1221 - Menntaskóli - hraðbraut o.fl.

Meðal bloggara koma umferðarmál oft til umræðu. Þekktir og vinsælir bloggarar hafa oft sérstök atriði í sambandi við hana sem þeim líkar afar illa við. Anna K. Kristjánsdóttir bloggar t.d. oft um stefnuljós og tregðu ökumanna til að nota þau. Þar finnst mér hún stundum gera fullmikið úr hlutunum. Ómar Ragnarsson bloggar alloft um „fötluð stæði" og hefur flest á hornum sér varðandi varðandi misnotkun ófatlaðra á þeim.

Ómar hefur sérþekkingu á umferðarmálum og langa reynslu þar. Þó finnst mér hann á stundum gera meira úr hlutunum en ástæða er til varðandi „fötluðu stæðin". Ég kem oft að slíkum stæðum ónotuðum og er aldrei svo mikið að flýta mér að ég noti þau. Svo hygg ég að sé um langflesta enda er augljóst að þau kæmu að engum notum ef svo væri ekki.

Sá hugsunarháttur sem Ómar segir frá í nýlegum bloggpistli, þar sem hann  vitnar í viðtal í útvarpsþætti sem hann segir að Lára Hanna Einarsdóttir hafði bent á, held ég að sé ekki algengur. Væri svo mundu „fötluðu stæðin" alls ekki þjóna tilgangi sínum. Sú staðreynd að þau skuli vera jafn algeng og þau eru og jafnvel virt er til vitnis um það.

Algengi þeirra held ég samt að byggist á reglum sem heimta vissan fjölda þeirra á hverjum stað og notkunin byggir á því að þau séu virt og þar skipta sektir og eftirfylgni manna eins og Ómars Ragnarssonar höfuðmáli.

Jóhanna Magnúsdóttir skrifar um Menntaskólann hraðbraut á blogg sitt. Það eru athyglisverð skrif, en þar var hún aðstoðarskólastjóri þar til fyrir skemmstu. Hún minnist líka á sumarskólann sem rekinn var í húsnæði Fjölbrautaskólans í Breiðholti og afskipti umboðsmanns Alþingis af því máli öllu. Ég hef alls ekki kynnt mér þetta mál nægilega vel en hvet þá sem áhuga hafa til að skoða blogg Jóhönnu.

Árangur í hverju sem er byggist ekki síst á því að geta einbeitt sér að því verkefni sem fengist er við. Æfingin skapar meistarann er oft sagt, en það er ekki nóg. Það þarf yfirleitt meira til. Hæfileikar skipta miklu máli og einnig það hve fólk á auðvelt með að einbeita sér. Að segja sjálfsagða hluti á þann hátt að athygli veki er það sem flestar sjálfshjálparbækur byggjast á.

Þessar daglegu stílæfingar mínar sem ég og aðrir köllum blogg minna mig á skólasetu. Enginn er samt kennarinn. Er ég þá farinn að ganga í barndóm? Sennilega en mér finnst þetta bara. Jú, eiginlega eru lesendurnir (einkum þó þeir sem athugasemdast) einskonar kennarar.

Flest af því sem fram fer á fésbókinni skil ég heldur illa. Sennilega er ég bara ekki nógu þroskaður fyrir hana. Þetta kemur vonandi.

Flestir fjölmiðlar fjasa mikið þessa dagana um HM í knattspyrnu 2018 og 2022 sem haldin verða í Rússlandi og Qatar. Minnast ekkert á HM 2014 og vita kannski ekki hvar það verður haldið. Svar: Brazilíu. OK, ég fletti þessu upp því ekki man ég svona hluti.

IMG 3863Reykjavík 2010 - Hér vantar bara hús og fólk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Takk fyrir að minnast á mín skrif Sæmundur,  þau eru svona hálfgert opinbert uppgjör af minni hálfu. Ég vil bara ítreka það að ef að skólinn verður settur af þá þarf skólastjórinn og eigandinn að líta í eigin barm - en ekki að benda á gagnrýnendur sína og/eða Kennarasambandið.  Hann kemur örugglega til með að gera það.  Þar sem tengillinn þinn vísar á nýrra blogg hjá mér um sjarmerandi líf (sem er auðvitað ágætt að lesa) þá ætla ég að setja hér inn nýjan tengil sem fer beint á færsluna um gjörningana í Hraðbraut.  Í nýrri athugasemd frá maka fv. kennara við Hraðbraut kemur einnig fram að vafasamar uppsagnir fóru fram í framhaldi af þessu upphlaupi að gerast svo djörf að vilja sækja um aðild að KÍ! ..

Jóhanna Magnúsdóttir, 5.12.2010 kl. 12:01

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

p.s. Facebook er fíkn .. ekkert vera að fara þangað.  Ég er að reyna að venja mig af henni aftur!

Jóhanna Magnúsdóttir, 5.12.2010 kl. 12:02

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Jóhanna. Þetta með fésbókina er vel sagt hjá þér!! Bloggið er betra.

Sæmundur Bjarnason, 5.12.2010 kl. 14:12

4 Smámynd: Billi bilaði

Já, það er alltaf gott að lesa bloggið hennar Jóhönnu.

Billi bilaði, 5.12.2010 kl. 19:25

5 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Billi, ég les bloggið þitt sjaldan enda held ég að þú bloggir ekki oft. En Jóhanna er ágæt og ekki nærri eins skömmótt og margir bloggarar eru.

Sæmundur Bjarnason, 5.12.2010 kl. 20:24

6 Smámynd: Jóhanna Magnúsdóttir

Þið eruð ágætir - gaman að heyra að ég sé ekki skömmótt. Ég er að reyna að vanda mig að vera ekki dómhörð, en gleymi mér stundum, enda hrikalega mannleg.

Ég hef kynnst tveimur Billum um ævina, annar var með mér í guðfræðideild og hinn kenndi mér Yoga. Hvorugur bilaður!

Jóhanna Magnúsdóttir, 5.12.2010 kl. 23:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband