1222 - "Kettirnir á Spáni"

Hef undanfarið verið að lesa bókina „Kettirnir á Spáni," sem er eftir Þorstein Antonsson. Hef lesið talsvert eftir hann undanfarið og hann er á margan hátt einn sá athyglisverðasti rithöfundur sem ég hef kynnst. Stundum er hann svo háfleygur að það er varla hægt að fylgja honum eftir en stundum svo lágfleygur að eflaust geta allir skilið hann. A.m.k. á yfirborðinu. Konan mín, sem var með honum í skóla í eina tíð, lætur sér fátt um finnast, telur hann hafa verið svolítið lokaðan og einrænan og ekki meira um það.

En af hverju er ég þá svona skrýtinn eins og ég er? Það er ekki af því að ég vilji vera það. Það er bara óviðráðanlegt.

Vel heppnað blogg er að sumu leyti eins og bók. Ímynda ég mér. Finnst samt sú tilhugsun að vinna mánuðum saman við skrif, og senda svo frá sér heila bók og eiga allt sitt undir viðtökunum við hana, vera alveg óþolandi. Bloggin er þó hægt að senda frá sér daglega og gleyma svo. Stundum finnst mér ég vera berari eftir að hafa sent blogg út í eterinn. Allur vaðallinn hefur nefnilega merkingu. Stundum næ ég til annarra en stundum ekki.

Að skrifa um aðra í óþökk þeirra er bölvuð frekja. Að skrifa um hvað stjórnmálamenn, útrásarvíkingar og aðrir séu vitlausir og ómerkilegir er sjálfsupphafning á flestan hátt og oftast nær. Þeir eru það ekki. Eiga bara í erfiðleikum með að láta sinn innri mann koma í ljós og er sama um aðra. Hafa líka gaman af að eyða peningum eins og við hin. Jafnvel að éta gull.

Er það ekki á sinn hátt að sveiflast á milli oflætis og aumingjaskapar að ímynda sér eina stundina að maður sé langbesti bloggari landsins, sem fólk á bara eftir að uppgötva, og á næsta andartaki að vera alveg hissa á því að nokkur skuli nenna að lesa svona ómerkilegt raus? Er ég þá geðveikur? Kannski. En það er ekkert verra en hvað annað.

Ég hef alla tíð verið þannig að finnast það ómerkilegt sem flestum öðrum þykir skipta öllu máli. Svoleiðis er það bara og ekkert við því að gera.

Les alltaf bloggið hennar Hörpu Hreinsdóttur. Hún er geðveik. Segir hún sjálf. Hún bloggar mest um sjálfa sig og sjúkdóminn og hefur sennilega kennt mér meira um geðsjúkdóma en flestir aðrir. Áður fyrr virtist hún stundum gera í því á blogginu sínu að egna fólk upp á móti sér.

Dreymdi ýmislegt í nótt (aðfaranótt sunnudags). Svaf til klukkan um níu og það finnst mér vera nokkuð langur svefn. Í draumnum svaf ég samt ennþá lengur. Klukkan þar var að verða fjögur um eftirmiðdaginn þegar ég loksins hundskaðist á lappir og gerði mér grein fyrir að ég átti fyrir löngu að vera mættur til vinnu. Áslaug var af einhverjum ástæðum ekki heima enda hefði hún aldrei látið mig sofa svona lengi. Einhverjir aðrir voru samt í flotta og stóra einbýlishúsinu mínu (í draumnum altsvo - auðvitað á ég ekkert einbýlishús í alvörunni) sem fannst ekkert merkilegt þó ég svæfi svona lengi. Flýtti mér í vinnuna, man samt ekkert hvernig. Þar fór ég inná mína einkaskrifstofu. Hún var ný og vel búin. -Sennilega var ég útrásarvíkingur án þess að gera mér grein fyrir því. Ætli árið hafi ekki verið 2007.- Jæja, áfram með drauminn. Á skrifstofunni var kommóða með öllum skúffum læsanlegum. Velti fyrir mér hvað ég gæti haft þar. Svo var bankað á dyrnar og ég boðaður á starfsmannafund. Þekkti þann sem það gerði en get bara ómögulega munað hver það var. (Þó ég myndi það fyrst eftir að ég vaknaði). Á starfsmannafundinum stóðu allir en sátu ekki. Man að ég var að velta mikið fyrir mér hvað fólk væri mishávaxið. Sumir næstum helmingi hærri en aðrir. Biðum eftir forráðamönnum fyrirtækisins en þeir komu aldrei. Svo vaknaði ég og draumurinn var búinn.

Það borgar sig ekki að eiga leyndarmál. Annaðhvort verður maður að trúa sínum nánustu fyrir þeim eða tölvunni. Varla getur maður treyst á sjálfan sig með allt. Illt er að eiga tölvu að einkavin. Því segi ég það. Leyndarhyggja er vísasta leiðin til glötunar. WikiLeaks getur allsstaðar verið.

Efir að krakkarnir flugu úr hreiðrinu og ég missti vinnuna er verkaskiptingin milli okkar hjónanna varðandi daglega matargerð í aðalatriðum þannig að hún eldar matinn en ég sé um uppvaskið og þessháttar. Undanfarið hefur uppþvottavélin verið að svindla svolítið við uppþvottinn og framkvæmt hann heldur illa eða a.m.k. misjafnlega. Áslaug gaf henni þá einhvern bláan sjálfstæðisvökva og leyfði henni að fara lausbeislaðri einn þvottahring og nú er hún orðin svo hrædd að hún þorir ekki annað en þvo almennilega upp.

IMG 3864Á sínum fjallabíl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, þessar Áslaugar.

Guðmundur Bjarnason 8.12.2010 kl. 12:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband