2330 - Stafræni skugginn o.fl.

Oft er það svo að ég er varla búinn að setja upp blogg, þegar mér dettur eitthvað upplagt bloggefni í hug. Við þessu er ekkert að gera. Helst er að vona að þetta efni sé ekki tímabundið og eldist sæmilega. Ef ekki eru líkur á því, má alltaf setja það á fésbókina. Hún er að mestu tímalaus. Ekki hef ég afþakkað upprifjun á gömlum innleggjum þar, en ætti kannski að gera það. Þau trufla og eru einstaklega vitlaus.

Yfirleitt er mér nóg að vita að Jón Valur Jensson sé mótfallinn einhverju til að vera meðmæltur því. Þó er þetta ekki alveg einhlítt. Man samt ekki í svipinn eftir dæmum til stuðnings því. Hinsvegar dettur mér í hug moskan í Feneyjum sem dæmi um hitt. Mér hefur ætíð fundist „Feneyja-tvíæringurinn“ sem svo er kallaður vera dæmi um mikið snobb. Samt finnst mér það vel til fundið hjá Íslendingum að eiga þátt í þessu með moskuna.

Svo vikið sé að íslenskri pólitík þá er því ekki að neita að líkur eru á að útlendingafóbía skipti miklu máli í næstu kosningum. Jafnvel meira máli en hin pólitíska rétthugsun. Auðvitað sýnist hverjum sinn fugl fagur og ég er t.d. ekki í vafa um að ég mundi taka pólitísku rétthugsunina framyfir útlendingafóbíuna. Vissulega er hægt að leggja þann skilning í þessi tvö hugtök (útlendingafóbíu og pólitíska rétthugsun) sem hverjum líkar. Þau lýsa samt stjórnmálalegum veruleika, sem flokkar verða að laga sig að. Sá flokkur sem tekur mjög einarða afstöðu til nógu margra mála er öruggur með lítið fylgi. Loðmullan er betri.

Stafræni skugginn. Hlustaði á RUV á leiðinni frá Akranesi til Reykjavíkur í morgun (sunnudag). Þar var rætt við Birgittu Jónsdóttur og m.a. rætt um stafræna skuggann okkar. Að hann skuli ganga kaupum og sölum hjá stóru alþjóðlegu fyrirtækjunum er í rauninni óheyrilegt. Mannréttindi á internetinu eru bókstaflega einskis virði meðan svo er. Tölvur þær sem stórfyrirtækin  hafa yfir að ráða eru orðnar svo öflugar að milljarðar og næstu stig þar fyrir ofan eru smámunir einir. Sía má auðveldlega út þær upplýsingar sem hernaðaryfirvöld vilja hverju sinni og ekkert er hægt að gera án vitneskju þeirra. Hugsanalögreglan er á næsta leiti.

Bloggin eru alltaf að styttast hjá mér. Kannski er það góðs viti. Langhundar eru leiðinlegir. Ef ekki er hægt að segja það sem maður meinar í stuttu máli þá er eins gott að sleppa því. Eða skrifa skáldsögur.

Allt í einu er búið að setja á núll allar mínar bréfskákir á fésbókinni. Jæja, mér er svosem sama. Sennilega lítur svo út á Chess.com að ég hafi aldrei bréfskák teflt.

WP 20150428 11 28 35 ProByggingakrani reistur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vinirnir og íhaldsmennirnir Jón Valur Jensson og Jón Magnússon eru að tryllast út af Feneyjatvíæringnum.

Jón Valur ásakar Christoph Büchel um íllt innræti og blasphemy og nafni hans Magnússon fullyrðir að íslenska listaelítan hafi brugðist sem aldrei fyrr.

Auðvitað hefðum við átt að láta verðbréfasjóðinn GAMMA sjá um þetta, eða þannig.

Haukur Kristinsson 10.5.2015 kl. 16:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband