Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

925 - Sjónvarp Akureyri

Oft kemur ókunnugum á óvart hve langur aðdragandi tækninýjunga er. Til dæmis halda margir að Internetið sé tiltölulega nýlegt fyrirbæri. Svo er þó alls ekki. Það er að vísu rétt að það náði ekki verulegri útbreiðslu hér á Íslandi fyrr en á tíunda áratug síðustu aldar. 

Þá hafði það þó verið við lýði í marga áratugi og notið talsverðra vinsælda meðal háskólafólks og hernaðarsérfræðinga. Einkum var það í Bandaríkjunum sem það var notað.

Almenningur notaði hinsvegar gjarnan BBS-kerfin svokölluðu sem tengdu tölvur saman með símalínum. Talsvert var um slík kerfi hér á landi og eitt sinn bjó ég til lista um slík kerfi sem ég þekkti. Tölvuþróun réð miklu um þessa tækni og tölvur urðu varla almenningseign hér á landi fyrr en eftir 1980.

Annars ætlaði ég ekki að tala um Internetið hér heldur sjónvarpið. Þeim sem ekki þekkja til kemur ef til vill á óvart að fyrstu tilraunaútsendingar með sjónvarp fóru fram hér á landi árin 1934 til 1936. Já, þetta er engin prentvilla. Það var á fyrri hluta síðustu aldar sem þetta átti sér stað. Að vísu var aðeins um móttöku merkja að ræða en útsendingar áttu sér stað frá Crystal Palace Studios í Lundúnum.

Frá þessu er sagt í bók sem gefin var út árið 2007 í tilefni 20 ára afmælis Háskólans á Akureyri. Það var breski trúboðinn Arthur Gook sem segja má að hafi á vissan hátt staðið fyrir þessu. Hann hafði flutt inn til Akureyrar vönduð tæki til útvarpsrekstrar. Tilraunaútsendingar gengu hinsvegar ekkert sérstaklega vel og þegar að því kom að Íslenskt útvarp komst á laggirnar var leyfi Gooks afturkallað.

Tækin voru þó enn til staðar og þegar tilraunir til sjónvarpsútsendinga hófust nokkru fyrir síðari heimsstyrjöld voru Bretar mjög framarlega í þeirri tækni sem til þurfti. Baird-fyrirtækið barðist fyrir því að BBC tæki upp á sína arma vélræna en ekki rafræna tækni við sjónvarpsútsendingar. Til að flytja slíkt merki voru útvarpsbylgjur notaðar og einmitt þar komu tækin á Akureyri til sögunnar.

Það voru þeir verkfræðingurinn breski Fredrik Livingstone Hogg og Grímur Sigurðsson síðar útvarpsvirki til margra áratuga sem einkum stóðu að þessu. Hluta búnaðarins sem notaður var fengu þeir erlendis frá en margt urðu þeir að smíða sjálfir.

Frásögn af þessu hefur oft birst en aldrei vakið neina verulega athygli. Grímur Sigurðsson vildi þó fyrir hvern mun koma vitneskju um þetta á framfæri en gekk það illa. Hann dó árið 1984 og tók eflaust margt af því sem við nú vildum gjarnan vita um þetta merka framtak með sér í gröfina.


924 - Breytt stjórnskipan

Nú líður að hinni umtöluðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Margir vilja þó komast hjá henni og stjórnmálamenn rembast sem rúpan við staurinn við að finna einhverja aðferð til þess. Kannski eru þeir bara búnir að mála sig útí horn allir sem einn. 

Úrslitin í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu munu ráðast af því hvað gerist á næstu vikum í íslenskum stjórnmálum. Engin hefð er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum hér og þýðingarlaus er hún ekki nema kjósendur ákveði að svo sé. Samt er meira og minna óljóst hvað muni gerast að henni lokinni. Ég er alls ekki búinn að ákveða hvernig ég muni verja atkvæði mínu og ekki víst að ég geri það fyrr á síðustu stundu.

Kristrún Heimisdóttir fyrrum aðstoðarmaður ráðherra en nú sjálfstætt starfandi lögfræðingur skrifar ágæta grein um Icesave í Fréttablaðið. Ekki er annað að sjá á greininni en Kristrún sé þeirrar skoðunar að mistök hafi verið gerð þegar málið fór í þann farveg sem það hefur verið fast í að undanförnu. Alþingi hefur ekki með góðu viljað fallast á þær skilgreiningar sem þar eru og forsetinn Ólafur Ragnar Grímsson hefur ákveðið að skjóta málinu til þjóðarinnar.

Það er galli að Ólafur Ragnar Grímsson forseti landsins skuli tjá sig um málefni þess án alls samráðs við ríkisstjórnina. Mér finnst hann að vísu hafa alveg rétt fyrir sér en það er engu að síður nauðsynlegt að æðsta stjórn ríkisins sé sæmilega samstíga í málflutningi sínum. Ólafi finnst hann eflaust vera að stíga inn í einhvers konar tómarúm sem skapast hafi.

Vissulega eru tímarnir nú óvenjulegir en ef forseti landsins fer að koma fram sem valdamaður þá er stjórnskipanin breytt. Hingað til hefur ríkisstjórnin ráðið og forsetinn ekki látið í ljós skoðanir sínar hafi verið hægt að túlka þær sem afskipti af málefnum sem ríkisstjórnin er vön að ráða.

Það hefur áður komið fram í bloggskrifum mínum að ég telji lagaleg og siðferðileg rök hníga að því að víð Íslendingar eigum að borga okkar Icesave skuldir. Í pistli Kristrúnar sem vikið er að hér að ofan kemur fram að álit hennar er að pólitísk og hagfræðileg rök sýni að endurskoða þurfi málið frá grunni. Hvort já eða nei þjónar best hagsmunum landsins í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu er einfaldlega ómögulegt að segja.

Les sjaldan ljóðabækur.
Var samt að enda við hundgána hans Eyþórs.
Vel skrifuð og lýsandi.
Fáir punktar. Engar kommur. Góð bók.
Undarlegt með þessi skrif.
Sumir skrifa lítið en aðrir mikið,
alltof mikið.


923 - Hötum þennan hund sem hefur danska lund

Vér eigum nógan eldinn bræður,
við Íslands brennur hjartarót,
og skörum nú í gamlar glæður,
svo gjósi logar fjanda mót.
Íslands sonur ættjörð blekkir,
oss illa falla danskir hlekkir. 

Vinnum heiftarheit,
höslum vígareit.
Hötum þennan hund,
sem hefur danska lund,
og leggur oss í læðing.

Þeir auðmýkt sýna ættlands fjöndum,
sem aumir hundar sníki mat
og móður sína bundu böndum,
en bölvun þeim á enni sat.
Þeim bölvar jafnvel barnið unga
þeim bölvar lands og þjóðar tunga.

Upp nú Íslands þjóð,
um þá kyntu glóð,
heyrðu hvataljóð,
hugsaðu um þitt blóð,
sem draup af Dana höndum.

Vér eigum bræður ættjörð góða,
sem einni helgað starf vort sé,
og því skal geir við glæður sjóða,
goðum helguð banna vé.
Vér skulum seinna svipta niður,
þeim svikara, sem valda bíður.

Enginn eiri þeim,
er oss færði heim
danskan fjötur frá
þeim fjöndum handan sjá
er illu einu valda.

Þetta sungu skólapiltar við latínuskólann þegar Hannes Hafstein kom heim með Lauru frá Kaupmannahöfn haustið 1903 og hafði þá talið Alberti Íslandsráðherra á að skipa sig fyrsta íslenska ráðherrann.

Það var skáldið efnilega Jóhann Gunnar Sigurðsson frá Svarfhóli í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi sem samdi þennan brag. Gunnar var einn af þeim skólapiltum sem sönginn sungu á Battaríinu svokallaða þann 25. nóvember 1903. Gunnar lést aðeins 24 ára gamall árið 1906 og er af því mikil og átakanleg saga.

Pólitískur var Gunnar ekki og segja má að ljóð þetta sé á engan hátt lýsandi fyrir kveðskap hans. Ekki er samt hægt að neita því að þarna er fast að orði kveðið. Skoðanakannanir hefðu eflaust sýnt lítið fylgi við ráðherrann. Málstaður skólapilta naut almenns fylgis. Margir hlýddu á sönginn og höfðu gaman af.

Orðhákar vaða uppi nú um stundir og taka sterkt til orða um Icesave og ESB. Fæstir samt með eins miklum tilþrifum og Jóhann Gunnar. Sagan hefur útnefnt Hannes sem mikilmenni, en gagnrýnendur hans voru samt fjöldamargir á þessum tíma og víst er að ekki var hann lengi ráðherra.

Enginn efaðist um að í þessum brag er fjallað um Hannes Hafstein sem áður hafði verið bæjarfógeti á Ísafirði. Þeim sem frekar vilja fræðast um þetta efni skal bent á bækur Þorsteins Thorarensen sem út komu fyrir nokkrum áratugum. Kvæðið er skrifað upp eftir bókini „Eldur í æðum".


922 - Í magnskini á Kanarí

Er að reyna að komast aftur í gamla gírinn. Bloggfærsla næstum alltaf stuttu eftir miðnætti. Tekst kannski bráðum..

Gott að vera snúinn til baka á landið kalda. Nú er bara að koma sér af stað aftur. Þjóðaratkvæðagreiðsla handan við hornið. Ætla samt ekki að skrifa um það núna og kannski aldrei.

Afbakaði eitt vísukorn í flugvélinni á leiðinni heim. Aðalgallinn við Kanaríeyjaferðir er sá hvað flugferðirnar fram og til baka eru langar og hrútleiðinlegar. Og svo náttúrulega verðið. Í rauninni kostar þetta bæði handlegg og fótlegg en er samt þess virði.

Vísan er svona:

Ó, hve margur yrði þræll,
og alltaf mundi fagna því.
Mætti hann vera í mánuð sæll
og magnskin fá á Kanarí.

Upphaflega vísan um þegnskylduna er auðvitað miklu betri. Magnskin er líklega veðurfræðilegt nýyrði og Sigurður Þór má eiga það.

Hver fjárinn. Færslurnar á Google readernum mínum eru hátt á annað hundrað og þó eru ekki nema nokkrir dagar síðan ég hreinsaði hann. Veit ekki hvort ég nenni að lesa þetta allt. Einhver birti þar mynd að Steingrími Hermannssyni. Þá datt mér í hug:

Nú er Grímsi fallinn frá
og Framsókn orðin minni.
Engum veldur eftirsjá
og ekki heldur Finni.

(Ég veit ekkert hvaða Finnur þetta er. Lesendur verða bara að ákveða það.)

Egill frændi fjallar á sínu bloggi um Íslendinga, álit útlendinga á þeim, einnig sjálfsmorð og þess háttar. Góður eins og venjulega.

Líklega er bara best að þegja alveg um Icesave. Þetta mál er svo flókið að það er ekki nema á færi bestu lögfræðinga að fjalla af einhverju viti um það. Samt mun ég taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni.


921 - Kanarí

Kominn frá Kanarí og búinn að fá hugmynd.

Bloggið að undanförnu hefur gert mig svo skrif-fúsan að ég er búinn að skrifa einskonar dagbók allan tímann minn hér á Kanarí. Hef verið að hugsa um að prenta hana út og leyfa ættingjum og e.t.v. fleirum að lesa.

Nú er ég semsagt að hugsa um að setja hana bara í einu lagi hér á bloggið mitt með sterkri aðvörun. Geri það hér með. Þá er hægt að vísa á hana þar.

Þetta er ógnarlangur fjári. Næstum þrjátíu blaðsíður og engum nema þeim sem sérstakan áhuga hafa á mér og mínum eða Kanarí ætlandi að lesa. Aðalkosturinn er auðvitað sá að þar með er þetta frá og ég þarf ekki frekar um útprentanir að hugsa.

Það sem hér fer á eftir er semsagt bara dagbókin og ekkert annað.

Aðvörun lokið.

Lýsing á ferðalaginu niðureftir og fyrsta deginum eða svo var á skjali sem skemmdist af einhverjum ástæðum og ég hef ekki enn gefið mér tíma til að reyna að laga. En hér koma ósköpin:

Fimmtudagur 7. janúar 2010

Reikna með að hægt verði að skoða þó seinna verði upprunalega Kanarí-skjalið. Í kvöld fórum við á Klörubar, fengum okkur hamborgara og kók ásamt því að tengjast Internetinu. Tengingin gekk samt brösuglega til að byrja með. Skrifuðum Hafdísi 3 bréf. Á morgun flytjum við á Barbacan Sol íbúðahótelið. Kristín fararstjóri vill það endilega og við erum sammála. Þetta ætti að vera betri staður og þar er morgunmatur innifalinn. Síminn kemur að litlu haldi. Sé þó póstinn minn á Internetinu. Eiríkur í Securitas er búinn að svara mér en gefur enga skýringu á framkomu sinni. Veit ekki hvort ég svara honum.

Gengur báðum stundum illa að rata hér um nágrennið. Það er samt allt að koma en svo flytjum við á nýjan stað á morgun og þá þarf að byrja á því að rata þar í kring. Vitum þó hvernig á fara þaðan og á Klörubar. Hér er alltaf sama blíðan. Hiti og sólskin. Nenni ekkert að vera að fylgjast með fréttum frá litla Íslandi. Það tekur því ekki. Las bloggið mitt á Internetinu áðan og kommentaði smá. Annars er ég í fríi frá bloggi líka. Get samt ekki stillt mig um að skrifa eins og greifi. Nóg í bili. Kannski glatast þetta skjal líka.

Eyddum ekki miklu í dag. 17 evrum á Klörubar og nokkrum evrum annarsstaðar, sennilega 7. Sex evrur fékk sú sem þrífur hérna. Þá vorum við ekki búin að ákveða að flytja okkur og ekki getum við tekið þær af henni aftur. Hún stóð sig samt vel og útvegaði nýja kaffivél sem er betri en sú gamla, sem virkaði illa. Samt var hægt að hella uppá. Eldavélarhellur 2 eru hér og svo hraðsuðuketill.

Föstudagur 8 janúar 2010

Vakaði um 5 en sofnaði aftur. Nú er klukkan orðin níu og við að búa okkur undir að flytja.

Nú erum við að koma okkur fyrir á Barbacan Sol og íbúðin sem við fengum er sérlega flott. Allt nýlegt að sjá og glæsilegt. Á Parquemar var allt svolítið gamalt og þreytt en staðurinn ágætur samt. Hér er t.d. örbylgjuofn sem ekki var á Parquemar. Förum bráðum út að kaupa mjólk, brauð og fleira.

Búin að koma okkur fyrir og fá okkur eitthvað. Vínið er ódýrt, svipað og almennilegt drykkjarvatn. Keyptum rauðvín og hvítvín á 0,85 evrur lítrann áðan. Kannski útsala, en mjög ódýrt finnst mér. Mjólk er t.d. ekkert ódýr, á aðra evru lítrinn. Er að horfa á snjófréttir á CNN og líður æ betur hér. Sólskin og hiti. Fínasta veður.

Fórum á Klörubar í kvöld. Þar var Íslendingakvöld, veisla, tískusýning og fleira. Áslaug vann í happdrætti, spil frá Harry. Hittum Binna bróður Garðars. Fínn matur, nautakjöt, súpa á undan og vín með matnum. Alls 12 evrur pr. mann. Fórum fremur snemma heim og nú er bara að bíða eftir að tíminn líði og drekka ódýra vínið. Ætli ég kaupi ekki meira af því á morgun. Leigði öryggishólf, eða réttara sagt lykil að hólfinu í svefnherbergisskápnum. Frekar dýrt eða 1,5 evrur pr. dag. En þá þarf maður ekki að vera alltaf að flækjast um með alla sína peningar. Set jafnvel myndavélar, síma, tölvu og þessháttar í hólfið. Erum að mestu búin að koma okkur fyrir. Hér er fínt að vera.

Laugardagur 9. janúar 2010

Klukkan er ekki nema þrjú, en ég er vaknaður. Sofna kannski aftur og svo er komið að morgunverðinum á þessum dásamlega stað. Síðan líklega gönguferð hér og svo er á verkefnisskránni í dag að hafa e.t.v. samband heim þó manni þyki það ekki mjög mikilvægt. Fréttir að heiman eru sífellt að verða minna virði. Nú er allt nokkuð hljótt hérna en í gærkvöldi þegar við vorum að fara að sofa fyrir miðnætti var hávaði hérna frá umferðinni sem barst til okkar vegna þess að við höfðum opna glugga í svefnherberginu og á baðinu.

 

Eitt af skemmtiatriðunum í veislunni á Klörubar í gærkvöldi var að maður einn meðal samkomugesta flutti frumsamin ljóð. Þau voru nokkuð góð en flutningurinn ekki nógu góður og skvaldrið of mikið til þess að þau nytu sín. Sá sjálfan mig í anda í slíkum flutningi. Nokkrir komu einnig upp og sögðu brandara, einkum tvíræða eða beinlínis klámfengna eins og tilheyrir. Fórum fremur snemma og Örvar Kristjánsson var sagt að mundi þenja nikkuna til miðnættis.

 

Kristín fararstjóri sat við hliðina á okkur við nautakjötsátið ásamt dóttur sinni. Hún sagði okkur söguna um föður sinn sem var nýbúinn að kaupa sér harmónikku fyrir eina milljón þegar hann dó fyrir átta árum. Hún vill frekar eiga nikkuna til minningar um hann en að selja hana. Sagði henni frá að við hefðum séð Manna-bar. Ég hafði heyrt minnst á hann áður en hélt alltað verið væri að tala um mannapa.

 

Síðasta kvöldið okkar á Parquemar sá ég einn kakkalakka eða reiknaði með að svo væri. Stór og ljót padda skaust hratt úti horn þegar ég þurfti af einhverjum ástæðum að taka ruslafötuna upp. Lokaði skápnum og sagði Áslaugu ekki einu sinni frá þessu svo hún færi ekki að hafa pödduáhyggjur. Maurarnir voru beinlínis farnir að vera vinalegir og við að kunna inná þá. Kettir komu öðru hvoru í heimsókn og að mörgu leyti var ágætt að vera þarna, en hér er betra og allt nýtískulegra.

 

Seinna. Búin að fara í morgunmat í fyrsta skipti hér. Hann er reglulega flottur. Allt mögulegt á boðstólum. Sátum við borð úti skammt frá sundlauginni. Byrjuðum að horfa aðeins á myndina „Jóhannes" áður en við fórum í morgunmat og það lítur allt vel út í sambandi við það. Í gær þegar ég kveikti á tölvunni í fyrsta skipti hér virtist fyrst sem músin virkaði ekki en svo kom í ljós að það var bara vegna þess að glerið á sófaborðinu var of hált fyrir hana.

 

Förum líklega út að labba núna bráðum. Hitinn er aðeins minni en verið hefur. Yfir 20 gráður samt og sólskin svo það væsir allsekki um okkur.

 

Fórum áðan niður að strönd. Skoðuðum sandöldurnar hjá RIU hótelinu á Maspalomas. Þær eru flottar. Enska ströndin er sennilega eins og túristastrendur eru vanar að vera. Þessi var allt öðruvísi. Förum eflaust aftur þangað seinna og þá með myndavélarnar. Þær voru nefnilega ekki með í för núna (Nú, eitthvað verður maður að setja í fjárans öryggishólfið).

 

Á eftir fórum við svo á Klörubar með tölvuna. Svöruðum nokkrum bréfum frá Hafdísi og skoðuðum blogg og blogg-gátt pínulítið. Svo í supermarket og keyptum eitt og annað. Þegar við komum að kassanum dugði fjárveitingin ekki. Við vorum bara með rétt rúmlega 20 evrur en vorum búin að kaupa fyrir 26. Það varð náttúrlega uppi fótur og fit því afgreiðslustúlkan talaði ekkert nema spænsku. Náði í aðra sem skildi ensku og við skiluðum svo osti og kaffi. Við eigum svosem nóg af evrum en vorum bara ekki með meira með okkur. Sölumennirnir eru nefnilega býsna ágengir hérna og ég alltaf hálffullur af rauðvíninu og rósavíninu sem ég er að sulla í allan daginn.

 

Förum sennilega ekkert í kvöld. Horfum kannski á sjónvarpið  eða Jóhannes aka Ladda. Svo eigum við fleiri myndir eftir. Auðvitað getum við lesið líka. Ég er kominn nokkuð áleiðis með ævisögu Agassi. Hún er ágæt. Skák, tennis og hefaleikar eru nauðalíkar íþróttir þó ekki sjái það allir.

 

 

Sunnudagur 10. janúar 2010

 

Fór afspyrnu snemma að sofa í gærkvöldi eða  um níuleytið. Nú er klukkan um tvö að nóttu og ég vaknaður og kominn í skrifstuð. Fer samt sennilega að sofa aftur á eftir.

 

Nú, við horfðum á restina af Ladda í gærkvöldi og fengum okkur að borða. Svo var ég bara svo syfjaður að ég fór að sofa. Reyndi að horfa á einhvern umræðuþátt um kreppuna í Dubai, sem líklega var sýndur á BBC World service, en gat illa fylgst með honum.

 

Veðrið er alltaf jafnfrábært hérna. Hvergi kalt nema í sjónvarpinu og manni hlýnar nú bara við að horfa á það.

 

Förum eflaust eitthvað á rölt á eftir. Erum ekki búin að læra vel á umhverfið hér. Þurfum að skoða sandöldurnar betur og fara í gönguferð í sandinum. Kannski berfætt. Það ætti að vera betra en að fá sand í skóna.

 

Hef ekkert brunnið enda er sólarvörn sífellt á lofti og ég er strax farinn að fá lit á handleggi og fætur. Skórnir næstum teiknaðir á lappirnar á mér, enda er ég næstum alltaf berfættur í sandölunum. Sokkar eru bara til skrauts.

 

Hittum Íslending í gær sem kom hingað strax eftir áramót og verður hérna þangað til í mars. Svona hafa margir það, enda er hér gott að vera.

 

Jæja, nú tókst mér að vakna á undan sólinni. Í gær vaknaði ég um áttaleytið og þá var orðið bjart. Nú fór ég semsagt á fætur um sjö og það er ennþá dimmt. Strax farinn að hugsa um morgunverðinn. Starfsfólkið þar er líklega að paufast til vinnu núna.

 

Dreymdi einhverja vitleysu um stórfyrirtækin sem allt eiga. Ef maður reynir að sleppa frá einu og telur sér jafnvel trú um að réttast sé að hætta að styrkja það með viðskiptum sínum þá er maður bara að styrkja eitthvert annað. Ekki þess virði að hugs um. Hætti því.

 

Get ekki lengur falið mig á bakvið það að kaffifilterarnir eru ekki af réttri stærð. Áslaug sýndi mér í gærkvöldi hvernig maður aðlagar vitlausan kaffifilter að raunveruleikanum. Hún ætlast nefnilega til að ég helli uppá ef ég vakna á undan. Ósanngjarnt. Annars er kaffið frekar dýrt hérna (öfugt við vínið) þannig að líklega verður ekki mjög mikið um uppáhellingar hjá okkur. Í morgunmatnum er maður varla sestur þegar komið er með kaffihitakönnu til manns og bollarnir auðvitað tilbúnir á borðinu.

 

Búin að fara í morgunmat. Þó þetta sé bara í annað skiptið sem við förum þangað er maður strax farin að læra á kerfið og skemmta sér jafnvel yfir óförum annarra. Þegar við komum hingað á föstudaginn setti konan á leigubílnum okkur bara úr hér fyrir utan og við fundum ekki receptionina strax. Fórum samt inn á hótelið og þjónn kom og vísaði okkur á receptionina.

 

Áðan kom þessi sami þjónn að borði einu þar sem öldruð hjón sátu og voru að gera sér gott af morgunmatnum. Konan hafði brugðið sér frá, líklega til að ná sér í eitthvað og þegar þjónninn kom  og spurði hvort þau vildu te eða kaffi flæmdist karlgreyið í burtu og þjónninn sagði „úps, úps," svona „undir his breath" en þó svo við heyrðum. Konan kom svo von bráðar og þjónninn spurði hana hvort hún vildi te eða kaffi. Karlinn kom svo fljótlega aftur og gat haldið áfram með mogunmatinn sinn.

 

Í gær fékk ég mér óþarflega mikið af beikoni og eggjum og átti í erfiðleikum með að klára. Nú gat ég fengið mér fleira án þess að standa alveg á blístri. Það er boðið uppá allt mögulegt. Hráskinku fékk ég mér núna og roastbeef á rúgbrauðssneið auk þess venjulega og jógúrt og rúsínur  o.fl. á eftir.

 

Fórum í ítarlega gönguferð eftir morgunmat og komum ekki heim aftur á hótelið fyrr en um þrjúleitið. Fórum fyrst í ferð um sandöldurnar við Maspalomas. Eftirminnileg ferð. Áslaug berfætt í sandinum en ég að vísu í sandölum en þeir fylltust fljótt af sandi. Þar voru allsberir kallar á þriðja hverjum hól. (svona sirka) en engar berar kellingar (gáði vel að því) Rétt missti af því að ná mynd af einum að glenna sig aftan við Áslaugu án þess að hún vissi. Sumir voru nauðrakaðir um allt og með band um félagann og fjölskyldugimsteinana svo allt sæist sem best.

 

Svo fórum við eftir promenade götu allt að ensku ströndinni þar sem Þjóðverjar og Hollendingar virðast yfirgnæfa allt annað. Hér á hótelinu eru líka t.d. margar sjónvarpsrásir á hollensku og í morgun var leikfimi þar á því máli. Svo frá ströndinni tókum við bara einhverja götu uppávið og lentum fljótlega á Avenue  de Tirajana sem við erum nú farin að þekkja því hótelið okkar er við hana. Vorum með vatn, gos, sólaráburð og myndavélar með okkur í tösku og fengum okkur íspinna þegar fór að styttast á hótelið aftur. Ágæt ferð.

 

Hér virðist vinsælt að auglýsa með borðum sem flugvélar fljúga með í hringi. Þannig er t.d. mjög í tísku í dag að auglýsa Boney M, sem líklega eru að skemmta hér einhvers staðar. Kannski á bar einum við Avenue de Tirajana sem við sáum í dag. Þar voru þeir (eða þau) auglýst. Sáum líka hvar fallhlífaguttar með farþega lentu á ensku stöndinni rétt við tívolíin og það allt.

 

Förum líklega eitthvað út á eftir. Erum ekki farin að borða neitt að ráði síðan í morgunverðinum í morgun. Athugum kannski Mannabar eða kínverska staðinn þar rétt hjá. Hann á vera ágætur.

 

Skoðuðum myndir frá ferðinni í dag. Því miður var bara ein mynd af berum kalli og hann sneri meira að segja afturendanum að okkur. Sönnun fékkst þó á myndunum á því að Áslaug var þarna berfætt á ferð. Slöppuðum af vel og lengi og svo fór ég og keypti nautakjöt og grillaða önd á Slowboat. Kostað yfir 19 evrur með öllu sem er full mikið. Veitir ekki af að spara svolítið. Morgunmaturinn sparar okkur talsvert. Ágætt að vera laus við fúkkalyktina og kakkalakkana á Parquemar. Hittum eina tvo ketti á göngunni í dag og ég er farinn að halda að allir kettir á Kanaríeyjum séu vinalegir með afbrigðum. Ekki eru íslenskir kettir allir svona.

 

 

Mánudagur 11. janúar 2010

 

Hér er allt við það sama. Veðrið gott, ég vaknaður um miðja nótt og farinn að skrifa eftir að hafa farið snemma að sofa.

 

Vaknaði tvisvar í nótt en sofnaði fljólega aftur. Erum búin að fara í morgunmat. Klukkan er um ellefu og við erum búin að liggja í leti síðan þá. Ég fór í bað og bráðum förum við kannski út að versla. Svo kannski eitthvað meira þar á eftir. Sjáum til.

 

Fórum út að labba í dag og enduðum í molli eða kringlu einhvers staðar og þar var ágætur og stór supermarkaður. Keyptum ýmislegt þar. Meðal annars keyptum við um daginn hrísgrjón en til að gera almennilegan hrísgrjónagraut uppá íslensku þarf auðvitað kanil. Veltum  talsvert fyrir okkur hvernig kanill væri á spænsku en fundum svo krydd sem hét Kaneló á spænsku og létum það duga. Eflaust er það kanill.

 

Fórum líka til gleraugnasérfræðings og þar pantaði Álaug sér nýjar umgjarðir á gleraugun sín. Þær gömlu voru brotnar og hálfómögulegar. Sömuleiðis fórum við í garð við brú yfir umferðargötuna ofan við Avenue de Gran Canaría. Þegar ég segi ofan við á ég fyrst og fremst við að gatan sér nær fjöllunum. Annars er ég hálf áttavilltur hérna og er alveg sama um það.

 

Svo fór ég og keypti ódýrt vín og þess háttar (0,73 pr. líter er það nýjasta). Líka mjólk og fleira. Sömuleiðis portvín af fínustu gerð. Það var reyndar ekki gefið. Milli sex og sjö evrur flaskan. Förum á eftir út að labba, en klukkan er núna að verða sex og það þýðir að myrkrið dettur á bráðum. Er að prófa núna að skrifa á tölvuna úti á svölum. Þar get ég setið við einslags matarborð og skrifað en gallinn er sá að þá eyði ég af batteríinu. Kvöldmaturinn verður væntanlega bara eitthvað sem við finnum. Nóg er til.

 

Fórum út að labba enn og aftur um sexleytið. Fylgdumst með sólsetrinu við golfvöllinn hjá Maspalomas. Löbbuðum bara í þá átt sem við höfðum ekki áður farið frá hótelinu og lentum þá þar.

 

Fengum okkur svo kvöldmat sem samanstóð af einhverju sem ég keypti í dag og hélt að væri annað en það reyndist. Sveppi höfðum við áður keypt  og áttum ásam hrísgrjónum . Úr þessu varð hin ágætasta máltíð. Drukkum að sjálfsögðu rauðvín o g rósavín með.

 

Svona er að vera hérna. Endalaus ánægja og góðviðri. Heyri engar fréttir frá Íslandi. Þaðan er eflaust ekkert að frétta. Förum þó sennilega á morgun á Klörubar og kíkjum á tölvupóst og þess háttar.

 

 

Þriðjudagur 12. janúar 2010

 

Klukkan er ekki nema sex en ég samt vaknaður. Áslaug búin að vera að lesa í alla nótt. Það er að segja sofið með bókina hennr Yrsu í fanginu. Er víst spennandi. Umferð lítil og fáir komnir á fætur. Er að sötra bjór núna. Keypti hann í gær á 0,25 evrur dósina á einhverju tilboði.

 

Ná þarf í gleraugun Áslaugar á eftir og fara eitthvert til að komast á Internetið og skoða póstinn. Annað er eiginlega ekki á dagskránni í dag. Nema auðvitað morgunverðurinn. Hann verður tekinn með trompi eins og vanalega. Veðrið verður áreiðanlega fínt eins og undnafarið. Einhverjar gönguferðir förum við eflaust í.

 

Er búinn að fara í bað og kominn í rauðu buxurnar hans Bjarna. Þær eru ekkert mjög áberandi hér. Túrhestarnir eru margir skrautlega klæddir.  Fer oftst í bað eftir morgunverðinn og áður en við förum eitthvað út að ganga. Er farinn að þekkja í sundur sjampó og kroppasápu gleraugnalaust sem er mikil framför.

 

Áslaug les Yrsu af mikilli áfergju (gekk ekkert í nótt) og ég lít öðru hvoru í Agassi bókina. Drekkum bjór og rósavín ásamt því að horfa á CNN.

 

 

Miðvikudagur 13. janúar 2010

 

Enn er ég byrjaður að skrifa um miðja nótt. Þetta er slíkt letilíf að það hálfa væri nóg eins og sagt er.

Nú er ég orðinn svo latur að ég nenni varla að skrifa og er þá langt gengið. Fórum svolítið út að ganga í gær um leið og við sóttum gleraugun fyrrnefndu. Eftir dálitla göngu í glampandi sólskini meðal annars upp og niður alllanga brekku fórum við aftur heim á hótel.

 

Þar sofnaði ég smástund en síðan fórum við aftur út og meðal annars á Klörubar og kíktum á póst.

 

Lásum þar bréf  frá Hafdísi meðal annars um fressbitna Lísu og svöruðum því. Ég skrifaði strákunum og svo hittum við hjón þar sem við spjölluðu heilmikið við. Litum í búðir og apótek og fórum svo heim. Áslaug eldaði grjónagraut og við fengum okkur hann og brauð með ýmsu áleggi og úr varð ágætasti kvöldmatur. Sofnuðum svo snemma og nú er ég semsagt vaknaður ansi snemma.

 

Á Klörubar kíkti ég líka á bloggið mitt og ýmsar fréttir og annað þess háttar auk bréfaskriftanna. Satt að segja finnst mér fremur lítið að gerast heima um þessar mundir. Allir uppteknir af skýrslunni góðu sem búið er að fresta birtingu á einu sinni enn og verður kannski haldið áfram að fresta og rífast um án þess að hún komi út.  Á blogginu eru menn mestan part að leggja út af gömlum fréttum sýnist mér.

 

Þessi skrif koma að mestu í stað bloggskrifa hjá mér enda áreynslulaus með öllu. Kannski marklaus líka.

 

Samkvæmt CNN virðist mér veðrið víðast vera fremur hlýtt, jafnvel mjög heitt nema í Evrópu þar er víðast kalt. Eins og venjulega er samt ekkert mjög kalt norðantil í álfunni og t.d. las ég einhversstaðar um mikil og óvenjuleg hlýindi á Grænlandi.

 

Sofnaði aftur eftir að hafa skrifað þetta og dreymdi undarlegan og langan draum. Segi svolítið frá honum hér því það er svo sjaldan sem ég man drauma. Kannski dreymir mig sjaldan. Kannski er ég bara búinn að venja mig á að gleyma þeim fljótt.

 

Mér þótti sem Finnbogi Lárusson (sem reyndar var Pétursson í draumnum - en það er nú annar handleggur, eða annar Finnbogi) vildi endilega fá mig á einhvern fund og hann þurfti að tala við mig útaf því. Ég fylgdi honum eftir en missti af honum. Villtist og lenti inná einhverjum hægrisinnuðum mótmælafundi. Fann svo Finnboga fyrir rest. Fundirinn átti að vera morguninn eftir og ég var of seinn af stað þangað úr Breiðholtinu. Áslaug keyrði mig fyrst en fór einhverja leið sem ég var óánægður með. Hún fór svo úr bílnum og heim en ég hélt saltvondur áfram. Komst úr þeim ógöngum sem ég var í og ætlaði að renna bílnm eftir leið sem ég vissi að var ágæt því ég hafði farið hana nýlega.

Þetta var Volvoinn, eða a.m.k. var bíllinn rauður. Af einhverjum ástæðum var ég ekki lengur í bílnum og fjarstýrði honum bara. A einum stað á leiðinni hvarf hann út augsýn augnablik og birtist ekki aftur eins og hann átti að gera. Þá fór ég að athuga með hann og þá hafði ég keyrt ofan í holu sem allt í einu var komin þarna. Þar voru fleiri bílar í klessu og Volvoinn auðvitað líka. Velti því fyrir mér að ekki tæki að tilkynna þetta til lögreglu því bíllinn væri örugglega ónýtur. Hirti úr honum eina glerkrukku með blautum frímerkjum og labbaði heim á leið. Vaknaði svo og draumurinn var óvenju fastur í mér. Eitthvað fleira kom við sögu í þessum draumi s.s krakkar, kettir, kettlingar, vera okkar hér á Kanarí, samtöl við fólk og sitthvað fleira sem ég man ekki almennilega.

 

Jæja, nú er klukkan að verða átta og næst á dagskrá að bíða eftir morgunmatnum.

 

Eftir morgunmatinn og ítarlega hvíld fórum við út að labba og lentum niðri á strönd. Þar var margt fólk og flestir hálfnaktir að sjálfsögðu. Fórum úr skónum og aðeins út í sjóinn. Löbbuðum svolítið fram og aftur í fjörunni. Skoluðum síðan af löppunum á okkur í sérstökum lappaskolunarsturtum sem voru þar við tröppurnar uppá torgið. Benti Áslaugu meðal annars á styttu sem var þarna. Gallin var bara sá að þetta var engin stytta því hún hreyfði sig. Þetta var semsagt betlari sem hafði komið sér svona fyrir. Fór og tók mynd af honum og borgaði honum aðeins fyrir. Fengum okkur ávaxtasafa að drekka. Hann var gerður úr ávöxtum sem voru þarna á staðnum og reyndar rándýr. Drukkumm hann og sátum við borð rétt þar hjá sem gervistyttan var.

 

Fórum svo heim eftir annarri leið en við komum og lentum í Júmbo center. Vitlausu megin þó miðað við það sem við erum vönust.

 

Förum líklega út aftur á eftir og þá meðal annars til kaupa okkur eitthvað til að hafa í kvöldmatinn.

 

Fórum út áðan í björtu og fundum nokkra stórmarkaði. Keyptum ýmislegt en auðvitað var sá bestur sem við fundum síðast og þar var okkur ekki hleypt inn með það sem við höfðum keypt annars staðar. Keyptum ýmislegt og komum heim á hótel í myrkri. Fórum að horfa á CNN kl. 8 og þá heyrðum við fyrst um jarðskjálftann á Haiti. Erum að hlusta á fréttir þaðan núna.

 

 

Fimmtudagur 14. janúar 2010

 

Enn vaknaður með fyrra fallinu og byrjaður að skrifa. Já, það síðasta sem ég skrifaði í gær var um jarðskjálftann á Haiti. Þetta hefur verið mikll harmleikur og jarðskjálftinn beint undir borginni. Líkt og í Agadir á sínum tíma. Sá skjálfti var líka einir sjö á Richter, minnir mig.

 

Karlinn sem lék styttuna niðri á baðstrandartorgi er mér efst í huga núna. Þvílíkt þolgæði að standa þarna næstum hreyfingarlaus tímunum saman þakinn þessari rauðbrúnu styttumálningu. Ekki gæti ég það. Líklega fær hann ekki annað borgað fyrir þetta en þá peninga sem koma í baukinn hjá honum. Strákarnir sem voru að selja úrin og sólgleraugun og þ.h. hafa örugglega ekki heldur verið vel launaðir. Þó sumir beri eflaust afar lítið úr býtum hérna gengur lífið sinn gang og ekki er að sjá annað en flestir séu ánægðir. Meira að segja kettirnir mala af ánægju ef maður svo mikið sem strýkur þeim.

 

Umferðarmenningin er ögn þróaðri hér en á Íslandi. Réttur gangandi vegfaranda á sebrabrautum er alltaf virtur. Ef maður æðir út á sebrabrautir án fyllstu aðgæslu í Reykjavík getur maður verið í stórhættu. Yfirleitt er umferð ekki ákaflega mikil hérna og maður hefur svosem engar áhyggjur af henni.

 

Samkvæmt hótelreglum hér er víst ýmislegt sem ekki má. Áslaug var að lesa í þeim í gær og lét mig heyra sumt. Auðvitað er bannað að gefa hundum og köttum eða hæna að sér. Það er skiljanlegt. Sumt er nú ekki sniðið fyrir virðulega eldri borgara. Til dæmis mundi okkur seint detta til hugar að fara að sveifla okkur í þakrennunum hérna.

 

Hér mun vera einhver merkur dýragarður. Vafalaust förum við einhvern tíma og skoðum hann. Ýmislegt fleira er sem við höfum hugsað okkur að gera við tækifæri. Nógur er tíminn og hann er ekkert að hlaupa frá okkur. Allra skemmtilegast er að gera lítið sem ekki neitt. Í dag er fimmtudagur og við búin að vera eina viku af fjórum hér á Kanarí. Iðjuleysið er bara ágætt.

 

Klukkan er að verða fjögur og við höfum ekki farið neitt. Ágætt að vera í svona letikasti. Áslaug lauk við söguna hennar Yrsu og er ekkert sérstaklega hrifin. Held að hún sé samt spennandi. Sjálfur hef ég undanfarna daga verið að lesa ævisögu Agassis sem er með betri bókum sem ég hef lesið lengi. Skrifa kannski um hana seinna og Agassi.

 

Hér á Gran Canary er greinilega settur klór í baðvatnið. Það finn ég á lyktinni. Vatnsnotkum er nokkur list hér. Líklega er samskonar vatn í eldhúskrananum og á baðinu. Það notum við samt helst ekki til að hella uppá. Vöskum samt upp úr því. Til uppáhellingar notum við sérstakt ódýrt vatn. Til drykkjar annað. Annars drekk ég helst ekki vatn. Frekar vín, bjór, djús, kaffi eða eitthvað. Ropvatn er ekki vinsælt hér.

 

Sjónvarpið malar hér stöðugt. Einkum stillt á CNN held ég og varla er talað um annað en jarðskjálftann á Haiti.

 

 

Föstudagur 15. janúar 2010

 

Fórum aðeins út í gær og fundum stórmarkað þar sem við keyptum eitthvað og síðan kjötbollur í dós í Spar-búðinni í Júmbó-miðstöðinni og borðuðum það og fleira í gærkvöldi. Fórum snemma að sofa eða a.m.k. ég.

 

Í dag fórum við af stað í gönguferð eftir morgunmat. Kannski milli tíu og ellefu eða svo. Þegar við komum heim var klukkan orðin fjögur svo við höfum verið 5 tíma eða meira í ferðinni. Fórum fyrst niður á strönd og þaðan alla leið til San Augustín og enn lengra eftir því sem við nenntum. Síðan til baka sömu leið að mestu og heim á hótel. Alls staðar hellulagt prómenaði meðfram ströndinni, sem við gengum eftir. Fórum líka út á tanga einn þar sem voru fiskibátar og fleira. Allsstaðar talsvert af fólki en ekkert ákaflega margt. Stoppuðum á einum stað og fengum okkur bjór og jarðarberjasjeik.

 

Áslaug fór á fætur á undan mér í morgun og horfði á fréttir frá Haiti. M.a. sagði hún mér frá afreki íslenskrar björgunarsveitar sem sagt var frá á CNN.

 

Nú erum við búin að vera eina viku á Barbacan og hér er ágætt að vera. Sólböð er samt ekki hægt að stunda á svölunum en við söknum þess ekkert. Sundlaugina hérna við hótelið höfum við ekkert notað ennþá. Áslaug er búin að ná bókinni hans Indriðasonar úr töskunni hans Bjarna. Það var svolítið vandamál því rennilásinn á því hólfi hafði skemmst í flutningum.

 

 

Laugardagur 16. janúar 2010

 

Fórum frekar snemma að sofa í gærkvöldi. Nú er ég vaknaður á undan en nenni ekki að kveikja á sjónvarpinu. Er samt búinn að búa kaffikönnuna undir uppáhellingu.

 

Fór í gærkvöldi út að kaupa í matinn. Einn í fyrsta skipti. Fór í markaðinn sem við Áslaug fórum í síðast í gærkvöldi. Þar eru innfæddir í meirihluta og hálfógnvekjandi að koma þangað ókunnugur. Lætin mikil og hver kjaftar upp í annan á óskiljanlegan hátt en þar eru hlutirnir ódýrir miðað við túristastaðina. Í röðinni við kassann var ég næstur á eftir tveimur arabakonum í skósíðum serkjum og þær voru greinilega hálfskelkaðar líka á óhemjuganginum. Tók samt ekki eftir hvort þær voru með blæju. Held ekki.

 

Áslaug er byrjuð á Arnaldi og ég búinn með Agassi-bókina. Hún er ágæt og áhugaverð að flestu leyti. Niðurlagið samt full-súkkulaðikennt fyrir minn smekk. Víða í bókinni eru hlutir greinilega of-dramatíseraðir, en samt er mikill fengur að henni. Áhugi minn á tennis og svipuðum greinum byggist einmitt mest á sálfræðilegu hliðinni. Flestar aðrar hliðar eru að mestu tæknilegar og oft hægt að leysa á þann hátt. Sálfræðin og hugarfarið er þó meðal mikilvægustu atriðanna í þessu öllu.

 

Á tímabili horfði ég mikið á tennisleiki og þó ég hefði oft heyrt getið um Agassi og séð hann leika, var það ekki fyrr en við endurkomu hans á Opna franska meistaramótinu árið 1999 sem ég fór fyrst að veita honum athygli. Hann spilar tennis allt öðru vísi en aðrir. Hefur ekki hæðina og styrkinn í góðar og öflugar uppgjafir eins og sumir, en bætir það upp á annan hátt. Hann er heldur ekki eins liðugur og hraður og sumir menn á hæð við hann en það er sama. Hann var meðal allra bestu tennisleikara í heiminum á tímabili. Hann og Sampras dómíneruðu karlatennis þangað til menn eins og Federer og Nadal komu fram á sjónarsviðið.

 

Hugsa að við förum ekkert út fyrr en einhverntíma á eftir og þá með tölvuna á Klörubar. Ég er mjög sáttur við að hafa sjaldan samband heim. Loftslagið, hitinn og það að borða alltaf góðan morgunverð og fara snemma að sofa á ágætlega við mig. Er farinn að taka svolítinn lit í andliti og á handleggjum og fótum. Áslaug er næstum þvi brunnin á herðum og með flugnabit eða eitthvað á hægri fætinum. Ekki held ég samt að það sé alvarlegt.

 

Það er ekkert mjög heitt úti núna held ég þó það sé sólskin. Meiri vindur en oftast. M.a. fuku serviettur af borðunum hjá okkur í morgunmatnum í morgun. Galopið samt útá svalir núna og alls ekki kalt hér inni.

 

Fórum áðan á Klörubar og í matvöruverslun í Júmbó Center og keyptum vatn, vín, rjóma og ís. Allt fremur ódýrt. Förum kannski út að borða á eftir. Á Klörubar tengdust við Internetinu um stund og lásum bréf, fréttir og fleira. Skrifuðum líka bréf að sjálfsögðu og hættum ekki fyrr en batteríið var að verða búið.

 

 

Sunnudagur 17. janúar 2010

 

Fór einsamall í talsverða gönguferð svotil strax eftir morgunverð eða um klukkan 10. Fór fyrst niður efir Tirajana stræti og niður að sandöldunum. Yfir þær og beint niður á strönd. Það tók svona innan við klukkutíma. Ekkert mjög skemmtilegt að ganga berfættur í sandinum til lengdar. Leiðin líka lengri en hún lítur úr fyrir að vera.

 

Síðan tók við ganga í flæðarmálinu og hún var ágæt. Þarna er greinilega bannað að vera með nokkra þjónustu en margir fara þarna um. Ágætt að ganga berfættur í fjöruborðinu og sandurinn svo fyrir ofan þar sem hægt er að hvíla sig. Þar voru margir í sólbaði og vel hægt að stoppa og fá sér eitthvað. Þegar farið er að nálgast Faro-vitann er ströndin skipulagðari og að einhverju leyti nektarströnd. Allsbera fólkið var samt alltaf í miklum minnihluta og vakti enga sérstaka athygli eða eftirtekt.

 

Himun megin við Faro-vitann eru hótelin mjög glæsileg og vandað og mikið prómenaði alla leið út á Melónuströnd. Þarna er ekki sandströnd fyrir neðan gangbrautina en samt nær hún alla leið þangað og kannski lengra. Fór ekki alveg þangað heldur sneri við og fór svo upp meðfram Maspalomas friðlandinu. Þar voru meðal annars fuglar syndandi á vatni og síðan hægt að fara uppmeð einhverju sem líklega hefur verið á þegar nóg vatn er. Brýr yfir og steypulegt í botninn.

 

Fór svo framhjá úlvaldaútgerð og golfvelli og áfram upp að brekkunni þar sem við Áslaug snerum við um daginn. Var þá orðinn þyrstur og fékk mér hálfan lítra af kók sem kostaði 1,15 evrur og drakk úr flöskunni á stuttum tíma. Kom svo heim á hótel klukkan rúmlega tvö og hafði lítið stoppað. Tók nokkuð af myndum.

 

Fórum í kvöld niður í Júmbó center og í matvörubúð þar og keyptum það nauðsynlegasta. Fengum okkur svo kvöldmat sem var mjög góður og nú er klukkan að verða tíu og líklega förum við að sofa fljótlega.

 

 

Mánudagur 18. janúar 2010

 

Er búin að lesa nokkrar sögur í Grisham bókinni. Þær eru ágætar. Hann kann þetta allt.

 

Veit ekki enn hvort við förum eitthvað í dag. Áslaug er enn sofandi þó klukkan sé að verða átta.

 

Fórum út að ganga eftir morgunmat. Fórum í grasagarð í Maspalomas. Þar var mikið af forvitnilegum plöntum. Litfögur fiðrildi og drekaflugur. A.m.k. held ég að það hafi verið drekaflugur. Voru hrinkalega stórar með mjóan og langan búk og minntu helst á þyrlur. Eitt sinn hélt ég að þær væru að ráðast á mig en það var þá bara band úr buxunum mínum sem straukst við fótinn. Tókum helling af myndum. Fiðrildin áttu samt erfitt með að vera kyrr. Plönturnar voru betri með það.

 

Fórum svo í verslanamiðstöð á Maspalomas sem heitir Faro 2. Þar var ekki mjög mikið um að vera enda heitasti tími dagsins. Svo sömu leið heim á hótel og komum þangað fyrir þrjú,

 

Á morgun förum við kannski í dýragarðinn „Palamitos" held ég að hann sé kallaður og líklega út á eftir m.a. til að kaupa okkur nesti til að hafa með okkur þangað.

 

 

Þriðjudagur 19. janúar 2010

 

Í gærkvöldi þegar við vorum að borða hringdi síminn hér í íbúðinni. Auðvitað bregður manni svolítið þegar síminn hringir á svona stað. Í símanum var kvenmaður sem í fyrstu talaði þýsku en þegar ég sagðist frekar vilja tala ensku skipti hún yfir í hana án vandræða. Málið var að benda mér á að ljósið á svölunum logaði hjá okkur bæði nætur og daga.Ég kvaðst ætla að athuga það eða eitthvað þess háttar. Fyrst fannst mér þetta bara vera einhver óánæður nágranni sem væri orðinn leiður á að horfa á þetta ljós. Þegar ég var búinn að leggja á datt mér í hug að þetta væri líklega resepsjónin að kvarta, þó konan hefði alls ekki kynnt sig sem slíka.

 

Anívei, þetta er eflaust alveg rétt og meginástæðan er sú að gluggatjöldin fyrir svölunum eru tvöföld og hleypa alls engri birtu í gegnum sig. Sjáum ekki einu sinni hvort það er farið að birta. Eitt af því fáa sem vantar hér í þessa íbúð er klukka. Tölvan segir að vísu hvað klukkan er - en hitt væri fljótlegra. Hef bara alls ekki hugsað út í þetta með ljósið. Þegar við förum úr íbúðinni þá er kortið þannig úr garði gert að það slekkur á öllu (eða flestu) hérna inni. A.m.k. ljósin og á sjónvarpinu. Hafði grun um að slökknaði einnig á ísskápnum við þetta en svo er ekki. Sé líka núna að ekki slokknar á rafmagninu í tenglinum sem tölvan er í sambandi við.

 

Í gærmorgun uppgötvuðust blóðblettir á koddanum mínum og sömuleiðis á handklæðinu sem ég notaði í baðinu. Ástæðan var sú að ég hafði brunnið á skallanum og þar hafði myndanst sár sem ég hafði klórað ofanaf. Nú þarf ég semsagt að muna betur eftir að setja sólarvörn á skallann og ganga með húfupottlok næstu daga. Ég er líka svolítið flagnaður af sólbruna á nefinu en það er ekki mikið og auðveldara að klóra ekki það sem maður sér.

 

Förum á eftir út í Palmítos-dýragarð eða hvað hann heitir. Förum snemma í morgunmat og kaupum svo miða hér í resepsjóninni á 22 evrur og svo með vagni héðan klukkan 10 skilst mér.

 

Miðvikudagur 20. janúar 2010

 

Fórum í Palmítos í gær eins og til stóð. Fórum með strætó frá Júmbó Center og gekk það bærilega að öðru leyti en því að við fórum fyrst út hjá Aqualandi sem er ekki mjög langt frá skemmtigarðinum hjá Faro í Maspalmitos. Bílstjórinn bjargaði okkur frá því að verða eftir þar. Við nánari athugun kom í ljós að að á skiltinu sem villti um fyrir okkur að nokkru leyti stóð að það væru 7 kílómetrar til Palmítos.

 

Og sá vegur var sko mjór. Malbikaður samt og ekki mjög mikil umferð sem betur fór. Byggð lítil og bílstjórinn flautaði fyrir horn eins og eðlilegt var. Fórum eftir þröngum og mjóum dal og skyldilega birtist Palmítos í botni hans.

 

Þar var margt fróðlegt að sjá en svona eftir á eru kannski Orkideuhúsið og Fiðrildahúsið það sem mér fannst merkilegast. Sýning veiðifuglanna (allskyns fálka og arna) var og eftirminnileg og sömuleiðis páfagaukasýningin. Þarna var mjög gott úrval af hitabeltisfuglum allskonar sýndist mér og hávaðinn í þeim mikill og öskrin hræðileg stundum. Marköttum, apaköttum, gibbonöpum, orangútan, skjaldbökum, krókódílum og fleiri dýrum var einnig talsvert af, en ekkert af því sem hefðbundnast er í dýragörðum, ljónum, tígrisdýrum, fílum, gíröffum o.þ.h. Aqvarium var þarna en ekki mjög merkilegt. Lýsingin slæm og ekki gott að taka myndir. Mikill fjöldi af fiskum samt. Laug með höfrungum einnig en þar var ekki sýning að þessu sinni.

 

Þarna vorum við allan daginn og veitti ekkert af. Fórum heimleiðis með strætó um fimmleytið og gekk það ágætlega. Höfðum nesti með okkur þó þarna væru veitingastaðir en þar var frekar dýrt að versla.

 

Í gærkvöldi fengum við okkur svo að borða á Mannabar. Ágætur matur en ekkert sérstakur. Fengum okkur líka eftirmat sem var eplakaka og möndlukaka með ís. Reikningurinn var samt ekki nema um 15 evrur. Þjónninn sló um sig með íslensku. Sagði: „pínulítil sveppasósa" þegar hann kom með hana og „El borga" þegar við vorum að fara og vildum greiða reikninginn.

 

Veit ekki hvað við gerum í dag. Kannski tökum við því bara rólega og gerum ekki neitt.

 

Er búinn að lesa nokkrar sögur í Grisham bókinni. Ágætar sögur. Grisham kann þetta allt. Spilar á tilfinningar fólks eins og honum einum er lagið.

 

Fórum á Klörubar seinnipartinn með tölvuna og tengdumst Internetinu, lásum póst, svöruðum bréfum og kíktum á fréttir og þessháttar. Merkilegast þótti mér að komast að því að Bjarni er byrjaður með Timmu í ungbarnasundi og búinn að kaupa sundbol handa henni.

 

Ég setti upp smáblogg sem ég hafði útbúið fyrirfram og var strax búinn að fá komment á það þegar við fórum. Keyptum svo lasanjna og kál og erum nú að útbúa kvöldmat. Líka keyptum við eitt eintak af „Daily Mirror" sem var dálítið dýrt eða heilar 2 evrur. Þar er ekki minnst á Ísland eftir því sem mér sýnist í fyrstu yfirferð. Hinsvegar er minnst á Mr. Egghead í sambandi við West Ham og íþróttir. Ekki meira um það.

 

Sá á Netinu að gert er ráð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave 6. mars næstkomandi.

 

 

Fimmtudagur 21. janúar 2010

 

Á rölti okkar um hverfið í gær komumst við að því að í Cita er gott úrval af grænmeti og ávöxtum og sæmileg verð í supermarkaðaðnum þar. Skrepp hugsanlega þangað á eftir.

 

Fórum áðan í Cita að versla. Þar er margt til og ekki mjög dýrt. Á leiðinni þangað hitti ég mann sem var með einhverja auglýsingamiða í hendinni og hann spurði mig hvort ég væri Norðmaður eða Svíi. Sennilega hefur honum fundist stærðin á mér benda til þess að ég væri Skandínavi. Ég sagðist vera frá Íslandi. Hann var greinilega mjög impóneraður yfir því og sagði:

 

„I heard they stole all your money."

 

„Yeah, but we manage," sagði ég.

 

Svo hrifinn var hann af því að hitta Íslending að hann tók sérstaklega í hendina á mér þessvegna og steingleymdi að láta mig fá auglýsingamiða.

 

Keyptum svo brauð og djús á heimleiðinni og Áslaug lenti í klónum á áköfum sölumanni meðan ég var að kaupa það. Segi ekki hvað hann var að selja því hann sigraði okkur að lokum. Skemmtilegur karakter. Papa spesíalist.

 

Annars hefur dagurinn að mestu farið í letistuð. Er búinn með smásögurnar eftir John Grisham. Ágætar sögur. Sá í Cita verslunarmiðstöðinni bók eftir Arnald Indriðason. „Death and roses"  minnir mig að hún hafi heitið. Svörtuloftin hans reikna ég svo með að lesa næst. Gott að vera laus við ofurvald Netsins. Annað hvort á morgun eða laugardaginn býst ég þó við að kíkja þangað aftur og svo getur vel verið að við fáum okkur aðgang í heilan dag. Það væru þó einkum til að ná íslenskum fréttum og bloggum og þessháttar. Erum alltaf svo mikið að flýta okkur þegar við tengjumst á Klörubar að mestur tíminn fer í að lesa bréf og svara þeim.

 

Fór áðan í Mercado-búðina sem við höfum nokkrum sinnum farið í. Hún er víðáttumikil og þar gengur mikið á. Nú er ég búinn að finna út hvers vegna maður verður svona ruglaður þar. Það er nefnilega ekki nóg með að hún sé stór heldur er kassaröð á tveimur stöðum svo hægt sé að losna við viðskiptavinina fljótt og vel.

 

 

Föstudagur 22. janúar 2010

 

Er byrjaður á bókinni hennar Yrsu. Hef alltaf fordóma gagnvart draugasögum, en þessi bók hefur uppá margt annað að bjóða. Treysti því.

 

Förum alltaf í morgunverð á hverjum morgni. Ég er vanur að fá mér vel af beikoni og eitt spælegg ásamt ýmsu öðru. Brauðsnúð, álegg og allskonar. Eins og við vorum nú hrifin af morgunverðinum í upphafi þá finnst okkur æ minna til hans koma. Úrvalið er þó enn svipað held ég. Hægt að fá sér allskonar brauð, ávexti, álegg og fleira. Einnig jógúrt eða einskonar skyr og allskonar drasl útí það. Valhnetukjarna hvað þá annað. Sumt virðist þó vera sett fyrir okkur aftur og aftur bara af því að enginn vill það.

 

Um daginn var skilirí á hverju borði og þar stóð á ýmsum tungumálum að bannað væri að taka fæðu með sér úr morgunverðarsalnum. Sumir lágu víst á því lúalagi að nappa með sér ávöxtum og öðru þesshátta þegar þeir fóru.

 

Þegar sjónvarpið er sett í gang dettur það á rás 1. Þar er meðal annars kynning á hótelreglum. Þar er skýrt tekið fram að bannað sé að taka frá sólstóla og er því yfirleitt hlýtt. Man ekki hvort ég hef getið þess áður að morgunverðarsalurinn er rétt hjá hótelsundlauginni og við sitjum oft úti meðan við borðum og fylgjumst með því sem gerist.

 

Í morgun kom maður að sundlauginni. Hann var í bol þar sem stóð „Iceland" með stórum stöfum á bringunni. Hann tók frá fjóra sólstóla og breiddi vandlega tvö gul handklæði þversum á þá og fór svo. Svona eru þessir Þjóðverjar. Geng ekkert út frá því að hann hafi verið Íslendingur þó hann hafi verið í svona bol. Íslendingum finnst gaman að kenna Þjóðverjum um allan andskotann. Kannski Bretar fari kannski að taka við af þeim. Tjallar og kálhausar.

 

Annars er mér sama. Mér finnst flest skárra en að flatmaga í brennandi sólinni. Til dæmis að þramma fram og aftur um göturnar. Enda er ég farinn að rata talsvert hérna. Tirajana er þeirra Laugavegur. Hann get ég gengið afturábak og áfram og alltaf séð eitthvað nýtt. Áslaug er ekki alveg eins hrifin af svona „kynnisferðum" og vill frekar sitja í skugganum og sötra eitthvað svalandi.

 

Fórum áðan á Klörubar og kíktum á bréf, fréttir og þessháttar auk þess að fá okkur kaffi. Þar var einhver framsóknarvist eða þessháttar í gangi svo við stoppuðum ekki mjög lengi. Förum líklega út á eftir að fá okkur að borða. Kannski á ítalskan stað en þó er það ekkert ákveðið. Kíkti á bloggið mitt áðan og þangað virðast sömu fastagestirnir koma hvort sem ég skrifa eitthvað eða ekki. Icesave heldur áfram að vera mál málanna og eflaust verður rifist mikið um það framað þjóðaratkvæðagreiðslu. Hef bara takmarkaðan áhuga á þessu jamli.

 

 

Laugardagur 23. janúar 2010

 

Fórum í gærkvöldi út að borða. Fórum á ítalska staðinn sem heitir Rimini og er á Avenue de Gran Canari skammt frá Parqemar smáhýsunum og veitingastaðnum The Yellow Rose sem við fórum á fyrsta kvöldið okkar hér á Kanarí. Maturinn var mjög góður, bæði forréttur, aðalréttur og eftirréttur. Í dýrari kantinum samt og ekki kannski eins vel útilátinn og ég hefði helst viljað. Það er bara ákveðið samband milli verðs og gæða og framhjá því verður ekki auðveldlega komist.

 

Er byrjaður að lesa nýju bókina hennar Yrsu. Sem höfundur er hún að mínum dómi bæði of orðmörg og fordómafull en bókin er þó þægileg aflestrar. Sögumaður samsamar sig um of aðalsöguhetjunni og horfir of mikið á alla hluti frá hennar sjónarhorni. Já, nú man ég. Var víst búinn að skrifa eitthvað um bókina um daginn. Draugasagan í upphafi virkaði illa og ósannfærandi á mig en sagan fer batnandi og gæti orðið ágætlega spennandi.

 

Sagan hennar Yrsu er annars ágæt og líklega er ég bara að gangrýna hana til að sýnast merkilegur sjálfur. Get samt ekki að því gert að sumt í bókinni, orðalag og annað, fer í taugarnar á mér.

 

Fórum áðan með leigubíl að Faro-vita. Þaðan gengum við síðan eftir prómenaðinu meðfram ströndinni allt til Playa del Melonaras. Þar sáum við enga strætisvagna eða bíla sem líktust leigubílum svo við löbbuðum bara til Faro aftur. Fórum í supermarkað þar og keyptum okkur jarðarber og rjóma. Síðan heim á hótel með leigubíl aftur. Þeir eru fremur ódýrir hér. Kostuðu rúmar 4 evrur hvor ef ég man rétt.

 

Þurfum að fara út aftur á eftir til að kaupa okkur vatn og brauð (hljómar ekki vel) og kannski eitthvað fleira. Síðan verður líklega tínt eitthvað til í kvöldmatinn.

 

 

Sunnudagur 24. janúar 2010

 

Keyptum eina kartöflupaellu eða eitthvað þess háttar, sveppi og svolítið af grænmeti auk áðurnefnds og úr varð fínasti kvöldmatur. Kjöt áttum við svolítið. Rauðvín og Hvítvín með.

 

Núna er ég að sötra bjór og búa mig undir að fara í morgunverð. Á ekki von á að fara neitt sérstakt í dag. Þó getur það breyst. Í gær var fólk að fara héðan. Sumir Íslendingarnir höfðu verið hér síðan í desember og aðrir skemur. Við erum svosem ekkert farin að hugsa okkur til hreyfings.

 

 

Mánudagur 25. janúar 2010

 

Fórum ekkert í gær en fengum okkur Internet-aðgang hér á hótelinu og vorum í sambandi við krakkana auk þess að lesa fréttir, blogg og ýmislegt annað. Einnig að horfa á þætti svosem Sildur Egilsog þessháttar. Ég er ennþá í sambandi við Netið en nenni ekki að gera neitt þar. Síst af öllu að blogga. Icesave og þjóðaratkvæðagreiðslan væntanlega eru mjög ofarlega í huga bloggara og blaðamanna á skerinu sem eðlilegt er.

 

Reyndi mikið að komast yfir að kíkja á allt sem var í Google-readernum mínum en gafst upp á því. Held hann sé tómur núna og þar að auki er Internetaðganginum mínum að ljúka.

 

Förum í fyrra falli í morgunmat (vonandi) og svo þurfum við að hitta Kristínu fararstjóra á eftir. Veit ekki hvað meira við gerum í dag.

 

Fórum í gönguferð í dag. Hittum fyrst Kristínu Tryggva á El Duke. Ákváðum þar að fara í hringferð um landið (Gran Canaria) á miðvikudaginn. Fórum eftir prómeneðinu til San Ágústín og eins langt og leyft er að fara. Á meira að segja mynd af skiltinu sem bannar að fara lengra vegna hrunhættu. Við Íslendingar þekkjum nú ýmiss konar hrun. En nóg um það, fengum okkur Takeaway Pizza Hut pizzu í kvöldmat og syfjan tók síðan fljórlega völdin.

 

Skrýtið að sjá tunglið beint fyrir ofan hausinn á sér þegar farið er útá svalir í myrkrinu. Hallast líka óttalega vitlaust.

 

 

Þriðjudagur 26. janúar 2010

 

Man ekki betur en Alþingi eigi að koma saman í dag. Fyrir fréttasjúka Íslendinga fer kannski að draga til tíðinda á næstunni. Sá heldur ekki betur í gærmorgun en útkomu sannleiksskýrslunnar hefði verið frestað einu sinni enn. Slíkt er alger óhæfa og á eftir að hafa slæmar afleiðingar.

 

Kannski er það bara gert í auglýsingaskyni, þó þess ætti nú varla að þurfa. Man varla eftir að einnar skýrslu-lufsu hafi verið beðið með jafnmikilli óþreyju og jafnlengi. Hér á Kanari nennir fólk samt ekki að spekúlera í svona löguðu. Sökkvi mér samt líklega niður í öll smáatriði þessa máls þegar heim kemur.

 

Fór áðan niður í reception til að fá skipt 50-kalli og biðja um að verða vakinn klukkan sjö í fyrramálið. Ekkert merkilegt við það en þegar ég var á leiðinni upp var ég eitthvað annars hugar og þegar ég kom að hurðinni að íbúðinni okkar, næst fyrir innan brunaslönguna og allt og ætlaði að fara að hringja dyrabjöllunni tók ég eftir því að hún var vitlausu megin við hurðina. Þá fór ég að skoða málin nánar og sá að ég var á vitlausri hæð.

 

Er búinn með bókina „Horfðu á mig" eftir Yrsu Sigurðardóttur. Get ekki á mér setið að gagnrýna hana svolítið þó bókin sé ágætlega skrifuð og skemmtileg aflestrar. Þóra = sögumaður = Yrsa, með öllum sínum fordómum, er einum of áberandi. Það hefði mátt lesa söguna betur yfir og losna við nokkur smáatriði sem eru greinilega ekki rétt.

 

Auk þess er bókin óhæfilega löng, full af aukaatriðum og uppfyllingu. Ég er einkum ósáttur við höfundinn fyrir tvennt. Í fyrsta lagi er ómögulegt að kynna ekki til sögunnar fyrr en aftan við miðja bók alla íbúa sambýlisins. Að athuga ekki fyrr en undir lokin að stafaruglið sem sífellt er verið að hamra á er augljóslega bílnúmer er beinlínis óskynsamlegt auk þess sem draugasöguruglið í höfundinum fer í taugarnar á mér.

 

Ýmislegt bendir til að höfundurinn hafi ekki verið búinn að hugsa plottið í botn áður en hann byrjaði að skrifa. Það finnst mér endilega að þurfi að gera varðandi sögur af þessari gerð. Bókin er samt prýðilega skrifuð og heldur vel. Ósanngjarnt er að ætlast til þess af höfundinum að ekki sé hægt að gagnrýna hann.

 

 

Miðvikudagur 27. janúar 2010

 

Áætlunin er að fara í ferðalag um eyjuna í dag. Rútan verður klukkan átta við Roche Nublo hótelið.

 

Náðum að gleypa í okkur smámorgunmat áður en við fórum í ferðina. Komumst lítið eitt seinna af stað en til stóð því fólk sem einnig er hér á Barbacan hélt að fara ætti frá Rondo.

 

Ferðin var ágæt. Fararstjórinn vissi allt um það sem fyrir augun bar og fræddi okkur auk þess á sögu eyjanna.

 

 

Fimmtudagur 28. janúar 2010

 

Fyrst var stoppað á einhverjum litlum restaurant uppi í fjöllunum. Þar var búið að lofa að opna klukkan níu að sögn fararstjórans. Allt var þó lokað í fyrstunni og engan að sjá vakandi þó klukkan væri farin að ganga tíu. Úr þessu rættist þó fljótlega og hægt var að skoða svæðið. Þarna var minjasafn, heldur ómerkilegt og allt fremur lítið og fátæklegt samanborið við það sem maður er vanur neðan af ensku strönd. Ávaxtadrykkur þó góður.

 

Síðan var haldið áfram og vegurinn gerðist sífellt hrikalegri. Hann var þvengmjór og krókóttur. Hlíðarnar snarbrattar en bílstjórninn öruggur og greinilega vanur. Ekki var mikið stoppað en þó á einum útsýnisstað þar sem umhverfið var óvenjustórbrotið.

 

Stoppuðum smástund í Aldea ef ég man rétt og borðuðum svo í hafnarbænum Puerto de los Nieves meðan risavaxin ferja bjó sig þar til brottfarar í augsýn okkar út um hótelgluggann. Sennilega til Tenerife. Þar sáum við meðal annars hvar tvær konur unnu að verkun  smásíldar eða sardína rétt hjá þar sem við stoppuðum. Ekki voru þær mjög gefnar fyrir myndatökur. Maturinn sem við fengum var alveg þokkalegur þó kjötið væri ofsoðið. Búðingurinn sem var í eftirmat var sagður úr muldum maísbaunum en ágætur samt.

 

Nú var hrikalegum fjallvegum lokið og við tóku breiðir og góðir vegir á láglendi. Borgin Gáldar varð næst á vegi okkar. Hún var áður höfuðborg Gran Canaria og stendur í hlíðum sérkennilegs fjalls sem ég man ekki hvað heitir. Þar í kring er bananarækt mikil og fórum við á einn slíkan stað og  skoðuðum ýmislegt þar.

 

Næst stoppuðum við í garðinum Jardín, sem er ekki langt frá Arucas og frægur mjög. Ætluðum fyrst í hann að neðanverðu, en það gekk ekki því vegurinn var lokaður og bílstjórinn þurfti að bakka rútunni langar leiðir og taka á sig stóran krók. Þarna  var veitingaskáli þar sem boðið var uppá ýmislegt. Meðal annars að smakka á ýmsum líkjörum. Páfuglar voru margir á vappi en fengust ekki til að breiða úr stélinu. Einnig var mjög mikið af allskyns trjám og blómum sem ég kann alls ekki að nefna.

 

Síðan var haldið heimleiðis. Framhjá Las Palmas og flugvellinum í Gando og rakleiðis niður á ensku strönd. Þá var klukkan orðin fimm og við vel þreytt eftir langt og athyglisvert ferðalag.

 

Fengum okkur súpu ásamt brauði og áleggi í kvöldmat og fórum snemma að sofa. Vöknuðum líka snemma eins og venjulega og erum núna önnum kafin að bíða eftir morgunmatnum og birtunni.

 

 

Föstudagur 29. janúar 2010

 

Er með Internetaðgang fram á miðjan dag í dag þannig að ég skrifa kannski ekki mikið hér. Fylgdumst í gær með því á mbl.is þegar Íslendingar tóku Norðmenn í bakaríið. Gott hjá þeim. Fylgumst kannski með leiknum við Frakka á morgun. Sjáum til. Því miður eru Íslendingar vanir að tapa fyrir Frökkum og kannski eru þeir orðnir saddir. Held samt ekki.

 

Fórum í gönguferð niður í Kabash, Plaza og þangað í gær. Maður ruglast hálf í öllu þessu verslanaþvargi. Heim komumst við samt. Að fara í Júmbo er eins og að skreppa í Bónus núorðið.

 

Á einum stað í Kabash sáum við auglýst að leikur Íslands og Noregs yrði sýndur beint.

 

Í gær var ekki gott veður á Kanarískan mælikvarða. Svolítill vindur og sólarlítið. Á heimleiðinni úr Kabash fundum við meira að segja fyrir rigningardropum. Þetta var fyrsti síðbuxnadagurinn minn. Hitinn var samt áreiðanlega um 20 stig eða meira.

 

Í gærkvöldi borðuðum við nautakjöt og drukkum rauðvín með. Nánast eins og jólin. Áslaug útbjó þetta allt á eldavélarhellunum hérna. Fínn matur. Verð að reyna að nota Internetaðganginn minn eitthvað. Netið er bara svo fjári hægvirkt. Læt blogg-gáttina sækja nokkur blogg eða fréttir í einu og sötra bjór á meðan ég bíð og svo er morgunmaturinn einhverntíma á eftir. Já, ég fór snemma á fætur núna eins og svo oft á Kanarí.

 

Kláraði áðan bókina „Svörtuloft" eftir Arnald Indriðason. Get ekki látið hjá líða að gera svolítinn samanburð á þeirri bók og bókinni hennar Yrsu sem ég las líka nýlega. Arnaldur er mun fagmannlegri. Það er ekkert sérstakt sem hægt er að reka hornin í hjá honum. Helst það sem hann skrifar um Hrunið. Það er auðvelt að vera vitur eftirá. Hann lætur sína bók gerast rétt fyrir hrunið en Yrsa fæst meira við afleiðingar þess. Auðvitað er það erfiðara. Hún á ýmislegt ólært ennþá. Skrifaði um daginn eitthvað um hennar bók.

 

Annars hefur dagurinn að mestu farið í leti og ómennsku. Internetið hékk inni lengur en ég átti von á. Þar höfum við löngum stundum í dag rýnt í fréttir, blogg og ýmislegt þessháttar. Setti inn smábloggpistil sjálfur. Við skrifuðum krökkunum líka og svöruðum bréfum frá þeim. Það hefur heldur ekki verið eindregið sólskin í dag. Talsvert skýjað, en fínt veður samt.

 

Alveg held ég að maður gæti vanist því að sitja í klukkutíma í sólskini á sundlaugarbarmi og slafra í sig morgunverð, sem samanstendur af allskyns matartegundum. Helsti friðarspillirinn hér um slóðir eru sjúkrabílarnir. Sírenurnar hjá þeim eru í háværara lagi og þeir virðast alltaf eiga leið hér framhjá hótelinu.

 

 

Laugardagur 30. janúar 2010

 

Þá er komin helgi einu sinni enn. Í dag leika Íslendingar undanúrslitaleik við Frakka á EM í handknattleik sem mér skilst að sé haldið í Austurríki að þessu sinni. Eflaust verður sá leikur sýndur á Klörubar og við sjáum hann líklega þar. Um helgina verður einnig leikið til úrslita á Opna Ástraska tennismótinu og Afríkukeppninni í fótbolta. Veit ekki einu sinni hvaða lið leika þar en horfði í gær á undanúrslitaleikina í karlaflokki á Opna Ástralska.

 

Annars eru íþróttir auðvitað flótti frá raunveruleikanum en skemmtilegar samt. Þær eru það eina „show" sem mér finnst taka því að horfa á. Geri samt auðvitað upp á milli greina eins og aðrir. Handboltinn er bara skemmtilegur vegna þess að Íslendingar eru vanir að standa sig vel í honum. Annars væri hann hundleiðinlegur. Áhugi á öðrum greinum fer mest eftir áherslum sjónvarpsstöðva.

 

Horfði áðan á úrslitaleikinn í kvennaflokki á Opna Ástralska. Williams vann þó Henin hafi vissulega veitt henni keppni, sérstaklega í lok annars sets og í byrjun þess þriðja. Þó bretinn Murrey sé efnilegur þá held ég að hann ráði ekki ennþá við Federer. Sá leikur verður á morgun.

 

Sáum áðan leikinn Ísland vs. Frakkland. Hann var reyndar ekki sýndur á Klörubar, en við horfðum á hann á einhverjum sportbar í kjallaranum á hótel Roque Nublo. Líklega leika Íslendingar við Pólverja á morgun. Ætli við horfum ekki á þann leik á sama stað.

 

Í tilefni af leikleysinu á Klörubar orti ég:

 

Á Klörubar er kannski fínt

og kampavínið drukkið.

Evrumót þó ekki sýnt

og ekki mikið sukkið.

 

Fórum í Júbó-senter í kvöld og fengum okkur að borða. Löbbuðum síðan um og keyptum eitthvað af minjagripum. Líður að því að við þurfum að leggja niður fyrir okkur hvernig allt okkar hafurtask kemst í ferðatöskurnar. Þurfum líka að klára ýmislegt matarkyns. Ekki dugir að taka slíkt með sér.

 

Á miðvikudaginn kemur fljúgum við heim.

 

 

Sunnudagur 31. janúar 2010

 

Nú snýst málið um að klára sem mest af því sem við höfum verið að sanka að okkur undanfarið. Þ.e.a.s. matvörur og þessháttar. Sýnist kaffið ætla að vera mátulega mikið. Vínið verður sjálfsagt hægt að klára líka einhvernvegin. Gott að byrja samt fljótt til að verða ekki mjög fullur. Verst að geta ekki tekið morgunmatinn með sér.

 

Loftslagið og mataræðið er kannski það sem mestum stakkaskiptum hefur valdið hjá manni hér á Kanarí. Auðvitað er líka gott fyrir sálina að vera laus að mestu við bloggvesenið og þessar sífelldu hrunfréttir. Að sjálfsögðu er líka hægt að ýta slíku sem mest úr huganum þó maður sé á klakanum, en það er öðruvísi samt.

 

Sumar fréttir fær maður auðvitað beint í æð þó maður sé fjarri heimalandinu. Fann til með strákagreyjunum að tapa svona illa fyrir Frökkunum í gær. Sjálfur spáði ég því í svartsýni minni að leikurinn fundi tapast þegar Frakkafjandarnir komust í 9:6. Nú er bara að taka á því á móti Pólverjunum. (Nú eða Króötunum, hvað veit ég). Ekki er þess getið á CNN eða BBC World News um hvora er að ræða og ekki ætla ég að fá mér Netaðgang fyrr en seinni partinn.

 

 

Mánudagur 1. febrúar 2010

 

Mikið að gera í íþróttaáhorfi í gær. Fyrst var það nú að fylgjast með úrslitaleiknum í Opna Ástralska. Mátti varla vera að því að borða morgunverð vegna þess. Síðan var það Pólverjaleikurinn. Mikið fjör og mikið gaman. Svo úrslitaleikurinn í Afríkukeppninni sem sýndur var beint á Eurosport og að lokum úrslit snókermótsins sem kallað er Opna Welska mótið.

 

Þar að auki var ég svo með Internetaðgang en mátti náttúrlega varla vera að því að nota hann.

 

Á Naboen þar sem við horfðum á Pólverjaleikinn í gærdag tókst okkur að brjóta öskubakka og hella niður kaffi löngu áður en leikurinn byrjaði. Slíkur var taugatitringurinn. Var snemma sannfærður um sigur okkar manna eins og fleiri. Hélt þeirri trú þó illa gengi undir lokin og Pólverjarnir gerðust hættulega nærgöngulir. Var næstum dottinn í tröppunum hér á Barbacan eftir leikinn, en það bjargaðist. Borðuðum grjónagraut og þess háttar í Internet og Eurosport hléum í gærkvöldi. Fór afspyrnusnemma að sofa í eða uppúr níu. Afleiðingin er sú að nú er ég glaðvaknaður um þrjúleytið en fer líklega að sofa aftur á eftir með aðstoð Stillnoct.

 

Undanfarna daga hefur ekki verið sami breyskjuhitinn hér á Ensku ströndinni og áður. Veðrið er samt ljómandi gott og vel hægt að sitja úti og horfa á handbolta þó ofurlítil heit gola feykji pálmablöðum til öðru hvoru. Sólarleysið bara til bóta. Fyrirkvíðanlegt að snúa heim í snjóinn og kuldann aftur. Annars skilst mér að ekki hafi verið tiltakanlega kalt þar að undanförnu en þeim mun kaldara á Pólverjum og öðrum. Sjáið hvernig kuldinn fer með þá!

 

Það hefur greinilega rignt svolítið í nótt. Blautar götur (óðum að þorna þó) og þessháttar. Tjald yfir borðunum í morgunmatum og þeim er eitthvað að fækka sem þar eru og margir eru nýgræðingar. Ætli við séum ekki að verða með reyndasta fólkinu þar. Samt spyr þjónustustúlkan fyrir siðasakir stundum á hvaða herbergi við séum.

 

Erum að byrja að gera okkur klár til brottfarar. Klára mat og þess háttar. Þegar við komum heim í dag var hurðarlæsingin á íbúðinni biluð. Kvartaði strax undan því við vaktkonuna í lobbyinu og hún sendi viðgerðarmann á vettvang. Hann þurfti svo að ná í fleiri verkfæri og forritaði svo læsinguna vitlaust en nú er þetta komið í lag. Held að þetta hafi bara verið slysni og ekki er að sjá að óviðkomandi hafi farið hingað inn.

 

Búið að rigna smávegis öðru hvoru í dag. Internetsambandið kemur að góðu haldi. Endist eflaust eitthvað fram á kvöldið. Skelfing er annars gott að vera búinn að vera fjarri argaþrasinu um Icesave og þess háttar í næstum mánuð. Er að velta fyrir mér hvernig ég á að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem annaðhvort verður eða verður ekki.

 

 

Þriðjudagur 2. febrúar 2010

 

Nú er ég ekki lengur í Internetsambandi og verð sennilega ekki fyrr en ég kem heim á miðvikudagskvöldið. Bloggið hefur samt enn talsverð áhrif á mig.

 

Sigurður Þór Guðjónsson og Kama Sutra gerðu athugasemdir við síðustu bloggfærslu mína sem ég kaus að skilja þannig að þau gerðu einhvers konar samanburð á andlegum burðum fólks og stjórnmálaskoðunum þess. Auðvitað veit ég að þau meina það ekki þannig en gallinn við stjórnmáladeilur og Icesave-þras er sá að fólk velur gjarnan alltof snemma þann kostinn að gera þær persónulegar og bera saman gáfnafar og stjórnmálaskoðanir.

 

Tengingin þar á milli er beinlínis röng. Líka tengingin milli gáfnafars og bloggvinsælda. Sjálfur er ég hallur undir þá fordóma að telja að hæfileikinn til að koma sæmilega og að mestu villulaust fyrir sig orði í rituðu máli beri vott um miklar gáfur. Svo er bara einfaldlega ekki. Hjá Alþingismönnum virðast margir leggja að jöfnu ræðusnilld og gáfnafar. Einnig að því gáfaðra sem fólk er því betur sé það til þess fallið að ráða málum fyrir aðra. Margir eru líka þeirrar skoðunar að mikil þekking á afmörkuðum sviðum beri vott um gáfur.

 

Nú er runninn upp síðasti raunverulegi frídagurinn okkar hér á Kanarí. Miðvikudagurinn fer allur í heimferðina. Það er ekki enn orðið bjart svo ég veit ekki vel hvernig veðrið verður. Ekki hefur þó rignt að ráði í nótt og skýjafar gæti bent til sólskins. Tunglið er enn að glenna sig svotil beint fyrir ofan mann. Aðeins er þó byrjað að renna af karlinum þar. Var blindfullur um daginn.

 

Klukkan er 10:20. Erum að mestu leyti búin að pakka. Fengum okkur að borða á El Duke í kvöld og Irish Coffie á eftir. Erum svolítið tipsí þessvegna en náum þessu örugglega í fyrramálið. Jafnvel að fá okkur morgunverð að auki.Annars kemur þettat allt í ljós.

 

 

Miðvikudagur 3. febrúar 2010

 

Jæja, þá er heimfarardagurinn kominn. Meira verður ekki skrifað að sinni.

 

Over and out.


920 - Kem bráðum aftur

Já, ég er búinn að vera í næstum mánuð í einskonar sumarfríi á Stóru Hundaeyju (Gran Canary). Sé að sífellt er að verða óvinsælla að blogga á Moggablogginu. Ætla samt að halda því eitthvað áfram. Það er svo auðvelt og þægilegt. Jafnvel til í dæminu að það sé lesið. Fæ ekki séð að með því sé ég eitthvað að þjóna Davíð Oddssyni eða Sjálfstæðisflokknum.

Les meira að segja stundum forystugreinar (eða eru það Staksteinar) Morgunblaðsins sem birtast á Moggablogginu. Kannski skrifar Davíð þær. Veit það auðvitað ekki. Nafnleysið hentar þeim sem ráða stundum og stundum ekki. Í þessum greinum er oft vitnað í Pál nokkurn Vilhjálmsson sem er bloggari hér og talsvert lesinn. Held hann sé (fyrrverandi) blaðamaður. Hvernig væri að láta hann bara skrifa beint og nafnlaust í Moggann?


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband