190. blogg

Nú er ég semsagt hættur að rembast við að blogga á hverjum degi. Það er ekkert góður siður og hætta á að bloggin verði heldur þunn með því móti.

Næstu Ólympíuleikar verða í Kína á næsta ári. Síðan verða Ólympíuleikar á Englandi árið 2012. Það ár verð ég sjötugur ef ég lifi. Einhver var að blogga um það um daginn að búið væri að velja lukkudýr fyrir Ólympíuleikana 2010, birti mynd af þeim og fannst ekki mikið til þeirra koma. Miga heitir eitt af þeim lukkudýrum og sýnir bara að algengar stafasamsetningar geta haft skemmtilega mismunandi merkinu eftir tungumálum. Þarna hlýtur að vera átt við vetrarólympíuleika. Einu sinni voru þeir alltaf sama árið og sumarleikarnir, en því mun víst vera hætt. Ég held að Vetrarólympíuleikarnir árið 2010 verði haldnir í Kanada.

Mbl.is fréttir eru ágæt viðbót við fréttaflóruna. Nú getur maður kíkt á þær fréttir sem vekja áhuga manns og látið hinar eiga sig. Óþarfi að vera að binda sig við að horfa á sjónvarpið á einhverjum vissum tímum. Læt að minnsta kosti ekki efni í sjónvarpinu, hvorki fréttir né annað, trufla mig við að gera það sem mér dettur í hug. Ef svo ólíklega vill til að þar sé um eitthvað stórmerkilegt að ræða þá má alltaf líta á það seinna á Netinu.

Rætt var um framburð á orðinu Volkswagen. Yfirleitt voru þessir bílar bara kallaðir fólksvagnar og ekkert merkilegt við það. Það er samt merkilegt með framburð á nöfnum ýmiss iðnvarnings að framburður er oft mismunandi eftir svæðum. Fyrsta gerð Commodore heimilistölva var kölluð Commodore Vic. Fyrst átti hún að heita Commodore Fox, en það þótti fulldjarft á enskunni svo fundið var upp á hinu. Varðandi þýskuna var það þó að fara úr öskunni í eldinn og ekki meira um það.

Eitt sinn fyrir löngu var þulur í útvarpi allra landsmanna að lesa auglýsingar. Meðal annars sagði hann frá nýjum drykk sem héti hi sé. Síðan hikaði  hann svolítið og leiðrétti sig og sagði hæ sí sem var a.m.k. frá sjónarmiði seljanda mun réttara. Mér finnst réttast að bera fram með íslenskum hætti eftir handriti ef hægt er. Eitt sinn fyrir langalöngu þegar kartöflur voru ekki einu sinni fluttar inn sagði þulur ríkisútvarpsins. Hafnfirðingar, Hafnfirðingar, amerísku kartöflurnar eru komar aftur. Hann átti reyndar við korktöfflur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ég hef ekki hingað til orðið vör við að bloggin þín væru þunn, Sæmundur! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 3.12.2007 kl. 15:40

2 Smámynd: Eyþór Árnason

Sammála Láru Hönnu. Þú ert búinn að standa þig fjandi vel. Ég held þú leikir þér að því að segja manni sögur á hverjum degi. Kveðja. 

Eyþór Árnason, 3.12.2007 kl. 22:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband