985 - Sníkjublogg

Af hverju eru menn eins og Steini Briem og Jóhannes Laxdal Baldvinsson að sníkjublogga svona mikið hjá mér? Til að fyrirbyggja misskilning vil ég taka fram að ég er alls ekki að amast við þeim. Athugasemdir þeirra lífga svo sannarlega uppá bloggið mitt og með þessu verð ég eiginlega þríeinn. Þeir koma oft með önnur sjónarhorn á mál og eru duglegir við að koma með ábendingar um frekari fræðslu um þau efni sem til umræðu eru. Þar að auki hafa báðir greinilega gaman af vísnagerð og eru búnir að fá vissu fyrir því að slíku er ekki illa tekið hér.

Sníkjublogg er leiðindaorð en lýsir þó nokkuð vel því sem ég á við. Báðir eru þeir skráðir á Moggabloggið en nenna greinlega ekki að blogga neitt að ráði sjálfir. Geri ráð fyrir að þeir geri athugasemdir mun víðar en hér þó ég viti það að sjálfsögðu ekki. Ástæða sníkjubloggsins hér er kannski sú að þeir búist við að fleiri lesi skrifin en annars mundi vera. Athugasemdir eru sál bloggsins og það sem heldur mér hvað mest uppi við að skrifa daglega er fjöldi þeirra (í hófi þó) og lesendafjöldi samkvæmt Moggabloggsteljaranum.

Eflaust lesa einhverjir bloggið mitt reglulega. Vil bara minna þá á að oft eru athugasemdirnar athyglisverðari og skemmtilegri en bloggið sjálft. Til að missa síður af þeim ráðlegg ég að kíkja á athugasemdirnar við næsta blogg á undan. Það var ég vanur að gera þegar ég las fleiri blogg en núorðið. Það er nefnilega skemmtilegra að skrifa blogg en lesa.

Stofnuð hafa verið samtökin Þjóðareign. Skilst að þau muni einkum beita sér fyrir því í fyrstunni að afnema kvótakerfið. Því er ég hlynntur. Efast samt um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um það. Samfylkingin gæti unnið sér inn þónokkur atkvæði með skynsamlegri stefnu í fiskveiðimálum. Jón Bjarnason ráðherra ætti að vera í Framsóknarflokknum.

Bara fyrir áhugamenn um hafragraut.

Nú er ég farinn að bæta kanel og hunangi og döðlum út í hafragrautinn hjá mér auk mjólkurinnar og alltaf verður hann betri og betri. Veit ekki hvar þetta endar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Það getur verið að Steini sé sníkill
Sjálfur hér kem ég meira sem fíkill
Bloggfíkn er meinsemd sem verður að vana
og helvíti erfitt að losna við hana

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.4.2010 kl. 00:56

2 identicon

Nú er maður skíthræddur við að kommenta hér, enda lítið gaman að vera þar með kominn í flokk "sníkjubloggara".

Er ekki annars hægt að finna betra orð en "sníkjubloggari"? Það virkar eitthvað svo ... ja ... ódannað.

Sting upp á "gestabloggari", það hljómar mjög dannað og er fullt af virðingu.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 9.4.2010 kl. 01:01

3 identicon

Varðandi hafragrautinn: Ég þekki náunga sem gerði eins og þú, bætti alltaf meiru og meiru í grautinn. Sá grautur endaði úti á túni sem fuglafóður.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 9.4.2010 kl. 01:14

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég skrifa athugasemdir aðallega hjá öðrum fyrrverandi fjölmiðlamönnum, Ómari Ragnarssyni, Eiði Guðnasyni og Jens Guði, en tek góðar pásur hjá þeim öllum til skiptis, núna hjá Eiði og Jens.

Á Snjáldru skrifa ég einnig einungis athugasemdir og á þar tæplega fjögur þúsund vini í öllum íslenskum stjórnmálaflokkum og frá flestöllum löndum heimsins, nú síðast Bhutan.

Þorsteinn Briem, 9.4.2010 kl. 01:44

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þið eruð þríeinn og háheilagur! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.4.2010 kl. 01:45

6 Smámynd: Jens Guð

  Ég er alltaf daufur í dálkinn og hnugginn þegar Steini Briem tekur pásur frá því að "kommenta" við mitt blogg.  Vísur hans og athugasemdir eru iðulega gullkorn sem lífga heilmikið upp á hvaða bloggsíðu sem er.  Bráðfyndin og fróðleg til samans eða skiptis.

Jens Guð, 9.4.2010 kl. 02:08

7 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

sannarlega sammála þér að athugasemdir séu sál bloggsins. þess vegna eru fílabeinsturnablogg, sem eru frekar einstefnu-greinaskrif eins og liðil lík. án sálar. óáhugaverð.

Brjánn Guðjónsson, 9.4.2010 kl. 02:56

8 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

fyrir tveimum árum eða svo, gerði ég tilraunir til að skrifa mismunandi tegundir blogga. tók viku í senn og skrifaði þá aðeins eina tegund bloggs í viku hverri. þar voru ma. bergmálsblogg (a la Stefán Friðrik)og fílabeinsturnablogg, hvar ég hafði vitanlega lokað fyrir athugasemdir. sú víka var allra leiðinlegasta vika sem ég hef upplifað hér á blogginu.

Brjánn Guðjónsson, 9.4.2010 kl. 03:00

9 Smámynd: Óskar Þorkelsson

gott að geta orðið að liði þótt sníkjubloggari sé :)

Óskar Þorkelsson, 9.4.2010 kl. 03:50

10 identicon

Tja, nú ætla ég ekki að taka þetta til mín varðandi sníkjublogg, ég er nefnilega ekki með bloggsíðu sjálfur, heldur læt mér nægja að kommentera hjá Sæmundi skólabróður. Mig langar hinsvegar að benda Jóhannesi Laxdal á að í síðustu línu vísunnar hans hér ofar er rímgalli. Það vantar höfuðstaf í hana. Stuðlarnir í þriðju línu eru báði "v" og hún er því í lagi. Ég tala um rímgalla þegar mér sýnist menn setja saman ferskeytlur skv. íslenskri hefð.

Ellismellur 9.4.2010 kl. 05:02

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nývaknaður og sé að hér er talsvert athugasemdast. Vísuna sem Ellismellur minnist á er auðvelt að laga. Segja má t.d.: "Vandasamt helvíti að losna við hana." Svona gallar eru algengir á vísum. Grímur Thomsen orti t.d.: "Þeir eltu hann á átta hófahreinum." Þarna eru h-in greinilega stuðlar svo höfuðstafurinn í næstu línu hlýtur að vera h, eða hvað? Þetta er reyndar dæmi um ofstuðlun fremur en vanstuðlun. Skrifa kannski meira á eftir. Þetta með sníkjubloggin lærði ég hjá Hörpu Hreinsdóttur, sem er úrvalsbloggari, og er það ekkert illa meint.

Sæmundur Bjarnason, 9.4.2010 kl. 07:17

12 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Af því ég sá komment frá þér Sigurður Þór dettur mér allt í einu í hug að ég las blogg frá þér þann 1. apríl s.l. þar sem þú sagðir frá endurfæðingu þinni og jesútrú. Var þetta aprílgabb eða hvað? Færslan hvarf svo fljótlega og ekki get ég séð að þú hafir minnst á þetta síðan. Guð forði mér samt frá trúmálaþrætum hér í athugasemdunum!! Þær geta nefnilega orðið óskaplega langdregnar.

Sæmundur Bjarnason, 9.4.2010 kl. 07:24

13 identicon

Fyrst minnst er á vísnagalla hér að ofan furðar mig á því að rímfróður maður eins og Sæmundur hafi ekki veitt Steina Briem tilsögn. Meiri leirburður er vandfundinn og illa gert að kalla hann vísur.

Gisli Ásgeirsson 9.4.2010 kl. 07:48

14 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Svona svona, Gísli. Steini rímar oft skemmtilega. Finna má að ýmsu öðru í vísum hans og svo eru vísurnar ekki hans sterkasta hlið. Þeir sem kunna skil á bragfræði eru ekkert endilega betri hagyrðingar en aðrir. Rétt ortar vísur eru stundum hundleiðinlegar.

Sæmundur Bjarnason, 9.4.2010 kl. 08:39

15 identicon

Steini rímar. Við erum sammála um það.

Gisli Ásgeirsson 9.4.2010 kl. 08:42

16 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Las aftur vísuna í byrjun þessarar seríu og sé að stuðlasetningin í upphafinu er heldur ekki gallalaus. Í þeirri bragfræði sem ég lærði í skóla í fyrndinni var sagt að gnýstuðlar væru þrír. Sk, Sp og St. Margir vilja líka segja að Sn og Sm séu gnýstuðlar. Allt snýst þetta um hvernig vísurnar hljóma og hvernig farið er með þær.

Sæmundur Bjarnason, 9.4.2010 kl. 08:44

17 Smámynd: Axel Þór Kolbeinsson

Steini á meir að segja vini í Samtökum Fullveldissinna

Axel Þór Kolbeinsson, 9.4.2010 kl. 08:57

18 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Gúglari er Guðs af náð
grínarinn hann Steini.
Flýgur hátt um loft og láð
þó lærði-Gísli veini.

Sæmundur Bjarnason, 9.4.2010 kl. 09:44

19 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Stundum laga ég vísurnar mínar við yfirlestur en flest það sem ég set hér inn eru tækifærisvísur, ortar á stundinni, vegna einhvers tilefnis í bloggfærslunni eða athugasemdum. Veit ekki hvað Sveinbjörn Beinteinsson telur upp mörg mismunandi tilbrigði við ferskeytluna, en þau eru mörg. Og öll sanna þau réttmæti þess að bregða útaf ströngustu reglum bragfræðinnar ef efni stendur til. Óþarfi að hnýta í Steina þótt hann rími öðruvísi. Betra að ríma en gera geðvonskulegar athugasemdir

Allir þekkja Æra-Tobbi en hve margir munu þekkja til Gísla Ásgeirssonar eftir 100 ár?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.4.2010 kl. 10:38

20 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Viðbætur og þess háttar a la Hrannar Baldursson.

Grefill. Þetta er allt í lagi með hafragrautinn. Tilraunirnar eru "under supervision" og ef eitthvað lendir útá túni er ekkert víst að ég segi frá því.

Jens. Hefði kannski átt að hafa þetta a la Jens Guð. Minnir að þú svarir öllum líka.

Brjánn. Sammála þér. Bergmálsblogg er gott orð.

Óskar. Sníkjubloggarar finnst mér þeir vera sem eru að segja frá einhverju sem er ekki endilega alveg í tengslum við umræðuefnið og langt að auki. Alls ekki neikvætt í mínum huga.

Axel. Og er þá mikið sagt.

Sæmundur Bjarnason, 9.4.2010 kl. 10:50

21 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Af því að Steini er mér sérlega kær sendi ég þessa vísu í orðastað hans þótt hann geti öðrum mönnum fremur svarað fyrir sig sjálfur.

Þótt allir í heimi um leirburð mér brigsli
og bæði stuðlum og höfuðstaf víxli.
Ég held áfram þessu samsuðu sísli
þótt seint verði eins logandi fær og hann Gísli.

Eins og sést vantar annan stuðulinn í fyrstu línu en hann er falinn í orðinu leirburður. Það verður því að lesa orðið með sérstakri áherslu á burð og þannig verður vísan sæmilega rétt kveðin. 

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 9.4.2010 kl. 10:51

22 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Vísan að ofan er sennilega strangt til tekið ekki einu sinni ferskeytla. Bæði er að áhersluatkvæði eru ekki samkvæmt reglum og svo er röð braglína óhefðbundin. Ætli við köllum þetta ekki bara sníkjuhátt

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.4.2010 kl. 10:53

23 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vísur eru misgóðar hjá öllum, einnig Gísla Ásgeirssyni. En það hefur litla þýðingu að birta góða vísu ef enginn nennir að lesa hana. Ég birti hér vísur vegna þess að þær eru lesnar af einhverjum en Gísli Ásgeirsson heldur kannski að hans vísur séu slípaðir demantar.

Hér skrifum við okkur til skemmtunar en ekki leiðinda.
Ég sem ekki vísu og birti hana svo, heldur sem vísuna um leið og ég skrifa hana, sem tekur yfirleitt ekki lengri tíma en eina mínútu.

Ef ég ætlaði hins vegar að senda frá mér vísnabók myndi ég endurskoða vísurnar, jafnvel nokkrum sinnum, áður en þær færu í bókina og birta þar einungis þær vísur sem ég teldi bestar. Hins vegar hefur aldrei hvarflað að mér að senda frá mér vísnabók.

Það sem einum finnst gott og skemmtilegt, jafnvel fyndið, finnst öðrum harla ómerkilegt og jafnvel leiðinlegt. En ég reyni að gagnrýna hér skrif með rökum en ekki skætingi og leiðindum, eins og margir því miður gera með engum árangri.

Níðvísur eru á hinn bóginn oftast í góðu lagi, eins og Ómar Ragnarsson hefur bent á. En þær ber yfirleitt ekki að taka bókstaflega. Og þegar menn birta hér skæting í minn garð hef ég að sjálfsögðu rétt til að svara honum.

Hins vegar myndi aldrei hvarfla að mér að skrifa á síðu Gísla Ásgeirssonar eða annars staðar að vísurnar hans séu leirburður. Mínar vísur eru bragfræðilega réttar en það sem einum finnst vera góð vísa með góðu hljómfalli finnst öðrum vera tóm steypa.

Og stundum þarf að lesa sömu vísuna oftar en einu sinni til að skilja hana eða finna í henni rétta hljómfallið. Það er engan veginn sama hvernig vísa er lesin. Hins vegar eiga vísur í sumum tilfellum að vera tóm steypa.

Hvað vísnagerð snertir eru því dómararnir jafn margir og lesendurnir, rétt eins og áhorfendur á knattspyrnuleik. En ef áhorfendum líkar leikur ákveðins knattspyrnuliðs vilja þeir sjá liðið spila fleiri leiki.

Vísur sem fólki finnst gaman að lesa eða heyra eru góðar vísur
og sjaldan er góð vísa of oft kveðin, jafnvel þótt hún sé bragfræðilega röng.

Hins vegar getur Gísli Ásgeirsson engan veginn sýnt fram á að vísur sem ég hef birt hér séu bragfræðilega rangar og það hefur engan tilgang að birta órökstuddar fullyrðingar á opinberum vettvangi, eins og ég hef oft bent hér á.

En það hefur Gísli Ásgeirsson enn ekki lært.

Þorsteinn Briem, 9.4.2010 kl. 11:07

24 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Á höggstokki hrokans hér slátrað var lambi
og heimtað að lýður í lotningu krjúpi
Dæmt var og drepið af fádæma drambi
enda dómarinn ættaður vestan úr Djúpi

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.4.2010 kl. 11:25

25 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Úr háum hnakki stundum detta
hrokafullir andans menn
ég feimnislaust get fullyrt þetta
því flötum beinum sit ég enn

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.4.2010 kl. 14:17

26 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

hér er ein fyrir ellismell

Sníkju-háttur heitir það
höfuðstaf að sleppa
Spara ættu allir að
afþví það er kreppa

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.4.2010 kl. 16:15

27 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Yrkir Jói linnulaust.
Lætur ganga sögur.
Alveg frammá hrímkalt haust,
háttinn sníkju-bögur.

Sæmundur Bjarnason, 9.4.2010 kl. 16:53

28 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Orð vikunnar: Sæmilegur

Orðspor þitt er opinbert
ýmsa hingað dregur
mér finnst vera meira um vert
að vera Sæmilegur

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 9.4.2010 kl. 17:33

29 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Jóhannes. Ég hef lengi þekkt þessa merkingu orðsins sæmilegur. það er til sóma. (þó það nú væri) Á Bifröst gerðu krakkarnir í mínum flokki mér það að nefna búðina sem við röðuðum vörum í Sæm´darkjör.

Sæmundur Bjarnason, 9.4.2010 kl. 17:53

30 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sauður galla sýndi hér,
Súrsson valla Gísli er,
auma kalla enginn ver,
upp til fjalla sjá að sér.

Þorsteinn Briem, 9.4.2010 kl. 18:39

31 Smámynd: Kama Sutra

Mér er sama hvað aðrir segja en ég fíla vísurnar hérna í botn - og sníkjudýrin hérna líka.

Kama Sutra, 9.4.2010 kl. 18:54

32 identicon

Samansafn af snillingum, ávallt eða segjum oftast  í stuði. Iglur eru ágætar til brúks.

pæja 9.4.2010 kl. 19:25

33 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

þetta var 1. apríl blogg maður!

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.4.2010 kl. 20:12

34 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

ég legg til sæmdarheitið Tilberabloggari. Þjóðlegt og lýsandi. Sníkjubloggarar eru þeir sem aulýsaá bloggum sínum og standaí sníkjum, eins og prelátar margir hér.

Jón Steinar Ragnarsson, 9.4.2010 kl. 20:44

35 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk öll. Sigurður. Fannst 1. apríl bloggið ólíkt þér. En sumir snarsnúast einmitt í þessu efni. Tilberablogg gæti verið ágætt og sníkjublogg gæti vel þýtt annað en mér finnst það þýða.

Sæmundur Bjarnason, 9.4.2010 kl. 21:17

36 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Ég get vel tekið undir margt sem hér hefur verið sagt, og sumir kannski kalla mig "sníkjubloggara" en ég hef þá séð þá annsi marga verri! Eg blogga eigin blogg í bland við athugasemdir, það sem mér þykir verst er að menn sem aðeins blogga athugasemdir með einni atkvæðasetningu!!

Guðmundur Júlíusson, 9.4.2010 kl. 21:18

37 Smámynd: Þorsteinn Briem

Blogg eru fjölmiðlar og í bloggunum, eins og öðrum fjölmiðlum, til dæmis dagblöðum, eru birtar alls kyns upplýsingar og athugasemdir frá lesendum, sem eru þá innsendar greinar í dagblöðum og hluti af þeim.

Þannig eru athugasemdirnar hluti af bloggunum og viðkomandi bloggari ber ábyrgð á öllu því sem fram kemur á hans bloggi, einnig athugasemdunum. Og sá sem skrifaði viðkomandi athugasemd ber einnig ábyrgð á henni.

Þannig væri hægt að dæma bæði bloggarann og þann sem skrifaði athugasemdina fyrir meiðyrði sem bloggarinn hefði neitað að fjarlægja, eins og fram hefur komið í lögfræðiritgerðum, svipað og hægt er að dæma bæði viðkomandi blaðamann og ritstjóra dagblaðs fyrir meiðyrði.

Innsendar greinar, vísur og kvæði auka að sjálfsögðu lestur og þar með auglýsingatekjur viðkomandi dagblaðs, og yrðu því seint kallaðar sníkjur.

Þannig birtum við til að mynda alltaf uppskriftir að sjávarréttum og innsendar greinar í Verinu til að gera blaðið sem fjölbreyttast og skemmtilegast og fá fleiri auglýsingar í blaðið.

Bloggarinn græðir því á að fá athugasemdirnar en allir lesendur bloggsins þurfa ekki að lesa þær, frekar en til að mynda innsendar greinar í dagblöðum.

Kaupendur Moggans voru rúmlega fimmtíu þúsund og lesendur blaðsins því um 200 þúsund, þannig að varla er nú metnaðurinn mikill að skrifa athugasemdir á bloggi sem 200 manns lesa.

Þorsteinn Briem, 9.4.2010 kl. 22:49

38 identicon

tvöhundruð manns segirðu? þú hlýtur að lifa í pinkulandi ef þú heldur að þeir séu ekki fleiri en það kæri vin, það lesa mun fleiri þessi blogg en það skal ég segja þér!!!

Guðmundur Júlíusson 9.4.2010 kl. 23:15

39 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini minn, ég þekki þetta allt. "Sem bloggarinn hefur neitað að fjarlægja", segir þú.

Það fer eftir því hver biður hann um það. Ef hann er beðinn af þeim sem blogginu stjórna og bloggsvæðið eiga en þverskallast við þá er þetta eflaust rétt hjá þér. Hver sem er getur ekki beðið hann að fjarlægja það sem hann vill. Þannig lít ég á þessi mál.

Ég loka á enga og fjarlægi engar athugasemdir nema ég neyðist til. Hef ekki þurft þess hingað til. Ég má kalla það sníkjur sem mér sýnist.

Sæmundur Bjarnason, 9.4.2010 kl. 23:19

40 Smámynd: Þorsteinn Briem

Guðmundur. Ég er að sjálfsögðu tala hér um bloggið hans Sæma en ekki öll Moggabloggin.

Sæmundur. Fólk skrifar hér yfirleitt athugasemdir við sömu bloggin og það hefur ekkert með sníkjur að gera. Sumir eru blaðamenn og skrifa fréttir í blöð en aðrir skrifa eingöngu athugasemdir á Netinu í þau blöð sem þeir lesa.

Fólk fer yfirleitt ákveðinn bloggrúnt og skrifar athugasemdir við ákveðin blogg. Og hér þarf að stofna blogg til að geta skrifað athugasemdir við önnur blogg án nokkurrar fyrirhafnar.

Þeir sem stofna hér blogg gangast undir ákveðna skilmála og umsjónarmenn blog.is geta krafist þess að bloggari eyði meiðyrðum sem eru í hans bloggfærslu eða athugasemdum við færsluna. Og sama gildir að sjálfsögðu um þann sem meiðyrðin beinast að.

Eyði bloggarinn ekki meiðyrðunum geta umsjónarmenn blog.is eytt þeim eða sá sem meiðyrðin beinast að farið í mál við bloggarann og þann sem skrifaði athugasemdina, ef vafi leikur á hvort um meiðyrði er að ræða.

Þorsteinn Briem, 10.4.2010 kl. 00:21

41 Smámynd: Jens Guð

  Vísur geta haft ómælt skemmtanagildi þó vikið sé frá ströngustu reglum bragfræðinnar.  Af því að vitnað er til: "Þeir eltu hann á átta hófahreinum.":  Varðveist hefur í einhverri gamansögubók er nemandi í barnaskóla í Varmahlíð átti á prófi að skrifa kvæðið  Skúlaskeið.  Prófdómarinn gekk um skólastofuna og sá nemandann skrifa:

  Þeir eltu hann á átta hófahreinum

og aðra tvenna höfðu þeir til vara 

  en Skúli gamli sat á Sörla einum...

  Síðan fylgdist prófdómarinn spenntur með nemandanum vandræðast með framhaldið.  Er stráksi skilaði prófblaðinu var þetta svona:

  Þeir eltu hann á átta hófahreinum

og aðra tvenna höfðu þeir til vara 

  en Skúli gamli sat á Sörla einum

og vissi ekki hvert hann átti að fara.

Jens Guð, 10.4.2010 kl. 01:00

42 Smámynd: Jens Guð

  Varðandi það að ég reyni að svara öllum athugasemdum á mínu bloggi:  Þegar ég byrjaði að blogga fyrir næstum 3 árum var ég staðráðinn í að verja ekki löngum tíma í bloggið.  Framan af svaraði ég einungis spurningum sem var beint til mín í athugasemdakerfinu en ekki öðrum "kommentum". 

  Við það móðguðust sumir í vinahópnum og létu mig heyra það.  Þeim þótti ókurteisi af mér að svara öðrum í athugasemdakerfinu en þeim.  Viðbrögð mín voru þau að endurskoða þetta og reyna að svara öllum athugasemdum.  Er á reyndi er það gaman.  Bara gaman.  Sum "komment" eru einskonar "innlitskvitt" og með því að svara er ég að endugjalda kveðjuna.  Stundum verð ég þó,  því miður, að slá slöku við vegna tímaskorts.

Jens Guð, 10.4.2010 kl. 01:12

43 Smámynd: Kama Sutra

Ég vil aðeins koma Steina Briem til varnar hérna þótt ég þekki hann alls ekki neitt.  Hann þarf ekkert á því að halda að "sníkjublogga" hjá öðrum til að vera mikið lesinn.  Ég veit ekki betur en hann hafi verið mikið lesinn bloggari á sínum tíma þegar hann bloggaði.

Kama Sutra, 10.4.2010 kl. 02:06

44 Smámynd: Þorsteinn Briem

Takk fyrir það, Kama mín Sutra, en Sæmi er engan veginn mikið lesinn og það er mjög erfitt fyrir mig að bæta úr því. Um 200 lesendur á dag er sáralítil lesning.

Ég held að hann hafi sullað of miklu hunangi út á hafragrautinn og ruglast þannig að ekki verði úr bætt.

Hins vegar er það skemmtileg kenning að ég skrifi athugasemdir hjá Sæma til að vera mikið lesinn. Ef ég hefði mikinn áhuga á því myndi ég nú bara byrja aftur á Mogganum.

Þorsteinn Briem, 10.4.2010 kl. 02:29

45 Smámynd: Kama Sutra

Sorry, Steini minn.  Ég verð að hryggja þig en ég efast um að fjórblöðungurinn Móramoggi sé ennþá besti miðillinn til koma sér á framfæri.

Tímarnir breytast hratt um þessar mundir.

Kama Sutra, 10.4.2010 kl. 03:02

46 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Skúlaskeið var nú einusinni túlkað svona:

Þeir eltu hann á tíu hjóla trukkum

og aðra tvenna höfðu þeir til vara

En Skúli gamli sat í jeppa einum

og vissi ekkert hvert hann átti að fara.

Annars með Tilberabloggin, þá er ég oft í því hlutverki og fer mikinn, eins og þú hefur nú raunar ávítt mig fyrir.  Þá eru það helst ofurtrúarbloggin, sem ég sest á eins og kýli á rass.  Það er ekki af því að þetta sé mér neitt sérstakt ástríðumál, en ég er fæddur með afar lágan bullshitþröskuld og þessi blogg liggja óhemju vel við höggi, þegar slíkt áhrærir.  Oft er ég þó svo standandi hlessa yfir óráðinu að mér verður orða vant.  Believe it or not. 

Jón Steinar Ragnarsson, 10.4.2010 kl. 07:18

47 identicon

Ég sé þetta núna. Steini Briem er gott skáld og verðskuldar ekki köpuryrði mín. Bið ég hann og aðra sem hér hafa lagt orð í belg vel að lifa og forláta neikvætt innlegg mitt í þessa umræðu.

Gísli Ásgeirsson 10.4.2010 kl. 07:46

48 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þetta er allt í lagi, Gísli minn. Enginn hefur nokkru sinni tekið mark á þér, þannig að þú þarft ekki að hafa áhyggjur af þessu atriði. Haltu bara áfram að yrkja, elsku kallinn minn.

Kama mín Sutra, það er nú ómerkilegasta athyglissýki sem ég hef heyrt um að skrifa athugasemdir hjá Sæma sem kallar þá sníkjubloggara sem skrifa athugasemdir hjá honum, manni sem er lesinn af 200 manns á dag, nánustu vinum og vandamönnum, ítem gamalli kerlingu sem hann fór einu sinni upp á í Hafnarfirði.

Þorsteinn Briem, 10.4.2010 kl. 08:11

49 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Steini minn það er nú óþarfi að verða svona voðalega reiður þó einhverjir kunni ekki að meta vísurnar þínar.

Sæmundur Bjarnason, 10.4.2010 kl. 13:01

50 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég hef margoft tekið það fram, bæði hér og annars staðar, að mér er nákvæmlega sama hvað einhverjum finnst um það sem ég skrifa vegna þess að allar órökstuddar fullyrðingar eru einskis virði.

Hins vegar líkar engum vel við allt sem aðrir segja og skrifa.

En að kalla það sem ég skrifa hér hjá þér sníkjur og vilja svo ekki taka það til baka er hins vegar annar handleggur á allt öðrum manni og læt ég nú staðar numið í mínu "sníkjubloggi" hér.

Vertu blessaður, Sæmi minn, og farnist þér vel í lífinu.

Þorsteinn Briem, 10.4.2010 kl. 13:25

51 identicon

Jæja, strákar ... alltaf í boltanum???

Næsta færsla, takk.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! 10.4.2010 kl. 13:27

52 Smámynd: Óskar Þorkelsson

mér finnst bjór góður strákar..  Hér er komið vor, sólin skín, hitinn í sólinni er um 20 gráður, í skugga um 10 gráður... mér finnst vænt um ykkur :)

Óskar Þorkelsson, 10.4.2010 kl. 13:33

53 Smámynd: Kama Sutra

Æ, æ - er Steini hættur og farinn?!

Er ekki hægt að laga þetta ósætti?

Kama Sutra, 10.4.2010 kl. 17:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband