854 - Þingvallavatn

Í Þingvallavatni er álíka mikill vökvi og 4300 manns mundu míga á 50 árum. Margir hafa gaman af að heyra fánýtan fróðleik af þessu tagi. Fáir mundu hafa fyrir því að athuga hvort þetta gæti staðist. Gallinn er sá að þetta er enginn fróðleikur. Ég bjó bara þessar tölur til og var ekki lengi að því. Svona lagað gæti ég samið í löngum bunum og kannski eru einhverjir sem gera það. Fánýtum fróðleik treysti ég sjaldan. Lágmarkið er að ljósmyndir fylgi.

Það er oft gaman að blogginu hennar Salvarar. Verst að hún skuli vera framsóknarmaður. Það á ég erfitt með að fyrirgefa henni. Nú er hún dottin í föndrið. Það er alveg klassi. Bara að fleiri framsóknarmenn færu þangað.

Framsóknar í föndrið nú
fara allir saman.
Skrambi mikil skemmtun sú
og skelfilega gaman.

Salvör fer í sveitina.
Sýður marga hausa.
Fleygir oní feitina
og fer síðan að ausa.

Nei, nú er rímið búið að taka af mér öll völd svo það er best ég hætti.

„Kabúlfarar í Kjúklingastræti" er gott bókarnafn og hérmeð frátekið. Vandinn við að gera þetta að heiti á reisubókarkorni er einkum sá að ég hef aldrei til Asíu komið en auðvitað er hægt að bæta úr því.

Þetta með Haga er alls ekki neitt smámál. Morgunblaðið undir stjórn Davíðs leggur mikla áherslu á að forða Högum frá Jóni Ásgeiri. Verst að þá er líklegast að nýir útrásarvíkingar (nóg er af þeim) nái tökum á fyrirtækinu. Hver á að eiga Haga? Tveir aðilar sýnast stefna á það. Jón Ásgeir og Nýja Kaupþing. Hvorugur kosturinn er góður. Marínó G. Njálsson bloggar um þetta og leggur til að stofnað verði  almenningshlutafélag um eignarhaldið á Högum. Það er skynsamlegt.

Bloggin mín eru að breytast. Sumt í þeim er jafnvel ómerkilegra en æskilegt væri. Auðvitað á ég ekkert að vera að dæma um hvað er ómerkilegt og hvað ekki. Það er allsekki víst að aðrir séu mér sammála um það. Aðalkostuinn við þau er samt að ég leita víða fanga. Skrifa um ólíklegustu mál og sjaldan færri en nokkur í sama blogginu.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Vatnsmagn Ölfusár í einn sólarhring í flóðinu 1968 hefði dugað til að brynna öllum beljum á suðurlandi í 18.000 ár.

Sigurður Sveinsson, 4.11.2009 kl. 08:58

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Mér finnst fjölbreytileiki í bloggum vera kostur.  Spennandi að vita aldrei hvað kemur næst !

Anna Einarsdóttir, 4.11.2009 kl. 13:39

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Sigurður: Trúi þessu með beljurnar eins og nýju neti. Set það í fánýtu fróðleiksskúffuna mína.
Takk Anna.

Sæmundur Bjarnason, 4.11.2009 kl. 14:37

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Heimska mannanna er svo mikil að hún myndi nægja til að halda við orku sólar í þrjú þúsund ár.

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.11.2009 kl. 15:29

5 identicon

Þetta eru bara skrambi góðar vísur !

Áslaug Benediktsdóttir 4.11.2009 kl. 23:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband