869 - Lítilmennið Árni Páll Árnason

Oft er sagt að það sé lítilmannlegt að ráðast að kjörum aldraðra og öryrkja. Mér finnst það ekki. Þeir geta þó svarað fyrir sig. Það geta unglingar ekki. Þessvegna er það sérstaklega lítilmannlegt af félagsmálaráðherranum Árna Páli Árnasyni að ráðast með þeim hætti sem hann gerir á ungt fólk. Sem ástæðu ber hann ekki aðeins fyrir sig sinn eigin aumingjaskap og ríkisstjórnarinnar heldur segir hann fullum fetum að unga fólkið hafi gott af því að stolið sé frá því. Þvílík skinhelgi.

Eitt sinn var það samþykkt í samningum milli launþega og vinnuveitenda að greiða ekki fullt verkamannakaup fyrr en við 18 ára aldur. Lengi hafði þá tíðkast að greiða fullt kaup við 16 ára aldur. Margir voru alfarið á móti þessu. Meðal annars beitti ég mér þá fyrir því sem formaður Verslunarmannafélags Borgarness að samningarnir voru felldir þar. Endirinn varð sá að sú unglingaárás sem gerð var frá Garðastrætinu var dregin til baka.

Nú hyggst ríkisstjórn Íslands höggva í þennan sama knérunn og níðast á unglingum landsins með því að svipta þá atvinnuleysisbótum. Slíka ríkisstjórn get ég ekki stutt.

Ekki eru allir jafnánægðir með þingmanninn unga og nýkjörinn formann Heimssýnar Dalamanninn Ásmund Einar Daðason. Þetta blogg-bréf sem ég birti hér ber vott um það.

,, Sæll Ásmundur og til hamingju með formannsembættið í Heimssýn. En sem félagsmaður  þar  skora ég  á þig að greiða atkvæði gegn nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar um icesave. En það tengist klárlega umsókn Íslands að Evrópu-
sambandinu. Hyggst þú hins vegar greiða atkvæði með icesave, skora ég á þig að segja af þér sem formaður Heimssýnar, svo komist verði hjá alvarlegum klofningi þar, því margir, þar á meðal ég, munu segja sig úr samtökunum, taki formaður Heimssýnar þá and-þjóðlegu afstöðu að greiða fyrir inngöngu Íslands í ESB með samþykki á þjóðsvikasamningnum um icesave. HJÁSETA eða FJARVERA
verður túlkað sem samþykki á icesave.

                   Virðingarfyllst.
                   Guðm.Jónas Kristjánsson   "

Þetta sannar bara gamla spakmælið að því minni sem samtök eða stjórnmálaflokkar eru því líklegri er klofningur þar.

Óhreinu börnin hennar Evu.

Kommúnistar.
Holocaust deniers.
Climate change deniers.

Þetta eru frasar sem notaðir eru til að reyna að gera menn að ómerkingum. Sigurður Þór Guðjónsson minnist á það síðastnefnda á bloggi sínu. Þetta er bara nýjasta afurðin en notuð á sama hátt. Á þennan hátt fá viss orð og orðasambönd aukamerkingu sem hugsanlega er ekki öllum ljós. Þeir sem lenda í því að vera kallaðir „Climate change deniers" vita samt alveg hvað þetta þýðir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þarna lýsirðu félagsmálaráðherranum rétt. Það er auðveldara að sparka í þá sem geta ekki varið sig, en að leggja í bankamafíuna með allan sinn lögfræðingaher og fjölmiðlana í þjónustu sinni. Svona gera engir aðrir en lítilmenni.

Theódór Norðkvist 19.11.2009 kl. 00:34

2 Smámynd: Kama Sutra

Hver er Guðmundur Jónas Kristjánsson?  Greini ég hótunartón í þessu bréfi sem er eignað honum?

Kama Sutra, 19.11.2009 kl. 00:54

3 Smámynd: Eygló

Hvað á að gera? Engir peningar. Óyfirstíganlegar skuldir þótt við yrðum marin á malbikið.

Mér finnst skárra að ungmenni í foreldrahúsum beri minna úr býtum svo að fjölskyldufeður og -mæður fái haldið bótum fyrir sig og börn sín lengur.

Við kvörtum yfir ástandinu og svo þegar stungið er niður einhvers staðar þá emjum við. Hvaðan á að taka?

Ekkert okkar vill láta taka neitt af sér, en....

Undirrituð er fjármagnseigandi. 

Eygló, 19.11.2009 kl. 01:13

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Theódór. Alveg sammála.

Kama Sutra. Guðmundur er einn helsti penni Heimssýnarmanna. A.m.k. hér á Moggablogginu. Bréfið er ekkert EIGNAÐ honum. það er eftir hann og hann birti það á bloggsíðu sinni.

Eygló. Blankheitin og allt það eru bara afsakanir. Ég fer ekkert ofan af því að það er lítilmannlegt að ráðast á þá sem geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér.

Sæmundur Bjarnason, 19.11.2009 kl. 01:36

5 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Bara svona að benda á að það sem ég heyrði til Árna Pálls þá var hann að tala um ungt fólk á aldrinum 18 til 24 ára sem enn býr í foreldrahúsum. Hann var að tala um að í stað þess að þau lokuðu sig af og gæfust upp á leita sér að vinnu að atvinnuleysisbætur þeirra yrðu minnkaðar og þær notaðar til þess að þjálfa þau upp þannig að þau ættu auðveldara með að fá vinnu. Og ég ítreka að þetta átti við ungt fólk sem lifir á hótel Mömmu. Reynsla annarra þjóða er að ákveðinn hópur þeirra skapar sér lífsstíl sem byggir á þessum atvinnuleysisbótum og missir áhugan á að fá vinnu.

Held nú fyrir ungt fólk sé það nú ekki svo slæmt að hafa um 70 til 80 þúsund í vasan og á meðan sækja starfsþjálfun.

Þetta á eðlilega ekki við þá sem eru fluttir að heiman og   leigja

Magnús Helgi Björgvinsson, 19.11.2009 kl. 01:44

6 Smámynd: Eygló

MHB - ditto

Eygló, 19.11.2009 kl. 01:59

7 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Magnús minn. Þú þarft ekkert að vera að endurtaka allar afsakanir Árna Páls. Hvernig á svo að skilgreina hverja á að hýrudraga og hverja ekki? Og hver á að gera það? Stóribróðir? Já, það stefnir í að enginn megi gera neitt nema stóribróðir leyfi það. Ef þeir sem svipað er ástatt með og þú segir Magnús væru skyldaðir til að læra eitthvað og borga jafnvel fyrir það, þá væri það annað mál. En það er ekki þannig.

Sæmundur Bjarnason, 19.11.2009 kl. 02:14

8 Smámynd:  Birgir Viðar Halldórsson

Ég held að Árni Páll ætti að segja af sér sem ráðherra og helst yfirgefa Alþingi...

Birgir Viðar Halldórsson, 19.11.2009 kl. 11:16

9 Smámynd: Bjarni Harðarson

Sæll frændi. Ekki veit ég á hverju þú byggir það mat að Guðmundur Jónas Kristjánsson sé einn helsti penni Heimssýnarmanna á Moggablogginu.Það eru mjög margir stjórnarmenn Heimssýnar og virkir áhrifamenn innan þeirra samtaka sem blogga einmitt á Moggabloggi og gjarnan um ESB mál. Guðmundur Jónas hefur ekki verið starfandi innan þessara samtaka svo ég viti. Og að samtökin séu mjög smá veit ég heldur ekki á hverju þú byggir. Félagar eru nú um 2000 talsins og 60-70% þjóðarinnar aðhyllist málstað okkar en það er rétt að Íslendingar í heild eru fáir þannig að kannski er þetta allt frekar smátt í sniðum...

Bjarni Harðarson, 19.11.2009 kl. 13:34

10 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Sæmundur þú ert að grínast er það ekki? Það er nú ekki erfitt að fara eftir lögheimilum. Ef að einstaklingar búa í foreldrahúsum þá sést það í þjóðskrá! Og þá væri hugsunin sú að með því að lækka bætur þeirra þá væri verið að hvetja þau til að leita sér að vinnu eða þjálfun til að koma sér fyrr á vinnumarkað. Ég bendi þér t..d. á að byrjunarlaun starfmanns hjá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra sem er 20 ár er um 170 þúsund krónur og minna ef hann er yngri. Þau fá 160 þúsund nú í atvinnuleysisbætur. Hvaða hvati er þá fyrir þau að fara að vinna störf sem tryggja þeim ekki hærri bætur? Heldur þú að þau kjósi ekki frekar að vera bara heima í tölvunni og hafa það gott með vinunum?

Væri t.d. ekki réttara að bjóða þeim að sækja nám eða þjálfun sem heldur þeim þó í þeim gír að vakna á morgnana og fara úr húsi? Það er eðlilegum rythma. 

Þetta er nú það sem aðrar þjóðir hafa varað okkur við. Að láta ekki vaxa hér upp kynslóðir sem kjósa að vera ekki á vinnumarkaði.  Og nýta kreppuna sem afsökun

Magnús Helgi Björgvinsson, 19.11.2009 kl. 14:37

11 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Bjarni: Það eru fleiri en Guðmundur sem tengja saman Icesave og ESB. Um störf hans hjá Heimssýn veit ég ekkert en hann virðist álíta sjálfur að hann sé hátt skrifaður þar. Í frétt kom fram að félagar í Heimssýn væru að nálgast 1800.

Magnús: Þú ert bara að endurtaka afsakanir Árna Páls. Ertu ekki að segja að atvinnuleysisbæturnar séu of háar?  Á þá að ráðast á þá sem liggja best við höggi?

Sæmundur Bjarnason, 19.11.2009 kl. 15:42

12 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Mér finnast þetta ótrúlegar ráðstafanir hjá Árna Páli. Það mætti einna helst halda að ungt fólk á aldrinum 18-24 þurfi ekki að standa skil á afborgunum af einu eða neinu. Sumsé að þau hafi ekki keypt sér nokkurn skapaðan hlut. Þó er þetta einmitt sá aldurshópur sem er t.d. að kaupa sér sinn fyrsta bíl og fl.

Eiga kannski foreldrar fólks á þessum aldri að bæta þeim skuldbindingum á sig?

Hrönn Sigurðardóttir, 19.11.2009 kl. 16:52

13 identicon

Þetta er gróft brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og ekki það fyrsta hjá stjórnvöldum.

Hvar stöðvast svona mismunun? Er ekki næsta skref að borga ungu fólki sem býr heima hjá sér helmingi lægri laun en félögum þeirra sem leigja sér þrjú saman íbúð og borga 25.000 kr. í leigu hvert? Taka upp ríkisrekið þrælahald, það væri í takt við allt annað hjá þessari stjórn?

Hvað um það unga fólk sem býr hjá foreldrum en borga til heimilisins? Hvað veit ÁPÁ um það? Ég veit ekki hversu algengt það er, en ekki hægt að útiloka það.

Theódór Norðkvist 19.11.2009 kl. 19:31

14 identicon

Það er mikið rétt að unglingar liggja vel við höggi, hvort heldur þeir eru hjá mömmu og pabba eða einhversstaðar annarsstaðar. Eins er það alltaf matsatriði hvað fólk telur mikla peninga. En ef fólki finnast 160,000 kr miklir peningar er eitthvað að hjá viðkomandi eða viðkomandi er harðsvíraður bisnessmaður sem hefur alla tíð komist hjá því að borga krónu til samfélagsins.

 Ef ríkisstjórnin kemst upp með þetta líður ekki á löngu áður en farið er að seilast í fleiri staði til að ná nokkrum krónum til baka. Svo kennir viðkomandi ráherra sig við jafnrétti. Þvílíkur andskotans hroki, hann ætti að hafa þann styrk til að segja af sér hið fyrsta, því hann greinilega ræður ekkert við þetta starf. Ég er svo gjörsamlega sammála þér í þessu máli. 

Lifið heil.

Baldvin Baldvinsson 19.11.2009 kl. 19:40

15 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk öll.

Meginefni þessarar bloggfærslu er gagnrýnin á Árna Pál sem hefur að mínum dómi tekið að sér aðför þessa að unga fólkinu. Flestir sem hér hafa tjáð sig finnst mér hafa tekið undir þessa gagnrýni. Ég er þó alls ekki að gagnrýna ríkisstjórnina almennt. Mér finnst hún hafa gert margt sæmilega miðað við aðstæður.

Sæmundur Bjarnason, 19.11.2009 kl. 21:36

16 identicon

Ég held að það sé nokkuð algengt að ungt fólk fari að heiman og stofni til skuldbindinga (kaupa bíl á gengistryggðu láni, húsgögn o.fl.) sem það ræður síðan ekki við, sérstaklega ef það t.d. missir vinnuna. Þá grípur það jafnvel til þess ráðs að fá að flytja aftur til foreldra til að geta staðið við sitt. Ef svo atvinnuleysisbætur þessa fólks eru lækkaðar þá er þessum hóp gert erfiðara að borga sig út úr skuldunum, og þar af leiðandi verður erfiðara fyrir það að flytja frá foreldrum sínum aftur. 

Hvað með atvinnulausa öryrkja sem búa með foreldrum sínum, á ekki að lækka þeirra bætur? Eða þá atvinnulaust aldrað fólk sem býr heima hjá börnum sínum? Hvernig ætlar félagsmálaráðherra að tækla atvinnulaus systkini sem búa saman? En vinahóp sem leigir íbúð saman? Hvað með unglinga sem búa í húsnæði sem foreldrarnir hafa keypt handa þeim, en eru samt á atvinnuleysisbótum - fá þeir fullar bætur? Hvað með þá sem eiga eignir sínar skuldlaust, og skulda yfirhöfuð ekki krónu og þurfa einungis að kaupa mat og borga fyrir internetið en hafa ekki vinnu, afhverju ekki að klípa líka örlítið af þeim?

Atvinnuleysisbætur eiga að vera þær sömu fyrir alla, alveg sama hver aldurinn er, kynferði, skuldastaða eða búseta. Aftur á móti er sjálfsagt að reyna að stuðla að því að fólk mennti sig og styrki í þeirri von að það hjálpi þeim að fá vinnu, bara ekki með þessum hætti.

En stundum er atvinnulaus maður atvinnulaus vegna þess að það er enga vinnu að fá, ekki vegna þess að hann hefur ekki menntað sig eða styrkt sig nægjanlega. 

Hafdís Rósa 19.11.2009 kl. 21:39

17 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Hafdís.  Þú bendir á marga hluti sem ég hafði ekki hugsað útí. Mér finnst allt bera að sama brunni með það að svona aðferð við dilkadrátt á fólki er algjörlega ótæk. Stórabróðurfnykinn af þessu leggur langar leiðir.

Sæmundur Bjarnason, 19.11.2009 kl. 22:21

18 identicon

Lítilmenni hafa alltaf sótt & náð á toppinn á íslandi, þess vegna erum við í þessari stöðu í dag.

DoctorE 20.11.2009 kl. 09:46

19 identicon

Það er ekki sterkur persónuleiki í þessum ráðherra, það er greinilegt.  Það er eins og við eigum lítið af þeim í dag.  Og séu þeir til........þá vilja þeir ekki fara í pólitík

vigdís Ágústsdóttir 20.11.2009 kl. 11:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband