453. - "Nú erum við að tala saman og þetta er áreiðanlega öruggur staður til að vera á"

Sumt orðalag sem reynt er að troða inn á okkur í auglýsingum finnst mér óttalega vitlaust. "Öruggur staður til að vera á" er til dæmis orðalag sem minnir mig á lélega þýðingu. Mér finnst þetta hafa byrjað á auglýsingu um bílategund þar sem lítil stelpa vaknaði um miðja nótt og fór út í bílskúr og settist upp í bílinn sem þar var frekar en að fara uppí til pabba og mömmu eins og flestir krakkar hefðu áreiðanlega gert. En látum það vera. Þetta var nú bara auglýsing. Svo var farið að troða þessu inn í næstum allar auglýsingar frá einhverju bílaumboði og syngja þetta bull jafnvel líka.

Sama er að segja um setninguna "Nú erum við að tala saman" sem mikið er reynt um þessar mundir að láta hljóma eðlilega með því að endurtaka hana sí og æ. Þetta er greinilega ömurleg orðabókarþýðing úr ensku. Mér finnst orðalagið einfaldlega lélegt. Vel getur samt verið að ég sé bara svona neikvæður og afundinn og þetta sé það sem koma skal. Það þarf þó að mínum dómi að leggja í þetta enska hugsun svo það verði eðlilegt.

Óeðlilegt er að ætlast til að allir bloggarar skrifi lýtalausa íslensku. Það eru einfaldlega ekki tök á því að skylda fólk til að orða hugsun sína á ákveðinn hátt. Réttritun er heldur ekki nein altæk vísindi. Það er alls ekki hægt að skylda fólk til að stafsetja orð á einhvern ákveðinn hátt.

Stafsetning í íslensku hefur löngum verið á reiki en þó í allföstum skorðum undanfarna áratugi. Sú réttritun sem nú er notuð er þó ekkert endilega réttari en önnur. Stjórnvöld geta aðeins krafist ákveðins málsniðs og réttritunar í skólum og opinberri stjórnsýslu.

Íslensk réttritun er furðu lík framburði. Það getur annað hvort stafað af því að íslenskt mál hafi lítið breyst í aldanna rás eða að íhaldssemin í réttritun hjá öðrum sé meiri en hjá okkur. Nærtækur samanburður er auðvitað enskan.

Óþolandi væri með öllu að opinberir aðilar settu skilyrði um málfar og réttritun. Þetta hefur þó verið reynt að gera hvað snertir mannanöfn en er vitanlega hin mesta vitleysa.

Hann hnyklaði brýrnar er stundum sagt og skrifað. Það tel ég vera rangt. Augabrýr eru ekki til heldur er þetta dregið af orðinu augabrýn. Það er kvenkynsorð og þess vegna verður það brýnnar í þolfalli fleirtölu með greini. Fornt er það mjög og ekki notað lengur en heldur sér samt í föstum orðatiltækjum. Réttara er að tala um augabrúnir.

En það er með þetta eins og ær og kýr. Rollur og beljur taka yfir vegna þess meðal annars að beygingin er einfaldari. Fólk forðast oft það sem flókið er og það skilur illa. Ég finn það á sjálfum mér að ef ég er í vafa um stafsetningu þá hyllist ég stundum til að nota annað orðalag en ég annars hefði gert og ætlaði mér. Það er vel hægt að tala um að hnykla brúnirnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Beturvitringur

Fer nú að sofa, með bros á vör og án þess að hleypa brúnum. Þú hefur hér haldið uppi merki tungunnar. Verð samt að stríða þér aðeins (undir það erum við beturvitringarnir seldir) þetta er auðvitað ekki villa, heldur "vitlaus putti" ("... af orðinu augabrýn") Verstur andsk...  þegar maður gerir þetta í leiðréttingu, en það er tími til að laga í færslu. "nætí, næt, bæ, bæ"  (ef þetta væri ekki minn eigin aulahúmor, myndi ég kasta upp, - og það ekki krónu)

Beturvitringur, 17.9.2008 kl. 03:01

2 identicon

Þetta bíla slagorð er ömurlegasta slagorð sem ég hef heyrt, þó hef ég heyrt þau mörg.

DoctorE 17.9.2008 kl. 11:24

3 Smámynd: Beturvitringur

já, maður fær slag við að heyra orðin

Beturvitringur, 17.9.2008 kl. 11:57

4 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Ef það að þola ekki svona orðfæri gerir mann neikvæðan og afundinn þá er ég það líka.

Lára Hanna Einarsdóttir, 17.9.2008 kl. 12:01

5 identicon

Já slagorð auglýsinga geta oft verið ansi klysjukennd. Það hefur maður aldeilis séð og heyrt í gegnum tíðina. "Nú erum við að tala saman" er bein þýðing upp úr ensku á "Now We're Talking" og myndi sjálfsagt leggjast sem "núna skiljum við hvorn annan eða hvort annað" ef hugsunin væri sett í samhengi við meininguna. Slagorðið er mjög vont í þessari símauglýsingu og truflar mann ef þetta er hugsað út frá ensku hugsuninni. Þetta á þó eflaust að höfða til yngri viðskiptavina og með það í huga, hittir þetta sjálfsagt í mark sem "töff" orðalag. Bara smá innskot frá mér. Kv, Olla.

Olla 17.9.2008 kl. 12:08

6 identicon

Alveg er það makalaust að mestu málfarssóðarnir skuli vera ráðnir til textagerðar  á auglýsingastofum og fjölmiðlum.

"Hvar voruð þið að sitja"? sagði afgreiðslustúlkan á veitingahúsinu.  

Málfarið í auglýsingum og fréttum er orðið í þessum dúr.  

Kennarinn 17.9.2008 kl. 22:57

7 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Sú var tíðin Sæmundur að farið var í stórfiskaleik og kannski fleiri, kýlubolta og annað sem ungu fólki allt að 35 nú til dags hefur aldrei lærst. En í þessum leikjum snerist keppnin um að komast í borg -- þá var manni borgið. Eins er það með nafnið Brimborg -- það er borg fyrir briminu og má nærri geta hvort það er ekki öruggur staður til að vera á!

Sigurður Hreiðar, 18.9.2008 kl. 20:15

8 Smámynd: Beturvitringur

Það væri saga til næsta bæjar ef bílaumboðsmennirnir hefðu svona sterka málkennd og þróaðar tengingar (bullandi fordómar í mér :). SH. EF þetta er rétt útspil hjá þér, erum við komin aðeins nær að leysa gátuna um örugga staðinn. T.d. ef stórviðri geisar eða jarðskjálfti, fer ég undantekningalaust út í bíl. Geysar veður

Beturvitringur, 18.9.2008 kl. 23:59

9 Smámynd: Beturvitringur

bull í restina, ætlaði ekki að tala um Geysi, færi aldrei þangað til að leita að öruggum stað

Beturvitringur, 19.9.2008 kl. 00:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband