1475 - "Bölvaður kötturinn étur allt"

Sennilega þykir sumum sem þetta blogg mitt lesa, að það sem ég skrifa um stjórnmál sé heldur grunnfærið. Það getur vel verið rétt, en ég er þeirrar skoðunar að betra sé að segja eitthvað en ekkert. Þau vandræði sem steðja að mörgum nú í kjölfar hrunsins umtalaða eru þannig vaxin að margir þegja og kjósa að tala ekki um þau. Kosningar og skoðanakannanir eru samt það sem mest er mark takandi á og verður að taka mark á.

Þeir sem hæst hafa um glæpamennsku ríka fólksins og erfiðleika heimilanna vilja margir hverjir beinlínis byltingu. Auðvitað ráða peningar og auður í öllu formi mestu og þannig hefur það alltaf verið. Þannig mun það halda áfram að vera í því kerfi sem við höfum kosið að lifa í. Samtakamáttur þeirra snauðu er samt mikilvægur. Byltingu er ég hræddur við. Hún étur venjulega börnin sín og borgarastyrjöld er það ógeðslegasta fyrirbæri sem hægt er að hugsa sér.

„Bölvaður kötturinn étur allt“, er frægt tilsvar úr sögunni um Bakkabræður. Nenni ekki að endursegja söguna hér, en læt nægja að geta þess að bræðurnir losuðu sig við köttinn. Sjálfum finnst mér að „helvítis fésbókin gíni yfir öllu“, og er skíthræddur við hana. Þegar ekki verður lengur hægt að gera athugasemdir hér á sjálfu Moggablogginu nema í gegnum fésbókina þá er ég hættur. (Þ.e.a.s hættur að athugasemdast þar – hugsanlega held ég áfram að blogga.)

Mörgum finnst Villi í Köben vera öfgafullur í stjórnmálaskoðunum. Mér finnst hann þó yfirleitt skemmtilegur, en því er ekki að neita að oft er hann ansi orðmargur um málefni sem hann þykist hafa mikið vit á. Þau eru líka ansi mörg. Ef hann lumar ekki á einhverjum staðreyndum um málið þá býr hann þær bara til.

„Í Ísrael er tryggt fullt jafnrétti allra íbúa í stjórnmálum og þjóðfélagsstöðu án tillits til trúarskoðana, kynþáttar eða kynferðis.“

Fullyrti Villi í athugasemd hjá Hjálmtý Heiðdal um daginn, en flýtti sér svo að fara að tala um eitthvað annað í þeirri von að fáir tækju eftir þessu. Þetta er nefnilega engan vegin hægt að standa við. Það vita allir og Villi jafnvel líka.

Nú er til siðs að segja allt ómögulegt, ömurlegt og afleitt í Kína. Svipað var sagt um Japan fyrir áratugum síðan. Stjórnarfarið í Japan á þeim tíma var þannig að bandaríkjamenn réðu þar því sem þeir vildu ráða. Í Kína er stjórnarfarið þannig núna að kommúnistaflokkurinn ræður öllu. Lítill sem enginn munur semsagt.

Verðtrygginguna er hægt að leggja af á einni nóttu segir Jón Atli Kristjánsson á sínu bloggi. Eflaust er það rétt hjá honum. Gallinn er bara sá að það meina ekki allir nákvæmlega það sama þegar þeir eru að tala um verðtryggingu. Afleiðingarnar sjá menn líka í því ljósi sem þeim líst best á. Þannig er það bara og þó einhverjir vilji athuga sinn gang er alltaf auðveldast að telja fólki trú um að hlutirnir séu annaðhvort hvítir eða svartir.

Já, ég á svosem afmæli í dag (næstum orðinn sjötugur) og er búinn að fá mikinn fjölda af hamingjuóskum á fésbókinni af því tilefni. Hef reynt að svara þeim flestum, en finnst eiginlega betra að fylgjast með því hvað ég segi hér á Moggablogginu. Skil ekki fésbókina eins vel.

Jóhanna Magnúsdóttir hin kristilega Moggabloggsvinkona mín héðan af blogginu hefur að eigin sögn ákveðið að fara í forsetaframboð. Jóhanna minnir mig endilega að hafi verið aðstoðarskólastjóri við Menntaskólann hraðbraut, en hætt þar og bent á ýmsar misfellur í stjórn skólameistarans. Finn ekkert um hana á fésbókinni samt.

Hef líka heyrt að Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir hafi hug á forsetaframboði. Hugsanlegt er einnig að Ólafur Ragnar fari fram einu sinni enn næsta vor. Sagt er þó að hann og Dorritt hafi verið að kaupa sér hús um daginn.

Framboð þeirra Jóhönnu og Steinunnar eru e.t.v. einhvers konar grínframboð en þó finnst mér bíræfni að afskrifa þær með öllu. Fari Ólafur fram einu sinni enn er þó afar vafasamt að þær sigri hann.

IMG 6540Á Hofsósi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með afmælið Sæmundur.

Guðmundur Bjarnason 14.9.2011 kl. 02:39

2 identicon

Já, það er nú svo með forsetaembættið. Maður veltir því fyrir sér hvort ný stjórnarskrá muni leiða af sér að kjósa yrði á ný um forseta og kjörtímabil þess, sem næst verður kjörinn verði þar af leiðandi styttra? Spyr sá sem ekki veit né skilur. Það mátti lesa í viðtali við einn þekktasta kvenrithöfund Íslands í Fréttatímanum um helgina, að hún væri í alvöru að velta fyrir sér forsetaframboði. Það verður spennandi að fylgjast með þessu.

Ellismellur 14.9.2011 kl. 05:17

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, það eru eflaust spennandi tímar framundan.

Sæmundur Bjarnason, 14.9.2011 kl. 07:20

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Guðmundur.

Sæmundur Bjarnason, 14.9.2011 kl. 07:20

5 identicon

Var ekki Steinunn Ólína að plana forsetaframboð í Bandaríkjunum og setja stefnuna á Hvíta húsið?

Harpa Hreinsdóttir 14.9.2011 kl. 11:50

6 identicon

Til hamingju með afmælið Sæmi.

Ég get ekki kosið hana Jóhönnu, ég má ekki skrifa athugasemdir á bloggið hennar vegna nafnleysis; Því get ég ekki kosið hana, maður kýs jú undir nafnleysi

Annars á að leggja niður forsetaembættið, bara rugl og kostnaður að halda þessu uppi.

DoctorE 14.9.2011 kl. 13:26

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jú, Harpa það getur vel verið. Ég fylgist ekki almennilega með þessu. Held samt að hún hefði meiri möguleika hér.

Sæmundur Bjarnason, 14.9.2011 kl. 16:19

8 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk DoctorE. Held að það séu jafnvel fleiri að undirbúa forsetaframboð. Ætli maður hafi samt ekki nógan tíma til að komast að því. Kannski er Jóhanna líka of kristileg fyrir þig!!

Sæmundur Bjarnason, 14.9.2011 kl. 16:21

9 identicon

Hún er alltof hjátrúarfull fyrir mig, svona sambland af ofurkrissa og "The secret"; Hugsa að flestir sem telja sig vera kristna þyki hún einnig einum of, já og jafnvel aðrir ofurkrissar séu stórhneykslaðir á dömunni :)

DoctorE 15.9.2011 kl. 08:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband