889 - Djákninn á Myrká

Einhver frægasta draugasaga á Íslandi er sú um djáknann á Myrká. Bærinn Myrká er í Eyjafirði og konan sem djákninn hélt við hét Guðrún og átti heima á Bægisá sem einnig er í Eyjafirðinum en hinum megin Hörgár. Djákninn vildi nú bjóða Guðrúnu sinni í partý um jólin og sagðist mundi koma og sækja hana á hesti sínum sem Faxi var nefndur. Allt kostaði þetta aukaferð því enginn var síminn. 

Þegar hann fór heim frá því að bjóða Guðrúnu í jólapartýið hafði veður versnað og vaxið í Hörgá frá því sem áður hafði verið. Drukknaði hann þar og segir ekki meira frá því. Höfuð hans skaddaðist á ísjaka í ánni og var líkið flutt að Myrká og jarðað þar í vikunni fyrir jól.

Guðrún á Bægisá hafði ekki frétt af þessu og á aðfangadag jóla hafði veður skánað nokkuð. Bjó hún sig þá til ferðar að Myrká. Barið var að dyrum og Guðrún flýtti sér áleiðis út og fór bara í aðra ermina á kápunni en lagði hina yfir öxlina og greip í hana. Faxi og aðkomumaður einn biðu hennar fyrir utan og haldið var strax af stað. Við Hörgá lyftist hattur draugsa og sá þá í bera hauskúpuna. Tungl óð í skýjum. Hann kvað:

Máninn líður,
dauðinn ríður,
sérðu ekki hvítan blett
í hnakka mínum,
Garún, Garún?

Henni brá en þagði við. Við Myrká segir hann:

Bíddu hérna, Garún, Garún,
meðan ég flyt hann Faxa, Faxa,
upp fyrir garða, garða.

Henni verður litið í kirkjugarðinn. Þar sér hún opna gröf og verður mjög hrædd. Greip hún þá til þess ráðs að hringja kirkjuklukkunum sem mest hún mátti. Þá var gripið í hana en kápan var hálflaus og hélt hún annarri erminni en draugsi steyptist ofan í gröfina með afganginn af kápunni. Draugurinn ásótti Guðrúnu næstu vikurnar og að lokum var fenginn galdramaður vestan úr Skagafirði og gat hann sært djáknann aftur ofan í jörðina.

Auðvitað trúir þessu ekki nokkur maður. Draugar eru ekki til og myrkfælni er bara aumingjaskapur. Í flestum útgáfum er sagan miklu lengri og ítarlegri en þetta. Ekki veit ég af hverju hún er svona fræg. Draugasögur eru yfirleitt hálfgerð endileysa.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þessi saga, eða afbrigði af henni, er þekkt víða í Evrópu, í sögum og ljóðum. Hún hefur svo verið rækilega íslenskuð.

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.12.2009 kl. 01:12

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Draugasögur eru skemmtilegar. En bara stöku sinnum draugalegar. 

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.12.2009 kl. 02:19

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Auðvitað eru draugasögur margskonar og segja ekkert til eða frá um átrúnað unnenda sinna. Setti bara lokin á þessu að gamni mínu og kannski fyrir DoctroE sem mig minnir að hafi kommentað hjá mér þegar ég sagði frá Bjarna-Dísu. Sú saga er sko draugaleg eða réttara sagt hryllileg.

Sæmundur Bjarnason, 8.12.2009 kl. 02:30

4 Smámynd: Kama Sutra

Nú hef ég hvergi séð athugasemdir frá Dokksanum í marga daga.

Ég er farin að sakna hans.  Mér fannst hann alltaf bara vinalegur.

Kama Sutra, 8.12.2009 kl. 02:37

5 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Draugarnir hurfu þegar við rafvæddum landið. Ég trúi að rafsegulbylgjur hafi margs konar áhrif sem ekki liggja í augum uppi. Hins vegar eru álfasögur sennilega uppspuni ókvenhollra manna

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.12.2009 kl. 08:01

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Doksinn getur ekki lengur kommentað gegnum bloggkerfi sitt heldur eins og utanaðkomandi, staðfesta í pósti og svoleiðis. Hann nennir ekki að standa í slíkum og er búinn að kveðja. Mér fannst hann líka vinalegur þó hann væri á móti trú.

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.12.2009 kl. 12:04

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Jóhannes, draugasögur tengjast kannski myrki en ég skil ekki þetta með álfasögurnar.

Sigurður og Kama Sutra, Doksi getur að minnsta kosti lesið þau blogg vandræðalaust sem hann hefur áhuga á. Er að miklu leyti sammála ykkur með hann.

Sæmundur Bjarnason, 8.12.2009 kl. 16:06

8 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Draugar eru ekki til og myrkfælni er bara aumingjaskapur.

Ég er oft alveg hroðalega myrkfælinn eftir hryllingsmyndir

Kristinn Theódórsson, 8.12.2009 kl. 16:50

9 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Sæmundur, eru ekki flestar álfasögur byggðar á kynferðislegum fantasíum á einn eða eða annan hátt?  Samræði við álfa virtist hafa verið álitið fatale..

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.12.2009 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband