1652 - ESB og forsetakosningarnar

sjúkrabörurGamla myndin.
Ekki veit ég hvað gengur á þarna en þykist geta þekkt Pétur Esrason, Hörð Haraldsson og
Guðmund Vésteinsson. Kannski er þetta einhvers konar æfing.

Samkvæmt fréttum í kvöld er ekki einu sinni víst að ESB kæri sig neitt um að við Íslendingar göngum í sambandið. Það hefur samt engin áhrif á stuðning minn við umsóknina um inngöngu. Kannski er þetta bara brella til þess að gera okkur (eða ríkisstjórnina a.m.k.) enn ákafari í að komast inn og lemja á ESB-andstæðingum. Satt að segja finnst mér að við höfum bara um tvær leiðir að velja. Annars vegar að halla okkur einkum að Ameríku (Bandaríkjunum þó sérstaklega) eða Evrópu (ESB) og að þriðja leiðin sé í raun og veru ekki til. Ég er þó ekki að tala um að glata sjálfstæðinu eða afhenda það einhverjum öðrum. Við Íslendingar kunnum bara ekki fótum okkar forráð nema með einhverjum stuðningi. Verst að áhrif Evrópu og Norður-Ameríku í heiminum fara þverrandi.

Fyrir mér eru alvöru frambjóðendur ekki mjög margir í komandi forsetakosningum. Mér finnst það vera Ólafur Ragnar Grímsson að sjálfsögðu og auk þess konurnar Þóra Arnórsdóttir og Herdís Þorvaldsdóttir. Ástþór er bara Ástþór og kannski fær hann fleiri atkvæði en síðast. Get samt ómögulega séð hann fyrir mér sem forseta. Hugsanlegt er að Ari Trausti Guðmundsson og Kristín Ingólfsdóttir bætist við áður en yfir lýkur en líklega verða það ekki fleiri. Tel Hannes og Jón einfaldlega ekki með. Endanlega verður þó að sjálfsögðu ekki ljóst um hverja verður kosið fyrr en framboðsfrestur rennur út. Það skilst mér að verði í maílok.

Arion banki lánar þýsku fyrirtæki peninga. Fyrirtæki þetta er í meirihlutaeigu Japana. Ekkert er uppgefið um lánsfjárhæðina né af hverju Japanir eða Þjóðverjar lána ekki. Mér líst ekki nema í meðallagi vel á þetta en vel getur verið að þetta blessist. Er Samherji hugsanlega einhversstaðar þarna á sveimi. Þetta eru bara getsakir og tilbúningur hjá mér en gæti svosem alveg verið.

Ævisagan sem ég var að enda við að lesa um Bobby Fischer eða Robert James Fischer eins og hann hét fullu nafni var um margt áhugaverð. Ég hef teflt nokkuð um dagana og fylgst talsvert með skák allar götur frá því að Friðrik Ólafsson sigraði svo efirminnilega í Hastings um áramótin 1955-56. Helgi Ólafsson ku vera að senda frá sér bók á ensku á næstunni um síðustu ár Bobby Fischers hér á Íslandi. Hún á að heita „Bobby Fischer Comes Home.“ Skrifa eflaust eitthvað um hana seinna. Viðfangsefnið er fasínerandi. Það finnst mér a.m.k. Hef skrifað nokkuð um hann undanfarið. (Fischer altsvo.) Er ekki viss um að öll kurl séu komin til grafar útaf arfamálum hans og fleiru. Þegar hann dó átti hann talsvert fé. Hvert fór afgangurinn? Eru lögfræðingar og ríkisstjórnir búin að éta það alltsaman? Jinky Young og Targ-bræður hafa áreiðanlega ekki fengið neitt. Hefur þá Miyoko Watai fengið allt?

Jónas Kristjánsson fer jafnan snemma á fætur. Skrifar a.m.k. oftast snemma dags sína fyrstu pólitísku færslu. Gallinn er hvað hann er jafnan hvass og óvæginn. Er samt oft nokkuð sammála honum. Jónas Kristjánsson og Egill Helgason eru að mörgu leyti mínir mentorar. Get ekki að því gert að mér finnst þeir taka t.d. Páli Vilhjálmssyni langt fram í stíl. Páll virðist þó halda sig með beittustu hægrisinnum hérlendis. Davíð setur ekki snilld sína á netið. Er bara fyrir þá sem álpast hafa til að viðhalda áskriftinni að Mogganum. Kannski er hann ágætur stílisti líka. Hólmsteinninn virðist að mestu þagnaður. Það er reyndar líf utan pólitíkurinnar.

IMG 8197Mannvirki I.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sé að þú veltir fyrir þér erfiðamálum Fischer. Því máli er lokið og það var Miyoko Watai sem erfði allt saman.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/04/08/haestirettur_daemdi_watai_i_vil/

Jón H. Brynjólfsson 19.4.2012 kl. 00:42

2 identicon

Ætlaði að sjálfsögðu að skrifa "erfðamálum".

Jón H. Brynjólfsson 19.4.2012 kl. 00:44

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, ég vissi það. En skildist samt að einhver lögmaður á Filippseyjum væri að hugsa um að véfengja DNA-úrskurðinn, en hann er líklega hættur við það. Einnig er enn hugsanlegt að Bandarísk yfirvöld geri eitthvað vegna meintra skattaskulda.

Sæmundur Bjarnason, 19.4.2012 kl. 07:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband