160. blogg

Sagt var í dag að Noel stefndi á Bahamaeyjar, en Bjarni vildi ekki gera mikið úr því. Talaði um smágolu og tropical storm warning.

Talaði við hann seint á miðvikudagskvöld (snemma kvölds hjá honum) og þá var komið rok og útlit fyrir versnandi veður. Gert ráð fyrir versta veðrinu uppúr hádegi á fimmtudag en þó ekki neinu aftakaveðri. Mest hætta á flóðum.

Eitthvað fór línuskiptingin í handaskolum hjá mér í síðasta bloggi og bið ég forláts á því, það var ekki með vilja gert.

Mér sýnist stóra fréttin á mbl.is vera sú að á Hellu hafi krakkar kastað snjóboltum í bíla. Er þetta virkilega fréttnæmt?

Ég sé ekki betur en bloggið mitt sé að breytast í einskonar vísnablogg (og auglýsingablogg fyrir Láru Hönnu). Kannski er það svosem allt í lagi. Þessar vísur, sem ég hef verið að birta að undanförnu og á eflaust eftir að birta meira af á næstunni, eiga það allar sameiginlegt að ég hef einhvern tíma talið ómaksins vert að læra þær. Það finnst mér eiginlega vera stóri dómurinn um það hvort vísur hafi heppnast eða ekki hvort þær eru lærðar af þeim sem heyra þær. Góðar hef ég yfirleitt eingöngu talið þær vísur, sem ég hef lært við fyrstu heyrn. Slíkar vísur minnist ég varla að hafa ort sjálfur.

Eitt sinn orti Þórhallur Hróðmarsson þessa vísu um mig, að því er ég best veit án sérstaks tilefnis:

Sæmi gerði samning við

svokallaðan fjanda.

Sæmi fengi sálarfrið

en Satan flösku af landa.

Ekki veit ég hvers vegna, en þessi vísa minnir mig á vísubrot sem ég hef ekki hugmynd um hvaðan er komið. Ég veit ekki heldur hvort þetta er upphaf eða endir á vísu. En brotið er svona:

Mikill fjandi flaskan brast

fór í sandinn andi.

Einhvern tíma á Bifröst vorum við að yrkjast á, Skúli Guðmundsson, Kristinn Jón Kristjánsson frá Hjarðarbóli og ég. Skúli hafði baunað einhverju á Kidda og hann þurfti að svara fyrir sig. Eftir svolítið japl og jaml kom þessi eðalfína oddhenda:

Yrkir ljóðin ansi góð

okkar fróði maður.

Gerir fljóðin alveg óð

enda sóðagraður.

Báðar þessar vísur, eftir Þórhall og Kristinn, fannst mér svo góðar á sínum tíma að ég var í vafa um hvort þeir segðu satt um að hafa ort þær sjálfir. Líklega miðaði ég bara við sjálfan mig og þess vegna þótti mér þetta ótrúlegt.

Um Kristinn á Hjarðarbóli orti Séra Helgi Sveinsson, þá kennari við Barna og Miðskólann í Hveragerði, eitt sinn skömmu eftir að Hjarðarbólsfólkið flutti í Nýbýlahverfið.

Í andríkinu af öllum ber

okkar kæri skóli.

Kraftaskáld er komið hér.

Kiddi á Hjarðarbóli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Sæmundur.

Datt inn á bloggið þitt eftir krókaleiðum og hef skemmt mér ágætlega við lestur. Af því að þú nefndir vísur sem maður lærir við fyrstu hlustun datt mér í hug vísa eftir Gísla á Uppsölum. Fann einhvern tímann bók með ýmsu um og eftir hann og lærði þessa vísu við fyrsta lestur - og vildi deila henni með þér:

Viltu graut, eða viltu skyr,

eða viltu hvað, svo mamma spyr.

Ég vil hvað og kannski skyr

því hvað ef ég aldrei smakkað fyr.

...

Og svo vonum við bara að Bjarni fjúki ekki um koll þarna í karabíska hafinu.

Haraldur Ingólfsson 1.11.2007 kl. 14:26

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Hæ Halli.

Já, Bjarni er sennilega að upplifa sinn fyrsta fellibyl. Var að tala við hann áðan og held að honum finnist hann ekki merkilegur.

Ég veit að það geta komið undarlegir hlutir úrúr þessu með að læra vísur við fyrstu hlustun.

Urgara surgara urra rum

Illt er að búa í Flóanum.

Þambara vambara þeysings klið

þó er enn verra Ölfusið

Þessa lærði ég við fyrstu hlustun (kannski vitlaust þó) og eflaust væri auðvelt að nefna betri vísu.

Þú minnist á Gísla á Uppsölum. Um hann vil ég einkum segja það, að ég man varla eftir eftirminnilegri sjónvarpsþáttum, en þeim sem sýndir voru um hann á sínum tíma.

Sæmundur Bjarnason, 1.11.2007 kl. 15:14

3 identicon

Ég geri ráð fyrir að þessi sé eftir Æra-Tobba. Niðri í geymslu á ég bók með vísum hans, sæki hana við tækifæri og athuga hvort hún er ekki þar. Hún er að minnsta kosti í hans stíl. Þetta er ágætis tilefni til að taka hana upp aftur því það er orðið alltof langt síðan ég fletti í henni. Mörg gullkornin þar.

Haraldur Ingólfsson 1.11.2007 kl. 23:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband