Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

1414 - Útvarp Saga og fleira

Untitled Scanned 45Gamla myndin.
Bjössi enn og aftur.

Vil ekki láta bloggið mitt breytast í eitthvert ESB-blogg, þó vissulega sé af nógu að taka þar ef maður vill einskorða sig við ákveðið málefni. Það vil ég einmitt ekki og líklega er ég hvað þekktastur sem bloggari fyrir að vaða úr einu í annað. Kostur er það bæði og löstur. Kannski er ég líka eitthvað þekktur fyrir hugleiðingar mínar um bloggið sjálf og mjög sjálfhverf skrif að því leyti. Varðandi afar umdeild mál eins og ESB-málið má búast við því að menn hyllist til þess að lesa fremur blogg og annað sem styrkir þá í skoðun sinni en forðist aftur á móti þau skrif sem draga í efa það sem þeir trúa í hjarta sér.

Sum málefni forðast ég að minnast á í bloggi mínu og það þarf ekkert endilega að þýða að ég hafi lítinn áhuga á þeim málum. Ég minnist t.d. fremur lítið á fjölskyldu mína hér (finnst mér) þó ég viti ósköp vel að til hennar sæki ég allt og gæti engan vegin lifað án hennar. Reyni líka að forðast að skrifa um það sem ég veit að er rangt eða mjög umdeilanlegt. Samt veit ég að mörgum finnst a.m.k. sumt af því sem ég skrifa bæði rangt og umdeilanlegt. Við það verður að una.

Auk þess vil ég halda athugasemdakerfi mínu opnu fyrir öllum og hefur tekist það hingað til. Hefur þó skilist að mjög umdeilanleg skrif kalli oft á einskonar einelti í athugasemdum. Þeir sem bloggsvæði eiga verða að setja reglur um bloggskrif og reyna að framfylgja þeim. Ófært er að á vinsælum bloggsvæðum, sem veita þeim sem þar blogga umtalsverða þjónustu, ráði bloggarar sér sjálfir að öllu leyti. Eigendur svæðisins verða að ráða einhverju um það hvernig skrifað er. Skoðanakúgun er það ekki. Tengingar við fréttaskrif eru mikið notuð aðferð til að ná upp einhverskonar vinsældum. Slíkar tengingar hef ég forðast og held að vinsældir sem byggjast á slíku séu fremur léttvægar nema kannski í stjórnmálum og öðru sem oft byggist á stundarvinsældum.

Útvarp Saga er nú talsvert á milli tannanna á fólki. Sjálfur hlusta ég oft á þá stöð og sumt er bara ágætt þar, en fordómarnir gjarnan miklir. Innhringiþættirnir hjá Arnþrúði og Pétri Gunnlaugssyni eru oft mjög misheppnaðir. Einkum er það vegna þess að þeir sem þangað hringja eru gjarnan hundleiðinlegir og hringja alltof oft. Líka nota þau Arnþrúður og Pétur oft tækifærið til að predika sínar íhaldssömu skoðanir yfir fólki. Margir hafa komið við á Útvarpi Sögu og hrökklast þaðan aftur. Nefni engin nöfn. Upphaflega man ég að mér þótti sú stefna góð hjá Útvarpi Sögu að láta talað orð njóta forgangs fram yfir endalaust tónlistargarg og mislukkaðar kynningar á því.

Davíð segir. Davíð segir. Allmargir virðast vera á móti aðild að ESB bara af því að LÍÚ, bændaforystan og Davíð segja að allt sé ómögulegt sem tengist Evrópubandalaginu. Eftir því sem fleiri fara að hugsa um þessi mál af alvöru er líklegra að andstaðan fái nokkuð holan hljóm. Varla eru svo margir búnir að lýsa yfir andstöðu að það hafi áhrif á úrslitin. Það sem skiptir máli áróðurslega er hve trúverðugir þeir aðilar eru sem tjá sig um þessi mál. Mér finnst andstæðingar aðildar oftar vera ótrúverðugri en hinir. Auðvitað er mín afstaða lituð af því að ég tel Íslendingum hagstætt að ganga í sambandið.

IMG 5928Sveit í borg.


1413 - Aðild að ESB

Untitled Scanned 44Gamla myndin.
Þessi mynd er frá Stóra-Fljóti í Biskupstungum. Ingibjörg og Hörður bjuggu um tíma í hluta hússins til hægri á myndinni. Til að fá sæmilega kalt neysluvatn varð að kæla vatn úr hvernum þarna rétt fyrir ofan og tjörnin á myndinni var notuð til þess. Björgvin bróðir stendur hjá henni. Ekki veit ég hvað hundurinn heitir (eða hét).

Alveg er ég undrandi á hve andstæðingar ESB telja sig yfirleitt þurfa að taka sterkt til orða. Á margan hátt finnst mér þeir gengisfella bæði málefnið og sjálfa sig. Að nefna sjálfstæðisafsal og landráð í sömu andrá og aðild að ESB er þeim eingöngu til minnkunnar. Sjálfsagt eru einhver dæmi um að andstæðingar aðildar séu kallaðir einangrunarsinnar og þjóðrembur en mér finnst fara minna fyrir slíku en hinu. Kannski er samt um jafntefli að ræða í nafngiftum að þessu leyti enda skipta þær engu máli.

Að mínu viti er það eina sem máli skiptir í þessu sambandi hvort menn telja það til meiri heilla fyrir Ísland og Íslendinga framtíðarinnar að vera innan Evrópusambandsins en utan. Vitanlega má rökstyðja báðar skoðanirnar á margan hátt. Alltof snemmt er samt að fullyrða nokkuð um líkleg eða hugsanleg úrslit í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Einfaldlega vegna þess að ekki er vitað með neinni vissu um hvað verða greidd atkvæði eða hvenær.

Andstæðingar aðildar virðast um þessar mundir einbeita sér að því að reyna að koma því inn hjá sem flestum að til mestra heilla væri að hætta viðræðum nú á stundinni. Slíkt er beinlínis fáránlegt og bendir eindregið til þess að andstæðingar aðildar geri sér grein fyrir því sjálfir að byrjað er að fjara undan fylgi þeirra. Sömuleiðis er lögð þung áhersla á það af hálfu andstæðinga aðildar að engu megi breyta í landbúnaði og sjávarútvegi.

Rökræða má þó um mögulega inngöngu fram og aftur. Flestir virðast þó forðast slíkt og er hundalógikin og upphrópunarstíllinn mest áberandi. Vel getur þó verið að þetta lagist með tímanum. Þjóðaratkvæðagreiðslan um þetta mál er hvort eð er ekki að skella á.

IMG 5917Stonehenge hið nýja.


1412 - Donald Tusk (forsætisráðherra Póllands)

Untitled Scanned 43Gamla myndin.
Hér er enn ein myndin af Bjössa bróðir.

Datt í hug saga þegar ég var að setja inn myndina af Byggingunni í gær. Einu sinni var kirkja á Reykjum. Kirkjuklukkan (sem enn var til) var fest utan á Bygginguna. Að vísu hinum megin miðað við myndina. Klukkan tólf og klukkan sex á hverjum virkum degi var þeirri klukku hringt og heyrðist hringingin um allt Hveragerði.

En þetta var ekki sagan sem ég ætlaði að segja. Á efri hæðinni í Byggingunni var kaffistofa við hliðina á rannsóknarstofunni hans Axels. Þangað fórum við í kaffitímanum á morgnana og í eftirmiðdaginn. Man að eitt sinn var ég ásamt Ingibjörgu systur minni, Smalla og einhverjum fleirum að vinna þarna. Hlass af mómold var í stóra húsinu. Við Ingibjörg tókum einn móköggul og kveiktum í honum. Það logaði lengi í honum en ekki með neinum látum. Þegar kaffitíminn kom tókum við logandi móköggulinn með okkur og settum á hillu undir einu borðanna á kaffistofunni.

Kenndum svo Smalla um reykjarlyktina og bræluna sem af þessu hlaust. Hann sagðist hafa verið að sjóða (hita mold með sjóðandi vatni og drepa þannig allt kvikt í henni) og vel gæti verið að reykurinn (gufan) væri frá honum. Fór síðan úr stígvélunum og henti þeim fram á gang.

Man líka að ég var talsvert impóneraður yfir tækjunum á rannsóknarstofunni við hliðina á kaffistofunni. Þar var m.a. vikt sem var svo nákvæm að hafa þurfti glerhjálm yfir henni. Það fannst mér merkilegt.

Orð forsætisráðherra Póllands, Donald Tusk, um ESB eru orð í tíma töluð. Hann setti í rauninni ofan í við Merkel, Sarkozy, Cameroun og aðra valdamenn helstu ESB-ríkjanna. Eðlilegt er að Merkel og þau þykist öllu ráða innan ESB. Samt er það að mörgu leyti rétt hjá Tusk að þau hugsa of mikið um eigin pólitískan hag heimafyrir í öllu sem snertir ESB. Gagnrýni á ESB, þjóðrembuháttur og útlendingahatur fer vaxandi um alla Evrópu. Danir og fleiri íhaldssamar ESB-þjóðir grípa fegins hendi tækifærið sem býðst vegna ástandsins í Norður-Afríku til að taka upp landamæraeftirlit að nýju.

Ég fer ekkert ofan af því að vöxtur og viðgangur ESB er það besta sem komið hefur fyrir Evrópu. Það er til siðs í Bretlandi að gagnrýna allt sem ESB tengist. Þó hvarflar ekki að stjórnmálamönnum þar að ganga úr sambandinu. Þegar Bandríkjamenn nenntu ekki lengur að sinna okkur Íslendingum var eðlilegt (og í raun óhjákvæmilegt) fyrir okkur að athuga með stuðning frá ESB. Sumir mæltu reyndar frekar með Rússlandi, Kína, Kanada, Noregi eða bara einhverju til rugla fólk ef hægt væri.

Þrátt fyrir allt er sá möguleiki fyrir hendi að samningur sá sem væntanlega næst milli Íslands og ESB verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Evrópubandalagið er á margan hátt í vandræðum nú í kreppunni sem skekur vestræn fjármálakerfi. Alls ekki er hægt að gera ráð fyrir að vestrænar þjóðir nái sér fljótlega eftir hana. Útþensla bandalagsin hefur verið hröð undanfarið. Líklega of hröð. Ef Íslendingar hafna aðild kann að líða á löngu áður en reynt verður aftur.

Ekki er útilokað að Norðmenn sæki þá um aðild eftir fá ár. Áhrif höfnunar munu ekki síður en aðild hafa mikil áhrif á alla þróun á Íslandi. Þeir sem þykjast sjá allt fyrir í þeirri þróun eru yfirleitt að ljúga. Einnig er lítið að marka spádóma um framtíðarþróun ESB. Andstæðingar aðildar þreytast þó seint á að spá þróun í átt til stórríkis á borð við USA, þó þeir hafi ekkert fyrir sér í því.

IMG 5913Ekki veit ég hvað þessi áletrun þýðir.


1411 - Geir Haarde, skordýr og fleira

Untitled Scanned 02Gamla myndin.
Þessi mynd er ofan af Reykjum. Húsið á myndinni var aldrei kallað annað en „byggingin“. Ætli bíllinn þarna sé ekki Pobedan hans Axels Magnússonar.

Finnst alltaf þegar ég er nýbúinn að setja upp blogg að nú hljóti ég að hafa lítið um að skrifa næsta dag. Merkilegt hvað úr því rætist samt oftast nær. Minningar frá Hveragerði í gamla daga eru þó sífellt að verða fyrirferðarminni. Enda engin furða. Það minnkar oftast sem af er tekið. Ég hugsa samt sífellt meira um þá daga. Líklega er það merki um að ég sé farinn að gamlast. Fréttir dagsins vekja oft ekki mikinn áhuga hjá mér. Íþróttafréttir allra síst. Það er af sem áður var. Einu sinni þóttu mér slíkar fréttir afar spennandi.

Fyrir mörgum árum eða áratugum las ég um svarta atvinnustarfsemi í Grikklandi. Fyrir skrifstofumenn væri nauðsynlegt að eiga nokkra jakka. Til siðs væri að mæta á einn vinnustað (og setja jakkann sinn á stólbak) og fara síðan á næsta vinnustað. Algengt væri að menn sinntu störfum á 3 – 4 stöðum en viðurkenndu auðvitað aðeins eitt starf fyrir skattinum. Minnir að ég hafi eitthvað minnst á svarta atvinnustarfsemi í Grikklandi þegar ég ræddi um vandræðin þar um daginn. Hugsanlegt er líka að ríkisvaldið þar sé mjög veikt.

Nú hrósar Geir Haarde sér af aðgerðarleysinu. Lætur sem það sé sérstakt happ fyrir Íslendinga að bankarnir hafi farið á hausinn. Þessu á fólk víst að trúa. Rétt er hinsvegar hjá Geir að hætt er við að starfsemi landsdómsins verði alltof pólitísk. Mér finnst samt að ekki eigi að reka þetta mál í fjölmiðlum og á bloggi. Landsdómur ætti að vera einfær um það.

Skordýr hafa átt fremur erfitt uppdráttar í vor vegna kulda og ótíðar segir aðalskordýraálitsgjafi blaðanna. Sama er mér. Fannst samt með meira móti af hunangsflugudrottningum í vor. Geitungarnir mega missa sig enda finnst mér loðnu hlussurnar næstum vinalegar samanborið við þá.

Hugsa stundum um það hvort ég hafi einhver skoðanamyndandi áhrif á þá sem lesa bloggið mitt að staðaldri. Ef svo er held ég að þau áhrif séu mjög óbein og víst er að sú er ekki ástæðan fyrir því að ég held þessu áfram. Miklu fremur finnst mér hægt að líta á þetta sem einskonar blaðamennsku og æfingu í því að koma hugsunum sínum í orð.

Blaðamennskusamlíkingin er ekki svo galin. Kannski er aðalmunurinn sá að blaðamaðurinn fær oftast einhver ákveðin verkefni og þarf að flýta sér. Ég get skrifað um það sem mér sýnist og verið eins lengi að því eins og ég vil. Hann fær líka borgað fyrir það sem hann gerir en ég ekki.

Af hverju í ósköpunum er ég þá að þessu? Veit það ekki. Þó ég sé greinilega ekki að þessu peningann vegna þá hljóta að vera einhverjar ástæður fyrir því að ég held þessu áfram. Og það meira að segja í miðju óvinalandinu.

Dagskipunin til þeirra sem Moggann hafa í heiðri er nefnilega sú að þeir eigi að vera á móti ESB. Annað sé óþjóðlegt. Hvernig sjálfstæðismenn flestir hafa spyrt sig saman í þessu máli við þá sem lengst eru til hægri og til vinstri í þjóðmálum er mér illskiljanlegt. Pólitík öll er það í rauninni líka og á kannski að vera það.

Já, skógarkerfillinn er mesta skaðræði. Ætlaði um daginn að ná mér í rabbarbara þar sem ég hef áður farið en hann hafði lagt svæðið undir sig og var illviðráðanlegur. Í samanburði við lúpínuna er vel hægt að hata skógarkerfilinn. Hann bíður eftir að aðrar jurtir búi til jarðveg og þar að auki getur hann orðið svo hár að erfitt er að fara um svæði sem hann hefur lagt undir sig. Lúpínan er þar að auki fallegri á litinn. Læt svo útrætt um þennan andskota.

Björn Bjarnason lifir enn í sínum kaldastríðsheimi. Samkvæmt fréttum um grein sem hann á að hafa skrifað telur hann það álíka skammsýni hjá Bandaríkjamönnum að hafa kallað heim herlið sitt héðan og hjá núverandi ríkisstjórn að hafa sótt um aðild að ESB. Þrátt fyrir þekkingu sína er ekki annað að sjá en Birni sé fyrirmunað að horfa fram á veginn. Brottför bandaríska herliðsins er staðreynd og umsóknin um ESB-aðild einnig. Vel getur verið að eitt af hlutverkum hersins hafi verið að koma í veg fyrir aðild okkar að ESB. Samt er það ekki fyrir afglöp Bush og félaga sem Íslendingar sóttu um aðild að ESB. Það gerðist bara af því að tími var til kominn.

IMG 5903Nei, þetta er ekkert hættulegt. Hann er bara að baða sig.


1410 - Grikkland, SETI o.fl.

Untitled Scanned 01Gamla myndin.
Þessi mynd er ofan af Reykjum. Ætli gróðurhúsin séu ekki nr. 4 og 5 og svo er náttúrulega Núllið þarna.

Held að Grikkland sé á sömu leið og Ísland. Ekkert mun breytast. Þeir sem áður réðu öllu munu halda því áfram. E.t.v. munu þeir fara ögn varlegar. Þetta er bara það líf sem við erum búin að kjósa okkur. Hinn möguleikinn er einfaldlega ekki fær. Stjórnleysi og allskonar vandræði. Menn virðast sammála um að sumt sé ómögulegt en þegar á hólminn er komið eru menn alls ekki sammála um hvernig beri að leysa vandann. Ekki einu sinni um hver vandinn sé.

Einhvers konar stjórnskipan verðum við að hafa. Ef Grikkir geta það ekki er engin von til að við getum án hennar verið. Það sannaðist endanlega árið 1262 þegar þjóðveldið leið undir lok. Því skipulagi er ekki hægt að koma á aftur. Kannski réði „litli maðurinn“ ekkert meiru þá. Þrælahald lagðist að vísu af. (Að nafninu til.) Er samt enn við lýði. Breytist bara, en peningarnir ráða.

Hættum þessu voli og förum að vinna. Við verðum einfaldlega að sætta okkur við að peningarnir ráði. Reynum bara að græða svolítið meira og fésbókast sem allra mest. Það tekur hvort sem er enginn mark á þessu tuði. Hugsanlega eru tuðararnir ekki einu sinni í meirihluta ef grannt er skoðað. Kemur í ljós í næstu kosningum.

Annars er ég orðinn leiður á að leysa heimsmálin. Ætti kannski að snúa mér að einhverju sem ég ræð betur við.

Hvað er orðið af SETI-verkefninu? (Seti@home minnir mig að það hafi verið kallað.) Það hefur lítið heyrst um það að undanförnu. Fyrir þá sem ekki muna eftir því, þá snerist það um að nýta allt það afl sem ónotað er í einkatölvum heimsins til að kanna hvort útvarpsmerki væru að berast til okkar frá viti bornum verum annars staðar í alheiminum án þess að við vissum af því. Hef auðvitað prófað að gúgla nafnið en hrekk alltaf í burtu þegar ég á að fara að borga árgjald í einhverju.

Trúi því varla að spurningin um viti bornar verur annarsstaðar í alheiminum sé ekki áhugamál margra. Fréttir um þetta eru sjaldgæfar núorðið og þar að auki les ég ekki fréttir. Þar er alltaf verið að segja það sama. Ef ekki er einhver mikilvæg persóna að drepast þá er allt að fara til fjandans einhversstaðar í heiminum. Mér er alveg sama. Óþarfi að leita þennan andskota uppi. Hann kemur til manns einhvern vegin.

Egill frændi er búinn að vera að ferðast um Afríku undanfarna mánuði. Á hjóli held ég. Sá eitthvað minnst á hann á Pressunni um daginn. Held að hann hafi lítið sem ekkert skrifað á Moggabloggið sitt lengi. Enda er það sjálfsagt umhendis. Ætli hann sé ekki einkum að forðast fréttir. Eitthvað var rætt um það í fyrirsögninni á Pressunni.

Sá á Sögu-vefnum (utvarpsaga.is) nafnið á barnaperranum í Vestmannaeyjum (ef einhverjir hafa áhuga) og líklega einhvers staðar annarsstaðar að Haukur Hólm væri hættur á Sögu. Í mínum huga eru þeir alltaf spyrtir saman Haukur Hólm og Róbert Marshall síðan þeir voru báðir að vinna á fréttastofu Stöðvar 2 og létu mikið að sér kveða á innanhússpóstinum þar.

Þegar Eve Online verður ókeypis þá getur verið að ég kíki á hann. Þangað til fær hann að vera í friði fyrir mér. Sá einhversstaðr að World of Warcraft væri orðinn ókeypis að hluta. Á sínum tíma spilaði ég stundum VGA-planets og þótti gaman að. Þar var þáttakendafjöldi takmarkaður við ellefu og stjórnaði hver sínum kynflokki og þeir höfðu allir mismunandi eiginleika. En hversvegna að vera í þykjustuleik þegar alvaran er alveg eins skemmtileg?

IMG 5901Furustönglar.


1409 - Að kjósa "rétt"

IMG 0018Gamla myndin.
Hér er gömul loftmynd af Hveragerði. Þó ýmsar byggingar hafi bæst við og möl verið sett á skólatúnið síðan ég ólst upp þarna er gatnakerfið mjög svipað og þá var. Á þessu svæði hélt maður sig yfirleitt.

Margir virðast hafa hasast upp á að blogga sífellt og endalaust. Kannski eru það einkum Moggabloggarar. Hvað veit ég? Sumir sem hættu þegar Davíð byrjaði sem ritstjóri á Morgunblaðinu, hafa lítið sést síðan. Það hentar áreiðanlega sumum að fésbókast bara eins og ég kalla það. Halda þannig sambandi með tölvutækninni við tiltölulega fáa en eru samt alveg opnir fyrir frekari samskiptum við þá sem það vilja. Nenna ekki að vera að setja saman einhverjar blogg-greinar. Skrifa bara samstundis á fésbókina það sem þeim dettur í hug í það og það skiptið. Skiljanlegt mjög.

Svo eru aðrir, einsog ég, sem sífellt þurfa að láta ljós sitt skína og eru fastir í blogginu. Mér finnst þetta afar hentugt og ekki hindra mig á neinn hátt. Eiginlega er alveg ágætt að nota bloggið og fésbókina jöfnum höndum. Svolítið kann það að virðast ruglandi,  en þá er bara að taka því. Lífið sjálft er þannig. Flókið og ruglandi. Maður er sífellt að reyna að höndla stóra sannleikann en hann virðist alltaf sleppa.

Rifjaðist upp fyrir mér þegar ég birti myndina af gömlu slökkvistöðinni í gær að ég hef líklega ekki verið mjög gamall þegar verið var að taka hana í notkun. Man að verið var að tengja rafmagnið þar og það var Guðjón Pálsson rafvirki sem það gerði. Hann fékk lánaða vinnuvettlinga hjá mér og klifraði upp í staurinn sem var hinum megin við götuna. Af einhverjum ástæðum var ég óhemju stoltur af að hafa lánað honum vettlingana. Eins og ég hefði gert það kleift að taka slökkvistöðina í gangið.

Ætlaði víst að skrifa eitthvað um Exeter-dóminn en get það eiginlega ekki. Það er engin lausn á neinu að setja sig upp á móti dómstólum. Við höfum einu sinni (þegjandi) sætt okkur við að dómstólar skeri úr ágreiningsmálum. Ekki er víst að þetta sé lokaorðið í viðkomandi máli og ef útrásardólgarnir ná aftur völdum í þjóðfélaginu þá er það vegna þess að við viljum það í rauninni. Ef kosningar til valdastofnana í þjóðfélaginu (Alþingis) endurspegla ekki óánægju fólks, þá er hún einfaldlega ómark. Meirhlutinn á að ráða og ræður með því að kjósa „rétt“ í Alþingiskosningum og þjóðaratkvæðagreiðslum.

IMG 5900Mávur að hvíla sig.


1408 - Frosin augnablik

aGamla myndin.
Þetta er slökkvistöðin gamla í Hveragerði. Ég man vel eftir þessu húsi þegar það var nýbyggt og þótti bara fínt.

Er RUV-ið komið í þjónustu útrásarfurstanna? Allar myndir sem þar birtast af Sérstökum eru þannig að reynt er að gera hann sem hlægilegastan. Fínt er stundum farið í hlutina en þó er ljóst hvar embættismannahjörtu þeirra RUV-ara slá. Nú skal útrásin endurtekin. Nógu miklu er búið að fórna og fyrst dómstólarnir hafa ekki brugðist er rétt að halda áfram þar sem frá var horfið. Skítt með almenning. Við vitum best.

Skil samt ekki vel hvernig álfasögurnar og hindurvitnin falla inn í þetta munstur. RUV hefur (að ég held) þangað til í gærkvöldi (miðvikudagskvöld) látið álfalegan uppruna grjótkastsins á Vestfjörðum afskiptalausan, þó sumir aðrir fjölmiðlar hafi velt sér sem mest uppúr því máli. Nú hefur þeim borist myndefni (einn karl að syngja) og því skal reynt að boða hjátrúna með myndum, þó með hálfum huga sé.

Frosin augnablik. Lífið er samsett úr miklum fjölda frosinna augnablika. Í mínu ungdæmi voru ekki margir sem tök höfðu á því að geyma slík augnablik. Nú er slíkt miklu auðveldara og tilfinning fólks við að sjá löngu gleymd augnablik er sífellt að verða algengari. Gamlar ljósmyndir eru einkum vinsælar vegna þess að þær eru tiltölulega sjaldgæfar. Nú er stafræna tæknin í algleymingi og fjöldi ljósmynda sem tekinn er legíó. Jafnvel mörg legíó.

Bjarni sonur minn (Bjarni Sæmundsson á facebook) hefur stundað það að setja þar upp myndir dagsins. Allar fremur gamlar – þó ekki eldgamlar. Sumar þeirra hef ég tekið en alls ekki allar. Myndirnar eru alltaf vel valdar hjá honum og einkum skoðaðar af þeim sem á þeim eru. Það er þó alls ekki algilt að um myndir af fólki sé að ræða því oft birtir hann staðarmyndir sem mikið er spekúlerað í hvaðan eru.

Sjálfur reyni ég að gera þetta líka hér á Moggablogginu og víst er að enginn hörgull er á myndum. Á fyrstu árum Internetsins voru myndir (svo ekki sé talað um lifandi myndir) fremur sjaldgæfar þar, því þær tóku svo mikið pláss. Hið ódýra stafræna geymslupláss er einhver mesta breytingin sem orðið hefur í tölvuheiminum. Nú orðið er oft skelfilega leiðinlegt að blaða í gegnum öll þau myndaalbún sem til boða standa. Þessvegna meðal annars er það sem ég reyni að halda mig við hið talaða (eða öllu heldur skrifaða) orð.

Til stóð að vera með einskonar bókablogg við tækifæri. Kannski er það núna. Stórvirkið „Sögu Akraness“  hef ég áður minnst á og um hana er svolítið fjallað í athugasemdum hjá mér. Hún er hneyksli og peningaausturinn sem þar hefur átt sér stað sömuleiðis. Sjá blogg Hörpu Hreinsdóttur.

„Lindargötustrákurinn“ er bók sem mig minnir að ég hafi minnst á. Hef lesið svolítið í henni síðan. Því miður er hún afar léleg og ég býst ekki við að minnast á hana aftur. Sjálfsævisögur eru gjarnan illa skrifaðar og fáfengilegar. Verst hjá höfundinum að þessari bók er stefnuleysið. Hann er ekki að lýsa neinu sérstöku tímabili heldur uppfullur af karlagrobbi af venjulegasta tagi. Í byrjun velti ég því svolítið fyrir mér hvers vegna ég hef ekki séð minnst á þessa bók opinberlega, en nú veit ég það.

„Árbók Nemendasambands Samvinnuskólans að Bifröst“, er ellefu binda stórvirki sem ég hef átt lengi án þess að gera mér grein fyrir hver fjársjóður upplýsinga það er. Maður er orðinn svo vanur að fá allar þær upplýsingar sem mann vanhagar um með gúgli. Fyrir alla þá sem stundað hafa nám í Samvinnuskólanum (og reyndar miklu fleiri) er þetta verk hin mesta náma upplýsinga.

Skordýrablogg hef ég einnig hugsað mér að vera einhverntíma með. Kannski er dagurinn í dag ekkert slæmur til þess. Á gönguferðum mínum um Fossvogsdal og víðar hef ég orðið var við að skordýralífið íslenska hefur tekið talsverðum breytingum. T.d. eru sumar flugurnar þannig að ég kannast alls ekki við þær úr æsku. Geitungar eru þar sérstakur kapítuli, einkum vegna þess að ég er hálfhræddur við þá. Ja, eiginlega alveg skíthræddur, og enn í minni óttaleysi portúgalsks verkamanns sem einfaldlega hrakti þá í burtu með húfunni sinni.

Í gamla daga voru flest skordýr ósköp vinaleg. Þessi sömu dýr eru núorðið að mörgu leyti hinar mestu ófreskjur. Skil ekki hvers vegna. Hefur líklega eitthvað með sjálfan mig að gera. Líka eru öll smádýr orðin svo sjaldgæf að maður hrekkur við að sjá þó ekki sé nema venjulega húsflugu. Fuglalíf væri líka hægt að minnast á en það er hugsanlega fullyfirgripsmikið. Minnist þess þó að dúfurnar á Tenerife kallaði ég „fljúgandi rottur“ og hlaut mikð fuss fyrir.

Séra Baldur, sem nú skrifar aðallega á Eyjuna, er með lokað fyrir ummæli hjá sér. Sjálfsagt er einhver ástæða fyrir því. Kannski er hann bara kominn með fésbókarsýkina. Ég er að hugsa um að hætta að senda aðsóknartölur svona út í loftið eins og ég geri og loka fyrir ummæli. Er ekki stæll á því? Hinsvegar er ég ekki að hugsa um að hætta að númera bloggin mín. Mér finnst það ágætt og greina þau frá öðrum slíkum.

Er vanur að hafa sjálfur opið fyrir athugasemdir. Finnst annað vera ritskoðun en get samt alveg skilið að menn vilji predika í friði þó ég sé ekki þannig gerður sjálfur. Leiðist svolítið að fá athugasemdir eftir dúk og disk en það er líka skiljanlegt. T.d. var Axel Þór Kolbeinsson að kommenta við það sem ég skrifaði um Kögunarmálið nýja um daginn og það lá við að ég missti af því.

IMG 5891Í gegnum glerið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband