Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

201. - Yrsa og óveður

Var að enda við að lesa bókina „Þriðja táknið" eftir Yrsu Sigurðardóttur.

Þessi bók kom út fyrir tveimur árum og mig minnir að þetta sé fyrsti krimminn eftir Yrsu. Já, ég les bækur oft löngu eftir að þær koma út. Þær rekur þá gjarnan á mínar fjörur á bókasafninu, en ég heimsæki yfirleitt tvö slík í hverjum mánuði.

Bókin er ágæt, spennunni haldið út í gegn, en efnið fannst mér ekki sérlega áhugavert. Galdrar og kukl - ekki minn tebolli. Líka óþarflega mikið gert útá blóð og óhugnað. Bókin er þó mjög vel skrifuð og höfundurinn er alveg laus við þessa þjóðfélagslegu og pólitísku predikun sem einkennir oft íslenska krimma.

Óveður mikil hafa gengið yfir landið undanfarna daga hvert á eftir öðru. Mér finnst þó fréttafólk fjölmiðlanna ekki standa sig nógu vel. Auðvitað getur verið erfitt að forðast að gera of mikið úr hlutunum þegar svona stendur á, en þó þyrftu margir fréttamenn að venja sig á gagnrýnna hugarfar.

Til dæmis var ein frétt margtuggin í fréttatímum útvarpsins. Nefnilega sú að starfsfólk ákveðinnar leikfangabúðar hefði, vegna veðurhamsins, hleypt inn fólki sem stóð í biðröð fyrir utan búðina. Fréttamenn eiga að hafa vit til að sigla framhjá svona augljósum auglýsingatilburðum. Auglýsing sem tekst að smygla inn í fréttir er miklu verðmætari en venjuleg auglýsing. Þetta á fréttafólk að vita. Hafi þetta verið frétt, sem ég efa stórlega, þá var að minnsta kosti engin ástæða til að nefna nafn búðarinnar.

Menn æsa sig í bloggum og greinum í fjölmiðlum útaf Þorláksmessuskötunni. Ég hef aldrei étið kæsta skötu og finnst lyktin af henni ógeðsleg, en alls ekki verri en mörg önnur lykt. Ég hef grun um að sumir þykist vera hrifnir af skötufjandanum, án þess að vera það. Samt sem áður finnst mér alltof langt gengið að tala um að banna skötusuðu. Þetta er bara mál sem þarf að leysa.

Einu sinni fyrir löngu sat ég húsfélagsfund þar sem ákveðið var að banna hunda og ketti í blokkinni. Lítil stelpa þar átti kettling. Ég hafði á tilfinningunni að samþykktin beindist gegn henni og væri einkum sett vegna þess að það var hægt. Ég setti mig á móti banninu, en það hafði enga þýðingu, ég var ofurliði borinn og yfirgaf fundinn í fússi.

Og tvær myndir í lokin.

Hér eru tveir hjólagæjar. Til hægri er Bjössi og er dálítið dreymandi á svipinn. Mig minnir endilega að sá til vinstri heiti Gunnsteinn en veit ekki mikið meira um hann. Held þó að hann hafi verið uppeldissonur Ragnars í Reykjafossi.

 

 

 

 

Hér er setið á tröppunum að Hveramörk 6. Valli og Vibbi í aftari röð og Björgvin, Inga frænka og Guðjón sitjandi fyrir framan. Guðjón er greinilega á sokkaleistunum, en ég veit ekki með aðra. Mjólkurbrúsinn frægi er nú kominn í vesturhornið og sést við hliðina á Bjögga.


200. - Kristilegt siðgæði, bloggvinir og fleira

Þetta er blogg númer 200. Ekki gerði ég ráð fyrir að endast svona lengi þegar ég byrjaði á þessu.

Miðað við bloggvini mína flesta er ég greinilega nokkuð duglegur við skriftirnar. Nýtt blogg flesta daga. Með tímanum er það orðið eins og vani að skrifa eitthvað.

Flesta bloggvini hef ég valið, en nokkrir hafa þó valið mig. Nú er svo komið að ég les ekki mjög mörg blogg fyrir utan það sem bloggvinir mínir skrifa. En yfir þau skrif fer ég að minnst kosti daglega.

Einhvern tíma er ég að hugsa um að skrifa eitthvað um það hvernig þessir bloggvinir mínir, og aðrir bloggarar sem ég hef dálæti á, koma mér fyrir sjónir, en hætt er við að það verði mikil langloka. Þegar að skrifum um bloggskrif kemur er ég oft býsna langorður, þó mér takist stundum bærilega að vera stuttorður um ýmislegt annað.

Í gamla daga (upp úr 1990 eða svo) þegar maður var fyrst að kynnast Internetinu þótti Gopherinn svonefndi mikið þarfaþing. Með honum gat maður þvælst um allan heim, en að vísu bara skoðað vélritaðar síður með ákveðnu sniði sem bæði voru ekki ákaflega margar og einkum að finna í háskólum um víða veröld og oftar en ekki einungis um starfsemina þar.

Þegar Lynxinn kom þótti hann mikil bylting. Hann er á margan hátt líkur vöfrunum í dag en gat þó ekki birt myndir eða neitt þessháttar heldur bara ritað mál. Notendafjöldinn fór nú sívaxandi og ætli það hafi ekki verið svona um 1995 eða 6 sem Netscape kom fram og náði gríðarlegri útbreiðslu á stuttum tíma. Microsoft ýtti honum síðan smátt og smátt út af markaðnum með Internet Explorer og nú á seinni árum eru komnir nýjir vafrar sem sumir taka fram yfir Explorerinn.

Auðvitað er það framtíðin sem skiptir mestu máli. Nú er Internetið orðið svo útbreitt að torskilið er hvernig menn komust af án þess á árum áður. Sjálfur er ég fæddur talsvert fyrir daga sjónvarps og á mitt heimili kom ekki sími fyrr en nokkuð seint. Ég man meira að segja vel eftir því þegar enginn ísskápur var til heima.

Ég veit ekki hvað Bjarni Harðarson, svo dæmi sé tekið, er með marga bloggvini en mér sýnist að þeir séu margir. Svo margir að ég efast um að hann lesi fremur blogg þeirra en annarra hér á Moggablogginu. Ef til vill gæti ég orðið mér úti um fleiri bloggvini en ég hef nú þegar, en þá mundi ég eiga í erfiðleikum með að lesa innleggin þeirra. Ég reyni nefnilega að lesa bloggin þeirra reglulega. Það finnst mér vera meiningin með þessu bloggvinastandi.

Bjarni Harðarson var að skrifa um trúmál á síðuna sína fyrir stuttu og að því er mér fannst að reyna að vera svolítið sammála Guðna formanni. Ég held að þetta upphlaup Guðna útaf „kristilegu siðgæði" sé algerlega af pólitískum rótum runnið og miklar líkur á að það snúist í höndunum á honum. Kristilega siðgæðið á heima í Sjálfstæðisflokknum öðrum flokkum fremur og engum er gert rangt til með því að fullyrða það.

Og þá eru það fáeinar myndir.

Hér er nokkuð greinilegt að það er Vignir sem stendur við vagninn hjá Bjögga, þó verið sé að reyna að ýta honum í burtu. Líklega er það skugginn af myndasmiðnum sem er þarna ofarlega til vinstri.

 

 

 

 

Hér er Björgvin augljóslega niðursokkinn í einhverjar rannsóknir.

 

 

 

 

 

Hér virðist hann aftur á móti vera að keyra sinn eigin vagn og vera ánægður með það.


199. - Jólasveinar einn og átta + 4

Í dag er sagt að jólasveinarnir byrji að streyma til byggða.

Margir eru víst búnir að taka forskot á sæluna, en hér er semsagt mynd af Stekkjastaur, sem samkvæmt jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum var fyrstur þeirra.

Þessi mynd er eftir Áslaugu og hún er búin að teikna myndir af þeim öllum eða að minnsta kosti flestum í PaintBrush og ætlar að birta þær smátt og smátt á sínu eigin vefsetri. Svo er líka slóð á heimasíðuna hennar hér til vinstri.

Hún fékk sér þetta vefsetur um daginn og setur þar myndir af ýmsum listaverkum sínum, málverkum, bræddu og lituðu gleri, leirmunum og ýmsu fleiru. Einnig ljósmyndir og svo skrifar hún oft lýsingar á verkunum og tilurð þeirra. Hingað til hafa það einkum verið ættingjar hennar sem hafa heimsótt síðuna, en ég hvet alla sem þetta lesa til að kíkja á það.

Í gær, þriðjudag, sá ég auglýsingu um ferðir út í Viðey þar sem fólk var hvatt til að fara þangað og skoða friðarsúlu Yoko Ono. Kannski var það aðeins óheppileg tilviljun, að það var einmitt nú um þessar mundir sem slökkt var á ljósatyppinu. Kannski er alveg eins merkilegt að skoða það þó ekki sé kveikt á því.

Annars hefur mér fundist þessi friðarsúla nokkuð frumlegt fyrirbæri að sjá úr fjarlægð og í réttu veðri. Stundum sést hún ekki neitt en stundum ber talsvert mikið á henni. Einhversstaðar sá ég því haldið fram á bloggi að súlan hallaðist til vinstri. Ég held reyndar að það sé ekki rétt og þar að auki er viðmiðunin hægri og vinstri alveg ónýt í þessu sambandi, nema tekið sé fram hvaðan horft er. Vissulega horfa flestir á hana frá Reykjavík, en það er ekki einhlítt.

Ég veit ekki betur en Reykjavíkurborg hafi kostað uppsetningu þessa reðurtákns og að Orkuveita Reykjavíkur leggi til orkuna í ljósið sem er víst talsverð. Mér finnst ófært að kostnaður við þetta sé innheimtur hjá öllum sem annaðhvort búa í Reykjavík eða nota orku frá Orkuveitu Reykjavíkur. Ég sé að minnsta kosti eftir þeim peningum sem í þetta fara frá mér. Hinir nýríku sem virðast varla vita hvað þeir eiga að gera við alla sína peninga eru ekkert of góðir til að borga þetta.

Útvarp Saga var á sínum tíma auglýst sem eina talmálsrás landsins. Það vill svo til að oft er opið fyrir þá rás á mínu heimili og hingað til hefur þetta verið að mestu leyti rétt með talmálið. Reyndar finnst mér ansi mikið um endurtekið efni en við því er víst lítið að gera.

Nú í aðdraganda jólanna bregður svo við að langtímum saman er ekki annað efni á Sögu en jólalög og auglýsingar á milli. Þetta eru svik við þá sem hlusta á þessa útvarpsrás í því skyni að heyra mælt mál, en ekki sama gaulið og er á öllum hinum rásunum.


198. - Afmælisblogg með vísu

Ekki áttaði ég mig á því fyrr en eftir að ég var búinn að senda síðustu bloggfærslu út í eterinn að það var einmitt samkvæmt upplýsingum Moggabloggsins sjálfs hinn 10. desember í fyrra sem ég setti  mína fyrstu færslu á Moggabloggið.

Já, ég er búinn að vera svona lengi að, en hef þó ekki enn komist í 200 færslur alls. Þetta verður því afmælisfærsla og grobbfærsla um leið og nokkrar myndir í lokin.

Mig minnir endilega að það hafi verið Hallmundur Kristinsson sem stóð fyrir því að mér var á sínum tíma boðin þátttaka á Leirlistanum svokallaða.

Póstlisti nokkur var á Imbu í gamla daga og ég var öðru hvoru að senda á hann gamlan samsetning eftir sjálfan mig og í framhaldi af því var mér boðin þátttaka í þessum eðla félagsskap.

Framan af voru ekki margir á listanum og vísur sem þangað komu á hverjum degi fáar. Smámsaman fjölgaði á listanum og margir vísnagerðarmenn þar hafa reynst mikilvirkir með afbrigðum.

Sjálfur orti ég fremur sjaldan á þennan lista og var með fáskiptustu mönnum þar. Ætli við Arnþór Helgason höfum ekki átt það sameiginlegt að yrkja fremur lítið fyrir þá sem þar voru. Nú er hann orðinn Moggabloggari eins og ég, en bloggar bara alltof sjaldan.

Fyrir allmörgum árum orti ég vísu um mál sem var til umræðu í fjölmiðlum. Upplýst var að fiskifræðingar við Hafrannsóknarstofnum hefðu misreiknað sig eitthvað og jafnvel var talað um að mikið magn af þorski hefði beinlínis týnst eftir gögnum stofnunarinnar að dæma. Hugsanlega svo næmi milljón tonnum eða svo. (Ég minni á að fargið sem nú er talið hugsanlegt að valdi skjálftum við Upptyppinga er talið vera meira en 2 milljarðar tonna.)

Vísan sem ég gerði í tilefni af þessu og sendi á Leirlistann var svona:

Hér var milljón tonnum týnt

í torráðinni gátu.

Þjóðinni var svarið sýnt.

Sægreifarnir átu.

Annars á ég oftast erfitt með að muna vísur sem ég geri og finnst þær sjaldnast merkilegar.

Hér situr Vignir á tunnu við skúrinn heima á Bláfelli. Mögnuð uppstilling. :) :-)

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég held að þetta hljóti að vera Jón Kristinn Ólafsson, sonur Sigrúnar. Ekki veit ég þó hvar þessi mynd er tekin.

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er áreiðanlega Björgvin. Myndin er tekin á túnflötinni framan við Bláfell og greinilega áður en brann. Skemmtileg mynd. Snúran er alveg kostuleg.


197. - Bifröst og Keflavíkurflugvöllur

"Er það hér sem Jói Fel fer í bað?" spyr Siggi Sigurjóns í kvenmannsgerfinu sínu.

Ég man að mér þótti þessi auglýsing meinfyndin í fyrsta skipti sem ég sá hana. Fram að því hafði ég alls ekki leitt hugann að neinu kynferðislegu í sambandi við Jóa Fel. Reyndar var ég alinn upp við það að kvenfólk hefði engar kynferðislegar langanir. Sá var að minnsta kosti skilningur minn, á fyrstu táningsárunum, þó kannski hafi það aldrei beinlínis verið sagt við mig eða komið fram með beinum hætti í námsefni við skólann.

Þegar það lá ljóst fyrir að bandaríski herinn mundi fara frá Íslandi komu stjórnmálamenn og ýmsir aðrir fram í fjölmiðlum og meðal annars var rætt um hvað gera skyldi við fasteignir á svæðinu. Eitt virtust allir sem tjáðu sig um þetta mál vera sammála um. Ekki kæmi til greina að selja þessar fasteignir á opnum markaði. Ekki þurfti að færa nein rök fyrir því, allir virtust gera ráð fyrir að sjálfsagt væri að gera eitthvað stórfenglegt við þetta góss. Mér fannst þó að eina vitið væri að selja þessar fasteignir sem fyrst, helst til sem flestra. Því var haldið fram af einhverjum að það mundi skemma svo fyrir fasteignasölum.

Nú er það komið á daginn að pólitík er hlaupin í málið. Eitt félag selur öðru 1700 íbúðir og gefur mjög ríflegan afslátt. Sumir verða fúlir, því þeir misstu af því að ná sér í smá spillingu sjálfir.

Fyrri veturinn minn á Bifröst var Hróar Björnsson útivistarkennari þar en Vilhjálmur Einarsson tók við starfinu seinni veturinn. Sumarið á milli vann ég í útibúi Kaupfélags Árnesinga í Hveragerði. Vilhjálmur Einarsson og Höskuldur Goði Karlsson voru með sumarbúðir fyrir börn það sumar í Hveragerði. Þeir versluðu dálítið við mig í Kaupfélaginu og ég man að eitt sinn útvegaði ég Vilhjálmi þónokkur kíló af kartöflum í kartöfluleysi miklu sem þá gekk yfir landið. Það var þetta sumar sem Vilhjálmur jafnaði gildandi heimsmet í þrístökki með því að stökkva 16,70 metra.

Þegar ég var á Bifröst var knattspyrnuvöllur niður við Glanna og auðvitað var Vilhjálmur oft þar. Þar var líka aðstaða fyrir ýmsar aðrar íþróttir og eitt sinn skömmu eftir að skólinn hófst var ég þar að æfa hástökk ásamt einhverjum öðrum. Vilhjálmur kom að og spurði hvort við værum bestu hástökkvarar skólans og fannst eflaust lítið til hæðarinnar koma. Seinna um veturinn sá ég svo Vilhjálm og fleiri stökkva miklu hærra í hástökki án atrennu innanhúss en við komumst með langri atrennu utanhúss.

Strangt tiltekið tilheyrði ég svokölluðu antisportistafélagi. Antisportistar stunduðu oft göngur í útivistartímum í stað íþrótta. Á tímabili var vinsælt að fara í gönguferðir upp í Leopoldville sem kallað var. Til þeirrar nafngiftar lágu einkum tvær ástæður. Kongó var mikið í fréttum á þessum tíma og svo var Fúsi vert hættur með Hreðavatnsskála og Leopold nokkur tekinn við.

Fyrir kom þó að ég tæki þátt í íþróttum. Til dæmis man ég eftir að hafa tekið þátt í bekkjakeppni í knattspyrnu á svelluðum og snjóugum velli og svo var ég í sundliði skólans og skákliði einnig.


196. - Glendalough

Eftirfarandi texta birti Guðfríður Lilja Grétarsdóttir á Moggabloggi sínu nýlega:

"Í gær birti Ríkisendurskoðun niðurstöður sínar þar sem fram kemur að umrætt samkomulag sé ekki bindandi fyrir ríkið enda skorti nauðsynlegar lagaheimildir."

Þarna er hún að tala um vatnsréttindi Landsvirkjunar í Þjórsá og hefur að öllum líkindum alveg rétt fyrir sér.

Þetta minnir mig á svipað mál sem kom upp fyrir mörgum árum. Þá var Steingrímur J. Sigfússon, sem nú er formaður vinstri grænna, landbúnaðarráðherra og undirritaði samkomulag við einhverja bændur í Ölfusi eða skrifaði jafnvel jafnvel undir skuldabréf í nafni síns háa embættis, en var gerður afturreka með málið af nýju Alþingi þegar á átti að herða. Í stað þess að standa við orð sín og gerðir gleypti Steingrímur stoltið og hefur goldið þess í mínum augum síðan.

Nú er málið auðvitað á þann hátt öðruvísi að meirihlutanum á Alþingi ætti að vera í lófa lagið að samþykkja heimildir eftir því sem þurfa þykir fyrir Landsvirkun. En kannski þora þeir það ekki.

Sagt var frá því í einhverju dagblaði fyrir stuttu að Alcoa sem á álverið við Reyðarfjörð hefði veitt styrk til þess að steinhús eitt að Sómastöðum við sama fjörð yrði endurbyggt. Steinhús þetta sem er 37 fermetrar að stærð og byggt árið 1875 er sagt vera eina portbyggða steinhúsið á Íslandi sem varðveist hefur.

Ég hélt reyndar að portbyggð hús væru allt öðruvísi en það hús sem ég hef séð myndir af í þessu sambandi. Það skiptir samt litlu máli og kannski hef ég einfaldlega rangt fyrir mér. Húsið er byggt úr steinum úr nágrenninu sem límdir eru saman með jökulleir.

Þetta með jökulleirinn minnti mig á að þegar ég fór til útlanda í fyrsta skipti á ævinni kom ég meðal annars á stað einn á Írlandi sem Glendalough heitir. Þar var meðal annarra bygginga turn einn allhár og forn mjög. Mér er minnisstætt að leiðsögumaður sagði okkur að turninn sem hlaðinn var úr steinum væri um þúsund ára gamall. Þá man ég að einhver í okkar hópi spurði hvernig í ósköpunum steinarnir væru límdir saman. Ekki stóð á svarinu: "Með uxablóði".

Áfram bollalögðum við um turninn og nú var spurt til hvers í ósköpunum menn hefðu verið að byggja svona háan turn á þessum tíma. "Til að geta varað fólk við víkingunum," var svarið. Ég man að þetta svar opnaði augu mín talsvert fyrir sögu íslensku þjóðarinnar, því víkingar og allt sem þeim tengdist hafði fram að þessu verið jákvætt og gott í mínum huga.

Horfði á spaugstofuna áðan eins og svo oft áður. Ekki eru nú allir brandararnir merkilegir hjá þeim og ósköp fannst mér Pálmi herma illa eftir Guðna Ágústssyni. Mig minnir að það sé Jóhannes Kristjánsson sem nær honum svo vel að jafnvel Guðni sjálfur gæti varla gert betur. Mikið er á Örn Árnason lagt. Hann virðist alltaf þurfa að vera forsætis, nema þann stutta tíma sem Pálmi hafði völdin. Hann náði Halldóri reyndar ágætlega.

Það hefur eiginlega vantað myndir í bloggið mitt að undanförnu. Nú skal bætt úr því.

Hér er Unnur með Bjössa.

 

 

 

 

 

 

Hér er Inga systir hennar mömmu með Bjössa.

 

 

 

 

 

 

Og hér eru Valgeir Gunnarsson og Ingibjörg Guðlaugsdóttir fyrir aftan Vigni Bjarnason sem er með Bjössa í fanginu.


195. - Ekki fékkst ísleyfi hjá Ísleifi

Í framhaldi af símahrekk Vífils frænda datt mér í hug að einhverntíma í fyrndinni hlustaði ég á útvarpsþátt þar sem Jökull heitinn Jakobsson var að reyna að ná sambandi í síma við páfann í Róm.

Ekki villti hann á sér heimildir heldur var það eitthvað sem hann var að ræða um í þættinum sem hann vildi bera undir páfa.

Ekki gekk vel að fá samband við hans heilagleika og vísaði hver á annan. Jökull var ýtinn og frekur og menn í mestu vandræðum með að losna við hann. Öllum þessum samtölum var útvarpað í þættinum. Sum þeirra hafa þó ef til vill verið stytt eitthvað því Jökull þurfti að segja sögu sína margoft hinum og þessum toppfígúrum í Vatíkaninu.

Mig minnir að endirinn hafi orðið sá að eina ráðið fyrir Jökul til að fá hugsanlega samband við páfa sjálfan væri að skrifa einhverjum aðila í Kaupmannahöfn og biðja um viðtal.

Jökull hafði gaman af að fíflast í síma. Eitt sinn man ég eftir því að í þættinum sagði hann frá því að hann þyrfti endilega að fá svolítinn ís af Tjörninni. Í lögreglusamþykkt eða einhverju þess háttar hafði hann grafið upp að ekki mætti taka ís af Tjörninni nema hafa til þess leyfi bæjaryfirvalda.

Nú vildi hann fá þetta leyfi, en það lá ekki á lausu og vísaði hver á annan. Jökull hringdi í ýmsa yfirmenn í borgarkerfinu og bar upp erindi sitt. Sum þessara samtala voru skondin í meira lagi.

Birgir Ísleifur Gunnarsson var borgarstjóri þegar þetta var. Þegar allt annað þraut vildi Jökull fá samband við borgarstjóra sjálfan, en ekki gekk það. Hann hafði öðrum hnöppum að hneppa og ég man að þættinum lauk á þvi að Jökull sagði að ekki hefði tekist að fá ísleyfi hjá Ísleifi.

Var að enda við að lesa hér á Moggablogginu langhund mikinn eftir Sverri Stormsker um miðla. Þegar ég var búinn að pæla í gegnum þetta kom í ljós að um var að ræða margra ára gamla grein sem hann var að endurbirta. Í greininni vitnaði hann óspart í töframanninn og snillinginn Harry Houdini. Mig minnir að ég hafi stuttlega vitnað í hann fyrir nokkru af svipuðu tilefni en þó í mun styttra máli.

Annars er margt rétt hjá Sverri í þessari grein. Mér finnst hann þó gera lítið úr lesendum sínum með því að endurtaka svona oft það sem hann vildi sagt hafa og svo er það alls ekki til fyrirmyndar að endurbirta efni með þessum hætti og láta þess ekki getið fyrr en í lokin.


194. - Bæjarsjóður Kópavogs

Mikið er linkað í frétt mbl.is um símahrekk Vífils.

Það er ein af sérviskum mínum að linka ekki í fréttir á mbl.is. Það var lengi vel önnur sérviska hjá mér að nota ekki fyrirsagnir. Nú er ég farinn til þess. Kannski fer fyrrnefnda sérviskan einhvern tíma sömu leið.

Ekki fer hjá því að þetta framtak Vífils vekur talsverða athygli. Einhvers staðar sá ég það haft eftir honum að það væri greinilega ekki hægt að treysta Hvíta Húsinu, því hann hefði sagt að símanúmer sitt væri leyninúmer og ekki mætti segja neinum frá því. Þetta finnst mér þunn og vesæl afsökun. Símahrekkir geta oft verið fyndnir og afhjúpa stundum alvarlegar gloppur, en að öðru leyti finnst mér þetta ekki sérstaklega merkilegt.

Einhverjir fjölvitringar á fréttamiðlum þóttust reikna það út um daginn að það að ganga ákveðna vegalengd losaði meira magn af gróðurhúsalofttegundum en ef sama vegalengd væri ekin. Ekki nóg með að það megi helst ekki éta annað en kál og gras, nú má ekki heldur ganga. Ja, það er orðið vandlifað í veröldinni.

Um daginn fékk ég tvær tilkynningu frá Landsbankanum um að kröfur hefðu ekki verið greiddar og þessvegna verið endursendar. Þetta voru kröfur frá Bæjarsjóði Kópavogs. Örugglega vegna fasteignagjalda. Ekki var neitt um þessar rukkanir að finna í heimabankanum svo ég tók tilkynningarnar með mér næst þegar ég þurfti að fara í útibú Landsbankans fyrir ofan gjána miklu. Þar skoðaði þjónustufulltrúi bréfin tvö og fletti upp á einhverju í tölvunni hjá sér og sagði að ég þyrfti engar áhyggjur að hafa af þessu, því kröfurnar hefðu verið greiddar 4. september.

Ég er nú svo tortrygginn að ég ákvað samt að hringja í Bæjarsjóð Kópavogs og ganga úr skugga um að ég væri ekki í einhverri skömm þar. Símaskrár er að mestu hætt að nota á mínu heimili, svo ég leitaði bara á simaskra.is sem oftast reynist mér nokkuð vel. En ekki í þetta sinn.

Fyrst prófaði ég að slá inn "Bæjarsjóður Kópavogs". Það bar engan árangur. Næst prófaði ég "Kópavogur". Ekki var það betra. Þá prófaði ég að gúgla þetta. Upp kom eitthvað um ársreikninga og þess háttar sem ég hafði lítinn áhuga á. Þá var næst að prófa "Kópavogskaupstaður" Þá fékk ég upp eitthvað um Sýslumanninn í Kópavogi og Tónlistarskóla Kópavogs. Ekki nákvæmlega það sem ég var að leita að. Nú prófaði ég að slá einfaldlega kopavogur.is inn í vafrann. Jú, vissulega fékk ég ýmsar upplýsingar þar, en ekkert sá ég um símanúmer hjá Bæjarsjóði Kópavogs.

Nú leist mér ekki orðið á blikuna, en fékk allt í einu hugljómun og skoðaði betur bréfið frá Landsbankanum. Þar stóð að eigandi kröfunnar væri Kópavogsbær. Þegar ég sló það orð síðan inn á leitarvef símaskrárinnar fékk ég alveg óvænt símanúmer sem ég gat notað. Þar fékk ég sömu svör og í bankanum. Kröfurnar hefðu verið greiddar 4. september og ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu. Nú get ég semsagt verið alveg rólegur þangað til einhverjir menn koma til að taka lögtak fyrir þessum ógreiddu kröfum. Já, ég er svona svartsýnn.

Í sjónvarpinu í kvöld var frétt um eitthvað sem var verið að gera í einhverjum skóla. Síðan var sagt: "Við litum við í skólanum í dag." Greinilegt var að átt var við að þangað hefði verið farið. Myndir voru sýndar þaðan og ekki að sjá að neinn hefði litið við.


193. - Moggablogg og símahrekkir

Arnþór Helgsason segir á sínu bloggi og er að tala um sjónvarp mbl.is "Ástæða er til að óska þeim mbl-mönnum til hamingju með árangurinn. Mbl.is er ennþá langfremsti vefmiðill landsins." Það vill svo til að ég þekki Arnþór Helgason dálítið og ég veit að hann hefur gott vit á þessu.

 

"Það er satt sem sagt er...það er fátt heimskara en Moggabloggið.
Ef Moggabloggið væri maður þá héti hann Georg Bjarnfreðarson."

Þetta er heil færsla sem Máni Atlason setur á bloggið sitt. Ég ætla ekki að fjölyrða um hversu fyndið þetta er. Hann gætir sín að segja Moggabloggið en ekki Moggabloggarar. Sennilega er hann samt sammála Stefáni Pálssyni um að Moggabloggið sé dautt.

Eitt af þeim bloggum sem ég les yfirleitt alltaf er blogg Hörpu Hreinsdóttur. Hún er prýðilegur bloggari, en af einhverjum ástæðum er henni einkar lagið að espa fólk á móti sér. Nú virðist hún vera komin í hörkudeilur um trúmál og ég ætla ekkert að skipta mér af þeim þó ég hafi að sjálfsögðu skoðanir á því sem þar er um rætt.

Þau Harpa og Máni tala líka um símahrekk Vífils og Máni segir frá honum í sínu bloggi. Mér finnst bara að fólk þurfi að athuga að þegar símahrekkir ná til annarra landa þá má alltaf búast við viðbrögðum sem ekki er að öllu leyti fyrirsjáanleg.

Ég bloggaði eitthvað í gær um klórlekann í Laugaskarði og önnur mál í framhaldi af því. Í sjónvarpinu í kvöld var frétt um þetta og sagt að allt kvikt hefði drepist fyrir neðan þann stað þar sem klórinn fór í ána. Þetta getur vel verið rétt, en athyglisvert þótti mér að allar þær myndir sem birtar voru með fréttinni voru teknar ofan við nefndan stað. Líka er það ámælisvert að ekki skuli í fréttinni vera gerð grein fyrir því hvaða Varmá er um að ræða.

Ráðherrar í ríkisstjórninni þykjast nú ætla að fara að gera eitthvað fyrir aldraða og öryrkja. Best væri ef fólk fengi að vera í friði fyrir misvitrum stjórnvöldum, en ekki er boðið uppá það. Samt held ég að þetta fólk vilji vel og enginn vafi er á því í mínum huga að kjör fólks hafa batnað mikið undanfarna áratugi. Ekki er það þó stjórnvöldum að þakka nema með óbeinum hætti.


192. - Jólastress, klór og Hannes

Nú er jólastress-söngurinn sem ég kalla svo byrjaður í fjölmiðlum.

Þessi söngur einnkennist af því að einhver sem segist vera alveg óstressaður fær til sín í viðtal annan jafnóstressaðan og svo hneykslast þeir/þær/þau alveg niður í rass á þeim sem sagt er að séu helteknir af jólastressi. Tala um hvað flestir aðrir séu mikið á þönum fyrir jólin og þurfi að gera allt og klára allt, baka tíu sortir, kaupa ótal gjafir, breyta og bæta, innrétta, mála og þrífa en bara ekki þau. Mér finnst þetta með afbrigðum lélegt fjölmiðlaefni. Ef fólk vill vera stressað fyrir jólin, má það bara vera það fyrir mér.

Ásgerður Jóna Flosadóttir er með fasta þætti á útvarpi Sögu og um daginn heyrði ég byrjunina á einum þætti hjá henni. Aðallega held ég að hún sé í þessum þáttum að útdeila alskyns dóti í auglýsingaskyni. Látum það vera. Í þessum þætti sem ég hlustaði á upphafið af var hún að segja frá einhverri bók sem nýlega væri komin út. Þessi bók væri tvímælalaust sú almerkasta sem skrifuð hefði verið og þyrfti nauðsynlega að vera til á hverju einasta heimili. Fleiri orð hafði hún um ótvíræða yfirburði þessarar bókar yfir aðrar slíkar og á endanum langaði mig auðvitað að vita hvaða bók þetta væri eiginlega. Ekki sagði hún nærri strax hvað bókin héti en að því kom þó að lokum eftir lofgerð langa og mikla.

Vonbrigði mín voru talsverð þegar í ljós koma að þarna var bara um enn eina sjálfshjálparbókina að ræða. Ég man ekki einusinni nafnið á henni. Ég veit ekki betur en sjálfshjálparbækur séu gefnar út í miklu magni á hverju ári bæði hér á Íslandi og annars staðar.

Sagt var frá því í fréttum áðan að klór hefði farið út í Varmá frá Sundlauginni í Laugaskarði. Einu sinni var vinsælt að veiða í Varmá, einkum í hyljunum við Reykjafoss. Sennilega er það ekki lengur stundað. Varmáin hefur orðið fyrir mörgun kárínum í tímans rás. Einu sinni voru boraðar háhitaholur þónokkrar inn við Reykjakot og þar í kring. Ein þeirra var eitt sinn látin blása beint í ána. Við það drapst allur fiskur í ánni a.m.k. niðurundir Velli. Ullarverksmiðjan skammt fyrir neðan Hamarinn sem byggð var um svipað leyti og holurnar hjá Reykjakoti voru boraðar, lagði stundum til skrautleg litarefni í ána og fleira ógott. Allt skólp frá Hveragerði fór líka að sjálfsögðu í hana og gerir kannski enn. Nútildags hlýtur það samt að vera hreinsað eitthvað fyrst.

"Undarleg ósköp að deyja." Þetta man ég að ég las einhverntíma í ljóðabók eftir Hannes Pétursson. Pétur Blöndal blaðamaður við Morgunblaðið, sem er allt annar Pétur Blöndal en alþingismaðurinn sem sífellt er að flækjast í sjónvörpunum okkar, er nú fyrir þessi jól að gefa út sína fyrstu bók. Það er viðtalsbók með viðtölum við skáld og rithöfunda. Ég hjó eftir því að Hannes Pétursson er þar meðal viðmælenda. Lítið hefur farið fyrir Hannesi Péturssyni undanfarin ár og eflaust er hann farinn að eldast nokkuð. Það breytir því þó ekki að endur fyrir löngu las ég af áhuga bæði ljóð og laust mál eftir hann. Einkum minnir mig að hann hafi skrifað í lausu máli um þjóðlegan fróðleik. Ef mig misminnir ekki er það eftirminnilegasta sem ég hef lesið um þá Reynistaðabræður eftir Hannes.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband