1414 - Útvarp Saga og fleira

Untitled Scanned 45Gamla myndin.
Bjössi enn og aftur.

Vil ekki láta bloggið mitt breytast í eitthvert ESB-blogg, þó vissulega sé af nógu að taka þar ef maður vill einskorða sig við ákveðið málefni. Það vil ég einmitt ekki og líklega er ég hvað þekktastur sem bloggari fyrir að vaða úr einu í annað. Kostur er það bæði og löstur. Kannski er ég líka eitthvað þekktur fyrir hugleiðingar mínar um bloggið sjálf og mjög sjálfhverf skrif að því leyti. Varðandi afar umdeild mál eins og ESB-málið má búast við því að menn hyllist til þess að lesa fremur blogg og annað sem styrkir þá í skoðun sinni en forðist aftur á móti þau skrif sem draga í efa það sem þeir trúa í hjarta sér.

Sum málefni forðast ég að minnast á í bloggi mínu og það þarf ekkert endilega að þýða að ég hafi lítinn áhuga á þeim málum. Ég minnist t.d. fremur lítið á fjölskyldu mína hér (finnst mér) þó ég viti ósköp vel að til hennar sæki ég allt og gæti engan vegin lifað án hennar. Reyni líka að forðast að skrifa um það sem ég veit að er rangt eða mjög umdeilanlegt. Samt veit ég að mörgum finnst a.m.k. sumt af því sem ég skrifa bæði rangt og umdeilanlegt. Við það verður að una.

Auk þess vil ég halda athugasemdakerfi mínu opnu fyrir öllum og hefur tekist það hingað til. Hefur þó skilist að mjög umdeilanleg skrif kalli oft á einskonar einelti í athugasemdum. Þeir sem bloggsvæði eiga verða að setja reglur um bloggskrif og reyna að framfylgja þeim. Ófært er að á vinsælum bloggsvæðum, sem veita þeim sem þar blogga umtalsverða þjónustu, ráði bloggarar sér sjálfir að öllu leyti. Eigendur svæðisins verða að ráða einhverju um það hvernig skrifað er. Skoðanakúgun er það ekki. Tengingar við fréttaskrif eru mikið notuð aðferð til að ná upp einhverskonar vinsældum. Slíkar tengingar hef ég forðast og held að vinsældir sem byggjast á slíku séu fremur léttvægar nema kannski í stjórnmálum og öðru sem oft byggist á stundarvinsældum.

Útvarp Saga er nú talsvert á milli tannanna á fólki. Sjálfur hlusta ég oft á þá stöð og sumt er bara ágætt þar, en fordómarnir gjarnan miklir. Innhringiþættirnir hjá Arnþrúði og Pétri Gunnlaugssyni eru oft mjög misheppnaðir. Einkum er það vegna þess að þeir sem þangað hringja eru gjarnan hundleiðinlegir og hringja alltof oft. Líka nota þau Arnþrúður og Pétur oft tækifærið til að predika sínar íhaldssömu skoðanir yfir fólki. Margir hafa komið við á Útvarpi Sögu og hrökklast þaðan aftur. Nefni engin nöfn. Upphaflega man ég að mér þótti sú stefna góð hjá Útvarpi Sögu að láta talað orð njóta forgangs fram yfir endalaust tónlistargarg og mislukkaðar kynningar á því.

Davíð segir. Davíð segir. Allmargir virðast vera á móti aðild að ESB bara af því að LÍÚ, bændaforystan og Davíð segja að allt sé ómögulegt sem tengist Evrópubandalaginu. Eftir því sem fleiri fara að hugsa um þessi mál af alvöru er líklegra að andstaðan fái nokkuð holan hljóm. Varla eru svo margir búnir að lýsa yfir andstöðu að það hafi áhrif á úrslitin. Það sem skiptir máli áróðurslega er hve trúverðugir þeir aðilar eru sem tjá sig um þessi mál. Mér finnst andstæðingar aðildar oftar vera ótrúverðugri en hinir. Auðvitað er mín afstaða lituð af því að ég tel Íslendingum hagstætt að ganga í sambandið.

IMG 5928Sveit í borg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Af hverju dregurðu þá ályktun að allmargir séu á móti aðild að ESB bara afþví að LÍÚ, Davíð og bændaforystan segja að allt sé ómögulegt sem tengist Evrópubandalaginu?

Talar þar hver fyrir sig en ég tel alls ekki að all sé ómögulegt sem tengist ESB. Ég er meira að segja viss um að margar þjóðir - í það minnsta einhverjar hafa af því ábata að tengjast þessu bandalagi. Ég hef frá upphafi verið andvígur þessari umsókn og var andvígur EES umsókninni líka.

Og ég er andvígur Schengen samningnum eins og svo margir.

Ég held að sem betur fer séu allflestir færir um að taka afstöðu án þess að hafa minnsta grun um skoðanir Davíðs og forystu LÍÚ. 

Árni Gunnarsson, 7.7.2011 kl. 20:01

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Þeir aðilar sem ég tel upp (og fleiri reyndar) virðast einmitt bara sjá ókosti við ESB-aðild. Það finnst mér vera skammsýni, því auðvitað eru einhverjir kostir. Hvort mönnum finnst kostirnir eða ókostirnir skipta meira máli hlýtur síðan að vera undir hverjum og einum komið. Meta þarf hvort ávinningur hefur verið af ESB í heildina, en ekki bara hvort einhverjir aðilar (þjóðir) hafi grætt. Með tímanum hefur ESB orðið þýðingarmeira, einmitt vegna þess að svo margir (ríkisstjórnir) telja sig hafa haft ávinning af því. 

Sæmundur Bjarnason, 7.7.2011 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband