986 - Maggi mix

Jæja, ég held þá bara mínu striki og læt vaða á súðum. Þegar ég vaknaði seint og um síðir sá ég að komnar voru einar tíu athugasemdir við skrif mín í gær. Þetta er óvenjulegt og sló mig eiginlega alveg útaf laginu. Var einmitt að velta fyrir mér hvernig ég gæti byrjað á næsta bloggi. Nú er það vandamál leyst. Sníkjubloggarar allra landa sameinist og mætið hér. 

Sá líka umfjöllunina um Magga Mix í kastljósinu í gærkvöldi. Er hann að stæla mig eða ég hann? Þarna er ég að vísa í hafragrautarskrifin ef einhver skyldi vera of tornæmur til að skilja það. Svo er heldur ekki víst að allir sem hingað koma þekki deili á Magga Mix. Mér skilst að hann sé aðallega á fésbókinni og vinsæll mjög.

Kristinn Theódórsson skrifar um hræsnina í Jóni Val Jenssyni og ég hef engu við það að bæta. Er bara sammála honum. Er líka hugsi útaf því að ég sé ekki að Agnes Bragadóttir hafi svarað aðal-lögfræðingnum sjálfum sem hjólaði í hana um daginn og sagði hana lygakvendi eða eitthvað þessháttar. Kannski hefur svar Agnesar bara farið framhjá mér.

Það er ekki hægt að búa til verðmæti úr loftinu og hinn fríi hádegisverður er ekki til segja frjálshyggjumenn gjarnan. Það var einmitt frjálshyggjan sem fór svona með okkur eins og allir eru uppteknir af. Siðferðisviðmiðin fuku út í buskann, ekki bara hjá útrásarvíkingunum heldur almennt í þjóðfélaginu. Vinstri sinnuð viðhorf eru vinsælli nú um stundir en var á tímum ofsagróðans. Öllu má samt ofgera og reglugerðir og fyrirmæli stjórnvalda um allt mögulegt eru verkfæri andskotans og koma óorði á vinstrið. Valdhroki getur komið þeim í koll sem honum beita. Já, ég er að tala um dóttur hans Inga R. Hún má vara sig.

Það áhugaverðasta og það sem mest nýnæmi er að í erlendum fréttum þessa dagana er það sem er að gerast í Thailandi. Þar er í gangi einskonar búsáhaldabylting þar sem þess er krafist að ríkisstjórnin segi af sér. Ástandið þar er sífellt að verða einkennilegra og einkennilegra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Þú ert dálítið heitur fyrir fésbókinni Þú verður í ágætum félagsskap en þín verður saknað ef þú hættir að blogga. Það er svo sjaldgæft að hafa svona Pollyönnu blogg skrifað af karlmanni

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 10.4.2010 kl. 03:09

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Aldrei heyrt á þennan Magga Mix minnst fyrr. Svona er ég nú mikill útnesja eða innfjarðarmaður.  Fékk bara upp kryddblöndur frá Maggi þegar ég spurði prófesor Google.  Þarf því ekkert að skammast mín fyrir fáfræðina.

Annars ætla ég nú ekki að gerast innanlærisgúll á þínu bloggi, en talandi um Sníkjublogg, þá man ég nú eftir bloggi hjá þér þar sem nafnið mitt var fyrirsögnin og var ég nokkuð upp með mér af því.  Aðeins Jón Valur hafði leyft sér slíkt áður, en bannaði þó að ég setti athugasemdir við þau skrif.

Eiinhverju fleiri hafa jú baðað sig í frægðarljóma mínum, en það hefur alltaf verið mæringi og lofgjörð um meistarnn. Finnst það miklu sjálfsagðara og amast ekki við slíku. 

Trekktirðu ekki sæmilega á nafnið þarna um daginn? 

Jón Steinar Ragnarsson, 10.4.2010 kl. 07:30

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes. Skil vel hvað þú átt við með pollýönnubloggi. Jákvæðnin drepur engan. Svartagallsraus (einkum hvað pólitísk mál varðar) finnst mér of algengt á blogginu.

Jón Steinar. Ég er ekki í uppáhaldi hjá Jóni Vali. Er jafnvel bannaður þar eins og fleiri. Æsti hann einu sinni upp að óþörfu. Nöfn í fyrirsögnum trekkja oft (Teitur Atla síðast - minnir mig) Fréttir dagsins hafa líka oft mikil áhrif ef fólk er í vinsældaleik og það nýjasta er matarmál. Vísur eru líka góðar.

Sæmundur Bjarnason, 10.4.2010 kl. 08:11

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég ef aldrei verið í neinni vinsældakeppni hér heldur, hvað þá að hugsa út einhverja strategíu varðandi aðsókn.  Hef líklega linkað þrisvar eða fjórum sinnum á fréttir, en þá helst ef þær kveikja einhverja sögu í mér. Núna síðast gerði ég það í gær vegna vorkomunnar.

Ég komst samt æði hátt hér á sínum tíma 3ja sæti eða svo var mér bent á. Það var þegar ég var að skrifa vandaðri greinar og æviminningabrot einhverskonar.  Það er líka það eina, sem ég læt standa eftir. Hendi yfirleytt út dægurþrasi og greinum sem fólki þykir máske helst til heiðarlegar um trúmál.  

Fólk vill fá eitthvað fróðlegt nýtt og skemmtilegt að lesa. Ekki endurtekningu á fréttum, sem linkað er við eins og hjá Halla Gamla og Stebba fréttakalli á Agureiri. Þeir fá þó háa aðsókn af því að fólk smellir á þetta í leit að frekari umfjöllun, sem það svo fær ekki.

Mér finnst bloggið þitt skemmtilegt. Sérlundað og ærlegt, þótt ekki sé ég alltaf sammála. Ég kann svo ágætlega við þann kost hjá mönnum að geta skipt um skoðun og jafnvel hafa rangt fyrir sér. Það kannt þú og mikið vildi ég að þú getir kennt henni Jóhönnu Sig. það.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.4.2010 kl. 09:57

5 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Best finnst mér blogg sem skapa umræðu og vangaveltur um umfjöllunina manna á meðal. Það er einhver forngrískur lýðræðisandi yfir því.  Ég á þó ekki við svona Ma ma ma blogg eða Reykaássblogg um pólitík, sem velta fram runu spurninga án þess að svara þeim, né ætlast til að þeim sé svarað.

Svona: Hvað er ríkistjórnin að hugsa?? Hvað ætla menn að gera í málunum?? Hver ber ábyrgðina??? Hver stjórnar þessum fjanda?? Hverskonar vitleysa er þetta?? Hvar endar þetta?? Hvað er maðurinn að hugsa?? Etc.

Þetta eru launfyndin blogg í allri sinni heilögu hneykslan þótt þau séu skrifuð í fúlustu alvöru. Dauðralúsablogg gæti þetta kannski heitið, svo við bættum við skilgreiningarhalann. (Detta mér nú allar dauðar lýs...)  Kannski þú takir þig til og greinir þetta afbrygði við tækifæri.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.4.2010 kl. 10:08

6 identicon

Ég var búinn að fá hundleiða á öllu argaþrasinu og ririldinu hér á blogginu svo ég ákvað að gera eitthvað sem gæti unnið á móti því, ekki síst fyrir mína eign sál sem var orðin ansi tætt eftir alla reiðina yfir ástandinu.

Mitt markmið er að fá fólk til að brosa og besta leiðin til þess að mínu mati er að taka sér orð Megasar til fyrirmyndar: "Ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig."

Vildi að fleiri gerðu það, þ.e. hættu þessu eilífa þrasi og reiðilestrum og færu að gera eitthvað uppbyggilegt í staðinn.

Þú, Sveinn, lífgar skemmtilega upp á bloggið og ert eðal og það ert þú líka Jón Steinar, þegar þú ert í stuði, eins og í gær með "ljóðinu" um vorkomuna á Sigló.

Það hlýjar örugglega mörgum og gerir heiminn að örlítið betri stað.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 10.4.2010 kl. 11:12

7 identicon

... afsakaðu ... Sæmundur átti þetta að vera, ekki Sveinn.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 10.4.2010 kl. 11:14

8 identicon

... svo VERÐ ég að segja að ég þau blogg sem mér finnst VERST eru þau sem virðast hafa þann eina tilgang að ala á og smita út neikvæðni og espa fólk í ririldi.

Verst af öllu eru slík neikvæð blogg þar sem blogghöfundur getur varla komið frá sér hugsun án þess að bölva og/eða uppnefna einhvern eða einhverja.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 10.4.2010 kl. 11:22

9 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Sérðu nú hvað þú hefur gert Sæmundur?  Þú hefur smitað alla af Sæmundarhætti, sem koma inn á bloggið þitt.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.4.2010 kl. 15:41

10 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, þú verður bara að taka við Jón Steinar. Steini segist vera hættur þessari vitleysu.

Sæmundur Bjarnason, 10.4.2010 kl. 17:14

11 identicon

... jesús minn ... var ég að skemma fyrir með þessu rausi?

Ég vil ALLS ekki að Steini Briem láti sig hverfa, hef margoft skemmt mér afar vel inni á þessari bloggsíðu, ekki síst vegna hans innleggja - og annarra snjallyrðinga - þótt ég hafi kannski ekki sagt margt eða mikið - enda vonlaus í rímari.

Svo vil ég benda á að það er ekki allt fengið með FJÖLDANUM, heldur er það TRYGGÐ þeirra sem mæta þó - sem er verðmætust.

Steini minn, koddu til baka að kveðast á.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 10.4.2010 kl. 17:21

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég biðla til þín Steini Briem

burt ei vil þig flæma.

Komdu á ný að kveða rím

í kotinu hjá Sæma.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.4.2010 kl. 17:45

13 Smámynd: Kama Sutra

Vonandi getur Steini ekki stillt sig um að svara þessu.

Kama Sutra, 10.4.2010 kl. 17:47

14 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Í athugasemd við síðasta blogg segist Steini vera hættur. Segir að ég hafi kallað hann sníkjubloggara og vilji ekki draga það til baka. Ég hef bara misskilið þetta eitthvað. Auðvitað vil ég draga það til baka og allt til vinna að Steini haldi áfram að koma hingað og láta í sér heyra. Ég kann vel að meta hans framlag, bæði vísurnar og annað. Dreg þetta með sníkjubloggarana til baka. Ég er bara svo vitlaus að mér finnst allir vera að sníkjubloggast sem ekki skrifa bara eitthverjar afar stuttar athugasemdir. Orðhengilsháttur og ekkert annað.

Sæmundur Bjarnason, 10.4.2010 kl. 18:21

15 identicon

... sagði þér að "Gestabloggari" væri betra

Það vill enginn vera sníkill.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 10.4.2010 kl. 18:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband