596. - Þegar mér er mikið mál míg ég bara í skóna

Um daginn var Siv Friðleifsdóttir á Alþingi að líkja metingi stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga við pissukeppni. Hún nefndi síðan að Framsóknarmenn væru nú miklu betri í því sem um var að ræða. Með góðum vilja mátti alveg skilja á henni að hún gæti nú pissað lengst sjálf enda fór þingheimur að hlæja.

Merkilegt hvað rifjast upp fyrir manni og hvernig. Ég var ekkert að reyna að rifja neitt upp og það var ekkert sem minnti mig á þetta vísukorn sem við krakkarnir fórum oft með þegar ég var lítill. Það kom bara í hugann svona óforvarendis.

Piss, piss og pelamál,
púðursykur og króna.
Þegar mér er mikið mál
míg ég bara í skóna.

Þetta þekkist líklega enn. Að minnsta kosti kannaðist Gúgli eitthvað við púðursykur og króna. Nennti samt ekki að lesa það gjörla.

Ég sé fyrir mér að mikið verði rifist á næstunni um það hvort halda skuli áfram með svonefnt Tónlistarhús. Reiknað hefur verið út að því er mér skilst að það kosti um 13 milljarða að ljúka við húsið. Milljarðarnir gætu auðvitað orðið 30 eða 40 ef miðað er við ýmsar aðrar framkvæmdir. Ég á frekar von á því að ekki verði haldið áfram.

Sömuleiðis verður mikið rifist á næstunni um hvort halda skuli stjórnlagaþing eða ekki. Stjórnmálamenn munu flestir segjast vera því meðmæltir en líklegast er samt að ekki verði úr því. Bæði er það dýrt og svo er ótrúlegt að mönnum komi saman um hvernig að málum skuli staðið. Þetta getur ekki orðið að veruleika nema með atbeina Alþingis og störf þingmanna munu breytast mikið ef stjórnskipan verður breytt. Það er mannlegt að óttast breytingar.

Þingkosningar verða 25. apríl. Ég tók eftir því í umræðum á Alþingi um daginn að þingmenn þykjast eiga atkvæðin í landinu þó þeir hafi auðvitað ekki sagt svo. Kosningar verða haldnar sem fyrst til að ný framboð verði ekki eins vel undirbúin og þyrfti að vera. Ágæt lausn fyrir núverandi þingflokka væri að nýju framboðin yrðu sem flest svo atkvæðin skiptist milli þeirra.

Margir munu ekki kjósa eða gæta þess að kjósa engan af gömlu þingflokkunum. Ef ekki verður mjög mikil endurnýjun fólks á framboðslistum flokkanna er hætt við að fylgi þeirra minnki mjög verulega.

Já, ég er svona svartsýnn á ástandið.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Er Siv bara ekki að míga á sig af hræðslu við að missa þingsætið?

Sigurður Sveinsson, 7.2.2009 kl. 13:56

2 identicon

Sæll frændi!

Ég get vitnað um það að í minni barnæsku (og ég er fæddur 1985) kunnu krakkar á Akranesi almennt vísuna  hér að ofan, þ.e. piss piss og pelamál, púðursykur og króna.

Máni Atlason 7.2.2009 kl. 20:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband