Sníkjublogg

Af hverju eru menn eins og Steini Briem og Jóhannes Laxdal Baldvinsson að sníkjublogga svona mikið hjá mér? Til að fyrirbyggja misskilning vil ég taka fram að ég er alls ekki að amast við þeim. Athugasemdir þeirra lífga svo sannarlega uppá bloggið mitt og með þessu verð ég eiginlega þríeinn. Þeir koma oft með önnur sjónarhorn á mál og eru duglegir við að koma með ábendingar um frekari fræðslu um þau efni sem til umræðu eru. Þar að auki hafa báðir greinilega gaman af vísnagerð og eru búnir að fá vissu fyrir því að slíku er ekki illa tekið hér.

Sníkjublogg er leiðindaorð en lýsir þó nokkuð vel því sem ég á við. Báðir eru þeir skráðir á Moggabloggið en nenna greinlega ekki að blogga neitt að ráði sjálfir. Geri ráð fyrir að þeir geri athugasemdir mun víðar en hér þó ég viti það að sjálfsögðu ekki. Ástæða sníkjubloggsins hér er kannski sú að þeir búist við að fleiri lesi skrifin en annars mundi vera. Athugasemdir eru sál bloggsins og það sem heldur mér hvað mest uppi við að skrifa daglega er fjöldi þeirra (í hófi þó) og lesendafjöldi samkvæmt Moggabloggsteljaranum.

Eflaust lesa einhverjir bloggið mitt reglulega. Vil bara minna þá á að oft eru athugasemdirnar athyglisverðari og skemmtilegri en bloggið sjálft. Til að missa síður af þeim ráðlegg ég að kíkja á athugasemdirnar við næsta blogg á undan. Það var ég vanur að gera þegar ég las fleiri blogg en núorðið. Það er nefnilega skemmtilegra að skrifa blogg en lesa.

Stofnuð hafa verið samtökin Þjóðareign. Skilst að þau muni einkum beita sér fyrir því í fyrstunni að afnema kvótakerfið. Því er ég hlynntur. Efast samt um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um það. Samfylkingin gæti unnið sér inn þónokkur atkvæði með skynsamlegri stefnu í fiskveiðimálum. Jón Bjarnason ráðherra ætti að vera í Framsóknarflokknum.

Bara fyrir áhugamenn um hafragraut.

Nú er ég farinn að bæta kanel og hunangi og döðlum út í hafragrautinn hjá mér auk mjólkurinnar og alltaf verður hann betri og betri. Veit ekki hvar þetta endar.


984 - Vegaframkvæmdir

Á sínum tíma var ég mjög á móti því að Óseyrarbrúin yrði byggð. Það var dýr framkvæmd á þeirrar tíðar mælikvarða. Er enn á þeirri skoðun að hún hafi verið óþörf á þeim tíma. Borgarfjarðarbrúnni var ég hinsvegar meðmæltur mjög enda stytti hún verulega leið margra. Um Hvalfjarðargöngin þarf ekki að tala enda eru þau svotil nýkomin. 

Nú er rætt um tvöföldun vegarins austur að Selfossi. Margt bendir til að 2+1 mundi nægja og verða mun ódýrari framkvæmd. Efast samt ekki um að fljótlega verður hitt talið bera vott um framsýni mikla. En það er fjármögnum verksins sem vefst fyrir mönnum. Rætt er um vegtoll og hvernig hann verði innheimtur. Þarna verður að fara varlega og þó ekki sé þarna um landsbyggðarskatt að ræða eins og sumir vilja halda fram getur innheimta af þessu tagi skapað úlfúð og ósamkomulag.

Gísli Sigurbjörnsson sem eitt sinn var forstjóri Elliheimilisins Grundar lagði til að komið yrði upp mjólkurleiðslu yfir Hellisheiði og fékk fyrir vikið mynd af sér í Speglinum. Af þeirri framkvæmd varð ekki enda fáránleg mjög. 

Hvað er unnið með því að blogga svona oft og mikið eins og ég geri? Svosem ekki neitt. Mér finnst bara gaman að skrifa. Ef svo eru einhverjir sem vilja lesa þetta þá er það náttúrulega ágætt. Er samt ekki frá því að ég leggi alltof mikla vinnu í þetta og sé of háður því. Þetta er ekki átakalaust þó ég reyni að láta líta svo út. Er eiginlega vakinn og sofinn í því að velta fyrir mér hvað ég eigi að skrifa um. Skrifin sjálf eru ekki mikið vandamál. Lesa bara sæmilega yfir. Velja og hafna, snurfusa og lagfæra svolítið og annað ekki.

Eins og Stefán Snævarr bendir réttilega á voru flestir útrásarvíkinganna um tvítugt þegar verðbólgan stöðvaðist hér á landi. Siðferðismat þeirra er því verðbólgið (eða bara bólgið og úr lagi fært) Allt í einu var farið að verðlauna stíft áhættuhegðun og fjárhættuspil hverskonar en siðferðinu hrakaði. Það er stutt í villidýrið í manninum eins og sálfræðitilraunin fræga um fangana og fangaverðina sannaði á sínum tíma.

Dreymdi síðustu nótt heilmikla vitleysu um það að við Benni, ég og Áslaug vorum úti að labba í Kaupmannahöfn og Benni nappaði sér einhverju að drekka í brúðkaupsveislu þar. Svo urðum við viðskila og ég lenti í ýmsum hremmingum. Meðal annars á alveg myrkum og ljóslausum stað við endann á einhverju húsasundi. Vaknaði svo áður en ég fann þau hin eða komst heim á hótelið aftur.

Og nokkrar myndir:

IMG 1438Undir Hafnarfjarðarveginum forna.

IMG 1446Keilir og Trölladyngja.

IMG 1492Hugsi yfir öllum sviðasögunum.

IMG 1511Árbæjarsafn.

IMG 1563Grýlukerti.


983 - Bloggábyrgð

Ég finn til ábyrgðar. Það eru svo margir sem lesa þessa síðu á hverjum degi. Hvað veit ég nema einhverjir taki mark á því sem ég segi og fari jafnvel eftir því. Sérstaklega þarf ég að fara varlega þegar um pólitísk og umdeild mál er að ræða. Það geri ég samt ekki. Eftirá finnst mér oft að ég hefði getað verið varkárari. 

Brjánn Guðjónsson (brjann.blog.is) talar um bloggara sem ekki leyfa athugasemdir við skrif sín og nefnir ýmis nöfn. Mikið er ég sammála honum. Til hvers er að blogga ef ekki má gera athugasemdir en bloggarinn vill bara messa yfir öðrum. Flestir vefmiðlar hafa opið fyrir athugasemdir. Veit ekki hvort nokkrir lesa þær en það er önnur saga. Mbl.is (Mogginn) kallar þessar athugasemdir reyndar blogg og meðhöndlar þær þannig.

Á dv.is þarf maður að passa hvar maður flækist með kursorinn því vissar auglýsingar eru þannig að þær taka fyrirvaralaust til máls ef farið er með hann yfir þær. Hrekkur maður þá í kút. Finnst það heldur ekki til fyrirmyndar hjá vefmiðlum að ef maður vill skoða fréttir þar í ró og næði þá er ekki að vita nema einhver auglýsingaræpa hellist yfir mann óforvarendis með hávaða miklum. Lágmark ætti að vera að leyfa manni að lesa frétt án hávaða vilji maður það. Kannski er ég bara svona viðkvæmur fyrir hljóðum og óhljóðum hverskonar.

Margt er það sem miður fer
hjá manna sonum.
En minnisstæðast alltaf er
að unna konum.

Minnir að ég hafi gert þessa vísu en er ekki viss. Gömul er hún áreiðanlega. Hef kannski prjónað hluta hennar við eitthvað sem ég hef heyrt eða lesið. Slíkt geri ég oft.

Minntist á hafragraut í færslu um daginn. Með því vinsælla sem ég hef skrifað. Uppskrifin góð. Matargerð er mér ekki lagin. Betri við skriftir. Var ekki vaninn á að nota sykur útá hafragraut þegar ég var lítill. Hafragrautur var skárri en hræringur (skyr og hafragrautur hrært saman - ógeðslegt) Tómt skyr var samt best. (Með sykri). Já, og meðal annarra orða, er búinn að prófa að setja kanel og hunang útá eða útí hafragrautinn eins og mér var ráðlagt í athugasemdum. Það er ágætt.


982 - Teitur Atlason

Teitur Atlason skrifar athyglisverðan pistil á DV.is sem hann nefnir: „Uppgjör óskast" og birtir mynd af ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Ég er mjög sammála því sem Teitur segir í grein sinni og einkum þótti mér eftirfarandi klausa athyglisverð:

Þegar ljóst var að dagar Vanhæfu ríkisstjórnarinnar voru taldir þá var eins og þáverandi formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafi fengið það sem kallað er í alkafræðunum "moment of clarity". Hún steig til hliðar og bað Jóhönnu Sigurðardóttur að koma í sinn stað, enda var hún eini jafnaðarmaðurinn í þinghópnum!  Manneskja sem ríghélt í stefnuna, stóð með prinsippum jafnaðarstefnunnar og naut ómældrar virðingar fyrir vikið.

Teitur er greinilega einn þeirra sem bíður eftir að skýrsla rannsóknarnefndarinnar birtist og býst kannski við að í henni sé eitthvað bitastætt sem tekið verði mark á. Vonum að svo verði, annars gæti farið illa fyrir íslenskri þjóð. Öfgamenn hafa vaðið uppi að undanförnu og munu eflaust reyna að halda því áfram.

Stefna Samfylkingarinnar (sem Ingibjörg Sólrún var í forsvari fyrir) er stundum kölluð léttfrjálshyggja eða Blairismi og ef fólk vill endilega hafa fjóra flokka þá finnst mér rétt að hafa einn fremur lítinn flokk hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn (Frjálslynda flokkinn, Framsóknarflokkinn) og einn flokk vinstra megin við Samfylkinguna (Vinstri græna) Samfylkingin tæki þá upp alvöru jafnaðarstefnu og léti draum sinn rætast um álíka fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn. Tækifærið er núna og kemur ekki aftur í bráð. Þó ESB andstæðingar séu háværir um þessar mundir verða þeir ekki til lengdar með meirihluta í þessu máli.

Þegar ysta hægrið og ysta vinstrið eru sammála um eitthvað (eins og virðist vera um andstöðu við aðildina að ESB til dæmis) þá er líklegt að eitthvert vit sé í málinu. Öfgamenn allra flokka sameinist - gætu þeir sagt.

Öfgamenn nota setu. Ég á ekki við klósettsetu heldur bókstafinn setu. Þetta gerir Jón Valur Jensson. (Er mér sagt) Líka Jónas Kristjánsson. (Þó hann sé ágætur inn á milli) Björn Bjarnason notar áreiðanlega setu. (Þó ég muni það ekki greinilega og nenni ekki að gá að því) Mogginn barðist lengi fyrir setu. (Og gerir líklega enn) X og Z eru hjón, óttalega mikil flón - lærði maður í barnaskóla. 

Þetta segi ég af því að ég var aldrei góður í setu-fræðum og hætti að nota hana strax og það var leyfilegt.


981 - Surtur fór sunnan með svigalævi

Svo segir í Völuspá: 

Surtur fer sunnan
með sviga lævi,
skín af sverði
sól valtíva.
Grjótbjörg gnata,
en gífur rata,
troða halir helveg
en himinn klofnar.

Minnir að nefnd hafi ákveðið nafnið á Surtsey og stuðst aðallega við þetta erindi úr Völuspá.

Nú er mikið rætt um hvað nýja fjallið á Fimmvörðuhálsi skuli heita. Mér finnst það kyndug umræða. Finnst einfaldlega ekkert liggja á með það. Áður en gosinu lýkur er engin leið að sjá hvernig fjallið verður. Kannski verður útlitið til að auðvelda nafngiftina. Mér finnst það líta út eins og hvert annað Búrfell. Kannski verður málið bara sett í nefnd.

Hundleiðist stjórnmálafarganið. Pabbi minn er stærri og sterkari en pabbi þinn. Margt í þessu er svo barnalegt að engu tali tekur. Undarlegt að þeir sem að þessu standa skuli ekki sjá sjálfir hve ópródúktívt þetta stagl er.

Uppskrift að undraverðum heilsuhafragraut með sjávarsalti.

4 skeiðar heilsuhaframjöl. (má nota venjulegt).
dass af sjávarsalti. (auðvitað má nota venjulegt borðsalt).
vatn eftir þörfum.

Þetta er allt sett í skál af hæfilegri stærð, hrært í og skellt í örbylgjuofn í nokkar mínútur. Borið fram með mjólk og brauð má hafa með ef vill.

Ég er afar leikinn í matargerð af þessum toga, en sum matargerð er flóknari en þetta, það viðurkenni ég. Uppskriftir standa samt alltaf fyrir sínu það sanna allar matreiðslubækurnar.

Yahoo fréttir koma sjálfkrafa upp í ferðatölvunni sem ég nota mest þessa dagana. Þar eru oft margar þúsundir kommenta. Athugasemdir eru þar oft við athugasemdir og hægt að sjá samstundis hvort þær eru jákvæðar eða neikvæðar. Yfirleitt nenni ég ekki að lesa þessar athugasemdir og sjaldan fréttirnar sjálfar heldur. Í mesta lagi að ég kíki á svona tvær til þrjár myndir sem fylgja helstu fréttum og ekki þarf nema að færa kursorinn yfir til að fá stækkaðar. Veit ekki af hverju ég er að segja þetta. Kannski til að undirstrika hve fáir og smáir við Íslendingar erum.


980 - I am just trying to save the planet

Horfði á heimildarmyndina um Bobby Fischer í sjónvarpinu. Fannst hún á margan hátt góð. Eftirminnilegast þótti mér þar sem hann var í heimspekilegu rifrildi við Kára Stefánsson og sagði þá meðal annars þá setningu sem er fyrirsögn þessa pistils. 

Eins og Fischer birtist okkur í þessari heimildarmynd var hann einþykkur og undarlegur en samt ákafur andstæðingur Bandaríkjastjórnar og Gyðinga yfirleitt og vildi greinilega líta á sig sem hinn mesta mannvin. Jafnfram var hann mikill „besservisser" og viðurkenndi það jafnvel sjálfur. Þrjóskur mjög og sérvitur.

Ég hef lengi verið aðdáandi Fischers og hefur alla tíð fundist það lítilmannlegt að ráðast að honum persónulega fyrir skoðanir hans einar. Á margan hátt hefur verið komið illa fram við hann og hann hefur einnig komið illa fram við aðra. Einkum marga þeirra sem af einlægni hafa viljað hjálpa honum.

Það sem gerðist þegar Fischer var gerður að íslenskum ríkisborgara var ekki ómerkur kafli í Íslandssögunni og alls ekki að ófyrirsynju að heimildarmynd skuli gerð um það. Ég er bærilega sáttur við allt sem þar kom fram. Hlutur Garðars Sverrissonar er samt líklega gerður verri en efni standa til.

Margt var undarlegt við útför Fischers og í fréttum hér á landi var nýlega sagt frá því að svo kunni að fara að lík hans verði grafið upp til að ganga úr skugga um faðerni stúlkubarns frá Filippseyjum. Þetta er alls ekki ný frétt. Það eina nýja sem ég sá í henni var að þar var því haldið fram að búið væri að setja dagsetningu á það hvenær gert er ráð fyrir að héraðsdómari úrskurði um þetta mál. (16. apríl n.k.)

Fischer heldur áfram að vera umdeildur eftir dauða sinn. Það er engin furða. Maðurinn var ekki eins og fólk er flest. Dauða hans bar að á óvæntan og einkennilegan hátt. Er samt alls ekki að gefa í skyn að eitthvað óheiðarlegt hafi þar átt sér stað. Fréttin um lát hans fór samstundis eins og eldur í sinu um skákheiminn þó hún hafi ekki komist í fjölmiðla fyrr en degi síðar.


979 - Dómharka og fávitaskapur

Gaman er að lesa blogg annarra. Mikið er skrifað og væntanlega lesið líka. Sölvi talar um dómhörku og Grímur Atlason, eða einhver annar, talar um fávitaskap. Líka um Jónas Kristjánsson sem kallar alla fávita og er naskur á að finna dæmi um slíkt hjá öðrum. Hrannar Baldursson talar um hvernig komast eigi í efstu sætin á Moggalistanum. Svo birta menn myndir af síðum á Facebook bara til að ergja mig því ég hef aldrei viljað skrá mig þar. 

Best er að reyna að vera svolítið öðruvísi en aðrir. Mér líður best þannig. Stundum finnst mér raunar að ég sé ekki nærri nógu ólíkur öðrum en það er önnur saga. Einu sinni þóttist ég vera betur að mér um flesta hluti en allir aðrir. Það er liðin tíð. Núna berst ég við að vera ekki asnalegri en aðrir.

Eins og mig minnir að ég hafi sagt í kommenti hjá Hrannari þá er mín leið til ímyndaðra vinsælda sú að skrifa daglega og númera færslurnar. Svolítið í Ómars Ragnarssonar stílnum. Þó blogga ég ekki eins oft og hann, sem nú þegar bloggar á tveimur stöðum en þyrfti mun fleiri.

Framboð Jóns Gnarr og árangur þess eru merkilegustu tíðindin í þessu tíðindalausa landi. (Tel ekki eldgos og kreppur með). Borgarahreyfingin var eini kosturinn fyrir óánægjuöflin í síðustu Alþingiskosningum en er nú búin að spila rassinn rækilega úr buxunum og sennilega þurfum við einhvern svipaðan og Jón Gnarr í næstu Alþingiskosningum. Fyrirfram er ég alls ekki viss um að hann sé verri en aðrir þó þetta sé auðvitað grínframboð hjá honum. Sumum finnst kannski verst hvað hann er Jesúsinnaður.

Alvöruframboð eru nefnilega alltof alvörugefin. Sérstaklega hjá fjórflokknum sem mætti alveg taka sér ítarlegt frí mín vegna. Hugsið ykkur bara hve mikill munur það væri að vera laus við hann. Gnörrunum mundi auðvitað fjölga og jafnvel misheppnaðir þingmenn slæðast með en ráðherraræflana mætti sækja hvert sem er ef menn vildu endilega að þeir hentuðu bærilega í starf sitt.

Þjóðaratkvæðagreiðslan sem framin var um daginn er alveg gleymd. Nú tala menn bara um eitthvað annað. Til dæmis skötusel og ketti. Tek bara ekki þátt í svona vitleysu.


978 - Skelfilegir atburðir

Ógnaratburðir og óáran í náttúrunni vekja alltaf áhuga. Núna síðast eru það umbrotin í Eyjafjallajökli.

Í mínum huga ber eftirfarandi atburði hærra en aðra og fréttir af þeim voru þannig að straumhvörfum ollu. Fjölmiðlar eiga oft mikinn þátt í því hvernig hugsun okkar öll og hugmyndir um atvikin verða.

Snjóflóðið að Goðdal í Bjarnarfirði. Það átti sér stað skömmu fyrir jól árið 1948. Þar fórust sex manns. Man ekki eftir þeim atburði úr fréttum en munnlegar og ritaðar frásagnir af honum voru hrikalegar og eftirminnilegar.

Geysir á Bárðarbungu. Man eftir að við krakkarnir máttum ekki hafa hátt þegar fréttir voru sagðar í útvarpinu af þeim atburðum. Fólk gleypti í sig allar fréttir um þá sem í boði voru.

Björgunarafrekið við Látrabjarg. Man ekki eftir því úr fréttum en kvikmyndin sem gerð var um þann atburð varð mjög fræg og fyllti mig stolti yfir því að vera Íslendingur.

Morðið á Kennedy Bandaríkjaforseta. Flestir mun hvar þeir voru staddir þegar þeir heyrðu fyrst fréttir af þeim válega atburði.

Eldgosið í Vestmannaeyjum. Þegar ég heyrði fyrst sagt frá því í útvarpinu trúði ég ekki mínum eigin eyrum. Skildi tæpast hvað um var að vera.

Snjóflóðin á Vestfjörðum. Hörmuleg og mannskæð slys sem margir muna eftir. Tók sjálfur þátt í að miðla upplýsingum um þau á island-list því Internetið var lítið útbreitt þá.

Árásin á tvíburaturnana. Breytti heimssögunni.

Á þessum skala skorar eldgosið í Eyjafjallajökli ekki hátt. Katla gæti gert þann atburð eftirminnilegri en þegar frá líður er hætt við að ekki þyki þessi atburður sérlega merkilegur.

Ég er þó alls ekki að draga úr mikilfengleik eldgosa af þessu tagi. Fór sjáfur að eldgosinu í Skjólkvíum árið 1970 og vissulega er slíkt sjónarspil eftirminnilegt.

Einkum vegna þess að við sem vorum þarna á ferð komumst ótrúlega nálægt gígunum og hrauninu.

Og nokkrar myndir:

IMG 1232Fyrir utan SuperSub á Nýbýlaveginum í Kópavogi. Ætli þetta séu ekki bátarnir sem þú keyptir ekki.

IMG 1326Kópavogskirkja.

IMG 1328Byggingar í Kópavogi. (Spegilmynd)

IMG 1440Gróðurinn gægist uppúr jörðinni.

IMG 1441Já, já.


977 - Mér heyrðist svartur ullarlagður detta

Maður kom á bæ og kvaðst vera nær því blindur og þess vegna ekki geta unnið neitt á kvöldvökunni, sem þó var vani hjá næturgestum. Hjálpsamur var hann þó og allt í einu segir hann við eina af konunum sem sátu í baðstofunni við tóvinnu. 

„Mér heyrðist svartur ullarlagður detta." Er það haft að orðtaki síðan.

Ódýrt slapp ég frá blogginu í gær. Endurbirti gamlar færslur. Það er ennþá betra en að vísa í færslurnar eins og sumir gera.

Hver er munurinn á Jóhannesi H. Laxdal og Jóhannesi Laxdal Baldvinssyni? Bara að spögúlera. Nenni ekki að fletta þeim upp í þjóðskrá, gúgla þá eða beita öðrum hefðbundnum aðferðum. Er ekki skráður á Facebook. Moggabloggið virðist þekkja báða.

Vorið er greinilega á næsta leyti. Smáfuglarnir farnir að láta í sér heyra. Ennþá er samt kalt og vel gæti átt eftir að koma hret (Páskahret). Fyrir austan var oft talað um Sýslufundarhret. Veit ekki hvort það er enn við lýði.

Jens Guð er að verða einn af uppáhaldsbloggurunum mínum. Kann að meta sögurnar hans. Ein er á boðstólum núna fyrir páskana og linkar á fleiri. Matar- og neytendaskrifin hans eru líka oft ágæt. Leiðist samt hljómsveitadellan í honum.

Nú mega kvótakóngarnir fara að vara sig. Ætli Jóhanna smali þeim bara ekki saman eins og óþægum köttum? Kattasmölunarmyndbandið sem Steini Briem setti link á hér í athugasemdunum í gær var ágætt. Ömmaliðið virðist ætla að sætta sig við frýjunarorð Jóhönnu þó þau hafi farið svolítið fyrir brjóstið á þeim í upphafi. Ætli stjórnmálahávaðinn verði ekki bara þolanlegur um þessa páska.

En það er hávaði annars staðar. Er að horfa á gosið á Fimmvörðuhálsi í beinni útsendingu þar sem nýja sprungan opnaðist í kvöld og má ekki vera að því að skrifa mikið núna. Þetta er líka orðið ágætt.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband