852 - mbl.is

Aðaluppistöðufrétt mbl.is í morgun (sunnudag) hafði fyrirsögnina: „Tilhæfulaus árás á lögreglu". Árásin kann vel að hafa verið tilefnislaus en hingað til hefur örlað á hugsun í fyrirsögnum mbl.is þó greinarnar sjálfar hafi oft verið afspyrnuilla skrifaðar. Nú er sú tíð víst liðin. 

Sem bloggara líður mér hérna eins og ég sé í stjórnarandstöðu þó ég sé eiginlega stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar. Það kemur til af því að hér á Moggablogginu eru þeir miklu fleiri sem styðja Davíð en Jóhönnu þó ég sé ekki sama sinnis. Á ekki von á að viðsjár minnki verulega á næstunni í stjórnmálum landsins. Ég sé árásir þær á ríkisstjórnina sem nú eru stundaðar af miklum móð fyrst og fremst sem örvæntingarfullar tilraunir útrásarvíkinga til að ná völdunum aftur.

Annars hef ég einkum það að segja um pólitík að menn ættu ekki að taka hana of alvarlega. Fleira er matur en feitt ket og mun hollara er að borða það ekki. Eða að minnsta kosti fremur lítið af því. Auðvitað skiptir Icesave samt máli og ESB jafnvel líka, en það er ekki ráðlegt að láta slík smámál stjórna lífi sínu nema fá almennilega borgað fyrir það.

Ómari Ragnarssyni er ekki fisjað saman. Helst er á honum að skilja að hann ætli að blogga bæði á Moggablogginu og Eyjunni. Líklega verður honum engin skotaskuld úr því.

Ómar segist ætla að blogga
Eyju hjá og líka Mogga.
Enda skrifar á við þrjá
eitilharður karlinn sá.

Til hvers eru rím og stuðlar í vísum? Mér finnst augljóst að það sé til að auðveldara sé að kunna þær og muna. Ekki bætir það vísur og ljóð að neinu marki. Fjölnisgrein Jónasar Hallgrímssonar um íslenskar rímur var alltof sönn. Vísnagerð hefur ekki borið sitt barr síðan. Sigurður Breiðfjörð var þó ágætt skáld og átti alls ekki þá meðferð skilda sem Jónas veitti honum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Sérlega góður pistill. 

Anna Einarsdóttir, 2.11.2009 kl. 08:05

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér hefur skilist að þeir á Eyjunni séu ekkert sérlega ánægðir þegar þeirra menn blogga líka annars staðar. Og ekki skil ég svo sem tilganginn með því að blogga á tveimur stöðum nema menn þá séu með öðru vísi áherlsur á þeim eins og Ómar segist reyndar ætla að gera.Og í alvöru talað: Moggablogginu er að fara aftur en ekki er hægt að segja að Eyjublogginu sé að fara fram.

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.11.2009 kl. 12:01

3 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Anna.
Ég hef svosem ekkert fyrir mér með uppgang Eyjunnar annað en að mér hefur virst helsta viðkvæðið hjá þeim sem hætt hafa hér að nú séu þeir sko farnir á Eyjuna. Já, Moggabloggið hefur áreiðanlega sett ofan en er það vegna þeirra sem héðan hafa horfið eða vegna ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins. Mér er ekki ljóst hvort heldur er. 

Sæmundur Bjarnason, 2.11.2009 kl. 14:04

4 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Nonni litli datt í dí
og meiddi sig í fóttnum.
Hann varð aldrei upp frá því
jafn góður í fóttnum.

Leirburðinn (vísvitandi) orti Nóbelsskáldið. Þessa vondu vísu man ég alltaf.

Brjánn Guðjónsson, 2.11.2009 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband