595. - Hvalurinn Rauðhöfði og Hvalfjörður, Hvalvatn og Hvalfell

Þjóðsagan um Rauðhöfða fjallar um þetta. Hún er í tveimur útgáfum á vef Netútgáfunnar. Styttri útgáfan er hér en hin lengri hér.

Fyrr á tíð tíðkaðist það á Suðurnesjum að farið var í Geirfuglasker bæði til að sækja fugl og egg.

Maður nokkur hét Árni. Hann fór í skerið með öðrum en komst ekki til baka og var skilinn eftir. Ekki varð komist í skerið til að sækja hann á næstunni og var hann að lokum talinn af. Árið eftir þegar farið var í skerið fannst hann. Var hann fálátur og vildi ekki segja í hverju hann hefði lent.

Alllöngu seinna var hann í Hvalsneskirkju og þangað kom þá kona nokkur tígulega búin með ungbarn og vildi láta skíra það. Fór síðan. Prestur spurði Árna hvort hann ætti barnið en hann neitaði því þverlega.

Þá kom konan aftur og tók klæði sem í vöggunni var og kastaði á kirkjugólfið og sagði: „Þetta skal kirkjan eiga til minningar um hvort nokkurt óhræsi hefur átt hér í hlut." Var klæðið dýrindis hökull.

Síðan tók konan vögguna aftur og sagðist ekki eiga neitt sökótt við prestinn en lagði það á Árna að hann skyldi breytast í hið versta illhveli og granda skipum og mönnum. Skyldi ávallt einhver niðja hans vera hinn mesti ógæfumaður allt í átjánda lið.

Árni var með rauða húfu á höfði og tók þegar að þrútna og beljaði ógurlega. Menn ætluðu að binda hann en hann sleit sig af þeim og hljóp í sjó fram. Gerðist þar illhveli mikið með rautt höfuð og tók sér bólfestu á Faxaflóa. Einkum þar sem síðar var kallað Hvalfjörður.

Kraftaskáld nokkurt sem bjó að Saurbæ á Hvalfjarðarströnd kvað hann upp í Hvalvatn eftir Botnsá. Þegar upp í gljúfrin kom hristist jörð mjög og kallast fossinn því Glymur og hæðirnar þar fyrir ofan Skjálfandahæðir. Við Hvalvatn þykjast menn hafa fundið hvalbein stórkostleg.

Mælt er að Einar á Iðu sem var dæmdur til lífláts fyrir barneign í meinum væri kominn af Árna í níunda lið, en nú er komið í hinn tólfta.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband