922 - Í magnskini á Kanarí

Er að reyna að komast aftur í gamla gírinn. Bloggfærsla næstum alltaf stuttu eftir miðnætti. Tekst kannski bráðum..

Gott að vera snúinn til baka á landið kalda. Nú er bara að koma sér af stað aftur. Þjóðaratkvæðagreiðsla handan við hornið. Ætla samt ekki að skrifa um það núna og kannski aldrei.

Afbakaði eitt vísukorn í flugvélinni á leiðinni heim. Aðalgallinn við Kanaríeyjaferðir er sá hvað flugferðirnar fram og til baka eru langar og hrútleiðinlegar. Og svo náttúrulega verðið. Í rauninni kostar þetta bæði handlegg og fótlegg en er samt þess virði.

Vísan er svona:

Ó, hve margur yrði þræll,
og alltaf mundi fagna því.
Mætti hann vera í mánuð sæll
og magnskin fá á Kanarí.

Upphaflega vísan um þegnskylduna er auðvitað miklu betri. Magnskin er líklega veðurfræðilegt nýyrði og Sigurður Þór má eiga það.

Hver fjárinn. Færslurnar á Google readernum mínum eru hátt á annað hundrað og þó eru ekki nema nokkrir dagar síðan ég hreinsaði hann. Veit ekki hvort ég nenni að lesa þetta allt. Einhver birti þar mynd að Steingrími Hermannssyni. Þá datt mér í hug:

Nú er Grímsi fallinn frá
og Framsókn orðin minni.
Engum veldur eftirsjá
og ekki heldur Finni.

(Ég veit ekkert hvaða Finnur þetta er. Lesendur verða bara að ákveða það.)

Egill frændi fjallar á sínu bloggi um Íslendinga, álit útlendinga á þeim, einnig sjálfsmorð og þess háttar. Góður eins og venjulega.

Líklega er bara best að þegja alveg um Icesave. Þetta mál er svo flókið að það er ekki nema á færi bestu lögfræðinga að fjalla af einhverju viti um það. Samt mun ég taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Jæja, þá er allt orðið eins og var. Sæmi kominn með miðnæturblogg og allt. Vanafastir menn geta aftur tekið gleði sína.

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.2.2010 kl. 08:25

2 Smámynd: Kama Sutra

Núna vantar bara góðan kisubloggara.  Þá verð ég alsæl og hamingjusöm og lífið fullkomið.

Kama Sutra, 5.2.2010 kl. 09:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband