439. - Áfram með smjörið. Það er að segja bullið

Enn bíð ég eftir því að bloggleiðinn hellist yfir mig. Kannski þykir mér of gaman að skrifa og bulla til þess að vera í mikilli hættu með það. Hvað um það. Enn er ég lifandi og engu takmarki náð. Sennilega er þessi nonsense stíll eitthvað sem á ágætlega við mig. Ég gæti haldið svona áfram endalaust. Ætlaði í gær að fara að lesa þessar margumtöluðu dagbækur hans Matthíasar en gafst upp eftir stutta stund. Mér finnst þetta vera svo mikið óttalegt rugl og ekki einu sinni sett upp á aðgengilegan hátt. Ég endaði með því að lesa afrit af einhverju bréfi um vínskvettumál Haraldar sonar Matthíasar. Já og einhvern reiðilestur um Baugsmál eða Baugsmiðla og Hallgrím Helgason. Ósköp finnst mér Matthías gera lítið úr sjálfum sér. Hugsjónir eru góðra gjalda verðar. Það var af hugsjónamennsku einni saman sem ég ákvað að styðja börnin mín í því að koma Netútgáfunni á fót. Þau áttu þessa hugmynd að öllu leyti. Dóttir mín fann upp nafnið og synirnir voru óforbetranlegir tölvunördar. Hafdís sat dag eftir dag við það á ganginum hjá okkur á Vífilsgötunni að HTML-a Rafritið sem ég hafði dundað mér við að gefa út nokkrum árum áður og við áttum nokkur fornrit í skrám. Mér datt þetta í hug þegar ég las grein í Timesonline um OLPC verkefnið. OLPC þýðir one laptop per child og snýst um að búa til hræódýra tölvu sem hægt er tengja Netinu og notar mjög litla orku. Sagt er að bæði Microsoft og Intel hafi reynt eftir mætti að drepa þessa hugmynd og kannski hefur það tekist. Á Bifröst var alltaf matarkex og mjólk á boðstólum í setustofunni klukkan tíu á kvöldin. Kexmulningur límdist þar eitt sinn svo illilega í kokið á mér að ég gat ekki andað lengi vel og hélt að ég mundi kafna. Sumir segja að umferðarmenning sé vanþróuð hér á Íslandi. Margt er rétt í því. Þó gæti ástandið verið verra. Sjálfur minnist ég þess að fyrir margt löngu var ákveðið að gera gangskör að því að reyna að fá gangandi fólk til að virða umferðarljós. Þá eins og nú voru ljósin virt af langflestum þeirra sem ökutækjum stjórna. Lögreglumenn voru á vakt við flest ljós sem voru miklu færri þá en nú (eiginlega bara í kvosinni og á Laugaveginum minnir mig) og áminntu þá gangandi vegfarendur sem ekki virtu ljósin. Þegar það var um það bil að takast að koma þessu í gegn var átakinu hætt. Nú dettur mér svolítið snjallt í hug. Ég ætla að setja hér inn nokkrar myndir og þær koma þá eins og nokkurskonar náttúruleg greinaskil.

IMG 0650Hér er Bjössi að flytja smáfyrirlestur og útskýra myndirnar sínar á sýningunni á Bókasafninu í Hveragerði. Birtan er ekki mjög góð.

IMG 0663Hér er regnbogi að rembast við að skína yfir Domínós pizzur. Sem er náttúrlega ekki mjög sniðugt.

IMG 0666Þessi reyniber eru girnileg. Skyldu þau vera æt? Það finnst Þresti.

IMG 0672Hér er regnbogi og skakkir símastaurar í Fossvoginum. Eiginlega er ekki meira um þess mynd að segja.

IMG 0700Þetta er blokkin fræga í Kópavoginum þar sem hringtorgið er inni á stofugólfi í íbúðunum á annarri hæð. (Eða svona næstum því.)

IMG 0697Það er erfitt að taka myndir af sólarlagi án þess að ljósastaurar troði sér inn á þær. Einhvern tíma var sagt með dimmri og djúpri röddu: Tré og runnar - Gunnar.

IMG 0681Hér er sólin við það að sökkva í sjóinn úti fyrir Kársnesinu.

IMG 0680Hér eru mávarnir að kveðja sólina rétt áður en hún sekkur og Snæfellsjökull hímir hægra megin á myndinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband