923 - Hötum þennan hund sem hefur danska lund

Vér eigum nógan eldinn bræður,
við Íslands brennur hjartarót,
og skörum nú í gamlar glæður,
svo gjósi logar fjanda mót.
Íslands sonur ættjörð blekkir,
oss illa falla danskir hlekkir. 

Vinnum heiftarheit,
höslum vígareit.
Hötum þennan hund,
sem hefur danska lund,
og leggur oss í læðing.

Þeir auðmýkt sýna ættlands fjöndum,
sem aumir hundar sníki mat
og móður sína bundu böndum,
en bölvun þeim á enni sat.
Þeim bölvar jafnvel barnið unga
þeim bölvar lands og þjóðar tunga.

Upp nú Íslands þjóð,
um þá kyntu glóð,
heyrðu hvataljóð,
hugsaðu um þitt blóð,
sem draup af Dana höndum.

Vér eigum bræður ættjörð góða,
sem einni helgað starf vort sé,
og því skal geir við glæður sjóða,
goðum helguð banna vé.
Vér skulum seinna svipta niður,
þeim svikara, sem valda bíður.

Enginn eiri þeim,
er oss færði heim
danskan fjötur frá
þeim fjöndum handan sjá
er illu einu valda.

Þetta sungu skólapiltar við latínuskólann þegar Hannes Hafstein kom heim með Lauru frá Kaupmannahöfn haustið 1903 og hafði þá talið Alberti Íslandsráðherra á að skipa sig fyrsta íslenska ráðherrann.

Það var skáldið efnilega Jóhann Gunnar Sigurðsson frá Svarfhóli í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi sem samdi þennan brag. Gunnar var einn af þeim skólapiltum sem sönginn sungu á Battaríinu svokallaða þann 25. nóvember 1903. Gunnar lést aðeins 24 ára gamall árið 1906 og er af því mikil og átakanleg saga.

Pólitískur var Gunnar ekki og segja má að ljóð þetta sé á engan hátt lýsandi fyrir kveðskap hans. Ekki er samt hægt að neita því að þarna er fast að orði kveðið. Skoðanakannanir hefðu eflaust sýnt lítið fylgi við ráðherrann. Málstaður skólapilta naut almenns fylgis. Margir hlýddu á sönginn og höfðu gaman af.

Orðhákar vaða uppi nú um stundir og taka sterkt til orða um Icesave og ESB. Fæstir samt með eins miklum tilþrifum og Jóhann Gunnar. Sagan hefur útnefnt Hannes sem mikilmenni, en gagnrýnendur hans voru samt fjöldamargir á þessum tíma og víst er að ekki var hann lengi ráðherra.

Enginn efaðist um að í þessum brag er fjallað um Hannes Hafstein sem áður hafði verið bæjarfógeti á Ísafirði. Þeim sem frekar vilja fræðast um þetta efni skal bent á bækur Þorsteins Thorarensen sem út komu fyrir nokkrum áratugum. Kvæðið er skrifað upp eftir bókini „Eldur í æðum".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert kominn á brautina. (beinu?)

Ólafur Sveinsson 6.2.2010 kl. 01:08

2 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hefur nokkurn tímann ríkt pólitískt logn á þessu náskeri?  Getur verið að sundrungin og agaleysið sé því um að kenna að hér er engin herskylda eða heimavarnalið?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 6.2.2010 kl. 01:13

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

  Dýrt kveðið hjá Jóhanni Gunnari Sigurðssyni. Snemma á seinustu öld voru ljóð,vísur og annað í bundnu máli,mjög vinsælt efni og þá um leið áhrifaríkt. Það að hann var ekki pólitískur,en kveður svo fast að orði,undir strikar greinilega skömm hans á (talið efalaust) HannesiHafstein. Þannig eru orðhákar dagsins í dag,ekki endilega flokkspólitískir,en takast grimmt á.     

Helga Kristjánsdóttir, 6.2.2010 kl. 01:25

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Ólafur, Jóhannes og Helga.

Þrátt fyrir deilurnar um stjórnskipan landsins í upphafi tuttugustu aldar náðist sátt og sæmileg eindrægni að lokum. Vonandi verður svo einnig nú. Sundrung og ósamkomulag er það sem við Íslendingar síst þurfum.

Sæmundur Bjarnason, 6.2.2010 kl. 08:56

5 Smámynd: Ragnheiður

Sæmundur

Það er afar fróðlegt að taka tarnir á þessum vef (www.timarit.is ) og lesa þar gömul blöð einmitt frá þessum tíma. Ég var komin þar sem pestin 1918 stráfelldi fólk og þá varð ég að taka mér hlé. Það er óhugnanlega áhrifaríkt að lesa dánartilkynningar heilu fjölskyldnanna....en það er nú ekki til umfjöllunar hér.

Takk fyrir fína færslu !

Ragnheiður , 6.2.2010 kl. 11:26

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Erum við nokkuð annað en landið og sagan ef grannt er skoðað? Að svamla um í ólgusjó nútímans án sögunnar og landsins finnst mér eins og að vera einn og vegalaus á ókunnum stað þar sem amast er við manni.

Sæmundur Bjarnason, 6.2.2010 kl. 12:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband