253. - Enn eitt NOVA bloggið og ekki minnst á Fischer

Fyrst smá íslenskupistill.

Mér hafa alltaf þótt ypsilon sem breyta merkingu orða skemmtileg. Samt ruglast ég stundum í þessu. Dóttir mín kom með ágæta aðferð til að muna þetta með Gróu á Leiti. Gróa var nefnilega svo einföld, (þó sumar gerðir hennar hafi reyndar bent til tvöfeldni) að það er einboðið að hafa bæjarnafnið Leiti með einföldu i-i en ekki ypsiloni. Sama er að segja um kennileiti og önnur leiti í landslaginu. Hins vegar er það sem lýtur að einhverju að sjálfsögðu með ypsiloni. Bæði að sumu leyti, mörgu leyti og jafnvel öllu leyti.

Leikir sem við krakkarnir fórum gjarnan í voru oft skemmtilegir. Eftir á að hyggja voru nöfnin á þeim stundum ekki síður skemmtileg. Ég man til dæmis eftir einum leik sem hét: "Eitt par fram, fyrir ekkjumann." Leikurinn var ekkert sérlega merkilegur, en nafnið er ágætt. Svo lékum við okkur að sjálfsögðu líka í stórfiskaleik, kjöt í pottinn, fallin spýtan, yfir, sto og svo framvegis. Ég gæti enn rifjað upp reglurnar í þessum leikjum flestum.

Ég fylgist alltaf með blogginu hans Austurlandaegils. Gott hjá honum að leggjast svona í flakk öðru hvoru. Þetta gerði Bjarni pabbi hans líka á sínum tíma og hafði eflaust gott af. Um daginn var hann að tala um að hann ætlaði að blogga í dagbókarstíl. Það minnir mig á bókina Dagbók Íslendinga. Það var nokkuð fróðlegt að lesa hana á sínum tíma. Mest var ég hissa á hvað tölvurnar voru stórar hjá fólki. Fjöldi fólks lýsti fjálglega ýmsum uppátækjum og aðgerðum en svo fór það oftast í tölvuna og var þar svo og svo lengi. Fáir létu þess getið hvað þeir voru að gera í tölvunni. Bara að þeir hefðu farið þangað.

Alveg er það ótrúlegt hvað Moggabloggið er vinsælt. Tugir þúsunda innlita hjá þeim sem vinsælastir eru. Og alltaf eru nýjir notendur að bætast við. Líklega falla samt einhverjir út, en ég hef á tilfinningunni að hinir séu fleiri. Mér hefur dottið í hug að ástæðan fyrir því hve öðrum bloggurum er illa við Moggabloggið, sé einkum sú að umferðin hjá þeim hafi minnkað. Það er kannski í einhverjum tilfellum skaði, en þau skemmtilegheit og fjölbreytni sem Moggabloggið stendur fyrir, bætir það alveg upp. En hvað skyldi þessi NOVA auglýsing eiga að angra okkur lengi og hvað skyldi taka við þegar hennar tími er útrunninn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Bergsveinn Ívarsson

Góður!

Velkominn í NOVA hópinn

Gísli Bergsveinn Ívarsson, 18.2.2008 kl. 07:50

2 Smámynd: www.zordis.com

Skemmtilegar færslurnar þínar. 

Ég man flesta þessara leikja, held að brennó hafi vinsælast hjá mínum félögum.

Hvað skyldi auglýsinga bilið kosta?  Gildi auglýsingarinnar virðist vera að skila sér þar sem fátt er um annað rætt en nákvæmlega Nova!  Góðan mánudag!

www.zordis.com, 18.2.2008 kl. 09:57

3 identicon

Ég á nú ekki heiðurinn af því að fatta hvað Gróa á Leiti væri Einföld, ég lærði þetta nú einhverntíma í skóla.

Aftur á móti hef ég pælt stundum í þessum ypsilonum, það er stundum skrítið hvað þau breyta orðum. Mér skilst t.d. að það megi alveg segja bæði: ,,skrítið" og ,,skrýtið" en mér finnst munur á og nota þessi orð sitt á hvað.

Hafdís 18.2.2008 kl. 22:47

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já, en hvort er skrýtnara? Eða eru þau bara jafnskrítin?

Sæmundur Bjarnason, 19.2.2008 kl. 00:26

5 identicon

Mér finnst skrýtinn skrítnari en skrítinn. Það sem er skrítið er eitthvað undarlegt og forvitnilegt, það sem er skrýtið er eitthvað furðulegt og óskiljanlegt. Svona er þetta bara vírað í hausnum á mér. Aftur á móti finnst mér þetta orð ekkert sérstaklega fallegt, sama á hvorn veginn það er skrifað.

Hafdís 19.2.2008 kl. 21:03

6 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Skrýtið er margt í skrýtlum

og skrýtið fólk jafnan þar.

En skrýtnast af öllu skrýtnu

er skrítilegt orðafar.

Sæmundur Bjarnason, 21.2.2008 kl. 15:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband