1476 - Ólafi bölvað og ragnað - eða þannig

Mér gengur ekkert að hætta að blogga. Jú, ég er hættur að blogga rétt eftir miðnætti. Nú er ég venjulega farinn að sofa um það leyti. (sko – Gróa á Leiti var svo einföld að það má hafa einfalt i þar – að öðru leyti er upsilon það rétta.)

Þegar ég skrifa blogghugleiðingar mínar hef ég ímyndaða lesendur oftast í huga. Mér finnst ég þekkja þá betur sem láta öðru hvoru í sér heyra, hvort sem það er á fésbókinni, í pósti, kjötheimum, athugasemdum við bloggið mitt eða öðruvísi. Jafnvel þó ég reikni með því að allir sem ég hef heyrt í lesi bloggið mitt reglulega eru samt fleiri sem lesa.

Ég reyni einnig að taka tillit til þeirra, en auðvitað eru það fyrst og fremst mínar eigin hugsanir sem hér komast á blað. Stundum eru þær ekki nærri nógu vel ígrundaðar og við því er ekkert að gera. Mér finnst umhendis að sanka að mér staðreyndum um öll þau mál sem ég hef áhuga á svo oftast nær eru hugleiðingar mínar lausar við þær. Þær má oftast gúgla og það reyni ég að gera ef ég get. Sérfræðingur í gúgli er ég þó ekki.

Talsverður tölvutími fer líka flesta daga í það að ákveða leiki í bréfskákunum mínum. Úrslitin í þeim tek ég þó lyfirleitt ekki mjög alvarlega. Maður veit líka aldrei hve mikið andstæðingarnir leggja upp úr úrslitunum.

Þó mikið gangi á þessa dagana útaf Jóni Bjarnasyni hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að Össur Skarphéðinsson sé helsta vandamál þessarar ríkisstjórnar (og Samfylkingarinnar), að svo miklu leyti sem hægt er að hengja þann stimpil á einstaka menn. Nú er ég að komast á þá skoðun að Ólafur Ragnar Grímsson sé mesta vandamálið. Samt kaus ég hann og fagnaði því að forsetaembættið væri væntanlega gert pólitískara með því en áður hafði verið.

Á sínum tíma kaus ég líka Vigdísi og hennar sýn á embættið var talsvert önnur en Ólafs Ragnars. Hún lét ríkisstjórnina beinlínis kúga sig og eru mörg dæmi til um það. Samt var hún ágætur forseti. Ólafur er það líka. Hann þarf bara að huga betur að því hvaða áhrif hann hefur á hugsunarhátt annarra. Íslenskir stjórnarhættir eru mörgum mikil ráðgáta. Í staðinn fyrir að útskýra þá virðist ÓRG  hugsa of mikið um eigin hag og í hvaða ljósi útlendingar sjá hann sjálfan.

Mesti leyndardómurinn varðandi forsetakjörið næsta vor er hvort Ólafur Ragnar gefur kost á sér einu sinni enn. Það hefur örugglega áhrif á það hverjir verða í framboði. Alls ekki er víst að allir treysti sér í þá hakkavél sem almenn umræða er að verða.

IMG 6541Blómum bjargað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband