139. blogg

Mér virðist Svandís Svavarsdóttir ætla að komast best frá stóra orkuveitumálinu.

Það gæti þýtt að tíma Steingríms Sigfússonar sem formanns vinstri grænna fari senn að ljúka. Björn Ingi græðir sennilega einnig á þessu öllu saman þegar yfir lýkur. Þeir sem tapa verða einkum Vilhjálmur borgarstjóri, sem flestir álíta nú að sé nánast ónýtur í því starfi og svo hlýtur orkuveitan sem fyrirtæki að tapa á þessu öllu saman.

Það er alls ekki ljóst ennþá hvernig þessu máli lýkur. Ég er sammála því að í raun er um það að ræða að bankarnir og peningamennirnir í landinu eru að leggja orkulindirnar undir sig. Meðal annars er það vegna þess að fljótlega verður farið að veita leyfi til olíuleitar hér við land. Hraðinn og óhemjugangurinn í þessu öllu er þó með ólíkindum.

Auðvitað verður þjóðinni borgað fyrir þetta. Hvort það verða tíu milljarðar eða hundrað þúsund milljarðar, er ekkert aðalatriði, heldur skiptir mestu máli hverjir ráða. Peningaöflunum svíður að stjórnmálamenn vilja enn ráða meiru en þeim er hollt. Því miður er það svo að þegar stjórnmálamenn fá vald yfir málum þá hættir þeim til að hugsa of mikið um eigin hag. Hagur þeirra snýst ekki alltaf um peninga og því er erfiðara að reikna þá út.

Reynslan af einkavæðingu orkufyrirtækja er slæm. Nægir þar að minna á Enron hneykslið í Bandaríkjunum. Í Kaliforníu gekk einkavæðingin líka illa og rafmagnsleysi þar á hverju sumri er einkavæðingu að kenna. Englendingar hafa heldur ekki góða reynslu af einkavæðingu orkugeirans frekar en einkavæðingu samgöngumálanna. Þó einkavæðing banka hafi víða gengið vel er alls ekki þar með sagt að einkavæða þurfi allt. Þó eflaust megi koma einkarekstri víða við er sjálfsagt að fara mjög varlega í þessum málum öllum. Opinber rekstur þarf ekkert endilega að vera slæmur kostur.

Ég er ekkert viss um að það verði til heilla að Vilhjálmur hætti sem borgarstjóri, sennilega taka annaðhvort Gísli Marteinn Garðarsson eða Björn Ingi Hrafnsson við af honum ef hann hættir. Meirihlutasamstarfið geri ég ekki ráð fyrir að sé í hættu.

Nú er búið að skíra Blaðið upp og heitir það 24 stundir. Ekki finnst mér nafngiftin til bóta og þótti mér þó fyrra nafnið óttalega klént. Ekki veit ég hvort þetta þýðir að dreifingin skáni eitthvað en ég er þó farinn að fá þennan snepil stundum heim. Ég hef eiginlega enga hugmynd um af hverju blaðið er látið fá nýtt nafn, en einhver hlýtur ástæðan að vera.

Gallinn við gestabækurnar hér á blogginu er að maður veit ekki af því þó einhverjir láti svo lítið að skrifa í þær. Hinsvegar gái ég alltaf að kommentum við mínar nýjustu færslur. Ef fjöldi kommenta er mikill er þetta kannski vandamál. Ef maður skoðar alltaf komment við tvær síðustu færslur eða svo þá held ég samt að þetta ætti að verða í lagi.

Í sjónvarpsfréttum í kvöld var sýnd mynd þar sem kengúra villtist inná kappakstursbraut og hoppaði þar á milli bílanna og slapp ósködduð að því er virtist. Þulurinn sagði: "Það var aðeins snilli ökumannanna sem kom í veg fyrir að ekki fór illa." Já, ég meina það. Svona tala íþróttafréttamenn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband