758- Ritskoðun á Moggablogginu

Það er enginn vafi á því að ritskoðun Moggabloggsins er með vinsælustu umræðuefnunum hér. Ég blogga náttúrulega ekki bara vegna vinsældanna en þær skipta samt talsverðu máli. Fyrirsögnin og byrjunin á blogginu skiptir líka miklu máli, einkum hjá okkur stórhausunum, og upplýsingar um nýjustu bloggin berast líka til bloggvinanna. Þar að auki er ég skráður á blogg-gáttina og þaðan koma hugsanlega einhverjir. 

Í gær bloggaði ég um lokunina hjá DoctorE og það var eins og við manninn mælt. Mun fleiri kíktu á bloggið mitt en venjulega. Ég er nokkuð spenntur fyrir að vita hvernig þessu máli reiðir af. Líklegast er að Moggabloggsmenn komi sínu fram eins og venjulega. Að því gæti þó komið að þeir neyðist til að hlusta á mótmæli bloggverja.

Í mínum huga er augljóst að samþykkt ríkisábyrgðar á Icesave-samningnum er skilyrði þess að AGS samþykki frekari lán til landsins. Einnig er það svo í hugum margra að það skiptir meginmáli varðandi umsókn landsins í ESB hvort Alþingi samþykkir Icesave-samninginn. Mín trú er að hann verði samþykktur á endanum. Eins og ég hef áður bloggað um eykst þá pressan á Ólaf Ragnar Grímsson. Hann getur neitað að undirrita lögin sem heimila ríkisábyrgðina og ef nógu margir skora á hann að gera það gæti vel hugsast að sú yrði raunin.

Árið 1980 var Norðurlandamótið í skák haldið í Reykjavík. Bjarni sonur minn var þá með mikla skákdellu og ákvað að taka þátt í opnum flokki á mótinu sem fram fór í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Um þetta leyti átti ég heima í Borgarnesi og dvaldi ekki í Reykjavík nema öðru hvoru meðan á mótinu stóð. Bjarna gekk ágætlega í mótinu og náði fimmtíu prósent vinningshlutfalli. Íslendingur einn, ungur að árum stóð sig samt enn betur. Hann hét Arnór Björnsson og vann hverja einustu skák í opna flokknum og varð efstur þar að sjálfsögðu. Dó nokkru seinna í slysi en það er önnur saga.

Í einni umferðinni tefldi Bjarni við Finna nokkurn um fimmtugt og segir lítið af skákinni fyrr en undir lokin að Bjarni hafði kóng, biskup og riddara gegn kóngi Finnans. Eins og flestir vita er alls ekki auðvelt að máta með biskup og riddara og Bjarni hafði aldrei lent í þessu fyrr. Hann leysti þó öll vandamál sem með þurfti yfir borðinu og tókst á endanum að máta eftir langa setu og marga leiki.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

gott hjá Bjarna, þetta sýnir karakter.

sandkassi 30.7.2009 kl. 02:26

2 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Dettur þér virkilega í hug að yfirformaður samfylkingarinnar, doktor Ólafur Ragnar, myndi neita að skrifa undir icesave samninginn? Þessi krataforingi, sem setti þessa voluðu ríkisstjórn á koppinn. Láttu þig ekki dreyma um það.

Sigurður Sveinsson, 30.7.2009 kl. 07:15

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurður, mér dettur ýmislegt í hug. Ég ætla mér ekki þá dul að spá í hvað ÓRG hugsanlega gerir við einhverjar aðstæður í framtíðinni. Hann getur það ekki sjálfur og gerir örugglega ekki.

Sæmundur Bjarnason, 30.7.2009 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband