1417 - Siglufjörður

Untitled Scanned 46Gamla myndin.
Ætli þetta sé ekki frá Glaumbæ í Skagafirði.

Ferðalagið um síðustu helgi og Internet-hléið var ágætt. Á Siglufjörð fórum við og gistum þar á tjaldstæðinu. Þar gerði ég eina vísu.

Við mávagarg og mótorskelli
magnast Siglufjarðarspil.
Þar að fá sér hvíld í hvelli
hvet ég þá sem ferðast til

(alsvo hvet til, en ekki ferðast til)

Nei, í alvöru talað, Siglufjörður er staður með sál. Mikið skil ég þá vel sem fæddir eru þar og uppaldir og finnst ekkert annað vera neins virði.

Fyrir þá sem hafa gaman af ferðasögum get ég svosem sagt í stuttu máli hvernig við vörðum þessu mini-sumarfríi.

Fyrst fórum við að mestu rakleiðis til Akureyrar og vorum komin þangað seint á föstudagskvöld. Áttræðisafmælisveislu fórum við svo í á laugardagskvöldið. Sunnudagurin og mánudagurinn fóru að mestu í hringferð um Tröllaskaga. Fyrst fórum við í gegnum Dalvík og svo um Múlagöngin (þann einbreiða andskota) til Ólafsfjarðar og þaðan um Héðinsfjarðargöngin nýju. Stoppuðum smástund í Héðinsfirði þó þar sé fátt við að vera og stutt á milli gangnamunnanna. Náttúrufegurð er þar mikil og ekki minnkar hún þegar búið er að fara um seinni hluta ganganna og komið til Siglufjarðar.

Þar tjölduðum við á tjaldstæðinu og vorum um nóttina. Fórum svo áfram um Strákagöng og komum við á Hofsósi og Sauðárkróki og fórum síðan aftur á Akureyri og gistum þar. Þriðjudagurinn fór svo í heimferðina.

Eitthvað voru menn óhressir hér á Moggablogginu um daginn með stuðning minn við ESB-aðild. Finnst ekki ástæða til að endurtaka það sem áður var sagt né svara kommentum frá því í síðustu viku. Fitja má þó að sjálfsögðu uppá ýmsu aftur, sem áður var komið fram.

Ég forðast yfirleitt fréttablogg. Útlendingar sem við hittum á Siglufirði höfðu nokkrar áhyggjur af því hvernig komast skyldi yfir Múlakvísl, en ekkert voðalega miklar. Eftir fréttum þaðan að dæma er ástandið eintómur og endalaus fíflagangur. Þegar brúin sem upphaflega átti að taka a.m.k. þrjár vikur að gera verður komin í gagnið hættir þetta kannski. Þangað til fá erlendir ferðalangar ævintýrin ókeypis og drepast kannski í ofanálag.

Hvenær verður texti nægilega góður til að maður hætti að reyna að lagfæra hann. Kannski aldrei. Kannski þegar maður er við það að hætta að skilja hann sjálfur. Auðveldastur er texti sem lýsir einhverju áþreifanlegu. Þá reynir maður að lesa textann og skilja eins og ómálga barn mundi skilja hann. Eyðir þeim atriðum sem hægt er að misskilja og styttir hann síðan eins og hægt er.

Talið er að um 30 kynslóðir hafi lifað í landinu frá því það byggðist. Einhverntíma sá ég listaverk sem sýndi þetta með grafískum hætti. Þá voru 30 staurar reknir ofan í jörðina með vissu millibili og enduðu úti í sjó.

IMG 6049Bretti og Borgarspítali.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bretti og Borgarspítali.?
Er þetta ekki dæmi un skoðanir fólks, settar upp á sniðugan hátt.

Já, nei og annað gæti þetta heitið. ;)

Guðmundur Bjarnason 14.7.2011 kl. 03:55

2 identicon

Þú hefðir nú getað litið við!

Ellismellur 14.7.2011 kl. 06:06

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, Guðmundur. Skoðanir og skoðanir. Þegar ég tók myndina fannst mér ég ekki vera með neitt annað í huga en hve brettastaflinn var hár. Það vildi svo til að Borgarspítalinn var þarna. Þegar ég setti myndina inn var ég heldur ekki með neitt séstakt í huga en ég sé núna að skilja má þetta á ýmsa vegu. Ég ber enga ábyrgð á því. Myndir má oft skilja á marga vegu. Líka það sem skrifað er.

Sæmundur Bjarnason, 14.7.2011 kl. 08:45

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já Ellismellur, þú segir það. Maður er sjaldan í slíkum hugleiðingum þegar maður er að flækjast um.

Sæmundur Bjarnason, 14.7.2011 kl. 08:47

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég horfði á brettin í þremur hlöðum og fór svo að telja: ansi nærri því að miðstaflinn samsvari kynslóðafjölda á Íslandi, ef miðað er við viðteknar skoðanir um hvenær Ísland byggðist -- en nær ef marka má kolefnisrannsóknir sem sýna byggð á Íslandi nokkru eldri en frá Ingólfi gamla.

Sigurður Hreiðar, 14.7.2011 kl. 11:07

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þetta með brettin og kynslóðirnar hafði ég ekki einu sinni hugsað út í. Margt er það líka sem hugurinn er að fást við án þess að við fáum að vita af því.

Sæmundur Bjarnason, 14.7.2011 kl. 13:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband