1651 - Þóra Arnórsdóttir

siggiGamla myndin.
Sigurður Fjeldsted.

Það er enginn vafi á því að væntanlegar forsetakosningar eru að ná miklum tökum á fólki. Stuðningur við Þóru Arnórsdóttur er mikill og áreiðanlega bíða flestir í ofvæni eftir skoðanakönnunum sem hægt er að taka mark á. Reynt er að koma flokkapólitíkinni að í þessum kosningum en alls ekki er víst að það takist. Þar ríkir skotgrafahernaðurinn og kaldastríðshugsunarhátturinn. Margt á eftir að gerast í sambandi við þessar forsetakosningar og ÓRG er alls ekki eins viss um sigur og margir virtust álíta fyrir stuttu.

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar ágæta grein um forsetakosningarnar og misskilning varðandi þær á Vísi.is í dag. http://www.visir.is/misskilningur-um-forsetaframbod/article/2012704109959 og óvitlaust er að lesa hana.

Samskipti manna á milli eru mikið að breytast. Tími hins prentaða máls er að líða undir lok. Ljósmyndir og kvikmyndir (vídeó) eru að taka yfir. Fáir nenna að lesa langan texta og ennþá færri að skrifa hann. Allt á að vera stutt og fljótafgreitt, enda er ekki tími til annars.

Fésbókin er fyrirbrigði sem hefur sennilega mikil áhrif á skoðanir fólks. Þar er mjög auðvelt að hafa samband og þannig dreifast upplýsingar og hugmyndir meðal manna með miklum hraða. Vissulega eru ekki allir tengdir netinu og fésbókinni, en allir eru í sambandi við einhverja sem það eru.

Að hanga á netinu er á margan hátt sambærilegt við það að sökkva sér í lestur dagblaða og bóka sem áður var algengt. Vörpin (útvarp og sjónvarp) er líka fremur auðvelt að nálgast þar ef vilji er fyrir hendi. Þeim fækkar þó óðum sem vilja láta starfsfólkið á þeim sía allt sem sýnt er og mata sig á því. Ég er ekki að segja að allt sé merkilegt sem á fésbókinni og netinu almennt er að finna en samskiptin og frelsið eru þar í hávegum höfð og breyta lífi margra.

Þó útgerðarfélögin, sum hver a.m.k., hafi haft það skítt undanfarin ár vegna Hrunsins er ekkert minni ástæða til að þau borgi auðlindagjald af því sem þau moka uppúr sjónum núna. Þau sem eru svo skuldug vegna Hrunsáfalla að þau geta ekki borgað skuldir sínar eiga að sjálfsögðu einfaldlega að fara á hausinn. Ef tækifærið sem nú er fyrir hendi til að koma auðlindum sjávarins úr eigu félaganna og í þjóðareign verður ekki notað, gerist það líklega aldrei.

Hverjir hafa verið heimsmeistarar í skák síðustu hálfa öldina eða svo í hugum fólks? Flestir muna að Bobby Fischer hrifsaði tignina til sín af Boris Spassky í Reykjavík árið 1972. Mætti svo ekki þegar hann átti að tefla við Karpov árið 1975. Svo man fólk sjálfsagt eftir Kasparov og jafnvel Indverjanum Anand. Held að fáir aðrir en sérstakir skákáhugmenn kannist við fleiri. Norðurlandambúar kannski við Magnús Carlsen. Skákmenn komast sjaldan í heimsfréttirnar núorðið.

Er að lesa ævisögu Fischers eftir Frank Brady þessa dagana og þar er margt athyglisvert. Eina missögn fann ég þó varðandi Íslandsdvöl hans á þessari öld. Í bókinni er gefið í skyn að flugvélin sem kom með hann til landsins eftir fangelsisdvölina í Japan hafi lent á Keflavíkurflugvelli. Svo var þó alls ekki. Ræði kannski frekar um ævisögu þessa síðar ef tilefni verður til. Veit t.d. ekki betur en að enn séu óafgreidd mál varðandi arf eftir hann og skatta sem Bandaríkjastjórn telur að hann hafi svikist um að greiða..

IMG 8195Bekkur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skemmtileg mynd af Sigga Fjelló - veistu hvort þessi klukka er enn til þarna í Bifröst?

Ellismellur 11.4.2012 kl. 20:14

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Nei, ég hef ekki hugmynd um það.

Sæmundur Bjarnason, 12.4.2012 kl. 00:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband