Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

191. - Malbikaðar götur, tígrisdýr og FJ Group

Enn er ég í hálfgerðum vandræðum með fyrirsagnir eins og sjá má á síðasta bloggi.

Það hentar mér bara alls ekki að skrifa langt mál um afmarkað efni. Ég vil umfram allt vera stuttorður og gagnorður og stundum tekst mér það. Vandasamt getur verið að finna fyrirsögn þegar fjasað er um margt. Ég vil heldur ekki hafa fyrirsagnirnar óhóflega langar þó mér sýnist Moggabloggið þola slíkt nokkuð vel.

Þegar ég var barn og unglingur kom ég að sjálfsögðu alloft til Reykjavíkur. Eitt af því sem mér fannst hvað merkilegast þar voru malbikaðar götur og hellulagðar gangstéttir. Slíkt þekkti landsbyggðarfólk ekki á þeim tíma. Eða umferðarljósin. Þvílík undur. Þau voru nú reyndar ekki víða. Aðallega í kringum Lækjartorg. Þá var það líka talsverð langferð að fara alla leið til Reykjavíkur og hét að fara suður. Mér fannst það alltaf undarleg áttatilvísun því auðvitað hafði ég grun um réttar áttir miðað við Hveragerði.

Fáum datt í hug að fara fram og aftur milli Hveragerðis og Reykjavíkur sama daginn þó það væri hægt. Nei, ef farið var alla leið til höfuðborgarinnar var sjálfsagt að gista. Inga systir hennar mömmu átti heima á Víðimelnum í stórri blokk og þangað fórum við að sjálfsögðu. Seinna fluttist hún og hennar fjölskylda í Nóatúnið og þá fórum við þangað.

Leiðin til Reykjavíkur lá þá um það sem nú kallast Bæjarháls í Árbæ. Auðvitað var nánast engin byggð þar en samt var þar dálítill malbikaður spotti sem sagt var að væri verk hersins sem verið hafði á þessum slóðum á stríðsárunum. Þessi malbikaði kafli var reyndar talsvert mishæðóttur en mun skárri yfirferðar en malarvegirnir og laus við drullupolla og þvottabretti svokölluð. Síðan tók við malarvegur aftur og var ekið eins og leið lá yfir Elliðaárnar á tveimur brúm og svo eftir Suðurlandsbrautinni til Reykjavíkur. Þegar komið var næstum að bænum tók við allstórt og  óskipulegt bragga og smáhúsahverfi á vinstri hönd og þegar komið var niður á Laugaveg tók aftur við malbikaður vegur sem náði alla leið niður á BSÍ, sem var skammt frá Lækjartorgi.

Ef farið var frá Reykjavík til Hveragerðis var komið að Lögbergi nokkru áður en komið var á Sandskeið. Þar var nokkur byggð og þangað gengu strætisvagnar í eina tíð og ég man eftir að hafa nokkrum sinnum farið þangað með strætó og húkkað mér svo far áfram til Hveragerðis.

Skammt fyrir ofan Lögberg var undarlegur allhár steypur turn á fjórum stöplum. Ofarlega í honum var pláss fyrir menn til að skyggnast um og steypt þak yfir. Turn þessi var sagður hafa verið byggður á stríðsárunum og að hershöfðingi nýkominn frá Indlandi hafi látið byggja hann til að varðmenn yrðu ekki fyrir árásum tígrisdýra. Þegar reynt var að segja honum að tígrisdýr væru ekki til á Íslandi sagði hann: "Iss, það þýðir ekki að halda slíku fram við mig. Ég þekki landslagið."

Mikið gengur nú á í útrásar-matador-leiknum. FL Group (sem samkvæmt merki fyrirtækisins virðist heita FJ Group) er við það að verða verðlaust. Vonandi hlaupa eigendur þess ekki undir pilsfald ríkisins þó fáeinir milljarðatugir af ímynduðum krónum tapist.


190. blogg

Nú er ég semsagt hættur að rembast við að blogga á hverjum degi. Það er ekkert góður siður og hætta á að bloggin verði heldur þunn með því móti.

Næstu Ólympíuleikar verða í Kína á næsta ári. Síðan verða Ólympíuleikar á Englandi árið 2012. Það ár verð ég sjötugur ef ég lifi. Einhver var að blogga um það um daginn að búið væri að velja lukkudýr fyrir Ólympíuleikana 2010, birti mynd af þeim og fannst ekki mikið til þeirra koma. Miga heitir eitt af þeim lukkudýrum og sýnir bara að algengar stafasamsetningar geta haft skemmtilega mismunandi merkinu eftir tungumálum. Þarna hlýtur að vera átt við vetrarólympíuleika. Einu sinni voru þeir alltaf sama árið og sumarleikarnir, en því mun víst vera hætt. Ég held að Vetrarólympíuleikarnir árið 2010 verði haldnir í Kanada.

Mbl.is fréttir eru ágæt viðbót við fréttaflóruna. Nú getur maður kíkt á þær fréttir sem vekja áhuga manns og látið hinar eiga sig. Óþarfi að vera að binda sig við að horfa á sjónvarpið á einhverjum vissum tímum. Læt að minnsta kosti ekki efni í sjónvarpinu, hvorki fréttir né annað, trufla mig við að gera það sem mér dettur í hug. Ef svo ólíklega vill til að þar sé um eitthvað stórmerkilegt að ræða þá má alltaf líta á það seinna á Netinu.

Rætt var um framburð á orðinu Volkswagen. Yfirleitt voru þessir bílar bara kallaðir fólksvagnar og ekkert merkilegt við það. Það er samt merkilegt með framburð á nöfnum ýmiss iðnvarnings að framburður er oft mismunandi eftir svæðum. Fyrsta gerð Commodore heimilistölva var kölluð Commodore Vic. Fyrst átti hún að heita Commodore Fox, en það þótti fulldjarft á enskunni svo fundið var upp á hinu. Varðandi þýskuna var það þó að fara úr öskunni í eldinn og ekki meira um það.

Eitt sinn fyrir löngu var þulur í útvarpi allra landsmanna að lesa auglýsingar. Meðal annars sagði hann frá nýjum drykk sem héti hi sé. Síðan hikaði  hann svolítið og leiðrétti sig og sagði hæ sí sem var a.m.k. frá sjónarmiði seljanda mun réttara. Mér finnst réttast að bera fram með íslenskum hætti eftir handriti ef hægt er. Eitt sinn fyrir langalöngu þegar kartöflur voru ekki einu sinni fluttar inn sagði þulur ríkisútvarpsins. Hafnfirðingar, Hafnfirðingar, amerísku kartöflurnar eru komar aftur. Hann átti reyndar við korktöfflur.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband