138. blogg

Það er kominn tími til að setja eitthvað á blað. Það er mikið um að vera núna vegna stóra orkuveitumálsins og ég á alveg eins von á því að Vilhjálmur borgarstjóri neyðist til að segja af sér. Hann fékk þó að  glansa dálítið í kvöld þegar kveikt var á friðarsúlu Yoko Ono. Mér virðist sem þessi súla geti vel orðið markvert verk með tímanum.

Núna lýsir friðarsúlan  til dæmis á 2 ský í mismunandi hæð og þetta tekur sig bara vel út. Spurning hvort ljósmengun í heild eykst við þetta og hvort flugmenn eigi eftir að kvarta yfir þessu. Flestir virðast vera heldur jákvæðir gagnvart þessu framtaki og vissulega er gaman að því. Mér kemur eiginlega alveg á óvart hversu flott þetta virðist vera. Ljósasjó af ýmsum toga virðast ekki hafa gengið vel  að undanförnu eins og til  dæmis þegar myrkva átti borgina.

Var að lesa blogg frá Sigurði Þór Guðjónssyni núna áðan og trúr sinni neikvæðni hafði hann allt á hornum sér varðandi friðarsúluna. Það gleður mig að til skuli neikvæðari menn en ég. Annars tók Sigurður jákvætt á mjálminu í mér þegar hann strikaði mig út af bloggvinalista sínum. Ég er nú kominn á þann lista aftur fyrir nokkru.

Var í kvöld að kíkja á gamlar bloggfærslur. Tók saman í eina skrá um daginn alla hlutana úr frásögninni um brunann og mun setja hann inn einhvern daginn þegar ég nenni ekki að blogga mikð. Áðan tíndi ég svo saman nokkrar bloggfærslur sem snúast um minningar frá Hvergerði. Þetta hvorttveggja er síðan gott að eiga til vara ef farast skyldi fyrir hjá mér að bogga.

Ég er semsagt farinn að spekúlera í því að blogg frá mér birtist helst á hverjum einasta degi. Það má því segja að ég sé farinn að blogga fyrir lesendur en hættur af blogga fyrir sjálfan mig. Þetta sem ég er nú að skrifa set ég líklega á Netið fljótlega því ekki er sniðugt að setja upp bloggfærslu einhvern tíma annað kvöld þar sem minnst er á kveikingu á friðarsúlunni.

Mér skilst að verið sé að skora á fólk að mæta á borgarstjórnarfund á morgun sem minnihlutinn í borgarstjórn hefur farið fram á. Þar á að ræða um stóra orkuveitumálið og kannski getur það haft áhrif á úrslit málsins hve  margir áhorfendur mæta. Svo mikið er víst að fólk er farið að verða óhræddara með að tjá sig og stundum hafa mótmæli jafnvel áhrif. Skýrt dæmi um það er úr Kópavogi þar sem svo virðist að sjálfur Gunnar Birgisson hafi skipt um skoðun eftir svolítil læti í mótmælendum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband