1474 - Kæling, öfgar og Davíð Oddsson

Veðurstofan íslenska spáir ekki fyrir um kælingu (wind chill). Fyrir göngumann á Íslandi sem vill nýta sér þjónustu veðurstofunnar skiptir slík spá samt hvað mestu máli. Hana má reikna út þó sá útreikningur sé oft lítt fræðilegur og henti bara á ákveðnum sviðum. Þar skiptir máli bæði hitastig, raki, vindstyrkur og e.t.v. fleira. Einhverntíma heyrði ég þetta útskýrt þannig að kælingin skipti aðeins máli vegna þess að líkaminn leitaðist alltaf við að hafa ákveðinn hita á húðinni. Bílvél aftur á móti væri alveg sama hver kælingin væri. Þar skipti hitastigið eitt máli.

Af hverju ertu eiginlega að lesa þetta bull. Það er enginn sem neyðir þig til þess. Sennilega væri vissara fyrir þig að gera það ekki. Ég get ekki gert að því þó þú sért að lesa þetta. Þó mér þyki gaman að skrifa þá er ekki þar með sagt að þú þurfir að lesa þetta. Eiginlega ættir þú að hætta með öllu að lesa blogg. Alveg eins og ég ætti auðvitað að hætta að skrifa svona mikið. Það er engum hollt að skrifa endalaust og fá ekkert borgað fyrir það og borga heldur ekkert sjálfur.

Mér þykir sem öfgasinnaðir hægri og vinstri menn, aðgerðasinnar af öllu tagi o.s.frv. hafi sameinast í andstöðu við ríkisstjórnina. (Ásamt hefðbundinni stjórnarandstöðu að sjáfsögðu.) Það getur vel verið að margt sé athugavert við það sem hún hefur gert en engin von er til þess að nægilega margir andstæðingar hennar komi sér saman um eitthvað skárra. Þessvegna er kannski best að styðja bara ríkisstjórnina. Hrannar Baldursson segir á sínu bloggi að helsti styrkleiki illskunnar (held að hann sé að tala um ríkisstjórnina) felist í því hversu erfitt sé að trúa á tilvist hennar. Ég trúi því samt að núverandi ríkisstjórn sé til og sé skárri kostur en flest annað sem í boði er. Sé heldur ekki ill í eðli sínu.

Ein leið til þess að sjá hvern mann einstaklingar á fésbókinni hafa að geyma er að sjá hverjir eru fésbókarvinirnir. Þannig athugaði ég Pál Ásgeir Ásgeirsson og þóttist komast að raun um að hann væri óttalega snobbaður. Svo fór ég að skoða mína eigin fésbókarvini og sá að auðvelt var að komast að sömu niðurstöðu um mig.

Sagan endurtekur sig. Verið er að reyna að setja Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í sömu aðstöðu og Davíð Oddsson var í þegar hann ákvað að láta til skarar skríða gegn Þorsteini Pálssyni. Sjálfstæðismenn virðast vilja sterkan leiðtoga og margir þeirra sjá hann í Hönnu Birnu. Það getur verið rétt og það getur verið rangt. Fyrir flokkinn held ég að það hafi verið rétt af landsfundarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma að kjósa Davíð Oddsson en eflaust má deila um hversu farsælt það hefur reynst þjóðinni.

IMG 6539Á Hofsósi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Asskoti er steypan farin að trosna í henni. - Hún er að verða eins og framsóknarflokkurinn.

Ellismellur 12.9.2011 kl. 12:29

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Ég geng út frá því að þú sért að tala um brúna, en ekki eitthvað annað. Held að það sé ekki leyft að keyra yfir hana lengur. Gangandi umferð er þó ennþá leyfð. Eða var í sumar a.m.k.

Sæmundur Bjarnason, 12.9.2011 kl. 13:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband