159. blog

Þessi saga er merkileg fyrir það að hægt er að læra hana á skemmri tíma en það tekur að lesa hana.

Einnig virðast krakkar af einhverjum ástæðum hafa gaman af að heyra hana. Að öðru leyti er hún afspyrnu léleg og jafnvel ástæða til að hlaupa yfir hana.

Einu sinni voru karl og kerling í koti sínu. Þau áttu sér þrjá syni. Þeir hétu: Skrat, Skrat Skrata Rat og Skrat Skrata Rat Skrat Skúrum Skrat. Kóngur og Drottning bjuggu í höllu sinni. Þau áttu sér þrjár dætur. Þær hétu: Sipp, Sipp Sippa Nipp og Sipp Sippa Nipp Sipp Súrum Sipp. Síðan giftust þau Skrat og Sipp og Skrat Skrata Rat og Sipp Sippa Nipp og Skrat Skrata Rat Skrat Skúrum Skrat og Sipp Sippa Nipp Sipp Súrum Sipp.

Líklega hafa krakkar gaman af að hlusta á þessa vitleysu vegna þess að þegar hún er sögð freistast flestir til að flýta sér og þá er auðvelt að mismæla sig.

Lára Hanna Einarsdóttir sendir mér og þeim sem hér eru upptaldir eftirfarandi bréf. Matthías Kristiansen, Kjartan Pétur Sigurðsson, anno@unak.is, heidikr@simnet.is, Ragnheiður Davíðsdóttir, Berglind Steinsdóttir:

Eruð þið til í að blogga um þessa frétt til að hún veki meiri athygli?

Kannski setja líka inn tengil á heimasíðuna:  www.hengill.nu.
Bloggið hefur mikil áhrif og keðjuverkandi.
 Mikið væri það þarft framtak og vel þegið - ef það er í samræmi við skoðanir ykkar.

Mbl fréttin er svona:

Andstæðingar fyrirhugaðrar jarðgufuvirkjunar á Hengilssvæðinu í landi sveitarfélagsins Ölfuss hafa sett á laggirnar heimasíðu þar sem almenningur er hvattur til að gera athugasemdir við virkjunaráætlanirnar. Um er að ræða 135 MWe virkjun Orkuveitu Reykjavíkur við Bitru, rétt vestan við Ölkelduháls. Frummatsskýrsla vegna framkvæmdanna er nú til athugunar hjá Skipulagsstofnun og rennur frestur til að gera athugasemdir við framkvæmdirnar út 9. nóvember. Petra Mazetti, leiðsögumaður og forsprakki síðunnar, segir að tilgangurinn með opnun hennar sé fyrst og fremst sá að vekja athygli almennings á því að til standi að spilla ómetanlegri náttúruperlu í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið með jarðgufuvirkjun. "Við vildum ekki vera of sein með athugasemdirnar í þetta skiptið," segir Petra og bendir á að margir séu nú að mótmæla virkjunaráætlunum við Þjórsá, en umhverfismat fyrir svæðið hafi legið fyrir í talsvert langan tíma.

Svo mörg voru þau orð á mbl.is  Ég er ekki vanur að linka í fréttir þar og bregð ekki vana mínum í þetta sinn heldur birti fréttina í heild.

Einhvern tíma bloggaði ég svolítið um hverasvæðið á Ölkelduhálsi en þangað hef ég oft komið. Það er einstakt í sinni röð. Eitt sinn þegar Ómar Ragnarsson vann á Stöð 2 og var að gera einhverja þætti um náttúrufar á Íslandi benti ég honum á að skoða þetta hverasvæði, en hann fann það ekki.

Þegar til stóð á sínum tíma að byggja álver á Keilisnesi var búið að mæla fyrir nýrri Búrfellslínu sem liggja átti yfir þetta óviðjafnanlega hverasvæði. Úr því varð ekki þá, en núna getur verið að það sé alvara að eyðileggja svæðið.

Hverjar sem staðreyndir málsins eru ráðlegg ég öllum að kíkja á þetta vefsetur (http://www.hengill.nu/) það verður enginn svikinn af því, jafnvel þó menn nenni ekki að gera neitt annað en að skoða myndirnar, þær eru frábærar sumar hverjar.

 

Ég er nú svo tregur og skoða póstinn minn svo sjaldan, en núna rétt áður en ég setti þetta á bloggið mitt sá ég að Lára Hanna hafði víst líka skrifað mér í gær um þetta sama málefni. Hér kemur það bréf:

Kynnið ykkur endilega þetta mál og látið póstinn ganga áfram til allra!

Látum ekki stela frá okkur landinu!
--------------------------------------------------------------------------------
Subject:  Áríðandi skilaboð til unnenda íslenskrar náttúru
 Ágætu viðtakendur,
 Hin einstaka náttúra Íslands hefur átt í vök að verjast undanfarin ár, ráðist hefur verið að henni úr ýmsum áttum og enn á að höggva.
 Nú stendur til að valda spjöllum á einni fegurstu og fjölbreyttustu náttúrperlu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, Hengilssvæðinu, með því að grafa upp ósnortna náttúru, byggja virkjun og reisa rafmagnsmöstur, að því er virðist til þess eins að selja orku á gjafverði til erlendra stóriðjufyrirtækja.  Þetta gerir okkur öll og afkomendur okkar fátækari að þeim lífsgæðum sem felast í óspilltri náttúru okkar undurfagra lands.
 Á vefslóðinni www.hengill.nu, sem er einkaframtak áhugasamra einstaklinga, eru meðal annars upplýsingar, myndir og margvíslegur fróðleikur um fyrirhugaða virkjunarframkvæmd  og afleiðingar hennar, auk tillögu að bréfi til að senda inn athugasemdir.
 Kynnið ykkur málið sem hér er á ferðinni, verið með í þessu átaki og sendið inn mótmæli - ef þið styðjið málstaðinn. Allir geta verið með, hvar sem þeir búa á landinu.
Sendið þennan póst áfram til annarra, bloggið um málið og setjið slóðina inn,  skrifið greinar í fjölmiðla en umfram allt - látið ykkur umhverfið varða og takið afstöðu. Okkur kemur þetta öllum við.

 

Þar með þetta blogg mitt orðið í lengra lagi en við því er ekkert að gera. Síðast þegar Lára Hanna skrifaði mér kostaði það ennþá lengra blogg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband