Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

956 - "Nú skyldi ég hlæja, væri ég ekki dauður"

Sumar þjóðsögur er ekki hægt að stytta. Þessi er dæmi um það. Jón Þ. Árnason er beðinn velvirðingar þó dauður sé. Þessi saga er af Netútgáfunni en ég þykist hafa rétt á að nota efni þaðan eins og mér sýnist. Þessi saga heitir: Nú skyldi ég hlæja, væri ég ekki dauður og er svona: 

Einu sinni voru tvær konur að þrætast á um það hvor þeirra ætti heimskari mann. Loksins kom þeim saman um að þær skyldu nú reyna hvort þeir væru eins heimskir og þeir sýndust vera.

Tók þá önnur konan það til bragðs þegar maður hennar kom frá vinnu sinni að hún tók kamba og rokk, sest niður og fer að kemba og spinna en þó sá hvorki bóndi né aðrir að hún hefði neina ull handa á milli.

Þegar maðurinn sér þetta spyr hann konu sína hvort hún sé gengin frá vitinu að vera að arga kömbunum og þeyta rokkinn án þess að hafa ull og biður hana að segja sér hvað þetta eigi að þýða. Hún segir að það sé varla von að hann sjái það sem hún sé að spinna því það sé híalín og eigi að vera í föt handa honum. Hann lætur það þá svo vera og er einlægt að furða sig á hvað kona sín sé vel að sér og hlakkar mjög til að fá þessi föt sem verði svo afbragðs smágjör og falleg.

Þegar konan læst vera búin að spinna nóg í fötin fer hún og festir voðarefnið upp í vefstólinn og þykist svo fara að vefa. Maðurinn er að smávitja um hana og dást að kunnáttu hennar. Hún hefur mikið gaman af þessu og flýtir sér að koma öllu þessu laglega í kring. Nú þykist hún taka voðina úr vefstólnum og fer fyrst að þvo það og þæfa og seinast fer hún að sníða og sauma.

Þegar hún er búin að öllu þessu biður hún mann sinn að koma og fara í fötin en segist ekki þora að láta hann fara einsamlan í og skuli hún hjálpa honum. Nú læst hún færa hann í þau og þó manntetrið væri reyndar nakinn hafði hann þá ímyndun að konan sín hefði búið sér til svona smágjör föt og var svo hjartans feginn yfir þessu að hann réð sér ekki fyrir gleði.

Nú er að segja frá hinni konunni að þegar maður hennar kemur heim spyr hún hann því hann sé á fótum. Manninum þykir þetta undarleg spurning og spyr hana hvers vegna hún tali svona.

Hún telur honum trú um að hann sé sárveikur og honum sé langbest að fara upp í rúm. Hann trúir öllu þessu og fer sem fljótast að hátta.

Þegar nokkur tími er liðinn segist hún ætla að fara að leggja hann til. Hann spyr hvernig standi á því og biður hana blessaða að gera það ekki. Hún spyr hvernig hann láti, hann sem hafi dáið í morgun og það eigi að fara að smíða utan um hann.

Svona liggur þá mannskepnan þangað til hann er kistulagður. Síðan ákveður hún greftrunardaginn og tekur til sex líkmenn og biður nú hin hjónin að fylgja manni sínum til grafarinnar.

Kona dauða mannsins hafði látið gera glugga á aðra hliðina á kistunni þar sem hann gæti séð það er bæri við. Þegar á að fara að hefja líkið út kemur þar bóndinn nakti og hélt að allir mundu dást að smáunnu fötunum sínum.

En það varð nokkuð á annan veg því þó líkmönnum væri annað í hug gat enginn stillt sig fyrir hlátri er sá hann og þegar sá sem í kistunni var kom auga á hann kallaði hann upp svo hátt sem hann gat og segir:

"Nú skyldi ég hlæja, væri ég ekki dauður."

Var nú hætt við greftrunina og manninum hleypt út úr kistunni. Komst það þá upp að konurnar höfðu gabbað og ginnt menn sína þannig og voru báðar hýddar á þingi fyrir tiltækið.


955 - Bólusótt

Áður fyrr var bólusótt einhver hræðilegasta drepsótt sem komið gat. Plága af því tagi var ekki hefnd Guðs eins og reynt var að telja fólki trú um. Bólusótt geysaði oft hér á Íslandi og er bólusóttin árið 1707 frægust þeirra. Þeir sem tóku veikina og dóu samt ekki fengu ör um allan líkamann og einkum í andlitið. Voru þau til mikilla lýta og má því segja að þeir sem veiktust hafi annað hvort dáið eða borið menjar um veikina alla ævi.

Það var enski læknirinn Jenner sem fann upp bóluefni gegn bólusótt árið 1796 og er hiklaust talinn einn af mestu velgjörðamönnum mannkyns fyrir vikið.

Hann hafði veitt því athygli að einskonar bólusótt var oft í kúm. Einkum á júgrum þeirra. Mjaltakonur fengu af þeim sökum oft útbrot á hendurnar en ekki önnur eftirköst. Jenner flaug í hug að þessar bólusóttir gætu verið skyldar því mjaltakonur veiktust yfirleitt ekki ef bólusótt geysaði. Hann tók því að sýkja fólk með kúabólu og gera það þannig ónæmt fyrir bólusótt. Þetta reyndist vel og síðan hafa miklar framfarir orðið í bólusetningum þó fyrst í stað hafi ýmsir verið þeim mótfallnir.

Bólusótt var útrýmt úr heiminum á áttunda áratug síðustu aldar og þar með varð bólusóttarveiran vopn í efnahernaði því ónæmi fyrir sjúkdómnum er víðast hvar mjög lítið núorðið og stórveldin eiga birgðir af slíkum veirum.


954 - Pizza var það heillin

Sumar þjóðsögur og aðrar fornar sagnir þurfa greinilega á umskrift að halda. Nefna má fáeinar þjóðsögur sem vert væri að endurskrifa:

Pabbi átti fína lóð.

Seint fyllist taskan prestanna.

Þá hló maðurinn úr sjónum.

Pabbi átján krakka í Heimunum

Ætli togararnir mínir séu í túr núna?

Mamma í rollugirðingunni, rollugirðingunni.

Margir sem úttalað sig hafa um þjóðaratkvæðagreiðsluna hafa vart haldið vatni yfir því hve mikilvægt það hafi verið að komast í heimspressuna. Mér finnst fátt ómerkilegra en pappír, prentsverta og talandi höfuð í sjónvarpi. Auðvitað hefur þetta samt áhrif, en eru þau áhrif ekki heldur lítils virði? Snýst Icesave í huga fólks fyrst og fremst um auglýsingar? Það finnst mér þunnur þrettándi. Heldur fólk í raun og veru að allt þetta húllumhæ hafi aðallega verið í auglýsingaskyni? Ekki skeiðaði ég á kjörstað til þess. Mér finnst að Steingrímur og Jóhanna hefðu bæði átt að kjósa. Gátu svosem gefið allan fjárann í skyn fyrirfram ef þau kærðu sig um en kjósa áttu þau.

Nú er í undirbúningi skilst mér að leggja fram frumvarp á Alþingi um að draga umsóknina um aðild að ESB til baka. Höfuðröksemdin finnst mér vera að allt þetta ferli sé of dýrt. Það finnst mér ótæk ástæða. Alþingi er búið að samþykkja þessa umsókn og ber að standa við hana. Vel getur þó verið að aðildin verði felld þegar til kastanna kemur.

Mér finnst raunar líklegt að umsóknin verði felld ef atkvæðagreiðslan fer fram fljótlega. Andstaðan við aðild er talsverð og stafar ekki eingöngu af Icesave. Mér finnst menn í alvöru búast við að þróunin verði einkum í átt til stórveldis í líkingu við Bandaríkin. Það tel ég vera afar ólíklegt að sé rétt. Auðvitað er það svo að ESB þróast og enginn sér fyrir nákvæmlega hvert. En það eru aðildarríkin sem ráða því.

Og í lokin fáeinar myndir.

IMG 0492Útilistaverk

IMG 0528Styttan sem ekki var stytta

IMG 0713Grasagarður

IMG 0746Úr orkideuhúsinu í Palmitas

IMG 0781Úr fiðrildahúsinu í Palmitas


953 - Hrunskýrslan

Jæja, þá er hægt að hætta að rífast um það og snúa sér að einhverju öðru. Það er ekki eins og Icesave sé það eina sem hrjáir okkur Íslendinga. Það er ágætt að vita það að svona hugsar þjóðin. Sameiginlega er hún miklu gáfaðri en hver og einn, jafnvel þó fábjánar séu einhverjir. Veit samt ekki hvort Þráinn Bertelsson hefur kosið. Skiptir það annars einhverju máli?

Nú mun ESB-umræða taka við af Icesave. Vel getur verið að í millitíðinni verði kosið til Alþingis. Þær kosningar munu þá umfram flest annað snúast um aðildina að ESB. Galli er hve ESB-umræður verða fljótt illvígar. Mönnum hættir til að vera alltof stórorðir og árásargjarnir. Andstæðingum aðildar hættir til að nota tækifærið og hræra líka í öðrum málum með óþarfa bægslagangi og þjóðremban ríður stundum ekki við einteyming. Þarmeð hætta andstæðingar þeirra að taka mark á þeim.

Það sem ég hef til þessara mála að leggja er að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að okkur beri að ganga í Evrópusambandið. Hef fylgst með og tekið þátt í þeirri umræðu sem verið hefur um þetta mál allar götur frá því að ég var í Danmörku haustið 1972 þegar Danir samþykktu að ganga í Evrópusambandið og Jens Otto Krag sagði af sér. Hinsvegar liggur okkur ekkert á. Höfum beðið svo lengi að okkur munar ekki um nokkur ár í viðbót.

Fyrr en varir verður líka rætt mikið um hrunskýrsluna miklu hvort sem hún verður einhverntíma lögð fram eða ekki. Já, það vantar ekki stórmálin í pólitíkina nú um stundir. Best verður þó að vera stikkfrí og skrifa um eitthvað annað.

Gáfumaður Guð var ei
gafst hann upp á rólunum.
Krakka setti í Mæju mey
sem minnst er nú á jólunum.

Þetta er bara ómerkilegur samsetningur til að æsa menn upp ef vera skyldi að þetta væri áhugamál einhvers sem þetta les. Einskonar Múhammeðsmynd.


952 - Atkvæðagreiðslan og ýmislegt fleira

Er að fylgjast með nýjustu tölum. Ekki er spenningurinn mikill. Sýnist kjörsókn vera svipuð og búast mátti við. Átti ekki von á að úrslitin yrðu svona afgerandi en það er ágætt að þau voru það. Hver túlkar þau auðvitað á sinn hátt. Verst að hætt er við að þetta sé enginn endapunktur á Icesave-málinu. Framtíð ríkisstjórnarinnar verður líklega mest til umræðu á næstunni. Best væri auðvitað að hvíla sig á þessum ósköpum öllum saman. Ekki geta það þó allir. Nú bíða flestir eftir því að byrjað verði að hrekkja útrásarvíkingana.

Aðfaranótt síðastlisins föstudags dreymdi mig að ég væri í heljarmikilli veislu hjá Ómari Kristjánssyni sem áður rak þýsk-íslenska verslunarfélagið. Í draumnum þótti mér sem ég hefði áður verið í svipaðri veislu hjá honum. Allir gátu fengið það sem þá langaði mest í og ráfað um landareign hans í Mosfellssveit. (Þetta var bara svona í draumnum. Ég veit ekki til þess að hann eigi neina landareign í Mosfellssveit.) Ég gæti auðvitað lýst þessari veislu í smáatriðum en það þjónar engum tilgangi.

Ómar sjálfan var hvergi að sjá í veislunni og furðaði ég mig á því. Hakkaði þó í mig það sem mig langaði mest í og mikill fjöldi fólks var þarna samankominn. Veðrið var bærilegt en þó var að minnsta kosti hluti veisluhaldanna í tjöldum.

Tefldi þrjár skákir í deildakeppni skáksambandsins í Rimaskóla núna um helgina og er þreyttur vel eftir það. Einkennilegt hve erfitt er að rata í Grafarvoginum. Týndi Rimaskóla hvað eftir annað en fann hann jafnan aftur sem betur fer. Eitt sinn villtist ég í svartaþoku í Grafarholtinu og hafði litla hugmynd um hvar ég flæktist. Keyrði svo útúr þokunni á Gullinbrú og þá var eftirleikurinn auðveldur.

Einkennilegt er að nú skuli innvígður og innmúraður sjálfstæðismaður vera orðinn ritstjóri Fréttablaðsins. Skiptir mig auðvitað ekki miklu máli því ég les það sjaldnast. Talsvert margir held ég samt að geri það og mögulega hefur þessi ráðning áhrif. Held samt að Ólaftur Stephensen sé fyrst og fremst fagmaður. Hann þurfti líka að víkja fyrir Davíð við Morgunblaðið svo ef til vill er honum ekki alls varnað.


951 - Bara að ég hefði nú heila

Já, sjálfsagt mæti ég á kjörstað og kýs, en hvað ég kýs að gera er ekki ákveðið. 

Annars er orðið of seint að gera nokkuð af viti í sambandi við þessa þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún er líka óttalegt ómark og eins og ég spáði er verið að reyna að fá fólk til að sitja heima. Hef samt ekki orðið var við mikið af beinum áskorunum um slíkt. Fólki þarf að finnast að það ákveði þetta sjálft, einkum ef það nennir eiginlega ekki að standa í þessari vitleysu.

„Bara að ég hefði nú heila", sagði fuglahræðan í Galdrakarlinum í Oz. Ætli ég geri ekki hennar orð að mínum núna.

Mér finnst ég ekki geta hunsað þessar kosningar. Aðeins einu sinni hef ég ekki mætt á kjörstað þegar mér bauðst það. Það var þegar Sigrún Þorsteinsdóttir bauð sig fram gegn Vigdísi árið 1988. Mér fannst þaulsetan hjá Vigdísi í embættinu óþörf og hún var búin að gefa það í skyn að hún yrði bara tvö kjörtímabil. Gat ekki hugsað mér að kjósa Sigrúnu. Hefði svosem getað mætt og kosið hvoruga.


950 - Af hverju er Ísbjörg Kjartansdóttir?

Ætli ég haldi ekki áfram að skrifa um Icesave og þess háttar vitleysu fram að þjóðaratkvæðagreiðslu. Finnst samt meira gaman að skrifa um annað og held að lesendur mínir kynnu betur að meta það. 

Það sem ég vildi sagt hafa er að líklega semja Bretar og Hollendingar við okkur á síðustu stundu eða þeir semja alls ekki. Með því að semja nú geta þeir haft áhrif á atkvæðagreiðsluna. Auðvitað er ekki að vita hver þau áhrif verða en að henni lokinni hafa þeir enga ástæðu til að flýta sér að semja.

Samninganefndin sem nú er í Bretlandi er alls ekki samninganefnd ríkisins heldur allra þingflokkanna. Ekki er þó að sjá að Sigmundur Davíð vilji semja en hugsanlega Bjarni Ben. Ég er alveg andvígur SDG í því að samningsleysi er mun verra en samningur. Þetta mál verður ekki leyst öðruvísi. Hægt er að rövla og rífast um lagaflækjur og þess háttar út í það óendanlega.

Vonandi verður næsta þjóðaratkvæðagreiðsla um eitthvað áþreifanlegra. Til dæmis um kvótann eða hvort efna skuli til stjórnlagaþings og þá hvenær og hvernig. Með nýrri stjórnarskrá yrði væntanlega gengið af núverandi flokkaskipan dauðri. Er það ekki einmitt það sem flestir vilja?

Réttast væri að halda stjórnlagaþing fljótlega. Slík þing voru síðast í tísku þegar einveldi konunga leið undir lok og lýðræði tók við. Lýðræði það sem við Íslendingar höfum búið við að undanförnu hefur reynst stórlega gallað og stjórnarskrá sú sem við höfum haft lengi er í raun ekki annað en plagg sem Danir hentu í okkur á sínum tíma og að flestu leyti afrit af þeirra eigin stjórnarskrá.


949 - Icesave enn og aftur

Enn styttist í þjóðaratkvæðagreiðsluna og mér sýnist þeim fjölga sem telja að af henni verði. Henni verði semsagt hvorki aflýst né frestað. Fólk stendur þá frammi fyrir því vali hvort það á greiða atkvæði eða ekki. Kjörsókn verður eflaust túlkuð af sumum sem dómur um það hve margir vilja aukið lýðræði. Kosningin sem slík er að verða æ marklausari. 

Þegar á kjörstað er komið og atkvæðaseðillinn í hendi eru möguleikarnir vissulega fleiri en að krossa við „já" eða „nei". Vel er hægt að gera atkvæðið ógilt til dæmis með því að merkja bæði við „já" og „nei". Líka er auðvitað hægt að skila auðu. Venja er við Alþingiskosningar að telja auð atkvæði og ógild saman og oftast er það lítill hluti greiddra atkvæða.

Svo þarf þó alls ekki að vera. Vel er hægt að hugsa sér að slík atkvæði verði nokkuð mörg og það að skila auðu þarf alls ekki að hafa sömu merkingu og að gera atkvæðið ógilt. Að mæta á kjörstað og vera talinn með í kjörsókn er „statement". Með því að mæta á kjörstað finnst mér fólk vera að segja að það vilji gjarnan taka þátt. Ef því hugnast hvorki „já-ið" eða „nei-ið" er opin leið að gera atkvæðið ógilt eða skila auðu.

Eins og nú standa sakir er ekki annað að sjá en ríkisstjórnin vilji nota atkvæðagreiðsluna eftir því sem hægt er í samningaviðræðunum við Breta og Hollendinga. Úr því sem komið er finnst mér ekkert athugavert við það. Sigri neitarar eins og allt bendir til gæti það auðvitað leitt til öngþveitis hér á landi en ég er alls ekki trúaður á það. Að slíkt komi hugsanlega af stað einhverri keðjuverkun og alheimsbyltingu finnst mér vera algjör fjarstæða.


948 - Atkvæðagreiðsla um Icesave

Litla hugmynd hef ég um
hvernig greiða skuli
atkvæði með ósköpum
af  Icesave-legu kuli.

Nú nálgast hin hættulega þjóðaratkvæðagreiðsla. Hvers vegna skyldi ríkisstjórnin ekki gera nokkurn skapaðan hlut? Hvað er eiginlega á seyði? Það er búið að afhenda Bretum og Hollendingum öll ráð á okkar málum en þeir vísa bara á Davíð og Bjarna. Stjórn þessa lands er orðin sú heita kartafla sem enginn vill sitja uppi með.

Man ekki betur en Ólafur Ragnar Grímsson hafi talað um það þegar hann neitaði að undirskrifa lögin um Icesave að bæði þjóð og þing væru andvíg þessum samningi. Daginn eftir fór ég í mánaðarlangt frí og fylgdist lítið með íslenskum stjórnmálaumræðum. Veit þó að þjóðaratkvæðagreiðsla var ákveðin um lögin sem samþykkt voru á Alþingi nokkrum dögum áður en Ólafur neitaði að skrifa undir þau.

Man að mér fannst vanta að Ólafur gerði grein fyrir þessu með þingið. Er þetta bara eitthvert misminni hjá mér eða var eitthvað fjallað um þetta í fréttum? Mér finnst þetta skipta máli. Hefur eitthvað komið fram um það að einhverjir þingmenn hafi skipt um skoðun eða hvað Ólafur hafi haft fyrir sér í þessu? Var búinn að gleyma þessu en það rifjaðist skyndilega upp fyrir mér áðan.

Það er ágætt að kunna ensku sæmilega. Eftirfarandi fann ég á Netinu og stal því án nokkurs samviskubits. Sumt af því er nokkuð fyndið. Þeir sem ekki kunna ensku hafa ekkert gagn af að lesa lengra.

The inhabitants of Egypt were called mummies. They lived in the Sarah Dessert and traveled by Camelot. The climate of the Sarah is such that the inhabitants have to live elsewhere, so certain areas of the dessert are cultivated by irritation. The Egyptians built the Pyramids in the shape of a huge triangular cube. The Pramids are a range of mountains between France and Spain.

Without the Greeks, we wouldn't have history. The Greeks invented three kinds of columns - Corinthian, Doric and Ironic. They also had myths. A myth is a female moth. One myth says that the mother of Achilles dipped him in the River Stynx until he became intolerable. Achilles appears in "The Illiad", by Homer. Homer also wrote the "Oddity", in which Penelope was the last hardship that Ulysses endured on his journey. Actually, Homer was not written by Homer but by another man of that name.

Socrates was a famous Greek teacher who went around giving people advice. They killed him. Socrates died from an overdose of wedlock.

In the Olympic Games, Greeks ran races, jumped, hurled the biscuits, and threw the java. The reward to the victor was a coral wreath. The government of Athen was democratic because the people took the law into their own hands. There were no wars in Greece, as the mountains were so high that they couldn't climb over to see what their neighbors were doing. When they fought the Parisians, the Greeks were outnumbered because the Persians had more men.


947 - Hver er munurinn á siðferði og réttlæti?

Í einhverjum blogg-greinum sem ég skrifaði nýlega hef ég látið svo ummælt að siðferðislega beri okkur Íslendingum skylda til að borga Icesave skuldirnar. Hinsvegar sé það augljóslega óréttlátt. Er þetta ekki orðhengilsháttur? Er ekki í raun um sama fyrirbrigðið að ræða? Hvað þetta tiltekna mál snertir er ljóst að nokkurnvegin er um það sama að ræða. Hver er þá niðurstaða mín? Er ég að segja að við eigum ekki að borga Icesave? Veit það ekki. Er í stökustu vandræðum með að ákveða hvort segja skuli já eða nei. Ég ætla samt að kjósa.

Sagt er að sumir líti svo á að verið sé að greiða atkvæði í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvor greiða skuli Icesave eða ekki. Það er ekki rétt. Það er bara verið að ræða um það hvernig greiða skuli. Stjórn og stjórnarandstaða eru sammála um að það skuli gert.

Mér finnst að með því að kjósa yfir okkur þá stjórn sem ekki gat komið í veg fyrir hrunið þá verðum við að bera nokkra ábyrgð á því hvernig fór. Á ég þá jafnt við þá sem kusu þá flokka sem stjórnuðu og hina sem gerðu það ekki. Það fylgja því nefnilega forréttindi að vera fæddur Íslendingur.

Hinsvegar er það ákaflega óréttlátt að við þurfum að borga svo háa upphæð sem aðrir ættu að bera ábyrgð á með okkur.

Öll viljum við vera sem einstökust. Vonandi er ég alveg einstakur bloggari á marga vegu.

Númera alltaf bloggin mín. (bráðum orðin þúsund) Nota alltaf sama word-skjalið og þegar ég er búinn að setja skrifin á bloggið þurrka ég allt út nema númerið og byrja á næsta bloggi og gæti þess að hækka töluna um einn. Linka aldrei í fréttir. Blogga daglega. Og stutt. Skrifa skemmtilega. (held ég). O.s.frv.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband