868 - Spólum til baka á öskudaginn fræga

Einhverntíma þegar Doddsson var forsætis ætlaði Hreinn Loftsson að tala við hann með tveimur hrútshornum en heyktist svo á öllu saman. Hvernig væri að byrja bara aftur þar og fara öðruvísi í málin? Kannski slyppum við þá við hrunið og allt.

Horfði aðeins á sjónvarp frá Alþingi í dag. Þar var Pétur Blöndal að halda ræðu. Hann er oft álitinn hafa gott til mála að leggja. Einkum er það vegna þess að hann lætur ekki forystu Sjálfstæðisflokksins alltaf segja sér fyrir verkum. Stundum beitir hann líka nauðaómerkilegum mælskubrögðum. Svo var í þetta sinn. Mig minnir að til umræðu hafi verið laun þingmanna.

Pétur byrjaði á því að tala um Icesave. Einkum vexti af því láni og gerði mikið úr þeim. Taldi líka þingmennn bera mikla ábyrgð. Gaf í skyn að þeir réðu því til dæmis alfarið hvort vextir af Icesave láninu væru 1 prósent, 10 prósent eða eitthvað þar á milli. Allir vita að svo er alls ekki. Útaf þessu lagði hann mörgum sinnum í ræðu sinni en í mínum augum var hún með öllu ómarktæk vegna vaxtaumræðunnar í upphafi hennar.

Það er sorglegt að sjá son séra Árna í Söðulsholti taka að sér að verja þá tröllheimsku að svipta ungt fólk atvinnuleysisbótum bara vegna þess að það er ungt. Svona gera menn ekki.

Eins og flestir vita eiga taflborð að snúa þannig að hvítur reitur sé í hægra horni hjá báðum. Síðan eiga drottningar að ráða reitum eins og sagt er en það þýðir að hvíta drottningin á að vera á hvítum reit og sú svarta á svörtum.

Eitt sinn þegar Taflfélag Reykjavíkur var nýbúið að festa kaup á fasteign sinni við Grensásveg var ég að tefla þar kvöld eitt. Þegar við ég og andstæðingur minn komum að taflborðinu var búið að raða mönnunum upp. Það var samt ekki gert á réttan hátt.

Það er að segja að svörtu mennirnir voru þeim megin sem þeir hvítu áttu að vera og öfugt. Andstæðingurinn spurði hvort mér væri ekki sama og ég jánkaði því. Með þessu móti urðu allar tölur og bókstafir á jöðrum taflborðsins ómark og ég minnist þess að þetta truflaði mig mikið. Svo mikið að ég tapaði skákinni, en gat auðvitað ekki viðurkennt það og farið fram á að rétt yrði raðað upp.

Það eru stundum einföld sálfræðileg atriði af þessum toga sem ráða úrslitum skáka og ég er yfirleitt ekki hissa þó skákmenn deili oft um það sem virðast vera lítilvæg atriði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Pétur er eitrað peð,
pínlegt allt hans streð,
skrítna tefldi skák,
skitið hálft var kák.

Þorsteinn Briem, 18.11.2009 kl. 02:08

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Eitrað peð er alltaf til
einstök farin blíða.
Heimurinn er hér um bil
horfinn vegna stríða.

Sæmundur Bjarnason, 18.11.2009 kl. 03:07

3 Smámynd: Einar Þór Strand

Árni Páll vill við ungmennin

bæturnar víst minnka.

Hjá „vondu fólki“ prófasturinn

snýst nú eins og vifta.

Einar Þór Strand, 18.11.2009 kl. 09:55

4 identicon

Einar Þór Strand; Ég legg til að þú biðjir Sæmund að kenna þér helstu atriði íslenskrar bragfræði, ef þú ætlar að blanda þér í slík mál á þeim forsendum, sem þú gerir hér.

Ellismellur 18.11.2009 kl. 10:41

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég er hræddur um að einhver(jir) hafi æði oft raðað öfugt upp fyrir son sr. Árna í Söðulsholti. Amk er niðurstaðan hjá honum grætilega oft einhvers staðar úti í móa.

Sigurður Hreiðar, 18.11.2009 kl. 12:11

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Einar Þór Strand. Sá sem aldrei reynir að yrkja vísu yrkir aldrei vísu. Mörgum er það samt ekkert metnaðarmál.

Árni Páll vill ólmur nú
ungt fólk bótum svipta.
hjá "vondu fólki" fékk hann jú
að flækjast um sem vifta.

Takk allir fyrir athugasemdirnar. Ég er fjúkandi reiður útí Árna Pál.

Sæmundur Bjarnason, 18.11.2009 kl. 15:31

7 Smámynd: Einar Þór Strand

Ég tek það fram að ég kann ekkert að yrkja en lét þetta samt vaða vegna þess að mér datt það í hug þó svo það væri bara leir og eins og Sæmundur segir maður verður að reyna þó það sé bara að leira.

Einar Þór Strand, 18.11.2009 kl. 15:53

8 Smámynd: Kama Sutra

Árni Páll er einn af nokkrum ástæðum fyrir því að ég gat ekki hugsað mér að kjósa Samfylkinguna í kosningunum s.l. vor.

Svo vil ég að hann sparki aðstoðarmanni sínum út á stundinni.

Kama Sutra, 18.11.2009 kl. 17:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband